Þvottakarfan: Meðan allir voru í Osló.

Í upphafi maí var haldið alþjóðlegt Crossfit-mót í Reykjavík. Reykjavík styrkti mótið. Ég mætti á opnuninarhátíðina og hélt stutta tölu.

Þungi borgarstjórnarfunda í maí gekk út á umræðu um ársreikning borgarinnar 2018. Ársreikningur lýsir fyrst og fremst stöðunni eins og hún er. Við í Viðreisn erum vissulega ánægð með að borgarsjóður hafi verið rekinn réttu megin við núllið. Þá er er markmiðið um að veltufé frá rekstri verði 9-10% að nást.

Í ræðu minni sagði ég.

Við í Viðreisn teljum engu að síður að svigrúm sé til að gera betur í rekstri borgarinnar. Við höfum lagt áherslu á að greiða niður skuldir þegar að vel árar. Við teljum nauðsynlegt að gera reksturinn sjálfbærari – þannig skattekjur borgarinnar standi að fullu undir reglulegum rekstri hennar. Það er verkefni sem við þurfum að ráðast í.

Til þess eru tvær leiðir. Sú fyrsta er að lækka regluleg útgjöld, eða alla vega halda aftur að vexti þeirra. Við í Viðreisn erum ánægð með að nú er komin 1% hagræðingarkrafa á reksturinn til næstu ára. Því verður fylgt eftir. Það nauðsynlegt að menn hugsi rekstur stöðugt upp á nýtt. Hætti með verkefni, endurskipuleggi verkefni, sameini verkefni. Hugsi hluti upp á nýtt. En það eru ekki bara einfaldar lausnir í þeim efnum. Það er ekki hægt bara hægt að spara í kampavíni og leigubílum. Eða með því að taka til baka framúrkeyrslur fyrri ára. Allar hagræðingaraðgerðir þýða að einhver hættir að fá pening var að fá hann. Og það hristir upp í hlutum.

Við höfum sýnt það bæði í sameiningu ráða og í stjórnkerfisbreytingum að við erum óhrædd við að hrista upp í hlutunum. Það er eðlilegt að gera það í öllum rekstri. Allir sem stunda atvinnurekstur þekkja það.

Hin leiðin er að auka tekjur. Þar með talið skatttekjur. Þá spyr fólk hvort við í Viðreisn höfum það á stefnuskráni að hækka skatta. Og það er ekki. Fasteignaskattar á fyrirtæki verða lækkaðir og það er ekki á stefnuskráni hjá okkur í Viðreisn að biðja ríkið um að hækka lögbundið hámarksútsvar. Ég er heldur ekki á því að nýr og nýr tekjustofn sé alltaf svarið. Þetta eru allt sömu skattpeningarnir.

Ársreikingurinn var síðan samþykktur á aukafundi borgarstjórnar viku síðar.

Þann 9. maí sat í borgarráði í fjarveru Þórdísar Lóu. Hæst þótti mér bera samþykkt nýrrar stefnu um bensínstöðvar en við stefnum sem sagt að því að fækka verulega bensínstöðvum í borgarlandinu. Bensínstöðvar eiga heima nálægt stofnbrautum en til lengdar er skynsamlegt að nýta lóðir í miðri byggð undir íbúðir og þjónustu. Ánægjulegur samhljómur náðist um málið í borgarráði en Sjálfstæðisflokkurinn vildi í raun ganga hraðar í fækkun stöðva með hefðbundnu jarðefnaeldsneyti. Maður fagnar alltaf góðum bandamönnum á vígvelli aðfararinnar!

Bakland borgarstjórnarflokks Viðreisnar hittist í hverjum mánuði til að fara yfir stöðuna. Fundurinn að þessu sinni var afar vel sóttur og greinilegt að stemning er í hópnum. Við fórum yfir stöðuna í málum borgarlínu, göngugötur í miðborginni og áðurnefnda fækkun bensínstöðva. Vorin eru yndislegur tími í pólitíkinni. Maður finnur það á fjölda fólks sem vill hitta mann út af ýmsu. Fólk fær einhvern veginn fleiri og frjórri hugmyndir þegar sólin skín og það getur klæðst nærbol úti.

