Þvottakarfan: Barnamenning, skólamál í N-Grafarvogi, spjallað um frjálslyndi.

Á mánudag tók ég á móti sendinefnd skólafólks frá Kaunas – næststærstu borgar Litháen. Ég gerði það í hlutverki mínu sem varaformaður skóla- og frístundaráðs. Gestirnir spurðu um skólakerfið almennt, fengu kynningu á menntastefnunni og spurðu um stöðu barna af erlendum uppruna almennt. Síðan tók við dagskrá í vikunni það sem þau töluðu við alvöru-fagfólk og heimsóttu skóla.

Síðan tók við fundur í menningar-, íþrótta- og tómstundarráði. Samþykkt var að hefja að skoða reglur vegna styrkja og borgarhátíða fyrir næsta ár, en stóru borgarhátíðarnar fjórar, Airwaves, Hönnunarmars, Hinsegin Dagar og RIFF eru með styrk út 2019.

Af fundi MÍT fór ég í Hörpu til að opna Reykjavíkurskákmótið. Í stuttri ræðu minni minntist ég að það hvernig skákin hjálpaði mér að tengjast jafnöldrum mínum þegar ég kom fyrst til Íslands frá Póllandi, 8 ára og mállaus á íslensku.

Á þriðjudaginn fór ég, ásamt mörgum öðrum borgarfulltrúum á opnunarhátíð Barnamenningarhátíðar í Hörpu. Jón Jónsson flutti lag barnamenningarhátíðar í ár og dagskráin sem stóð yfir í klukkutíma var hin fínasta.

Að því loknu var haldið á fund skóla- og frístundarráðs, sem að þessu sinni var haldinn í fundarherbergi í Hörpu. Á fundinum var meðal annars samþykkt að gera breytingar á samstarfssamningum við tvo sjálfstætt rekna leikskóla, Sælukot og Barnaheimilið Ós, sem auðveldar þeim að taka inn börn á aldrinum 12-18 mánaða. Þetta er í anda þeirrar stefnu sem búið er að móta að jafnt borgarreknir leikskóla sem aðrir geti fjölgað ungbarnadeildum hjá sér og er hluti af Brúum bilið – pakkanum. Við í Viðreisn erum afar ánægð með þessa þróun.

Á miðvikudagsmorgun mætti ég á óformlega opnun Hins hússins við Rafstöðvarveg. Það eru auðvitað talsverð breyting að Hitt húsið sé að fullu farið úr miðbænum og í Elliðarárdalinn, en hluti starfseminnar hafði reyndar þegar flust í bygginguna við hliðina á. Húsnæðið er bjart, fallegt og nútímalegt og bíður upp á ýmsa möguleika.

Seinna um kvöldið voru borgarfulltrúar boðaðir á fund um skólamál í Staðarhverfi. Uppi eru hugmyndir breytingar á skólahaldi í N-Grafarvogi sem myndu þýða einn safnskóla í 6-10 bekk, tvo aðskóla í 1-5 bekk og að starfsstöðin í Korpu myndi leggjast af.

Ágætlega var mætt á fundinn af hálfu kjörinna fulltrúa. Frá Viðreisn mættum við Gunnlaugur Bragi. Frá Samfylkingu komu Skúli Helgason, Hjálmar og Sabine. Alexandra Briem mætti frá Pírötum og Líf Magneudóttir frá VG.

Úr minnihlutanum mætti Sanna frá Sósíalistum og svo komu Valgerður, Örn, Egill, Inga María og Ólafur Kr. frá Sjálfstæðisflokknum. Enginn koma frá Flokki fólksins eða Miðflokknum.

Mér þótti fundurinn góður, og það var gott að hitta foreldana í hverfinu þótt svo að skoðanaskiptin hafi stundum verið heit, en skárra væri það nú. Ég hefði að sjálfsögðu ekki lagt til að þessi mál væru skoðuð af fullri alvöru ef ég teldi ekkert unnið með þessum hugmyndum. Sú vinna er í gangi. Við munum líka vera með rýnihópa foreldra, íbúa, starfsfólks og nemenda til að ná í sem breiðastar skoðanir úr öllum norðanverðum Grafarvogi.

Á fimmtudeginum hljóp ég í skarðið fyrir Lóu í borgarráði. Ég var því svo heppinn að fá að vera á staðnum þegar úthlutunaráætlun vena nýrrar byggðar í Skerjafirð var samþykkt.

https://reykjavik.is/frettir/uthlutunaraaetlun-fyrsta-afanga-nyrrar-byggdar-i-skerjafirdi-samthykkt

Svæðið séð úr lofti

Stækkun Skerjafjarðar mun raunar þýða að það skapast aftur grundvölllur fyrir skóla í Skerjafirði. Það var einu sinni grunnskóli í hverfinu en hann var lagður niður skömmu eftir stríð og síðan þá hafa nemendur í hverfinu gengið í Melaskóla.

Á fimmtudaginn tók ég einnig á móti segli um skjátíma barna sem foreldrafélög í Breiðholti hafa tekið þátt í að útbúa. Ég hef aldrei litið svo á að tölvuleikir séu börnum hættulegir. Ég get samt vottað að það er mín reynsla að hófleg viðmið, og jafnvel óhófleg viðmið, en samt viðmið, eru sniðug.

Segullinn sem ég tók á móti var á pólsku.

Á föstudag mætti ég svo á fund á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um samgöngumál.

Sigurður Ingi Jóhansson ávarpaði fundinn. Það var góður samhljómur í hópnum um mikilvæg verkefni á borð við Borgarlínu og ég er nokkuð bjartsýnn á að það styttist í samkomulag um fjármögnun hennar.

Loks var mér boðið að halda erindi á spjallkvöldi hjá Samtökum frjálslyndra framhaldsskólanema. Ég ræddi um ýmsar skilgreiningar frjálslyndis, sumar þröngar aðrar víðari, grunnkreddur frjálslyndisstefnunnar, muninn á frelsisthugtakinu til forna og nú og fleira svona háfleygt. Síðan tók við spjallhringur að það var mikið rætt um ESB og fleira í þeim dúr. Fundurinn var haldinn í húsnæði Viðreisnar.

Hér er mynd af mér með hluta þátttakenda.

Leave a Reply

Your email address will not be published.