Að gera eitthvað í málinu er ofmetið

„Af hverju gerirðu ekki eitthvað í málinu?“ spyr aktivistinn.

Ég hjóla heim. Það er bíll á hjólastígnum. Bílstjórinn er inni að ná sér í take-away.

„Af hverju gerirðu ekki eitthvað í málinu? Af hverju hringirðu ekki á lögguna? Í borgina? Böggar bílstjórann? Tekur myndband af öllu og setur á youtube? Af hverju hjólarðu bara á götuna og fram hjá vandamálinu?“

Væri ekki betra ef allir myndu „gera eitthvað í málinu?“ Myndu þá ekki málin hætta að gerast?

Ég geri oftast ekkert í málinu vegna þess að „það að gera eitthvað í málinu“ felur furðulega oft í sér átök. Og ég er ekki endilega mjög átakasækinn.

Ef ég myndi til dæmis alltaf vera í átökum í þegar ég væri að hjóla þá myndi ég smám saman ómeðvitað hætta að hjóla. Og ef ég myndi alltaf birta myndbönd af mér og mínum hjólaátökum þá myndi það sannfæra fólk um að það að hjóla væru átök. Sem hjólreiðar eru ekki. Heldur bara leið til að koma sér á milli staða.

Sumt fólk er átakasækið og finnst bein, lifandi jafnvel líkamleg mótspyrna það sem telur. Það er allt í lagi. En ég hef skilaboð til allra hinna, þeirra sem mæta ekki á mótmæli, flauta ekki fyrir utan stofnanir, beita sér ekki á jörðu niðri, konfrontera ekki þá sem pirra þá og taka ekki myndbönd af því sem þeim mislíkar. Þið getið gert mikið gagn, þótt þið gerið ekki neitt í málinu.

Alltaf verra að vera kona

Stutt dæmi

Þrjátíu og sjö ára gamall þingmaður heldur jómfrúarræðu. Hann talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.

Tuttugu og sjö ára gömul þingkona heldur jómfrúarræðu. Hún talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.

Nokkrum mánuðum síðar eru allir búnir að gleyma ræðu þingmannsins. Ræðu þingkonunnar rifja menn upp enn og reyna mála hana sem vitleysing sem lepur upp dellu frá gáfaðri aðilum.

Sjá: http://stundin.is/pistill/rong-fullyrding-aslaugar-ornu/

Það er góð og gild umræða að ræða um hvað mælikvarðar séu bestir til að meta umfang ríkisreksturs. En þingkonan greindi frá þeim mælikvörðum þegar eftir því var leitað, hún gat heimilda sinna. Þetta snerist því ekki um að hún hafi lesið vitlaust eða rangtúlkað. En þannig er það matreitt og kommentakerfin eru sammála. Konan er bersýnilega nautheimsk.

Þessi grein sem vísað er til og fjallar um Áslaugu Örnu er ekki það versta sem birtist um konur í pólitík. Langt því frá. En hún er dálítið dæmigerð. Fólk kallar mig (því ég er hinn þingmaðurinn) ekki oft vitlausan. Ég er óheiðarlegur og illa innrættur en sjaldan vitlaus. Það límist einhvern veginn verr á karla að vera vitlausir.

Jafnvel þegar talað er illa um konur í pólitík þá er þeim gefinn minni kredit en körlum.

Dæmi: Manneskja fer með rangt mál.
Hún … misskildi.
Hann … laug.

Dæmi: Manneskja gerir eitthvað sem X græðir á.
Hún … lét X plata sig.
Hann … er ganga erinda X.

Blaðamaðurinn Jon Ronson var með ágæta bók um fólk sem lendir í skítastormi. Þar var nefnt hvernig allur skíturinn sem konur lenda í verður alltaf miklu svæsnari. Körlum er óskað atvinnumissi. Konum? Að þeim sé nauðgað eða að þær missi börnin sín. Árásir á konur eru persónulegri. Það er oftar ráðist á útlit þeirra eða gáfur.

Já, og hvað með börnin?

Ég las fyrst barnasáttmálann þegar ég var enn þá barn. Ég man best eftir þessu ákvæði:

„Aðildarríki skulu forðast að kalla þá sem hafa ekki náð fimmtán ára aldri til herþjónustu. Við herkvaðningu þeirra sem náð hafa fimmtán ára aldri en hafa ekki náð átján ára aldri skulu aðildarríki leitast við að láta hina elstu ganga fyrir.”