Eins og kunnugt er ég formaður í menningar, íþrótta- og tómstundarráði, en því mun reyndar bráðum ljúka. Ég mun sakna hlutverksins. Um er að ræða nýtt ráð sem varð til við að íþróttirnar og menningin fóru saman í eitt. Samstarfið við sviðin tvö hefur gengið vel. Við höldum fundi til skiptis um hvorn málaflokkinn, þurfum að gæta að tímastjórnun en það hefur ekki verið vandamál hingað til.

Ráðið fundaði tvisvar í mánuðinum. Til okkar berast ýmsar beiðnir um styrki sem við höfum hingað til verið sparsöm á, sérstaklega, á miðju fjárhagsári. Af störfum ráðsins má þó einnig nefna að við erum að setja í gang áætlun um að þýða leiðbeiningar um frístundakortið yfir á fleiri tungumál. Ekki síst til að hvetja fleiri innflytjendur til að BJÓÐA upp á frístundir, ekki bara að þiggja þjónustu annarra. Þá lagði meirihlutinn líka fram fyrirspurn um menningarframboð í hverfum borgarinnar.

Eins og sjá má er framboðið af menningarhúsnæði mest í Vesturbæ og Miðborg. Sem kemur kannski ekki mikið á óvart, og verður kannski alltaf þannig. En það má samt alveg skoða sóknarfærin. Borgin styrkir ýmsa aðila þannig um húsnæði og kannski er eðlilegt, sé markmiðið að styrkja húsnæði á annað borð, að meiri fókus verði settur á jaðarsvæði miðbæjarins, Hlíðar og Laugardalinn, styrkja þannig þau svæði, stækka miðbæinn og fá betra verð fyrir peninginn.

Ég vil nefna það að ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að opna sýningu á verkum Kristjóns Haraldssonar í Ljósmyndasafninu. Kristjón starfaði sem auglýsingaljósmyndari á 8. og 9. áratugnum, en, líkt og ég nefndi, í ræðu minni þekki ég þetta tímabil í Íslandssögunni í raun lítið. Ég flyt til landsins 1988. Sögubækurnar í MR hættu um 1974. Foreldrar mínir voru ekki unglingar á Íslandi og hafa engu að deila með mér. Fyrir mér er að skoða myndir frá þessum tíma nostalgía í garð hliðarveruleika sem ég upplifði ekki. Sumt er kunnuglegt, en samt ekki.

Titill þessarar færslu vísar til þess að stór hluti borgarstjórnar fór til Osló í viku á norræna höfuðborgarráðstefnu. Á meðan gafst okkur hinum færi á að hlaða aðeins rafhlöðurnar, vinna upp ýmis mál og sækja ýmsa viðburði í borginni.

Uppskeruhátíð Verksmiðjunnar var haldin 21. maí í Hafnarhúsinu. Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni fyrir grunnskólanemendur. Daði Freyr mætti og tók nokkur lög á sérsmíðað hljóðfæri.

Í Listasafninu er einnig að finna sýninguna “Heimferð Maos” með verkum Errós. Ég missti af opnuninni, ólíkt þeim Davíð Oddssyni og Degi B. sem mættu og náðist skemmtileg mynd af. Sjón er annars sögu ríkari en óhætt er að mæla með sýningunni fyrir alla listáhugamenn.

Viðreisn varð þriggja ára í mánuðinum. Af því tilefni fórum við nokkur saman í nágrenni Þorlákshafnar og gróðursettum 3 þúsund tré.

Þrjú þusund tré bíða eftir að verða gróðursett.

Þetta hafa verið viðburðarrík ár. Á þeim tíma, hef ég farið í gegnum þrennar kosningar. Verið kosinn á þing. Verið kosinn út af þingi. Boðið mig fram í borgarstjórn. Ætli ég sé samt ekki stoltastur af þeirri kosningabaráttu sem var hvað erfiðust, kosningabaráttan 2017. Viðreisn sýndi mikinn karakter, formaðurinn sagði af sér, sjálfboðaliðar unnu baki brotnu meðan fylgið fór um tíma undir 3 prósent. Það var ekki auðvelt.

Við höfðum þetta af en það var ekki sjálfsagt. Ástæðan fyrir að við lifðum af var hugmyndafræði. Viðreisn snýst ekki um metnað nokkurra einstaklinga sem héldust illa í öðrum flokkum. Viðreisn snýst um frjálslyndi og Evrópu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.