Óviðráðanlegar byggingarframkvæmdir í miðbænum

Stutt hjólasaga úr miðbænum. Á Hverfisgötu er verið að byggja eitthvað á Kexreitnum. Verslunar- og íbúðarhúsnæði, eftir því sem ég best veit. Gott mál.

Byggingarsvæðið dettur hins vegar inn á hjólastiginn, sem er því miður ekki einsdæmi á Hverfisgötunni um þessar mundir og eftirfarandi skilti mætir vegfarendum.

Nokkur atriði.  🙂

Það ofbýður máltilfinningu allra sem slíða hafa að tala um hefðbudnnar byggingarframkvæmdir sem „óviðráðanlegar orsakir“. Snjóflóð eru óviðráðanleg, svipleg andlát eru óviðráðanleg. Ofsaveður er óviðráðanlegt. Þetta er, for crying, ekki óviðráðanlegt!

Það kann að vera óhjákvæmanlegur fylgifiskur þess að við byggjum alveg upp við götuna, að gangstéttirnar lendi á byggingarsvæði. Ekkert mál. En er það það þá bara algerlega augljóst að afleiðingin eigi að vera lokun hjólastígsins og ganstéttarinnar?

Og horfum aðeins á þá leið sem yfirvöldin hafa boðið gangandi og hjólandi:

Þetta er eiginlega dálítiðfyndið. Í ljósi þess að:

  1. Gangstéttin hinum megin er opin.
  2. Hjól mega hjóla á götunni.

Gangandi og hjólandi þurfa því ekki þessar leiðbeiningar. Hjólafólkið fer á götuna. Gangandi fara yfir götuna (eða labba á götunni).

Ístað þess að beita óskiljanlegri „hjáleiðahugmyndafræði“ gangvart gangandi fólki hefðu yfirvöldin því mátt gera eftirfarandi:

  1. Setja upp bráðabirgða-ramp fyrir hjól svo hjólin kæmust upp og niður á stiginn beggja vegna framkvæmdanna.
  2. Teikna einhverjar línur á götuna svo bílstjórar myndu sérstaklega átta sig á því að þar gætu verið hjól.
  3. Teikna tímabundna gangstétt fyrir gangandi.
  4. Setja viðvörunarskilti fyrir akandi: „Framkvæmdir. Gangandi vegfarendur þvera götuna.“

Kannski ekki stórmál, en bara dæmi um hvernig á að hugsa um gangandi vegfarendur í tengslum við vegaframkvæmdir. Ef þeir valkostir sem gangandi og hjólandi er boðið upp á verða fáranlegir þá munu þeir ekki nýta sér þá.

Stórkostlegt evrópsk innanlandsflug

Þótt flestir Íslendingar búi á suðvesturhorninu eiga margir rætur að rekja til annarra landssvæða og eru góðar flugsamgöngur þeim því mikilvæg lífsgæði. Góðar flugsamgöngur gera þeim kleift að heimsækja ættingja á æskuslóðum, bregða sér hratt “heim” ef fjölskylduskyldur kalla, sinna erindum og eignum sem þau enn hafa í umsjá sinni eða einfaldlega fara í frí með börn sín og leyfa þeim að kynnast þessum parti af sjálfum sér.

Það hafa stórkostlegir hlutir verið að gerast í evrópsku innanlandsflugi að undanförnu. Nú fljúga til dæmis tvö flugfélög til Póllands allt árið um kring. Hægt er að fljúga til fjögurra borga þegar þetta er skrifað: Varsjá, Katowice, Gdansk og Wroclaw. Ódýrustu miðarnir með Wizz Air flugfélaginu fást á um það bil 10 þúsund kr. fram og til baka.

Áfangastaðir Wizzair í Evrópu. Fjölmargir íbúar Íslands eiga rætur að rekja til áfangastaða flugfélagsins.

Það er ódýrara að ferðast til Póllands heldur en þegar ég flutti hingað árið 1988

Ódýrara í krónum talið!

Hér má sjá umfjöllun um verð flugleiða frá 1998. Þá kostaði miði fram og til baka til London 20 þúsund krónur. Framreiknað verð með tillit til verðbólgu er nánast 100 þúsund kr. til London.  Nú kæmist ég til London á 7 þúsund. Verð á “evrópsku innalandsflugi” hefur sem sagt hrunið um 93% á 30 árum. Miðar til Póllands á um 10 þúsund fram og til baka eru ekki óalgengir.