Ég man að ég hugsaði: “Fimmtán ára? Hvernig fundu menn það út?”

Ég sá fyrir mér að einhver hafi lagt til 18 ár en svo kom einhver annar og sagði: “Nei, kommon, við verðum að vera raunsæ.”

Og menn hafi fallist á 15 ár..

Ég man að mér fannst þetta furðulega ítarlegt en metnaðarlaust samanborið við restina af sáttmálanum. En samt var einhver huggun í því að menn hafi haft þetta svona, metnaðarlítið, en alla vega þannig að hægt var að vonast til að menn myndu þá reyna að fara eftir því. 

***

Ég hafði í tvígang samband við umboðsmann barna þegar ég var barn. Í fyrsta skipti þegar ég hafði áhyggjur af nafnalögum og tengslum þeirra við veitingu ríkisborgararéttar. Mér fannst sem 8. g.r barnasáttmálans veitti mér rétt til að halda sérkennum mínum þótt ég myndi fá íslenskan ríkisborgararétt. Mig langaði ekki að heita “Páll Jansson” og ég hafði samband við umboðsmann út af því.

Í seinna skipti fannst mér ranglátt á ég fengi ekki bókasafnskort á Þjóðarbókhlöðuna nema að ég væri orðinn 17 ára. Í því máli veit ég að umboðsmaður spurði síðan Landsbókavörð en fékk einhver svör. Svörin, eftir því sem ég hef séð þau, skautuðu fram hjá því sem allir vita, að aðalástæðan fyrir aldurstakmarkinu er takmarkaður fjöldi lesborða í prófatíð en ekki neitt annað. Aldurstakmarkið er nú 18 ár. Svo ekki varð þessi slagur til mikils.

***

Flestir þeir sem láta sig réttindi barna varða á Íslandi hafa ákveðinn fókus. Sá fókus byggir mikið til á velferð barna. Velferð barna og rétt barna til að fá ákveðna þjónustu, helst endurgjaldslaust. Ég játa að ég hef heilmikinn áhuga á málefnum barna, en ekki frá þessari hlið. Áhugi minn er fyrst og fremst á borgaralegum réttindum barna.

Ef barn má ekki velja framhaldsskóla út frá reglum sem fullorðið fólk setur þá verð ég verulega miður mín.

Ef traðkað er á málfrelsi barns, vegna þess að barnið hefur ekki réttar skoðanir þá verð ég hugsi.

Ef símar eru teknir af börnum þá spyr ég mig hvort það sé nauðsynlegt.

Ef börn eru rekin úr skóla fyrir drykkjulæti, framhjá öllum reglum um góða stjórnsýslu þá tjái ég mig um það.

Og ef barn sem vill læra íslensku fær ekki að vera á landinu vegna þess að það er þremur mánuðum of ungt, þá finnst mér það valdníðsla.

***

Togstreita milli réttinda og velferðar er auðvitað ekki lítil  eða ný stjórnmálaleg spurning. Oft stangast þessar áherslur ekkert á, en stundum gera þær það. Og stundum svara þær sömu spurningunum með ólíkum hætti. Út frá réttindum barna hefur það til dæmis enga þýðingu hvort fullorðið fólk megi kaupa áfengi í smásölu frá einkahlutafélagi eða opinberu hlutafélagi. Enga. Það mál varðar ekki réttindi barna frekar en veggjöld gera það. En það getur varðar velferð barna, rétt eins og flest önnur mál.

Þar er ég vitanlega ekki sammála fylgismönnum áframhaldandi ríkiseinokunar. Þrátt fyrir endalausar fullyrðingar um augljós tengsl aðgengis og velferðar barna hefur það samt gerst að drykkja barna og unglinga hefur hrunið, samhliða því að bjórinn hafi verið leyfður, búðum hefur fjölgað, opnunartími lengst, úrvalið aukist, auglýsingar orðið sýnilegri og svo framvegis. En tökum þá umræðu síðar. 

