Þvottakarfan: Íþróttastefna, skólasameiningar og hlaup

Ég ætla að reyna að temja mér að halda dagbók um störf mín í borginni. Ég reikna með að reyna að birta um helgar, á laugardögum eða sunnudögum. Nafnið vísar til að þess að þetta verður svolítið eins og að taka upp úr þvottavélinni og hengja á snúru. Sumt kemur bara upp, sumt litast af öðru og sumt passar alls ekki saman við neitt annað en þarf samt að hengja upp svo það úldni ekki.

***

Á mánudaginn var haldinn fyrsti fundur í stýrihóp um mótun nýrrar íþróttastefnu Reykjavíkur til ársins 2019. Ég er formaður hópsins. Með og í hópnum eru fulltrúar úr pólitíkinni, fulltrúar frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur og embættismenn borgarinnar. Verkefnið er að skoða umgjörð íþrótta í Reykjavík, svæðaskiptingu hverfafélaga, mannvirkjamál, rekstrarumhverfi íþróttafélaga og nokkra aðra hluti. Við áætlum að skila í ársbyrjun 2020.

Sama dag var einnig haldinn fundur í menningar-, íþrótta- og tómstundarráði, þar sem ég er formaður. Eftir að íþrótta- og tómstundarráð og menningar-, og ferðamálaráð voru sameinuð höfum við haldið því fyrirkomulagi að fundirnir eru til skiptis helgaðir íþróttamálum og menningamálum, sem léttir álagi á starfsfólki. Þessi fundur var þannig helgaður ÍTR málum.

Fundargerðina má sjá hér: https://reykjavik.is/fundargerdir/fundur-nr-15-1

Fundurinn var í sjálfu sér ekki mjög tíðindamikill. Pólitískasta afgreiðslan snerist um tillögu Flokks fólksins um að fólk gæti notað frístundastyrki til að kaupa miða í sund. Þeir sem mig þekkja vita að til eru voru einlægari stuðningsmenn frístundakorta en það verður þó viðurkennast að reynslan hefur almennt verið jákvæð. Það má raunar alveg skoða að rýmka notkunarreglur, til dæmis að heimila notkun í styttri námskeið eða falla frá kröfu um að styrkirnir séu einungis greiddir til félaga ekki einstaklinga. En sú nálgun að leyfa fólki að kaupa staka miða í sund hefði kallað á það að opna á bíómiða, leikshúsmiða o.s.frv. Þá erum við farin að færast nær óbundnum fjárstuðningi með hverju barni. Sem er svo sem umræða sem má taka en ég held að umræðan sé sem stendur ekki á þeim stað.

***

Ég mætti á fundi með starfsfólki tveggja leikskóla, Hólaborgar og Suðurborgar. Fram hafði komið tillaga um sameiningar þeirra sem búið er að breyta í samrekstur á yfirstjórn. Seinna um daginn voru fundir með stjórnum foreldraráða sem ég komst ekki á en ráðgert er að funda aftur í næstu viku.

Þessi mál og önnur voru rædd á fundi skóla- og frístundaráðs á þriðjudaginn. Eins og einhverjir vita er einnig verið að skoða mögulegar breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi. Annars vegar eru uppi hugmyndir að færa nemendur úr Kelduskóla-Vík sem er orðinn mjög fámennur og síðan breytingar/sameiningar á unglingastigi.

Í öllum þessum dæmum eru sóknarfæri á að skapa öflugri skólasamfélög og öll dæmin eiga, til lengri tíma litið að stuðla að hagkvæmari rekstri, sem eru auðvitað mikilvæg rök, þótt þeim sé ekki alltaf vinsælt að halda til haga. En auðvitað er mjög eðlilegt að allar svona hugmyndir vekji upp spurningar og áhyggjur. Við ákváðum á þriðjudaginn að setja af stað starfshóp til að skoða þessi mál og koma með tillögur. Við ákváðum að starfshópurinn myndi kalla til rýnihópa valda með slembiúrtaki til að fá fram viðhorf nemenda, foreldra, íbúa og starfsmanna.