Í þá daga var hvert land með sitt aðalflugfélag, og hvert land með sinn aðalflugvöll. Ætlaði maður sér að fljúga annað en á aðalflugvöllinn gat maður náðarsamlega fengið að fljúga með aðalflugfélaginu á svona 40 þúsundkall á mann fram og til baka og fengið te eða kaffi, og samloku. Eftir að ESB frelsaði flugmarkaðinn er fjölbreytninn alls ráðandi. Menn geta flogið frá Lublin til Liverpool, af því að… einhver vill fljúga frá Lublin til Liverpool, óháð því hvort flugmálayfirvöldun Póllands og Bretlands hafi dreymt þessa flugleið eða ekki.

Þannig er þetta nefnilega oft. Stjórnmálamenn og stjórnarmenn í einokunarfyrirtækjum dreymir um “miðstöðvar”, að mistöð svona samgangna verði hér, miðstöð hinsegin samgangna verði þar. Innanlandsflugið hingað, millilandaflugið þangað.

Frjáls markaður býr til miklu dreifðara og betra net.

Fjárfestingar í flugvöllum eru af þeirri stærðargráðu að eflaust verður ekki hjá því komist að hið opinbera komi að þeim með einhverjum hætti þótt ekki sé nema á skipulagsstiginu. En ákvarðanir um þessi mál eiga að miða að því að efla það sem við vitum að virkar og skilar neytendum árangri: frelsi og samkeppni.

Þess vegna líst mér vel á nýjan flugvöll á Hvassahrauni og myndi taka vel í það ef einhver myndi vilja taka þátt í að byggja slíka flugvöll upp. Þar væri möguleiki á að tengja íslenskt innanlandsflug við millilandaflug. Þar myndi skapast tækifæri til að búa til samkeppni við Kelfavíkurflugvöll um lendingar og afgreiðslu véla. Loks hefði slíkur flugvöllur líka talsverða vaxtarmöguleika.

Þetta eru allt miklir kostir. Uppbygging á Reykjavíkurflugvelli, á takmörkuðu landi, þar sem aldrei verður hægt að koma fyrir millilandaflugi, þar sem ekki verður hægt að tengja millilandaflug við innanlandsflug og uppbygging sem þar fyrir utan er töluvert umdeild pólitískt, hefur einfaldlega ekki þessa sömu kosti.

Skítlétt að samræma sósíalisma og alræði

Gunnar Smári Egilsson, leiðtogi Sósíalistaflokksins birtir nú reglulegar „hugvekjur“ um sósíalisma á síðu flokksins. Í einni slíkri svarar hann því af hverju sósíalistaflokkurinn heiti ekki „sósíaldemokrataflokkurinn.“

Svarið er á þá leið að það væri tvítekning enda „meikar sósíalismi án lýðræðis engan sens“. Það sé „óhugsandi“ að hugsa sér sósíalisma án lýðræðis.

Hugvekja: Hvers vegna ekki sósíaldemókratía?

Sósíalísk hugvekja dagsins, 4. júní 2017: Hvers vegna var Sósíalistaflokkurinn ekki nefndur sósíaldemókrataflokkur?

Posted by Sósíalistaflokkur Íslands on Sunday, June 4, 2017

En þrátt fyrir að Gunnari Smára finnist andlýðræðislegur sósíalismi óhugsandi blanda þá fengu ekki allir þjóðarleiðtogar tuttugustu aldarinnar það minnisblað.

Almennt má segja að það sé freka regla:

Formlegt nafn ríkis inniheldur sósíalisma => Ríkið er alræðisríki.

Áður en múrinn féll, fyrir 29 árum, bjó um þriðjungur mannkyns í marxlenínískum ríkjum, þ.e.a.s. í sósíalískum alræðisríkjum. Maður getur auðvitað búið til eitthvað hringrakakerfi þar sem sósíalismi í alræðisríkjum hættir að vera sósíalismi, ef manni líður betur með það, en það er hvorki gagnlegt fyrir umræðuna, né sérstaklega heiðarlegt.