***

Nokkrir aðilar, umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF á Íslandi hafa hóað í þingmenn úr öllum flokkum og boðið þeim að gerast sérstakir talsmenn barna á þingi. Ég svaraði þessari beiðni af áðurnefndum ástæðum, ég tel mig hafa sýn á þessi mál sem ákveðin þörf er fyrir. Sýn á réttindi barna út frá svokölluðum fyrstu kynslóðar mannréttindum, málfrelsi, félagafrelsi, athafnafrelsi og ferðafrelsi. Og ég held að það væri ekki betra fyrir umræðu um réttindi barna ef fókusinn yrði allur á velfarðarvinkilinn.

Hópurinn sem stendur að verkefninu talsmenn barna hefur nú sent frá sér yfirlýsingu um að afnám einokunarsölu á áfengi sé brot á barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Sú rödd hefur heyrst á nokkrum stöðum að afstaða mín í áfengismálum samræmist ekki þeim yfirlýsingum að vilja að tala máli barna. (Sjá: https://barn.is/frettir/2017/02/askorun-vegna-frumvarps-um-breytt-fyrirkomulag-a-afengissoelu/)

Þessi mál, eins og önnur, verð ég að lokum að leggja í dóm kjósenda í næstu kosningum, en þó má benda á að einn helsti baráttumaður fyrir lögfestingu barnasáttmálans deildi skoðunum mínum á breyttu fyrirkomulagi áfengissölu. Þannig að sumum hefur alla vega tekist að samrýma þetta. (Sjá: http://www.barnaheill.is/Frettir/Frett/agust-olafur-agustsson-hlaut-vieurkenningu-barnaheilla/)

Ég geri ekki athugasemdir við að aðilar, opinberir eða ekki, tjái sig um lagasetningu. En ég set reyndar spurningamerki við þá fullyrðingu að með því að samþykkja eitt fyrirkomulag áfengisútsölu, fyrirkomulag sem tíðkast mjög víða, sé verið að brjóta barnasáttmálann. Mér finnst nokkuð hæpið að dómari myndi snúa við slíkum lögum sem Alþingi hefur samþykkt, byggt á 3. gr. barnasáttmálans. Mér finnst raunar útilokað að það myndi gerast. Dómstólar á Íslandi taka sér ekki slíkt endurskoðunarvald, hvað þá þegar forsendurnar eru svo veikar.

***

Ég er ekki barn. En ég hef, rétt eins og allir, verið barn. Að vera barn er svolítið svipað eins og að vera innflytjandi. Fólk talar vel um þig opinberlega og vill þér að nafninu til vel. En það vill samt ekki að þú sért með vesen. Þú veist aldrei við hvern þú átt að kvarta og jafnvel þeir sem þú kvartar við taka þig samt ekki alltaf alvarlega.

Fólk er duglegt að útskýra fyrir þér hvernig hinar ýmsu réttindaskerðingar séu þér í raun fyrir bestu.

Mér þykir vænt um réttindi barna. Líka þessi sem geta verið vesen. Einhvern tímann, ef ég verð sjúklega ríkur, langar mig að setja á fót sérstaka óháða stofnum, sem mun aðstoða börn við að vera með vesen. En áður en að því kemur getur fólk, undir og yfir lögaldri,  alltaf sent mér tölvupóst.

Það þarf ekki að breyta lögum um brottnám líffæra

Hvenær má taka líffæri úr heiladauðu fólki og setja í annað fólk? Það er ekki lítil spurning. Nú hafa nokkrir þingmenn lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um líffæragjafir. Frumvarpinu er lýst með þeim hætti að það eigi að ganga út frá “ætluðu samþykki”. Mig langar að fjalla um þetta frumvarp og hvernig ég sé þessi mál fyrir mér.

Lög um líffæragjafir þurfa að taka á því hvernig eigi að bera sig að gagnvart vilja hins látna og aðstandenda hans. 

Lögin þurfa sem sagt að geta fyllt upp í eftirfarandi töflu:

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Látni Ekki vitað
Nei

Ég skal svara því hvernig mér finnst að þessi tafla ætti að líta út. Í fyrsta lagi þá er mikilvægt að virða vilja þess dána einstaklings sem verið er að taka líffæri úr. Ef sá vilji liggur fyrir:

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Heimilt Heimilt Heimilt
Látni Ekki vitað
Nei Óheimilt Óheimilt Óheimilt

Ef sá vilji liggur ekki skýrt fyrir er rétt að nánasti aðstandandi ráði för.

