Ísland tækifæranna: Vinnumarkaður

Aðgengi innflytjenda að íslenska vinnumarkaðnum mætti vera miklu betra. Ísland stendur enn lakast að vígi allra Norðurlanda í þeim samanburði.

Þessari umfjöllun verður skipt í þrennt:

 1. Einkageirinn
 2. Opinberi geirinn
 3. Sjálfstætt starfandi

Hér verður fjallað um hvern þessara hluta og lagðar breytingar.

Einkageirinn

Byrjum á einkageiranum og byrjum á því sem er jákvætt. Á Íslandi er tiltölulega lítið um lög sem með sértækum hætti takmarka aðgengi útlendinga að tilteknum störfum í einkageiranum. Það eru engar sérstakar reglur, mér vitandi, um að lögmenn, blaðamenn eða atvinnubílstjórar þurfi að vera með íslenskan ríkisborgararétt. Sem er gott.

En hið almenna aðgengi útlendinga utan EES að vinnumarkaðnum í heild sinni er því miður ekki nægilega gott. Dvalar- og atvinnuleyfi eru veitt tímabundið til 1-2 ára í senn. Þá eru leyfin bundin við tiltekið starf hjá tilteknum vinnuveitanda.

Hér mætti hugsa sér ýmsar breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem verið gætu til bóta.

Í fyrsta lagi mætti hugsa sér kerfi þar sem hægt væri að veita opið atvinnuleyfi innan ákveðinnar starfsstéttar. Dæmi: Í túristalöndum vantar til dæmis alltaf kokka. Kokkur sem kemur til Íslands um þessar mundir mun finna vinnu, við þurfum því ekki að binda atvinnuleyfi hans við tiltekinn veitingastað.

Nokkur lönd eru með slíka „jákvæða lista“, lista af starfaflokkum þar  sem gera má ráð fyrir að atvinnuleyfið verði nokkuð örugglega veitt.

Hér má finna dæmi um slíka lista:

Danmörk, Kanada

Þá mætti hugsa sér að í ákveðnum atvinnugreinum, þar sem sérhæft starfsfólk er sérstaklega eftirsótt (til dæmis í tækni- og vísindagreinum, en ekki bara) myndu dvalarleyfin gefa víðtæk mjög réttindi. Þar er oft um að ræða fólk sem tekur ákvörðun um að flytjast búferlum með alla fjölskylduna og vill síður gera það ef það heldur að það þurfi að flytja til baka vegna lagalegrar óvissu.

Frakkar bjuggu nýlega til slíkt dvalarleyfi, sem veitir fólki með meistaragráðu í tækni- og raungreinum 4 ára óbundin atvinnuréttindi ásamt því að gefa mökum þeirra sömu réttindi.

Opinberi markaðurinn

Ekki eru settar sérstakar kröfur á ríkisborgararétt hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Ríkið gerir hins vegar slíkar kröfur. Krafan um íslenskan/EES ríkisborgararétt er enn til staðar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þó að það sé reyndar tiltekið að það megi ráða aðra „þegar sérstaklega stendur á“.

Best væri einfaldlega að fella þessa kröfu burt (en hún myndi áfram gilda um embættismenn, s.s. dómara eða lögreglumenn). Það var raunar það sem þingmenn Viðreisnar lögðu til á seinasta þingi, að yrði gert.

Sjálfstætt starfandi

Byrjum á hinu jákvæða, hér á landi eru ekki settar neinar almennar eða sérstakar hömlur á atvinnurekstur eða verktöku útlendinga, hafi þeir að ótímabundið dvalarleyfi, eða séu EES-borgarar. Hins vegar eru lög um útlendinga sorglega skýr þegar kemur að réttindum fólks fyrstu árin:

Útlendingi er óheimilt að starfa hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur nema viðkomandi sé undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Þessar reglur stafa eflaust af ótta við „gerviverktöku“, eru tiltölulega nýlegar, og allt of íþyngjandi.