Þeir sem stjórnuðu þessum ríkjum gerðu og sögðu nefnilega almennt hluti sem búast má við af sósíalistum. Menntun og heilbrigðisþjónusta voru almennt aðgengileg og ókeypis. Fólki var séð fyrir atvinnu, fólki var séð fyrir húsnæði. Ríkið (ahem… fyrirgefið… fólkið) átti öll stærstu framleiðslutækin.

Það er ekki einu sinni hægt að halda því fram, að allt það neikvæða sem þessu stjórnarfari fylgdi hafi verið eitthvað slys, leiðinleg afleiðing mannlegs breyskleika. Nei, alræðið var engin tilviljun. Enda á einhvern hátt rökrétt. Hati maður auðvaldið þá er mjög rökrétt að vilja banna auðvaldinu að gefa út blöð. Þannig hverfur prentfrelsið. Félagafrelsið, atvinnufrelsið, eignarrétturinn fara sömu leið.

Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt að aðhyllast sósíalisma án þess að vera lýðræðissinni. Það er alveg hægt. En hitt er augljóslega hægt líka, það var stundað í mörgum löndum og er enn málið í Kína og á Kúbu.

Ósköp er sjá Mjóddina

Ég skokkaði upp í Mjódd um daginn. Ég bjó í Seljahverfinu í áratug og á því ófáar biðmínútur að baki í þessu húsi. Ég verð að segja að mér hálfbrá við að koma þangað. Búið er að loka klósettunum, sjoppan hefur vikið fyrir frekar lítt vinalegri miðasölu. Starfsmannaaðstaða er undirleggur hálft rýmið. Já, og húsinu eru lokað eftir kl. 18.

Ég er ekki að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur en þetta skiptir máli. Mjóddin er hlið Strætós út á land. Þaðan fara leiðir 51 og 52 á Suðurlandið og leið 57 sem keyrir norður. Allir ferðamenn sem vilja fara með strætó eitthvað annað en á Suðurnesin þurfa að fara um Mjóddina. Þetta ætti því að vera Aðaljárnbrautarstöð Íslands. En það sem blasir við þeim er alveg glatað.

Erlendis dúndra menn upp verslunarmiðstöðvum við hliðina á svona samgöngumiðstöðvum. Hér er verslunarmiðstöðin þegar komin. Tækifærið er því í raun alveg frábært til að tengja biðstöðina við mollið, henda upp kaffihúsi, veitingastað, lítilli bókabúð, upplýsingamiðstöð, innrétta allt huggulega, láta fólkið líða eins og á flugvelli en ekki eins og í vinnuskúr.

Tökum annað dæmi um svona biðstöð. Fyrirtækið Gray Line hefur byggt upp eigin umferðarmiðstöð í Holtagörðum.

Svona lítur hún út:

Fallegar flísar, farangursgeymslur, upplýsingabæklingar, röð af fólki sem bíður eftir að hjálpa og selja manni eitthvað. Væntanlega er opið þegar rúturnar fara, þótt það sé snemma.

Strætó hefur kvartað undan því að fá ekki aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Ég hef heyrt stjórnmálamenn biðja um að Strætó fái einkaleyfi til að keyra þangað. Ég hef heyrt samtök sveitarfélaga og stuðningsmenn einkaleyfa kvarta undan því að einkaaðilar „keyri ofan í“ einkaleyfi strætó og hirði af þeim farþega. En er það furða að markaður sé fyrir aðra aðila ef strætó og eigendur þess skeyta jafnlitlu um upplifun farþega af ferðalaginu?

Ásýnd skiptir máli. Höfuðstöðvar Strætó mega vera á tunglinu mín vegna en fyrirtækið verður að hafa einhverja sýnilega viðveru gagnvart farþegum sínum þar sem þá er að finna. Og fyrst ég er að ranta á annað borð: Hvaða grín er þetta:

„Hægt er að vitja óskilamuna milli klukkan 12:30-15:00 á Hesthálsi 14, 110 Reykjavík.“

Er hægt að vitja óskilamuna á vinnutíma í iðnaðarhverfi þar sem nokkurra mínútna gangur er til næstu stoppistöðvar, þar sem einungis leiðir 15 og 18 stoppa?

Að lokum. Ég er mikill áhugamaður um Borgarlínu og allar stórar hugmyndir en ég er samt skíthræddur við þennan „frábært seinna“ þankagang. Í upphafi seinustu aldar átti að taka upp nýtt leiðarkerfi þar sem stofnleiðir myndu keyra á 10 mínútna fresti, svo átti að taka upp rafrænt greiðslukerfi. Hvorugt gekk eftir en hvort tveggja tafði alla aðra framþróun. „Þarf ekki að fjölga sölustöðum – rafræna greiðslukerfið leysir þetta,“ var sagt.