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Heimilt Heimilt Hemilt
Látni Ekki vitað Heimilt Óheimilt
Nei Óheimilt Óheimilt Óheimilt

Þá er eftir það eina tilfelli þegar ekki er vitað um afstöðu hins látna, og ekki heldur aðstandenda. Það kann að vera að hinn látni hafi enga aðstandendur, þeir vilji ekki taka ákvörðun, séu margir og ósammála, eða að ekki næst í neinn þeirra. Ég hallast að því að betra sé að samþykki aðstanda liggi fyrir, sé þess á annað borð kostur, ég veit ekki með þau dæmi þar sem sannarlega enginn aðstandandi er til staðar, en grunar að þau séu ekki algeng.

Núverandi lög eru raunar nákvæmlega svona:

Nú liggur fyrir samþykki einstaklings og má þá, að honum látnum, nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings.

Liggi slíkt samþykki ekki fyrir er heimilt að fjarlægja líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns hans og slíkt er ekki talið brjóta í bága við vilja hins látna.

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1991016.html

Sem sagt:

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Heimilt Heimilt Hemilt
Látni Ekki vitað Heimilt Óheimilt Óheimilt
Nei Óheimilt Óheimilt Óheimilt

Ég veit ekki hver framkvæmdin er en miðað við lögin má fjarlægja líffæri úr þeim sem veita til þess leyfi jafnvel þótt samþykki ættingja liggi ekki fyrir.

Lagabreytingartillagan um ætlað samþykki sem lögð var fram á seinasta þingi gerir ráð fyrir að lögin hljómi svona:

Nema má brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings hafi hinn látni verið sjálfráða og ekki lýst sig andstæðan því og það er ekki af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja hans.

Ekki má þó nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til að nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því.

Réttarástandinu sem tillagan gerir ráð fyrir verður því lýst á eftirfarandi töflu.

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Heimilt Heimilt Óheimilt
Látni Ekki vitað Heimilt Heimilt Óheimilt
Nei Óheimilt Óheimilt Óheimilt

Fljótt á litið virðist breytingin því vera þessi: Réttur hins látna er ekki lengur sjálfkrafa virtur en í staðinn gengið út frá því að þögn hins látna og aðstandenda sé sama og samþykki. Mér finnst breytingin í frumvarpinu því ekki vera til hins betra.

***

Ætlað samþykki má ekki bara vera feluorð fyrir “skort á samþykki”. Ef við göngum út frá ætluðu samþykki þá verðum við raunverulega að trúa því að viðkomandi einstaklingur hefði veitt samþykki ef hann verið verið um það beðinn, en hann var bara annað hvort ekki spurður eða svar hans ekki skjalfest. Þetta má ekki snúast um það menn þurfi að að “sanna” að ættingjar þeirri hefðu ekki viljað gefa líffæri sín til að sá réttur sé virtur.

***

Nýleg könnun sýnir að um 80% Íslendingar styðja hugmyndina um ætlað samþykki. Skv. skýrslu um líffæragjafir á árunum 1992-2002 var samþykki ættingja veitt í 60% tilfella (30 tilfelli alls). Það er víst von á nýju tölum og fólk segir að hlutfallið hafi hækkað. Margt bendir því til að hlutfall veittra leyfa sé hátt og í góðu samhengi við almennan stuðning við líffæragjafir í þjóðfélaginu. Þar fyrir utan virða núverandi lög vilja þeirra látnu og aðstandenda á þann hátt sem réttast er. Ég tel því ekki þörf á breytingum á lögum um brottnám líffæra.

Þetta verður ekkert „allt í lagi“

Það voru fáir sem trúðu því að Trump gæti unnið. Nate Silver var með sigurlíkur Trumps í 30% stuttu fyrir kosningar og það var eiginlega byrjað að hæðast að honum, og segja að aðferðir hans væru frekar gallaðar.

Á kjördag var New York Times með fréttaskýringar um að þetta væri eiginlega komið hjá Hillary, talað um einhvern „eldvegg“ öruggra fylkja, og annað bull sem jaðraði við talnaspeki.

Allt þetta var tilraun fólks til að róa sjálft sig, segja við sjálft sig að hlutirnir „verði í lagi“. Þótt það væri alls ekki víst að allt yrði í lagi.