Almennt er ekki gert ráð fyrir að útlendingar utan EES starfi sjálfstætt, séu atvinnurekendur eða fjárfestar, aðeins launamenn. Einhver bakdyraleiðir kunna að vera til staðar fyrir fólk frá löndum sem við höfum gert viðskipta- eða fríverslunarsamninga við. En fólk frá öllum öðrum löndum má ekki vera atvinnurekendur fyrstu árin. Sem er alger sóun á hæfileikum margra.

Best væri bara að leyfa útlendingum að vinna sem verktakar, og búa til sérstök dvalarleyfi fyrir fólk í atvinnurekstri, eins og Finnar hafa til dæmis gert.

Samantekt

Hér eru semsagt tillögurnar:

 1. „Jákvæður listi“ yfir starfstéttir þar sem vantar fólk.
 2. Sérfræðileyfi gefi víðtakari rétt.
 3. Burt með kröfuna um að ríkisstarfsmenn þurfi að vera með EES-ríkisborgararétt
 4. Heimila verktöku útlendinga.
 5. Búa til atvinnuleyfi fyrir atvinnurekendur/sjálfstætt starfandi.

Í næsta pistli verður fjallað um börn og fjölskyldusameiningar.

Frístundaheimili eru ómönnuð vegna húsnæðisskorts

Höf: Salvor

Innflytjendur fá reglulega fyrirspurnir frá fólki sem vill gerast innflytjendur. Á samfélagsmiðlum má sjá fyrirspurnir á borð við þessa:

Hæ erum ungt par, langar að flytja til Íslands, hvernig er að fá vinnu?“

Algengt svar nú um stundir er: „Ef þið kunnið eitthvað í ensku fáið þið vinnu á korteri. En þið getið gleymt því að fá húsnæði.

Ég heyrði brandara sem gengur í þessum hóp.

„Af hverju var verið að fleyta kertum á Reykjavíkurtjörn?“

Svar: „Seinasta lausa leiguíbúðin gekk út.“

Það er ágætt að átta sig á þessu. Það er ólíklegt að nokkur hundruð lausar hendur finnist skyndilega meðal vinnuaflsins til að vinna á frístundaheimilum (eða í leikskólum). Það er nefnilega næga vinnu að fá og lágt launuð hlutastörf eru ekki efst á óskalistanum. Líklegast mum ástandið eitthvað lagast þegar fólk sumarstörfum leitar annað, en vandamálið hverfur ekki í bráð.

Ég segist ekki hafa lausnina, það tekur tíma að byggja hús. En það er löng hefð fyrir því að innflytjendur vinni í frístundaheimilum eða í leikskólum og læri tungumálið í gegnum gegnum samskipti við börn og samstarfsfólk. Og það er til fólk í öðrum löndum sem gæti tekið að sér mörg þessara starfa, en það bara finnur, sem stendur, ekki húsnæði til að búa í.

Það vantar íslensku á Duolingo

Heimild: Notandi: bergenhopps

Ein vinsælasta síða til að læra tungumál á netinu heitir Duolingo. Þar er boðið upp á fullt af tungumálum til að læra, þar á meðal jíddísku, esperanto, eitthvað Game of Thrones tungumál, auk þess sem klingónska er rétt ókláruð. En íslenskunámskeið er ekki á leiðinni.

Það er oft talað um stöðu íslenskunnar í á internetinu og margir stjórnmálamenn vilja leggja miklar fjárhæðir í rannsóknir og þróun á ýmiskonar tækni.

Ég játa það að ég er ekki alltaf viss um sú nálgun sé best ef við hugsum hvernig við nýtum peningana best. Tækniframþróun er alltaf háð óvissu. Margt annað má gera. Íslenska wikipedia er til dæmis lítil (sjá: https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Wikipedias). Að fjölga greinum er ekki háð neinni óvissu, það einfaldlega kallar á tíma/peninga, og ég get til dæmis ímyndað mér mun verri nýtingu á tíma háskólanema á sumrin en að stækka hana. Það myndi auka sýnileika íslenskunnar gagnvart ungu fólki sem er að leita að upplýsingum, efla fagorðaforða ofl.

Ég veit lítið um íslenskukennslu en mér fyndist það frábært ef einhver reyndur og virtur fræðimaður myndi sækja um að ritstýra íslensku Duolingo – námskeiði og fá 3-5 nema á Rannís-styrk með sér í lið. Þetta kallar ekki einu sinni á ný fjárútlát, því sjóðirnir eru þegar til staðar og styrkja verkefni sem hafa síður meira notagildi.