Mér finnst þetta svipað. Í framtíðinni kemur borgarlína þar sem allir munu þeysast um á hálfgildingslestum og bíða á nútímalegum hálfgildingslestarstöðvum.

En þangað til getur fólk setið úti í kulda og myrkri á ómáluðum steypubekk. Og haldið í sér.

Að gera eitthvað í málinu er ofmetið

„Af hverju gerirðu ekki eitthvað í málinu?“ spyr aktivistinn.

Ég hjóla heim. Það er bíll á hjólastígnum. Bílstjórinn er inni að ná sér í take-away.

„Af hverju gerirðu ekki eitthvað í málinu? Af hverju hringirðu ekki á lögguna? Í borgina? Böggar bílstjórann? Tekur myndband af öllu og setur á youtube? Af hverju hjólarðu bara á götuna og fram hjá vandamálinu?“

Væri ekki betra ef allir myndu „gera eitthvað í málinu?“ Myndu þá ekki málin hætta að gerast?

Ég geri oftast ekkert í málinu vegna þess að „það að gera eitthvað í málinu“ felur furðulega oft í sér átök. Og ég er ekki endilega mjög átakasækinn.

Ef ég myndi til dæmis alltaf vera í átökum í þegar ég væri að hjóla þá myndi ég smám saman ómeðvitað hætta að hjóla. Og ef ég myndi alltaf birta myndbönd af mér og mínum hjólaátökum þá myndi það sannfæra fólk um að það að hjóla væru átök. Sem hjólreiðar eru ekki. Heldur bara leið til að koma sér á milli staða.

Sumt fólk er átakasækið og finnst bein, lifandi jafnvel líkamleg mótspyrna það sem telur. Það er allt í lagi. En ég hef skilaboð til allra hinna, þeirra sem mæta ekki á mótmæli, flauta ekki fyrir utan stofnanir, beita sér ekki á jörðu niðri, konfrontera ekki þá sem pirra þá og taka ekki myndbönd af því sem þeim mislíkar. Þið getið gert mikið gagn, þótt þið gerið ekki neitt í málinu.

Alltaf verra að vera kona

Stutt dæmi

Þrjátíu og sjö ára gamall þingmaður heldur jómfrúarræðu. Hann talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.

Tuttugu og sjö ára gömul þingkona heldur jómfrúarræðu. Hún talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.

Nokkrum mánuðum síðar eru allir búnir að gleyma ræðu þingmannsins. Ræðu þingkonunnar rifja menn upp enn og reyna mála hana sem vitleysing sem lepur upp dellu frá gáfaðri aðilum.

Sjá: http://stundin.is/pistill/rong-fullyrding-aslaugar-ornu/

Það er góð og gild umræða að ræða um hvað mælikvarðar séu bestir til að meta umfang ríkisreksturs. En þingkonan greindi frá þeim mælikvörðum þegar eftir því var leitað, hún gat heimilda sinna. Þetta snerist því ekki um að hún hafi lesið vitlaust eða rangtúlkað. En þannig er það matreitt og kommentakerfin eru sammála. Konan er bersýnilega nautheimsk.

Þessi grein sem vísað er til og fjallar um Áslaugu Örnu er ekki það versta sem birtist um konur í pólitík. Langt því frá. En hún er dálítið dæmigerð. Fólk kallar mig (því ég er hinn þingmaðurinn) ekki oft vitlausan. Ég er óheiðarlegur og illa innrættur en sjaldan vitlaus. Það límist einhvern veginn verr á karla að vera vitlausir.

Jafnvel þegar talað er illa um konur í pólitík þá er þeim gefinn minni kredit en körlum.

Dæmi: Manneskja fer með rangt mál.
Hún … misskildi.
Hann … laug.

Dæmi: Manneskja gerir eitthvað sem X græðir á.
Hún … lét X plata sig.
Hann … er ganga erinda X.