Trump mun fangelsa pólitíska andstæðinga sína, hann mun afnema hinar lögfestur heilbrigðistryggingar sem Obama kom á, reisa vegg á landamærum Mexíkó, henda milljónum manna úr landi, starta viðskiptastríði við Kínverja, vingast við Pútín, hætta að verja Eystrasaltsríkin, pynta fjölskyldur hryðjuverkamanna og loka landinu fyrir múslimum.

Af hverju mun hann gera það? Því hann sagðist ætla að gera það. Og þvert ofan á það sem sagt er þá standa stjórnmálamenn oftast við orð sín.

Að halda að stjórnkerfið, stjórnarskráin eða þingið muni bremsa hann af er draumsýn. Hann er kallinn, hann stjórnar og fólk með þannig hugarfar lætur ekki auðveldlega stoppa sig.

Og þótt við höldum að stjórnarskrár kunni að „hindra“ margskonar rugl þá gera þær það ekki í raun og veru. Þær gera það bara aðeins augljósara að menn séu að gera rugl.

Í dag stóðu skrifborð auð á vinnustöðum því starfsmönnum var ekki hleypt aftur inn í landið, einhver komst ekki í skólann, íbúðir stóðu auðar, allt út af trú og uppruna.

Trump lofaði alls kyns viðbjóði og er þegar byrjaður að hrinda þeim í framkvæmd án teljandi mótspyrnu úr stjórnkerfinu. Þetta verður ekki allt í lagi. Þetta mun bara versna.

Ég sé ekki sóknarfærin

Daginn sem Bretland gengur úr Evrópusambandinu og yfirgefur EES-svæðið munu Íslendingar ekki lengur geta flutt óhindrað til Bretlands og Bretar munu ekki lengur geta flutt óhindrað til Íslands.

Vissulega má semja um annað. Vonandi verður það gert, vonandi vilja Bretar sjálfir að það verði gert. En útganga Bretlands eins og sér þýðir nákvæmlega það og ekkert annað. Regluverk ESB, þar með regluverk um frjálst flæði fólks, hættir einfaldlega að gilda með þeim kostum og ókostum sem því fylgja. Það er sá núllpunktur sem verður að ganga út frá.

Úrsögn úr Evrópusambandinu er úrsögn úr Evrópusambandinu.

***

Frændi minn sem býr í litlum bæ vestur af Varsjá spurði mig um daginn hvað ég héldi að ég þyrfti að stoppa oft á ljósum ef ég ætlaði að keyra til Lissabon.

Ég nefndi einhverja tölu sem mér þótti líkleg en var bent á að svarið væri “Núll.” Það væri hraðbraut alla leið.

Já, þannig Evrópu hefur tekist á búa til. Sá sem vill fara frá Varsjá til Lissabon þarf bara að fara upp í bíl og keyra. Hann gæti þurft að borga á stöku stað eða stoppa vegna tímabundins landamæraeftirlits en að öðru leyti þarf hann hvorki að spyrja kóng né prest. Ferðalangurinn er tryggður alla leið, og ef hann finnur sér vinnu og íbúð á áfangastaðnum þá getur hann bara tekið vinnunni og sest að.

***

Þannig var heimur foreldra minna ekki og ekki heldur heimur foreldra þeirra. Og það þarf ekkert að vera að heimur barna okkar verði þannig. En mér finnst skipta máli að hann verði það. Að heimurinn verði sem opnastur, og að sem flestir geti notið hans.

Að því leyti verð ég að viðurkenna að ég sé ekki sóknarfærin sem felast í því að ríki gangi úr ESB. Ekki nema við notum „sóknarfæri“ í einhverri stórfyrirtækja-straumlínustjórnunarmerkingu sem „vandræði“. Vandræði sem við verðum að lágmarka og reyna að búa til eitthvað sem er kannski jafngott.

Flæðið verður aldrei frábært

Þúsundir Íslendinga keyra á degi hverjum framhjá Lönguhlíð á leið sinni í miðborgina. En hvernig er að vera einn hinna, einn þeirra sem gengur þvert á leið þessa akstursleið.

Ímyndum okkur að við snúum baki í Perluna, kringlumegin Lönguhlíðar og ætlum okkur yfir Miklubrautina.