Þegar slíkt námskeið væri komið myndi fólk fljótt bjóða sig fram til að þýða það yfir á pólsku, litháísku og önnur mál sem innflytjendur á Íslandi tala. Ég held að það myndi gera mjög jákvæða hluti fyrir tungumálið okkar.

Miklabrautin þurfti ekki vegg

Horft inn á Klambratún frá Miklubraut.

Stærsta umferðarvandamál Miklubrautar frá Snorrabraut til Kringlumýrarbrautar er ekki „flæðið“ á akandi umferð. Stærsta umferðarvandamálið felst í því að gatan sker í sundur Hlíðarnar, með neikvæðum afleiðingum fyrir hverfið.

Barn sem býr á Barmahlíð þarf að fara yfir hraðbraut til að komast á Klambratúnið. Barn sem býr við Flókagötu þarf að  fara yfir Hraðbraut til að komast á Hlíðarenda.

Foreldrar vilja síður að börn fari yfir hraðbrautir svo börn gera það síður, eru keyrð eða fara bara ekki.

***

Framkvæmdirnar á Miklubraut pirra kannski einhverja ökumenn. En neikvæðu áhrifin á gangandi vegfarendur eru margfalt meiri. Tveimur gangbrautarljósum hefur verið lokað tímabundið og þau þriðju sett á einhvern pirrandi sífasa sem pirrar alla.

Með framkvæmdunum fáum við nýjan hjólastíg sem er vissulega ágætt. Við fáum líka fleiri akreinar, og þótt þær séu strætóreinar, þá er þetta allt bara til þess að auka umferðarmagnið í götunni.

***

Ég játa að ég veit ekki alveg til hvers þessi veggur, sem á að heita hljóðvörn, er. Ekki býr neinn á Klambratúni sem mun njóta góðs af honum. En hann lokar götuna hins vegar af.

Sá sem keyrir á þriggja akreina vegi með vegriði í miðjunni og vegg á hægri hlið finnst hann vera á hraðbraut. Ef hann sér enga gangandi vegfarendur, engin hús, engin börn, engin hjól, hvað gerir hann þá?

Hann gefur bara í.

 

Póstkassinn heima tilgangslaus

Þegar kemur að póstsendingum flokka ég hluti í tvö mengi:

 1. Hlutir sem ég myndi vilja fá senda heim
 2. Hlutir sem komast fyrir í póstkassann minn

Sniðmengi þessara tveggja mengja er tómt.

Nánast allt sem fæ sent heim gæti ég verið án, eða gæti fengið sent með rafrænum hætti. Þetta eru fríblöð, auglýsingar, staka yfirlit og tilkynningar. Allt þetta gæti tölvupóstur bjargað fræðilega séð. En allt þetta kemst fyrir póstkassann svo það kemur heim til mín.

En svo eru vissulega hluti sem ég myndi vilja fá senda heim. Til dæmis:

 • Matur
 • Raftæki
 • Húsgögn
 • Klósettpappír

Þessir hlutir eru hins  vegar of stórir til að komast fyrir í póstkassann svo pósturinn sendir þá ekki heim.

Vissulega er hægt að PANTA það að fá hluti senda heim en þá þarf maður að vera heima í fimm tíma allt kvöld og bíða rólegur… af því að það er ekki bara hægt að setja hluti í póstkassann, sjáiði til.

Með aukinni samkeppni á póstmarkaði kemur vonandi einhver og finnur frumlegri lausn á þessu vandamáli, því eins og stendur þá er verið að reka dýrt dreifikerfi fyrir hluti sem þarf ekki að dreifa og vonlaust dreifikerfi fyrir það sem hugsanlega væri gagn af að dreifa.

KKÍ hætti að mismuna

CC-BY 2.0. Höf: Klearchos Kapoutsis

Körfuknattleikssamband Íslands er með hámark á fjölda erlendra leikmanna á vellinum. Hámarkið er einn.