Blaðamaðurinn Jon Ronson var með ágæta bók um fólk sem lendir í skítastormi. Þar var nefnt hvernig allur skíturinn sem konur lenda í verður alltaf miklu svæsnari. Körlum er óskað atvinnumissi. Konum? Að þeim sé nauðgað eða að þær missi börnin sín. Árásir á konur eru persónulegri. Það er oftar ráðist á útlit þeirra eða gáfur.

Já, og hvað með börnin?

Ég las fyrst barnasáttmálann þegar ég var enn þá barn. Ég man best eftir þessu ákvæði:

„Aðildarríki skulu forðast að kalla þá sem hafa ekki náð fimmtán ára aldri til herþjónustu. Við herkvaðningu þeirra sem náð hafa fimmtán ára aldri en hafa ekki náð átján ára aldri skulu aðildarríki leitast við að láta hina elstu ganga fyrir.”

Ég man að ég hugsaði: “Fimmtán ára? Hvernig fundu menn það út?”

Ég sá fyrir mér að einhver hafi lagt til 18 ár en svo kom einhver annar og sagði: “Nei, kommon, við verðum að vera raunsæ.”

Og menn hafi fallist á 15 ár..

Ég man að mér fannst þetta furðulega ítarlegt en metnaðarlaust samanborið við restina af sáttmálanum. En samt var einhver huggun í því að menn hafi haft þetta svona, metnaðarlítið, en alla vega þannig að hægt var að vonast til að menn myndu þá reyna að fara eftir því. 

***

Ég hafði í tvígang samband við umboðsmann barna þegar ég var barn. Í fyrsta skipti þegar ég hafði áhyggjur af nafnalögum og tengslum þeirra við veitingu ríkisborgararéttar. Mér fannst sem 8. g.r barnasáttmálans veitti mér rétt til að halda sérkennum mínum þótt ég myndi fá íslenskan ríkisborgararétt. Mig langaði ekki að heita “Páll Jansson” og ég hafði samband við umboðsmann út af því.

Í seinna skipti fannst mér ranglátt á ég fengi ekki bókasafnskort á Þjóðarbókhlöðuna nema að ég væri orðinn 17 ára. Í því máli veit ég að umboðsmaður spurði síðan Landsbókavörð en fékk einhver svör. Svörin, eftir því sem ég hef séð þau, skautuðu fram hjá því sem allir vita, að aðalástæðan fyrir aldurstakmarkinu er takmarkaður fjöldi lesborða í prófatíð en ekki neitt annað. Aldurstakmarkið er nú 18 ár. Svo ekki varð þessi slagur til mikils.

***

Flestir þeir sem láta sig réttindi barna varða á Íslandi hafa ákveðinn fókus. Sá fókus byggir mikið til á velferð barna. Velferð barna og rétt barna til að fá ákveðna þjónustu, helst endurgjaldslaust. Ég játa að ég hef heilmikinn áhuga á málefnum barna, en ekki frá þessari hlið. Áhugi minn er fyrst og fremst á borgaralegum réttindum barna.

Ef barn má ekki velja framhaldsskóla út frá reglum sem fullorðið fólk setur þá verð ég verulega miður mín.

Ef traðkað er á málfrelsi barns, vegna þess að barnið hefur ekki réttar skoðanir þá verð ég hugsi.

Ef símar eru teknir af börnum þá spyr ég mig hvort það sé nauðsynlegt.

Ef börn eru rekin úr skóla fyrir drykkjulæti, framhjá öllum reglum um góða stjórnsýslu þá tjái ég mig um það.

Og ef barn sem vill læra íslensku fær ekki að vera á landinu vegna þess að það er þremur mánuðum of ungt, þá finnst mér það valdníðsla.

***

Togstreita milli réttinda og velferðar er auðvitað ekki lítil  eða ný stjórnmálaleg spurning. Oft stangast þessar áherslur ekkert á, en stundum gera þær það. Og stundum svara þær sömu spurningunum með ólíkum hætti. Út frá réttindum barna hefur það til dæmis enga þýðingu hvort fullorðið fólk megi kaupa áfengi í smásölu frá einkahlutafélagi eða opinberu hlutafélagi. Enga. Það mál varðar ekki réttindi barna frekar en veggjöld gera það. En það getur varðar velferð barna, rétt eins og flest önnur mál.

