Þvottakarfan: Heimsókn í FÁ, HönnunarMars og samgöngumál.

Seinasta sunnudag hljóp ég frá Mosfellsbæ með vinafólki mínu. Hér fyrir neðan má sjá tvær myndir frá leiðinni.

Stígur í Mosfellsbæ.
Stígur sunnan við Úlfarsfellið. Bauhaus nálgast.

Þetta eru tveir stígar á sömul leið. Það mætti halda að sá neðri væri upphitaður en svo er ekki (alla vega ekki samkvæmt Borgarvefsjá). Annar er einfaldlega betur ruddur en hinn. Þetta er smá svona innlegg í þessa umræðu um upphitun stíga. Auðvitað eru upphitaðir stíga snilld en þetta eru alveg dýrar fjárfestingar og það má ná ansi langt með því einfaldlega að ryðja vel.

Á mánudag stýrði ég fundi í MÍT (menningar, íþrótta- og tómstundarráði). Stór hluti tímans fór í fjárhagsuppgjör 2018. Rekstur sviðanna hefur gengið ágætlega undanfarin ár. Það má hins vegar auðvitað nefna að bæði sviðin hafa þó nokkrar tekjur af miðasölu, ekki síst miðasölu til ferðamanna. Hræringar í ferðaþjónusta kalla því á að við stýrum hlutum varlega, hugsanlega þar að enduskoða tekjuáætlanir ársins.

Skóla og frístundaráð fundaði á þriðjudag. Rætt var um feril vegna rakaskemmda í skólum, sem hefur verið til umræðu í borginni. Annars erum við í þeim fasa vegna fjárfestingaráætlunar að mikið er rætt um skemmtilega hluti, eins og það sem byggja má í framtíðinni. Í skólamálum í Reykjavík er margt á döfinni: nýir leikskólar vegna Brúum bilið, nýr grunnskóli vegna Vogabyggðar, aðgerðir vegna frístundar auk stækkana og viðhalds á núverandi grunnskóla. Ramminn til viðhalds og fjárfestinga er umtalsverður, en að sjálfsögðu þarf alltaf að forgangsraða.

Á þriðjudaginn var einnig fundur borgarstjórnar með Reykjavíkurráði ungmenna. Unga fólkið bar upp hinar ýmsu tillögur sem flestum var vísað til fagráða borgarinnar. Ætli það sé ekki hægt að segja að umhverfismál og lýðræðismál hafi verið efst á baugi að þessu sinni. Hér má sjá tillögurnar: http://tjornin.is/wp-content/uploads/sites/12/2019/03/tillgur_greinargerir_lokatgfa2019.pdf

Það er fátt mikilvægara en að kenna lýðræði. Ég velti því samt fyrir mér hvort við mættum gera meira að því að kenna lýðræðisleg átök. Það er til dæmis ekki þannig að fólk eldra en þrítugt sé sammála öllu sem 15 ára fólk leggur til. En frekar en að segjast vera beinlínis á móti þá komast menn hjá því að opinbera það. Fyrir vikið upplifir fólk eins og það sé ekki hlustað á það.

En fundurinn var góður og það var gaman að vera í salnum og leiðbeina unga fólkinu um hvenær megi koma upp í andsvör og við hvern 🙂

Á miðvikudag heimsótti ég stjórnmálafræðitíma í Fjölbrautarskólanum í Ármúla.

Þetta var einstaklega skemmtilegur hópur. Ég ræddi um Evrópusambandið, muninn á Viðreisn og öðrum flokkum, hvað ég væri mest óhress með í stefnu míns flokks, hvað ég myndi gera ef ég væri einræðisherra í einn dag og annað krefjandi stöff sem ég var spurður af.

Seinna um kvöldið var boð í pólska sendiráðinu með pólskri þingnefnd sem sér um samskipti við Pólverja erlendis og er í heimsókn á landinu nú um stundir.

Við það tækifæri voru flutt tónverk en nú einmitt stendur yfir pólsk tónlistarkeppni hér á landi.

Á fimmtudag bar svo hæst setning HönnunarMars. Þótt auðvitað hafi gjaldþrot WOW sett svip á daginn, óneitanlega.

Frá setningu HönnunarMars – Hafnarhúsinu.

Ég hitti einnig, Dace Melbārde, menningarmálaráðherra Lettlands, sem var í heimsókn hér á landi og vildi meðal annars fræðast um starfsemi Hörpu.

Seinna um kvöldið fórum við Anna á sýninguna “Í hennar sporum” sem sýnd er í Tjarnarbíói. Þetta er einleikur sem saminn er og leikinn af Svanlaugu Jóhannsdóttur. Við hjúin skemmtum okkur prýðilega.

Föstudaginn var ég á málþingi um samgöngumál í ráðhúsinu.

Samúel Torfi Pétursson flytur erindi um Miklubraut í Stokk.

Eins og við “góða fólkið” eigum að venjast voru grænar og mjúkar áherslur í samgöngumálum efst á baugi: Göngugötur, borgarlínan, deilisamgöngur.

Samúel Torfi Pétursson hélt fróðlegt erindi um Miklubraut í stokk og skipulag nýja Kringlusvæðisins.

Frá ráðhúsinu fór ég á landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga og hlustaði þar meðal annars á Þórdísi Lóu halda erindi um samgöngumál. Annars voru veggjöld heilmikið til umræðu á fundinum. Fólk var beðið um að lýsa afstöðu til veggjalda í einu orði. Niðurstöðurnar voru eftirfarandi, sem ætti að teljast eitthvað fréttnæmt.

Á laugardaginn var tilkynnt að ákveðið hafi verið að gefa gestakort Reykjavíkur til þeirra farþega sem keyptu miða með Wow Air og eru strandaglópar á landinu. Þetta “tilboð” gildir fram á þriðjudaginn.

Borgin er aðili að gestakortinu. Ég er ánægður með þetta framtak og styð það. Þetta kostar ekki mikið en er fallegur gestrisnisvottur. Til viðbótar skapar þetta jákvætt umtal um Ísland og Íslendinga sem gestgjafa þegar ákveðin þörf er á slíku.

Leave a Reply

Your email address will not be published.