Þetta er augljóst brot á EES samningnum. Króati sem vill fá vinnu hjá íslensku körfuboltaliði verður að keppa um eina lausa sætið við Bandaríkjamenn og alla aðra. Íslendingur hefur miklu meiri séns á að komast í liðið. Það er augljóst brot á EES-samningnum.

Reyndar er gerð sú undantekning að þeir útlendingar sem hafa haft lögheimili á Íslandi í 3 ár falla teljast ekki undir þetta lengur. Einhverjum kann að hljóma eins og það geri þetta skárra en það gerir það það ekki.  Í fyrsta lagi er enginn að fara að koma til Íslandi til að spila ef hann þarf fyrst að bíða í 3 ár eftir að fá að gera það. Í öðru lagi er þessi búsetukrafa ekki gerð þegar Íslendingar eiga í hlut svo þetta er augljóst brot á EES-samningnum.

KKÍ má þetta vera ljóst og sambandið hlýtur að vita það. Enda er Eftirlitsstofnu EFTA búin að lýsa því yfir að þetta sé brot.

Nú er beðið viðbragða íslenskra stjórnvalda. Stjórnvöld eiga að biðja KKÍ um að breyta reglum sínum. Gangi það ekki á að setja lög sem leggja bann við að sett séu hámörk á fjölda EES-borgara í keppnisleikjum. Raunar mætti ganga lengra mín vegna. Ég sé ekki af hverju það ættu að vera nokkur takmörk yfir höfuð.

Nýjasta óskabarniðÁ Íslandi er alltaf pláss fyrir eitt fyrirtæki sem fólk dýrkar.

Þetta fyrirtæki er bjargvætturinn. Þetta fyrirtæki breytir því hvernig Íslendingar sjá sjálfa sig. Allt sem þetta fyrirtæki gerir er gott. Allt sem gert er til að torvelda þessu fyrirtæki vinnu sína er slæmt og illa séð. Stjórnendur fyrirtækisins eru klárt fólk sem getur kennt okkur margt. Allir háskólanemar vilja fá sumarstarf hjá fyrirtækinu.

Ætli Eimskip sé ekki eitt fyrsta þannig fyrirtækið. Óskabarnið. Á minni lífsstíð á Íslandi man ég alla vega eftir:

Bónus,
Decode,
Kaupþing (og hinum bönkunum),
CCP
CostCo.

Bónus var Costco síns tíma. Þarna kom einhver inn á markaðinn og breytti öllu. Skyndilega kom búð þar sem allt var ódýrara. Búðin leit út eins og vörulager, fyrirtækið þótti nastý við birgja og gæðin stundum umdeilanleg. En menn lækkuðu verð og fyrir vikið var margt annað fyrirgefið.

Decode setti okkur á kortið. Litla Ísland gat orðið vagga framfara í erfðavísindum. Hámenntaðir erlendir vísindamenn mættu til landsins. Hámenntaðir Íslendingar fluttu heim. Allir fengu ógeðslega mikið borgað. Fjárfestar höfðu trú á verkefninu. Almenningur fjárfesti í verkefniu. Reynt var í tvígang að setja sérstök lög til að auðvelda fyrirtækinu að stunda ákveðinn rekstur (lög um gagnagrunn / ríkisábyrgð á lyfjaframleiðslu).

Kaupþing og hinir bankarnir gáfu Íslendingum trú á eigin getu. Skyndilega voru íslensku bankarnir ekki bara einhverjir lúðasparisjóðir sem börðust um sparifé unglinga með því að bjóða þeim íþróttatöskur og rakspíra. Nei, nú sáu Íslendingar um eignastýringu fyrir þá allra stærstu og óðu inn á nýja markaði, opnuðu útibú hingað og þangað og kepptu við þá allra bestu. Og allmargir voru bara ansi ánægðir með þetta.

CCP gaf okkur svo AFTUR trú á að við gætum gert eitthvað. Milljónir manna voru að spila íslenskan leik! Fréttaflutningur af fyrirtækinu var afar jákvæður. Sama gilti um mörg önnur tæknifyrirtæki, til dæmis Plain Vanilla. „Af hverju voru lífeyrissjóðirnir ekki að fjárfesta meiri í nýsköpun?“ spurði fólk. Í stjórnlagaráðinu notuðum við Agile Scrum til að  skrifa stjórnarskrá. Því það var það sem nýsköpunarfyrirtækin notuðu.