Þar er ég vitanlega ekki sammála fylgismönnum áframhaldandi ríkiseinokunar. Þrátt fyrir endalausar fullyrðingar um augljós tengsl aðgengis og velferðar barna hefur það samt gerst að drykkja barna og unglinga hefur hrunið, samhliða því að bjórinn hafi verið leyfður, búðum hefur fjölgað, opnunartími lengst, úrvalið aukist, auglýsingar orðið sýnilegri og svo framvegis. En tökum þá umræðu síðar. 

***

Nokkrir aðilar, umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF á Íslandi hafa hóað í þingmenn úr öllum flokkum og boðið þeim að gerast sérstakir talsmenn barna á þingi. Ég svaraði þessari beiðni af áðurnefndum ástæðum, ég tel mig hafa sýn á þessi mál sem ákveðin þörf er fyrir. Sýn á réttindi barna út frá svokölluðum fyrstu kynslóðar mannréttindum, málfrelsi, félagafrelsi, athafnafrelsi og ferðafrelsi. Og ég held að það væri ekki betra fyrir umræðu um réttindi barna ef fókusinn yrði allur á velfarðarvinkilinn.

Hópurinn sem stendur að verkefninu talsmenn barna hefur nú sent frá sér yfirlýsingu um að afnám einokunarsölu á áfengi sé brot á barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Sú rödd hefur heyrst á nokkrum stöðum að afstaða mín í áfengismálum samræmist ekki þeim yfirlýsingum að vilja að tala máli barna. (Sjá: https://barn.is/frettir/2017/02/askorun-vegna-frumvarps-um-breytt-fyrirkomulag-a-afengissoelu/)

Þessi mál, eins og önnur, verð ég að lokum að leggja í dóm kjósenda í næstu kosningum, en þó má benda á að einn helsti baráttumaður fyrir lögfestingu barnasáttmálans deildi skoðunum mínum á breyttu fyrirkomulagi áfengissölu. Þannig að sumum hefur alla vega tekist að samrýma þetta. (Sjá: http://www.barnaheill.is/Frettir/Frett/agust-olafur-agustsson-hlaut-vieurkenningu-barnaheilla/)

Ég geri ekki athugasemdir við að aðilar, opinberir eða ekki, tjái sig um lagasetningu. En ég set reyndar spurningamerki við þá fullyrðingu að með því að samþykkja eitt fyrirkomulag áfengisútsölu, fyrirkomulag sem tíðkast mjög víða, sé verið að brjóta barnasáttmálann. Mér finnst nokkuð hæpið að dómari myndi snúa við slíkum lögum sem Alþingi hefur samþykkt, byggt á 3. gr. barnasáttmálans. Mér finnst raunar útilokað að það myndi gerast. Dómstólar á Íslandi taka sér ekki slíkt endurskoðunarvald, hvað þá þegar forsendurnar eru svo veikar.

***

Ég er ekki barn. En ég hef, rétt eins og allir, verið barn. Að vera barn er svolítið svipað eins og að vera innflytjandi. Fólk talar vel um þig opinberlega og vill þér að nafninu til vel. En það vill samt ekki að þú sért með vesen. Þú veist aldrei við hvern þú átt að kvarta og jafnvel þeir sem þú kvartar við taka þig samt ekki alltaf alvarlega.

Fólk er duglegt að útskýra fyrir þér hvernig hinar ýmsu réttindaskerðingar séu þér í raun fyrir bestu.

Mér þykir vænt um réttindi barna. Líka þessi sem geta verið vesen. Einhvern tímann, ef ég verð sjúklega ríkur, langar mig að setja á fót sérstaka óháða stofnum, sem mun aðstoða börn við að vera með vesen. En áður en að því kemur getur fólk, undir og yfir lögaldri,  alltaf sent mér tölvupóst.

Það þarf ekki að breyta lögum um brottnám líffæra

Hvenær má taka líffæri úr heiladauðu fólki og setja í annað fólk? Það er ekki lítil spurning. Nú hafa nokkrir þingmenn lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um líffæragjafir. Frumvarpinu er lýst með þeim hætti að það eigi að ganga út frá “ætluðu samþykki”. Mig langar að fjalla um þetta frumvarp og hvernig ég sé þessi mál fyrir mér.

Lög um líffæragjafir þurfa að taka á því hvernig eigi að bera sig að gagnvart vilja hins látna og aðstandenda hans. 