Græn ljós kvikna fyrir Lönguhlíðina, köllum þetta fasa 1. Og höldum að við komust kannski yfir en … nei. Það er rautt á okkur ef ske kynni að liðið sem er að beygja inn á Miklubraut þurfi að gera það. Þetta er einhver nýr ósiður við hönnun ljósagatnamóta sem fer að venja bílstjóra á að þeir þurfi ekki að hugsa um gangandi vegfarendur.

Við sjáum hins vegar græna kallinn loga á næsta legg, hinum megin við eyjuna. Bara til að auka á svekkelsið.

Við bíðum þennan fasa af okkur. Í þeim næsta, fasa 2, er opnað fyrir umferð úr austurátt. Þá fáum við að fara yfir á eyjuna en komumst ekki lengra.

Í næsta fasa, fasa 3 er Miklubrautin græn í báðar átti og við bíðum þolinmóð á miðri eyjunni.

Það er ekki fyrr en þeim fasa lýkur og fasi 4 tekur við, í þeim fasa sem gatnamótin eru opin fyrir þá sem koma úr vesturátt sem við fáum að komast alla leið yfir Miklubrautina.

Það tók ljósin sem sagt að fara heilan hring að komast yfir eina götu. Og við hefðum geta verið enn óheppnari. Ef við hefðum hafið ferðalagið í fasa 3 hefði það tekið einn og hálfan ljósahring að komast yfir götuna.

Mig langaði bara aðeins að koma þessu að í tengslum við alla umræðuna um gott “flæði” umferðar og nauðsyn þess að “liðka” fyrir umferð. Niðurstaða með allri þessari hólfun gangandi umferðar, sem vitanlega er öll gerð með “öryggi” í huga, er að gönguleiðin verður óþarflega löng og óaðlaðandi.

Út úr því fáum við hugmyndir um fleiri brýr og göng sem vissulega leysa vandann varðandi hraða yfirferðar en breyta því ekki að með þeim erum við að festa í sessi hraðbrautarútlit í miðju grónu hverfi og endum með einhvern óskapnað eins og brúna yfir Hringbraut hjá Vatnsmýrinni, mislæg gatnamót fyrir gangandi vegfarendur.

En ég held hins vegar að fólk verði einfaldlega að sætta sig við það að það mun aldrei aftur vera fullkomlega átakalaust að koma sér í miðbæ höfuðborgarinnar á eigin bíla án þess að þurfa stundum að bíða smá. Og persónulega myndi ég frekar vilja liðka fyrir umferð þeirra sem þurfa að bíða í margar mínútur eftir því að komast yfir eina götu heldur en hinna.

Öskrað á áttavitann 11/31: Herinn

screen-shot-2016-10-24-at-10-44-23

Segjum að dag einn muni Bandaríkjaher biðja um að fá að byggja upp aðstöðu í Keflavík að nýju. Svo mun liggja fyrir samningur um að það verði gert. Segjum að samningur muni fara fyrir Alþingi. Ég myndi, sem þingmaður, kjósa með slíkum samningi.

Við erum í NATO. Ég styð það. Veran í NATO þýðir það að við tökum þátt í sameiginlegum vörnum. Ef einhver telur að við getum styrkt þær varnir með því að veita bandamönnum okkar aðstöðu hér á landi þá eigum við að gera það.

Við verðum alveg að tryggja varnir okkar og þjóðaröryggi, þó það hljómi leiðinlega og vænissjúkt að spá í því. Og persónulega, ef ég mætti velja milli þess að hafa hér fámennt erlent herlið eða vopna íslenska lögreglumenn vélbyssum þá fyndist mér fyrrnefndi kosturinn miklu, miklu skárri.

Öskrað á áttavitann 10/31: Krónan

Íslenska krónan varð sjálfstæður gjaldmiðill árið 1922. Gjaldeyrishöftum var komið á þremur árum síðar, árið 1925. Þau hafa meira og minna fylgt krónunni síðan, með stuttu millibilsástandi í upphafi þessarar aldar, sem endaði nú ekki ýkja vel.

Krónan hefur gengið í gegnum röð gengisfellinga, verðbólgu, við höfum þurft að klippa núll af henni. Vextir eru að jafnaði hærri. Stærsti kosturinn sem ég hef heyrt með krónuna er að hún gefur okkur færi á að lækka laun fólks hratt án þess að fólk taki eftir því að heldur þannig atvinnuleysi niðri.

