Stefnuyfirlýsing 2022

Ég býð mig fram til áframhaldandi starfa sem borgarfulltrúi Reykjavíkinga. Hér eru þau mál sem ég vil leggja áherslu á næsta kjörtímabili hljóti ég brautargengi í prófkjöri Viðreisnar og borgarstjórnarkosningunum í vor.

(Græn og þétt borg) Við þurfum að halda áfram á þeirri braut að þétta byggð og gera vistvænum fararmátum hátt undir höfði. Góð borg er borg þar sem gott er að ganga og hjóla.

(Hjólastígar) Klára þarf samfellt hjólastíganet fyrir borgina. Borgin á að taka þátt í uppbyggingu virks hjólanets á SV-horninu þar með talið að beita sér fyrir góðri hjólaleið milli Reykjavíkur og Suðurnesja og tryggja örugga hjólaleið að Grundarhverfi á Kjalarnesi.

(Borgarlína) Fylgja ætti ítrustu BRT-stöðlum við hönnun Borgarlínu, svokölluðum Gull-staðli. Á Suðurlandsbraut skulu vera ein akrein í hvora átt fyrir almenna umferð og ein fyrir borgarlínu. Hverfisgata verði einungis fyrir Borgarlínu í aðra átt en í hina áttina verði staðbundin umferð verði heimiluð í bland við Borgarlínu.

(Byggð í Vatnsmýri) Flýta skal eins og kostur er flutningi flugvallar úr Vatnsmýri. Byggja þarf á fleiri reitum umhverfis flugvöllinn. Ég styð fyrirhugaða landfyllingu í Skerjafirði.

(Bílasæði) Stækka ætti gjaldsvæði bílastæða og lengja gjaldskyldutímann. Til lengdar ættu stæði innan Hringbrautar og Snorrabrautar ættu að vera gjaldskyld, sem og stæði við háskóla. Lengja þarf gjaldskyldutímann. Beita ætti eðlilegri verðlagningu á landi til að ákvarða fjölda bílastæða frekar en að nota reglur um lágmarks- eða hámarksfjölda þeirra.

(Húsnæðisuppbygging) Lóðaúthlutanir skulu tryggja framboð og jafna sveiflur á húsnæðismarkaði. Lóðum á að úthluta á markaðsforsendum og á markaðsverði. Endurskoða ætti á samningsmarkmið um fjölda leiguíbúða hverri lóð.

(Samkeppnisrekstur) Sveitarfélög eiga að halda að sér höndum varðandi verkefni sem einkaaðilar geta sinnt og hvetja til frjálsrar samkeppni. Ljúka skal við sölu Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Skoða skal sölu dótturfyrirtækja Orkuveitunnar á borð við Gagnaveitunnar og valda þætti í rekstri Carbfix.

(Sorpinnviðir) Skoða ætti að selja eða bjóða út valda þætti í rekstri Sorpu. Komi til þess að reisa þurfi eða sorpbrennslustöð á Íslandi er má að gera það í samstarfi opinberra aðila og einkaaðila til dæmis með svokölluðu PPP-fyrirkomulagi þar sem einkaaðilar reisa stöðina ogreka hana í ákveðinn tíma.

(Rekstur Strætó) Bjóða ætti út allan akstur Strætó en láta byggðasamlagið annast utanumhald um farmiðasölu strætókerfið sjálft. Auka má hlutdeild farmiðasölu í tekjum strætó. Strætó á ekki að vera ókeypis.

(Bílastæðahús) Selja ætti bílastæðahús eða bjóða rekstur þeirra út til að tryggja samkeppni og stuðla að eðlilegri verðmyndum. Færa mætti innheimtu bílastæðagjalda og eftirlit með þeim í hendur einkaaðila. 

(Stjórnsýsla) Fækka skal enn frekar ráðum og sviðum borgarinnar með sameiningum. Leggja má niður íbúaráð borgarinnar en efla þess í samstarf við lýðræðislega og sjálfsprottin íbúasamtök.

(Hagræðing) Halda skal hagræðingarkröfu á bilinu 1-2% hið minnsta á næsta kjörtímabili. Efla þarf teymisvinnu innan stjórnsýslunnar í stað þess að ráða fólk í afmörkuð verkefni. Starfsfólki borgarinnar á ekki að fjölga nema þá í leikskólum vegna þess verkefnis að tryggja öllum börnum daggæslu frá 12 mánaða aldri.

(Styrkir) Samkeppnissjóði borgarinnar þarf að styrkja og fækka þeim. Stíga þarf varlega til  jarðar þegar kemur að því að fjölga þeim aðilum sem njóta varanlegs frarmlags frá borginni, t.d. vegna reksturs á húsnæði.

(Gjaldskrár) Ég vil ekki fjölga þeim sem fá ókeypis inn á söfn eða í sund. Í þeim tilfellum sem valið stendur milli þess að hækka gjaldskrár eða að skerða þjónustu styð ég gjaldskrárhækkanir.

(Skattar) Rétt er að skoða áframhaldandi lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði t.d. niður í 1,55%. Í samstarfi við ríkið þarf að setja skýran ramma um innviðagjöld og sameina þau gatnagerðargjöldum. Borgin ætti ekki að setja fram kröfur um heimild til að hækka útsvar.

(Íþróttaaðstaða) Ég styð þá forgangsröðun íþróttamannvirkja sem unnin var í samstarfi við íþróttahreyfinguna. Ég hef efasemdir um þátttöku Reykjavíkur í uppbyggingu þjóðarleikvangs í knattspyrnu. Uppbygging aðstöðu í innigreinum í Laugardal skal fyrst og fremst miðast við að leysa þarfir barna og unglinga sem æfa í hverfinu.

(Fjármögnun íþróttastarfs) Rétt er að skoða að stærri hluti íþrótta og tómstundastarfs verði fjármagnaður með frístundastyrkjum, sér í lagi starfsmannamál og húsaleiga. Þar með yrði rekstur minna háður ákvörðunum stjórnmálamanan og réðist einfaldlega af áhuga neytenda þjónustunnar.

(Listalíf) Þegar kemur að stuðningi við menningu og listir skynsamlegt að efla samkeppnissjóði fyrir sjálfstætt starfandi listafólk og listahópa. Standa þarf vörð um faglega úthlutun úr sjóðunum.

(Húsnæðisaðstoð) Skilvirkasta leiðin til að hjálpa fólki sem þarf aðstoð með sín húsnæðismál er með beinum fjárstuðningi í formi húsnæðisbóta. Á það einnig við um þarfir heimilislauss fólks annarra sem búa við óöruggt húsnæði. Efla þarf samstarf við einkaaðila og góðgerðarsamtök í þessum málaflokki.

(Skólahald) Ég styð samstarf við sjálfstætt starfandi grunn- og leikskóla tel að það eigi að efla. Standa þarf vörð um faglegt sjálfstæði kennara. Ráðningastefna borgarinnar á að tryggja að hlutfall fagmenntaðs starfsfólks sé sem jafnast milli hverfa. Efla þarf móðurmálskennslu barna í grunnskólum í samstarfi við grasrótarsamtök.

(Samskiptareglur) Ég svara fjölmiðlafólki innan 48 tíma. Ég tala ekki off-the-record. Ég skrái allar gjafir og alla fundi með hagaðilum og sú skrá er opinber. Ég svara tölvupóstum frá borgarbúum og beini fólki í réttan farveg. Ég stend með eigin sannfæringu en hlusta á raddir allra, líka þeirra sem eru ósammála mér.

Pawel Bartoszek

Reykjavík, febrúar 2022