Þvottakarfan: Póllandsferð í apríl

Í lok apríl fór ég til Póllands með fjölskyldunni. Megintilgangur var að mæta í 85-ára afmæli ömmu minnar en ég notaði líka tækifærið til að taka stutt frí með fjölskyldunni og hlaupa í Krakármaraþoninu.

Fjölskylda mín föðurmegin kemur frá Slesía-héraði. Wizzair býður upp á beina tengingu til Katowice, sem er stærsta borgin í því héraði. Þarna eru mörg sveitarfélög en í raun má samt segja að þéttbýlið í Slesía-héraði sé stærsta samhangandi borg Póllands, þarna búa hátt í 2,5 milljónir.

Í Tarnowskie Góry – Göngugatan.

Slesía hérað er ríkt af kolum og þessháttar og var því lengi efnahagsleg þungamiðja landsins. Það voru því fínir vegir og fínar lestarlínur milli Varsjár og Slesía héraðsins á tímum kommúnismans, og lestartengingin milli Varsjár og Kraká/Slesía er enn sú besta á landinu. Lestin þarna á milli tekur einungis 2 tíma og korter. Við nýttum okkur það og skruppum í skamma stund til Varsjár.

Í Varsjá heimsóttum við Kópernikusarsafnið, sem er frábært gagnvirkt vísindasafn sem óhætt er að mæla með.

Þjóðarleikvangurinn í Varsjá.

Ég fór líka að skoða Þjóðarleikvanginn. Hann er sannarlega tilkomumikill en það er undarleg ragnarrakastemning á svona leikvöngum þegar ekkert er um að vera. Grasið var meira segja horfið þegar við mættum.

Þjóðarleikvangur – graslaus

Eitt sem maður tók eftir í Varsjá var mikið magn hvers kyns skutlum frá fyrirtækjunum Bird, Li.me og fleiri. Það er mikil gróska í þessu sem sumir upplifa sem svolítið villta-vesturs-tímabil. Það má kannski vel vera en hins vegar verða stóra umbyltingar ekki til nema að einhver hristi upp í hlutunum. Þessi micromobility pæling er að gera það víða og við eigum að taka henni opnum örmum. Kannski verður allt morandi í litlum skutlum um tíma, en hvað með það? Í dag er fullt af bílum út um allt. Við höfum bara vanist því.

Lítil rafhlaupahjól sem leigja má með appi.

Frá Varsjá var haldið til Kraká. Við bjuggum í íbúð í Bronowice hverfinu. Það er nýbúið að fjölga ruslflokkum í heimilissorpi. Nú geta Krakárbúar (og eiga) að flokka: pappír, gler, plast, málma, lífrænt og svo annað. Þar fyrir utan eru gámar fyrir föt og þessháttar á fjölförnum stöðum. Það segir auðvitað að við Reykvíkingar þurfum að girða okkur í brók, t.d. með því að safna lífrænum úrgangi og safna málmum. Reyndar eru málmar víst seglaðir frá í dag en ég held að með því að setja þá lausa með plastinu (eins og gert er í Kraká) mætti gera enn betur.

Svo hljóp ég í maraþoninu í Kraká. Ég var nú ekki með þeim fyrstu í mark. Peppstöðin sem spilaði stuðtónlist á 41. kílómeternum varð meira að segja bensínlaus stuttu áður en ég kom að henni. Opinber tími var 5:43:48. En nóg um það. Ég stefni á Reykjavíkurmaraþonið í ágúst og kannski eitthvað annað erlent maraþon með haustinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.