Klappað rangt – Undir stjórn Jaruzelskis 20/100

Meira mál en þig grunar. CC-BY-SA 3.0 Evan-Amos.
Meira mál en þig grunar. CC-BY-SA 3.0 Evan-Amos.

Eitt sinn meðan ég bjó í tveimur löndum velti ég því fyrir mér hvor bekkurinn af þeim sem ég tilheyrði væri betri í fótbolta. Ég komst tiltölulega fljótt á þá niðurstöðu að það hlyti að vera sá íslenski. Á Íslandi æfði annar hver strákur fótbolta. Í Póllandi æfði enginn neitt.

Það verður vissulega að viðurkennast að Sanok var kannski ekki hjarta alheimsins og ekki hægt að æfa allt. En þetta hafði samt með ákveðið viðhorf að gera. Á Íslandi æfðu krakkar íþróttir, eða lærðu á hljóðfæri, því að þau (eða foreldrar þeirra) höfðu valið það. Í Póllandi undir stjórn Jaruzelskis voru það áhugamálin sem völdu mann en ekki öfugt.

Allt tengdist þetta ákveðinni oftrú á hæfileikum sem einkenndi mörg þessara ríkja. Menn höfðu „tónlistarhæfileika“ eða „íþróttahæfileika“. Og það borgaði sig ekki að kenna neinum sem ekki hefði þessa „hæfileika.“

Þegar pabbi var lítill hafði einhver útsendari tónlistar komist að því að hann hefði „tónlistarhæfileika“. Fyrir vikið æfði hann túbú, fiðlu, pianó uns hann komst loksins að því að eina sem veitti honum raunverulega ánægju var að spila á gítar á djamminu.

En já, það gekk svona fólk um fyrstu bekki grunnskóla. Leitandi að hæfileikum. Ég man þegar það kom til mín. Maður átti að klappa með einhverju lagi. Ef maður klappaði á 2 og 4 þá var maður greinilega með hæfileika. Ef maður klappaði á 1 og 3 þá var maður ekki með hæfileika. Ég klappaði á öllum atkvæðum orðanna í laginu. Svona:

 X   X  X X   X   X  X
Gekk ég yfir sjó og land.

Fyrir vikið var ég örugglega úrskurðaður óhæfur til tónlistarnáms. Ég fékk reyndar síðan gítar þegar ég var 17 ára og kann alveg að spila Wonderwall á djamminu. En sú sannfæring að til væri eitthvað sem héti „taktvísi“ sem væri af-eða-á eiginleiki hélst í mér ansi lengi. Ég var sannfærður vel fram yfir tvítugsaldur að til væri fólk sem væri taugafræðilega fært um að slá tvo takta sem sitthvorri hendinni, og svo fólk sem gæti það ekki. Ég taldi mig svo tilheyra síðari hópnum. Hóp hinna taktlausu.

Það var svo með þegar einhverjir kapitalistar sett á markað leikina Guitar Hero og Rock Band að ég keypti mér svona kitt með trommusetti og byrjaði að tromma. Nú get ég trommað Wonderwall upp í fimm stjörnur í Expert Mode. Af því leiðir að að minnsta kosti eitt af eftirfarandi hlýtur að vera satt:

  1. Trommuleikur Oasis er svo fábrotinn að jafnvel taktlaus maður getur náð honum.
  2. Skipting fólks í taktvíst og taktlaust er réttmæt en ég var bara ranglega greindur taktlaus meðan ég er í raun og veru taktvís.
  3. Sú pæling að mældir hæfileikar ungra barna (en ekki áhugi) eigi að ráða því hvort þau fái að leggja stund á tómstundariðju er kjaftæði. Þetta er mest spurning um æfingu.

Skildu eftir svar