Hugsanlega er þetta að einhverju leyti rétt. Atvinnuleysi á Íslandi er almennt lágt. Það er örlítið hærra í Danmörku. Kannski myndi skorturinn á „sveigjanleika“ hækka meðalatvinnuleysi aðeins, láta það vera eins  og í Danmörku, en það er auðvitað fáranlegt að halda að það myndi fara líkjast löndum eins og Spáni eða Portúgal, þar er lagaumhverfið annað og vinnumarkaðurinn minna sveigjanlegur svo eitthvað sé nefnt. En já við gætu orðið meira eins og Danmörk eða Svíþjóð.

 

Fyrir fjórum árum gaf Seðlabankinn út skýrsluna Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Það er að finna þessa mynd.

Sjálfstæð krónan varla augljós kostur. Heimild: Seðlabanki Íslands
Sjálfstæð krónan varla augljós kostur. Heimild: Seðlabanki Íslands

 

Á þessari mynd sést nokkuð vel að sjálstæður gjaldmiðill með fljótandi gengi er alls ekki augljós kostur í gengismálum. Við erum raunar langminnsta ríkið af þeim sem velja þann kost. Einhvers konar hörð fastgengisstefna í gegnum myntbandalag, einhliða upptöku eða myntráð væri miklu eðlilegri kostur fyrir land af okkar stærð.

Öskrað á áttavitann 9/31: Hækkun veiðigjalda

Fyrir nokkrum mánuðum skilaði samráðsvettvangur um aukna hagsæld af sér nokkrum tillögum í skattamálum.

Meðal annars var gert ráð fyrir að hlutdeild umhverfis- og auðlindagjalda í heildarskattkökunni myndi aukast, og þá myndi, eðlilega, hlutdeild annarra skatta minnka. Ef við gerðum ráð fyrir að heildartekjur ríkisins ættu að vera þær sömu og áður þá gæti það þýtt að við gætum lækkað virðisaukaskatt og tekjuskatt talsvert.

Persónulega myndi ég hins án nokkurs vafa vilja lækka skatta á móti hærri veiðigjöldum. Það er auðvitað öllu vinsælla að lofa þeim í alls kyns ný útgjöld en það allt eykur heildarumsvif ríkissjóðs. Mér finnst það alls ekki takmark. Þvert á móti.

Ef til þess kæmi að það yrði kosið um hvort hækka ætti krónutölurnar í lögum um veiðigjöld þá myndi ég gera það. Það er þrátt fyrir allt ansi hagkvæm skattheimta. Ef útgerðir þyrftu að borga hærri veiðigjöld þá myndu þær engu að síður halda áfram að veiða. Jafnmikið. Það myndi ekki breytast fyrr en veiðigjöldin væru orðin verulega íþyngjandi sem ekki bendir til að sé tilfellið.

Kvótakerfið er í grunninn gott. Það tryggir að sá veiði fiskinn sem er bestur í því og það kemur í veg fyrir ofveiði. Veruleikinn er samt sá að margt fólk upplifir úthlutunina rangláta og að það væri hægt að fá meira fé þaðan, fyrir að rukka fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind, fremur en að sækja peninginn annars staðar. Ég held að það fólk hafi margt til síns máls.

Ég vildi samt helst forðast kerfi þar sem upphæð veiðigjalda er ákveðinn í einhverjum lobbýista viðræðum milli hagsmunaaðila, stjórnvalda og hagfræðinga með áhuga á málefninu. Aðalmálið er að upphæðin ákvarðist af markaðsforsendum. Viðreisn hefur lagt til uppboð, aðrir flokkar hafa sett fram svipaðar hugmyndir sem og jafnvel einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Samráðsvettvangurinn lagði til langtímasamninga þar sem verðið ákvarðast á markaðsforsendum án þess að það væri skýrt mjög nákvæmlega en virtist hrifinn af uppboðum á fyrri stigum vinnunnar. Þannig að það er mikil umræða í þessa veru.

Allar þessar lausnir taka hins vegar sinn tíma. En til skamms tíma myndi ég styðja þá fljótlegu lausn að nota núverandi lagaramnna og hækka veiðigjöld.