Lögin þurfa sem sagt að geta fyllt upp í eftirfarandi töflu:

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Látni Ekki vitað
Nei

Ég skal svara því hvernig mér finnst að þessi tafla ætti að líta út. Í fyrsta lagi þá er mikilvægt að virða vilja þess dána einstaklings sem verið er að taka líffæri úr. Ef sá vilji liggur fyrir:

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Heimilt Heimilt Heimilt
Látni Ekki vitað
Nei Óheimilt Óheimilt Óheimilt

Ef sá vilji liggur ekki skýrt fyrir er rétt að nánasti aðstandandi ráði för.

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Heimilt Heimilt Hemilt
Látni Ekki vitað Heimilt Óheimilt
Nei Óheimilt Óheimilt Óheimilt

Þá er eftir það eina tilfelli þegar ekki er vitað um afstöðu hins látna, og ekki heldur aðstandenda. Það kann að vera að hinn látni hafi enga aðstandendur, þeir vilji ekki taka ákvörðun, séu margir og ósammála, eða að ekki næst í neinn þeirra. Ég hallast að því að betra sé að samþykki aðstanda liggi fyrir, sé þess á annað borð kostur, ég veit ekki með þau dæmi þar sem sannarlega enginn aðstandandi er til staðar, en grunar að þau séu ekki algeng.

Núverandi lög eru raunar nákvæmlega svona:

Nú liggur fyrir samþykki einstaklings og má þá, að honum látnum, nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings.

Liggi slíkt samþykki ekki fyrir er heimilt að fjarlægja líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns hans og slíkt er ekki talið brjóta í bága við vilja hins látna.

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1991016.html

Sem sagt:

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Heimilt Heimilt Hemilt
Látni Ekki vitað Heimilt Óheimilt Óheimilt
Nei Óheimilt Óheimilt Óheimilt

Ég veit ekki hver framkvæmdin er en miðað við lögin má fjarlægja líffæri úr þeim sem veita til þess leyfi jafnvel þótt samþykki ættingja liggi ekki fyrir.

Lagabreytingartillagan um ætlað samþykki sem lögð var fram á seinasta þingi gerir ráð fyrir að lögin hljómi svona:

Nema má brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings hafi hinn látni verið sjálfráða og ekki lýst sig andstæðan því og það er ekki af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja hans.

Ekki má þó nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til að nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því.

Réttarástandinu sem tillagan gerir ráð fyrir verður því lýst á eftirfarandi töflu.

Aðstandandi
Ekki vitað Nei
Heimilt Heimilt Óheimilt
Látni Ekki vitað Heimilt Heimilt Óheimilt
Nei Óheimilt Óheimilt Óheimilt

Fljótt á litið virðist breytingin því vera þessi: Réttur hins látna er ekki lengur sjálfkrafa virtur en í staðinn gengið út frá því að þögn hins látna og aðstandenda sé sama og samþykki. Mér finnst breytingin í frumvarpinu því ekki vera til hins betra.

***

Ætlað samþykki má ekki bara vera feluorð fyrir “skort á samþykki”. Ef við göngum út frá ætluðu samþykki þá verðum við raunverulega að trúa því að viðkomandi einstaklingur hefði veitt samþykki ef hann verið verið um það beðinn, en hann var bara annað hvort ekki spurður eða svar hans ekki skjalfest. Þetta má ekki snúast um það menn þurfi að að “sanna” að ættingjar þeirri hefðu ekki viljað gefa líffæri sín til að sá réttur sé virtur.

***

Nýleg könnun sýnir að um 80% Íslendingar styðja hugmyndina um ætlað samþykki. Skv. skýrslu um líffæragjafir á árunum 1992-2002 var samþykki ættingja veitt í 60% tilfella (30 tilfelli alls). Það er víst von á nýju tölum og fólk segir að hlutfallið hafi hækkað. Margt bendir því til að hlutfall veittra leyfa sé hátt og í góðu samhengi við almennan stuðning við líffæragjafir í þjóðfélaginu. Þar fyrir utan virða núverandi lög vilja þeirra látnu og aðstandenda á þann hátt sem réttast er. Ég tel því ekki þörf á breytingum á lögum um brottnám líffæra.

Þetta verður ekkert „allt í lagi“

Það voru fáir sem trúðu því að Trump gæti unnið. Nate Silver var með sigurlíkur Trumps í 30% stuttu fyrir kosningar og það var eiginlega byrjað að hæðast að honum, og segja að aðferðir hans væru frekar gallaðar.

