Það vantar íslensku á Duolingo

Heimild: Notandi: bergenhopps

Ein vinsælasta síða til að læra tungumál á netinu heitir Duolingo. Þar er boðið upp á fullt af tungumálum til að læra, þar á meðal jíddísku, esperanto, eitthvað Game of Thrones tungumál, auk þess sem klingónska er rétt ókláruð. En íslenskunámskeið er ekki á leiðinni.

Það er oft talað um stöðu íslenskunnar í á internetinu og margir stjórnmálamenn vilja leggja miklar fjárhæðir í rannsóknir og þróun á ýmiskonar tækni.

Ég játa það að ég er ekki alltaf viss um sú nálgun sé best ef við hugsum hvernig við nýtum peningana best. Tækniframþróun er alltaf háð óvissu. Margt annað má gera. Íslenska wikipedia er til dæmis lítil (sjá: https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Wikipedias). Að fjölga greinum er ekki háð neinni óvissu, það einfaldlega kallar á tíma/peninga, og ég get til dæmis ímyndað mér mun verri nýtingu á tíma háskólanema á sumrin en að stækka hana. Það myndi auka sýnileika íslenskunnar gagnvart ungu fólki sem er að leita að upplýsingum, efla fagorðaforða ofl.

Ég veit lítið um íslenskukennslu en mér fyndist það frábært ef einhver reyndur og virtur fræðimaður myndi sækja um að ritstýra íslensku Duolingo – námskeiði og fá 3-5 nema á Rannís-styrk með sér í lið. Þetta kallar ekki einu sinni á ný fjárútlát, því sjóðirnir eru þegar til staðar og styrkja verkefni sem hafa síður meira notagildi.

Þegar slíkt námskeið væri komið myndi fólk fljótt bjóða sig fram til að þýða það yfir á pólsku, litháísku og önnur mál sem innflytjendur á Íslandi tala. Ég held að það myndi gera mjög jákvæða hluti fyrir tungumálið okkar.

Skildu eftir svar