Það er nefnilega tvennt sem má fullyrða: a) borgin mun af og til þurfa að ráðast í einhverjar skipulagsbreytingar í starfsemi sinni b) við gætum klárlega verið betri í að framkvæma slíkar breytingar.

***

Annars mótuðust störf vikunnar í skólamálum borgarinnar óneitanlega af því að reynt er að leysa úr vanda Fossvogsskóla húsnæði hvers er ekki í nothæfu ástandi vegna myglu. Um tíma leit út fyrir að lausn myndi finnast í húsnæði í Kópavogi. Það gekk ekki eftir. Nú er lítur út fyrir að kennsla fari fram í ýmsum húsum í Laugardal. Ég skil auðvitað óþreyju foreldra og gagnrýni. Ég get einungis sagt það sem ég sé með augum: að starfsfólk borgarinnar vinnur nótt sem dag við að finna lausn á þessu máli.

***

Ég fylgdist, líkt og aðrir, með afsögn Sigríðar Ásthildar Andersen í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu. Ég kom að því að staðfesta skipan þessara dómara á þingi á sínum tíma. Í því samhengi má eflaust gagnrýna mig, og aðra í ferlinu, fyrir margt, og stundum eflaust með réttu. Það mun koma tími til að fara yfir það allt saman, en ég ætla ekki gera það í dag.

Sem stendur endurtek ég bara það sem ég sagði á Twitter, að ég óska Þórdísi Kolbrúnu velfarnaðar í starfi. Hef haft heiður af því að þekkja hana í meira en áratug, hún er úr efstu hillu.

***

Ég fór á opnun listasýningarinnar Non Plus Ultra eftir Steinunni Önnudóttur á fimmtudaginn.

http://listasafnreykjavikur.is/syningar/d36-steinunn-onnudottir-non-plus-ultra

Sýningin er í Listasafni Reykjavíkur, Hafnahúsi.

***

Seinasta Powerade hlaup vetrarins fór fram á fimmtudaginn. Þetta eru 10 km hlaup í Elliðarárdalnum sem eru fastur liður í vetrardagskrá hvers hlaupara. Mér hefur tekist að halda hlaupum í gangi samhliða störfum í borgarstjórn og það er ég þakklátur fyrir. Að því leyti er borgarstjórn mannvænni vinnustaður en þingið þar sem kvöld og næturfundir eru regla.


Stefni svo á að hlaupa alla vega tvö maraþon í ár. Eitt í Kraká í lok apríl og svo í náttúrlega Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst.

***

Á föstudegi hófst dagurinn á fundi í forsætisnefnd þar sem næsti borgarstjórnarfundur var undirbúinn. Síðan fór ég meðal annars á fræðslufund SSH þar sem íslenskir kennarar sem farið höfðu til Norðurlanda að fylgjast með kennslu nemenda með annað móðurmál og deildu reynslu sinni. Þetta voru 5 erindi, flest mjög fróðleg. Sérstaklega var forvitnilegt að lesa um reynsluna af tveimur skólum í Rosengård hverfinu í Malmö, en þar eru nánast allir nemendur með innflytjendabakgrunn.

***

Það er ýmislegt að frétta af starfi Viðreisnar. Borgarstjórnarflokkurinn lauk í vikunni við 4 funda fundaröð þar sem farið var yfir stefnumál flokksins frá seinustu borgarstjórnarkosningum, staðan skoðuð og línur lagðar fyrir næstu 1-2 ár. Sú vinna heldur áfram og mun birtast með ýmsum hætti á næstu vikum og mánuðum.

***

Vinnuvikunni lauk svo með skemmtilegri vísindaferð Tinktúru- félags lyfjafræðinema í höfuðstöðvar Viðreisnar í Ármúlann.

Annars bendi ég auðvitað áhugasömum á að taka þátt í starfi Viðreisnar. Hér er hægt að ganga í flokkinn. Þá er Viðreisn með vikulega fundi þar sem tekin eru fyrir ýmis mál. Fundirnir eru að jafnaði kl. 11:30 á laugardögum. Sá síðasti fjallaði til dæmis um viðhorf til geðnæmra.


Leave a Reply

Your email address will not be published.