Á kjördag var New York Times með fréttaskýringar um að þetta væri eiginlega komið hjá Hillary, talað um einhvern „eldvegg“ öruggra fylkja, og annað bull sem jaðraði við talnaspeki.

Allt þetta var tilraun fólks til að róa sjálft sig, segja við sjálft sig að hlutirnir „verði í lagi“. Þótt það væri alls ekki víst að allt yrði í lagi.

Trump mun fangelsa pólitíska andstæðinga sína, hann mun afnema hinar lögfestur heilbrigðistryggingar sem Obama kom á, reisa vegg á landamærum Mexíkó, henda milljónum manna úr landi, starta viðskiptastríði við Kínverja, vingast við Pútín, hætta að verja Eystrasaltsríkin, pynta fjölskyldur hryðjuverkamanna og loka landinu fyrir múslimum.

Af hverju mun hann gera það? Því hann sagðist ætla að gera það. Og þvert ofan á það sem sagt er þá standa stjórnmálamenn oftast við orð sín.

Að halda að stjórnkerfið, stjórnarskráin eða þingið muni bremsa hann af er draumsýn. Hann er kallinn, hann stjórnar og fólk með þannig hugarfar lætur ekki auðveldlega stoppa sig.

Og þótt við höldum að stjórnarskrár kunni að „hindra“ margskonar rugl þá gera þær það ekki í raun og veru. Þær gera það bara aðeins augljósara að menn séu að gera rugl.

Í dag stóðu skrifborð auð á vinnustöðum því starfsmönnum var ekki hleypt aftur inn í landið, einhver komst ekki í skólann, íbúðir stóðu auðar, allt út af trú og uppruna.

Trump lofaði alls kyns viðbjóði og er þegar byrjaður að hrinda þeim í framkvæmd án teljandi mótspyrnu úr stjórnkerfinu. Þetta verður ekki allt í lagi. Þetta mun bara versna.

Ég sé ekki sóknarfærin

Daginn sem Bretland gengur úr Evrópusambandinu og yfirgefur EES-svæðið munu Íslendingar ekki lengur geta flutt óhindrað til Bretlands og Bretar munu ekki lengur geta flutt óhindrað til Íslands.

Vissulega má semja um annað. Vonandi verður það gert, vonandi vilja Bretar sjálfir að það verði gert. En útganga Bretlands eins og sér þýðir nákvæmlega það og ekkert annað. Regluverk ESB, þar með regluverk um frjálst flæði fólks, hættir einfaldlega að gilda með þeim kostum og ókostum sem því fylgja. Það er sá núllpunktur sem verður að ganga út frá.

Úrsögn úr Evrópusambandinu er úrsögn úr Evrópusambandinu.

***

Frændi minn sem býr í litlum bæ vestur af Varsjá spurði mig um daginn hvað ég héldi að ég þyrfti að stoppa oft á ljósum ef ég ætlaði að keyra til Lissabon.

Ég nefndi einhverja tölu sem mér þótti líkleg en var bent á að svarið væri “Núll.” Það væri hraðbraut alla leið.

Já, þannig Evrópu hefur tekist á búa til. Sá sem vill fara frá Varsjá til Lissabon þarf bara að fara upp í bíl og keyra. Hann gæti þurft að borga á stöku stað eða stoppa vegna tímabundins landamæraeftirlits en að öðru leyti þarf hann hvorki að spyrja kóng né prest. Ferðalangurinn er tryggður alla leið, og ef hann finnur sér vinnu og íbúð á áfangastaðnum þá getur hann bara tekið vinnunni og sest að.

***

Þannig var heimur foreldra minna ekki og ekki heldur heimur foreldra þeirra. Og það þarf ekkert að vera að heimur barna okkar verði þannig. En mér finnst skipta máli að hann verði það. Að heimurinn verði sem opnastur, og að sem flestir geti notið hans.

Að því leyti verð ég að viðurkenna að ég sé ekki sóknarfærin sem felast í því að ríki gangi úr ESB. Ekki nema við notum „sóknarfæri“ í einhverri stórfyrirtækja-straumlínustjórnunarmerkingu sem „vandræði“. Vandræði sem við verðum að lágmarka og reyna að búa til eitthvað sem er kannski jafngott.