Þvottakarfan: Hönnun, hlaup og hámarkslaun

Á mánudaginn heimsótti ég (ásamt nokkrum öðrum borgarfulltrúum) Þrótt í Laugardal. Við hittum forsvarsmenn félagsins sem kynntu fyrir okkur hugmyndir sínar um uppbyggingu félagsins í Laugardalnum.

Það eru auðvitað ýmsar hugmyndir uppi um Laugardalinn. Kröfur eru af hálfu sérsambanda um nýja þjóðarleikvanga í boltagreinum og þá hafa hverfisfélögin sínar hugmyndir líka. Stundum fer þetta misvel saman, ef mannvirki er mikið nýtt undir landsleiki/ráðstefnur/tónleika falla æfingar niður. En hvorki Laugardalur né borgarsjóður eru ótakmörkaðar auðlindir og það mun þurfa að forgangsraða.

Ágætt að minnast á að ég skrái alla fundi sem þessa sem og minni gjafir sem ég þigg og viðburði sem ég sæki. Skráin er opinber. Sjá hér: Listi yfir fundi og boð.

***

Á þriðjudaginn var borgarstjórnarfundur. Ég tók meðal annars í umræðu um loftgæðamál sem snerist um nokkrar tillögur Sjálfstæðisflokksins. Margar tillögurnar voru ágætar en eins og ég tók fram finnst mér stundum eins og Sjálfstæðisflokkurinn einblíni um af á aðgerðir til að draga úr neikvæðum áhrifum þess að fólk keyri bíl frekar en að ráðast að rót vandans, sem er umferðin sjálf. Sterkara malbik og meiri peningur í rykbindingu eru allt í lagi hugmyndir. En svo lengi sem það eru laus bílastæði í A og B þá mun fólk ferðast milli A og B á bíl, með tilheyrandi mengun.

***

Það má líka nefna að ýmsar umræður spunnust um tillögur fulltrúa Sósíalistaflokksins um að hámarkslaun í borgarkerfinu yrðu þreföld lágmarkslaun. Þarna eru Sósíalistarnir að tikka í sín hugmyndafræðilegu box en mjög margar tillögur flokksins ganga út á að borgin hafi þráðbeina aðkomu að kjaramálum með því að fastsetja lágmarklaun (og nú hámarkslaun). Það verður bara að nefna að það er ekki mjög norræn nálgun.

Í Bandaríkjunum setja menn lágmarkslaun með lögum. Verkalýðsfélög og vinnuveitendur bögga þingmenn sem reyna að ákveða sanngjarna lágmarkstaxta. Það kerfi hefur ekki skilað láglaunafólki betri kjarabótum en norræna vinnumarkaðsmódelið.

En þessu óháð má, til gamans, leika sér með hvað samþykkt slíkra hugmynda myndi þýða. Algeng lágmarkslaun (byrjunarlaun) í kjarasamningum eru nú 270 þúsund. Það sinnum þrír eru 810 þúsund. Samkvæmt kjarakönnun verkfræðinga eru meðallaun verkefræðinga hjá Reykjavíkurborg 886 þúsund, svo lækka þyrfti laun einhverra þeirra (eða frysta þau og hækka önnur, lægri, laun). Meðallaun verkfræðinga almennt eru 920 þúsund. Þau eru vart lægri í nágrannalöndum.

Hún gerist auðvitað vart pólitískari en þetta, umræðan og auðvitað er jöfnuður eftirsóknarverður. Hitt skiptir samt líka máli: að fólk njóti þess hafa fjárfest í menntun, fyrir að búa yfir sérfræðikunnáttu. Við þurfum líka að vera samkeppnishæf.

***

Nokkrir borgarfulltrúar hittust á vinnufundi í vikunni og ræddu siðareglur kjörinna fulltrúa. Lögum samkvæmt þarf að endurskoða þær einu sinni á hverju kjörtímabili.

Af facebook-síðu Dóru Bjartrar Guðjónsdóttur.

***

Aðeins af listalífinu. Við Anna sáum Club Romantica í Borgarleikhúsinu. Mjög skemmtilegt leikrit sem ekki er flókið að mæla með. Það eru 3 sýningar eftir þegar þetta er skrifað og ég á nú ekki erfitt með að mæla með að fólk skelli sér.

Þá er Hönnunarmars að fara í gang. Ég mætti á opnun sýningarinnar “Núna norrænt / Now Nordic – Saga norrænnar samtímahönnunar frá fimm löndum”.

Pawel (sést ekki á mynd) að horfa á stól.

Þetta var á laugardegi. Einnig á laugardegi mætti ég á opnun sýningarinnar i Borgarlandslag sem er í Hönnunarsafninu í Garðabæ. Ég tók þátt í að búa til efni fyrir sýninguna en hluti hennar eru myndbönd af fólki að segja frá höfuðborgum heimalanda sinni.

Hér má sjá Poznan-búann að gera sitt besta til að tala vel um Varsjá.

***

Uppreisnarverðlaunin voru afhent á laugardaginn. Í þetta skiptið voru það Sigga Dögg, kynfræðingur og Samtök kvenna af erlendum uppruna sem hlutu viðurkenningar. Það er Uppreisn -ungliðahreyfing Viðreisnar- sem stendur að veitingu verðlaunanna.

Sigga Dögg og Kristófer Alex Guðmundsson, forseti Uppreisnar.

Það verður að hrósa Samtökum kvenna af erlendum uppruna sérstaklega fyrir það hve dugleg þau eru að senda inn umsagnir við lagafrumvörp. Ég vil meina að þessar umsagnir hafi oft skipt sköpum stundum stoppað mestu vitleysuna.

***

Undirbúningur undir maraþonið í Kraká í lok apríl gengur vel. Ég tók þátt í seinasta 5 km hlaupi vetrarins á vegum FH og Bose. Það var gaman að komast aftur undir hálftímann.

Leave a Reply

Your email address will not be published.