Costco er nýja óskabarnið og það fyrsta sem er alfarið erlent. Um daginn mátti lesa að Costco gæti átt yfir höfði sér dagsektir vegna óviðunanandi merkinga á efnavörum. Fyrstu viðbrögð margra voru eins og ef Víkingasveitin hefði stöðvað tombólu fyrir utan Melabúðina.

Auðvitað voru þetta bara samkeppnisaðilar að leggja kostnað á nýjan keppinaut með hjálp eftirlitsstofnunar en það er bara  mjög oft þannig. Og mörgum sem lenda í þessu má vorkenna meira en alþjóðlegum verslunarrisum. Ég versla stundum við pólskar búðir hér á landi sem þurfa að  líma íslenskar innihaldslýsingar ofan á pólskar pakkasúpur. Einhvern veginn ráða þær við þetta.

Costco færði Íslendingum vörur sem þeir þráðu, á verði sem þeir kunnu að meta (í magni sem þeim var ekki alltaf nauðsynlegt… en allt í lagi). Það er ekki skrítið að Costco sé nýjasta óskabarnið. Og á meðan það er þannig munu margir halda með þeim og leyfa þeim ýmislegt.

Það er gaman að vera á toppnum. En sagan kennir okkur samt að á toppnum er ekki pláss fyrir marga, menn stoppa þar stutt, og ekki víst að allir líti þá sömu augum þegar þeir loksins koma niður.

Hættulegra en MMA

Höf: Adha65 CC-BY-SA 3.0

Hópur pólskra fjallgöngumanna ætlar að klífa K2 næsta vetur. K2 hefur aldrei áður verið klifið að vetri til. Fjallið er eitt það hættulegasta í heimi en dánartíðnin á því er um 25%. Vetrartilraunir eru vitanlega enn hættulegri.

Við getum því varlega áætlað að líkurnar á því að drepast við það að reyna sigra K2 að vetri til séu nálægt 30-40%. Bardagamaður sem færi í hringinn með þessum líkum væri ekki bardagamaður heldur skylmingarþræll. Samt gerir fólk þetta, af fúsum og frjálsum vilja. Og flestir aðrir mæta þessari fífldirfsku ekki bara af umburðarlyndi heldur beinlínis aðdáun.

Aðdáunin verður svo einna mest þegar einhver deyr.

Sjálfur er ég ekki undanskilinn. Hve oft hef ég ekki lesið um misheppnaða tilraun Mallory og Irvine til að komast á Everest tind? Hve oft hef ég ekki kynnt mér afrek Wöndu Rutkiewicz, fyrstu konu til að klífa K2, og dauða hennar? Hve oft hef ég lesið fréttir og skýrslur um Broad Peak harmleikinn 2013, þegar fjórir pólskir fjallgöngumenn sigruðust, fyrstir manna, á tindinum að vetri til, en tveir þeirra frusu í hel á niðurleið? Svarið er: Furðulega oft.

Mannkynið hampar þessum dauðaslysum, gerir úr þeim hetjumyndir og allt þetta eykur áhuga á þessari háfjallamennsku frekar en hitt. Hnefaleikar eða MMA kalla ekki á sömu viðbrögð. Sumum finnst nóg að sjá slíkan bardaga til að vilja banna hann. Dauðdagi í tengslum við bardaga styrkir þá bara í trúnni um að það sé rétt afstaða.

Kannski finnst einhverjum munurinn felast í markmiðinu. Markmið með blönduðum bardagaíþróttum eða hnefaleikum sé, á einhvern hátt, að meiða. Markmiðið með fjallgöngu sé að klifra upp á fjall. En það er samt þannig að í báðum tilfellum hafa menn sannmælst um að sumar hefðbundnar siðferðisreglur gildi ekki. Í hringnum kýla menn fólk í hausinn. Að sama skapi er sumt sem fólk gerir í 8000 m hæð þannig að það yrði örugglega fordæmt við sjávarmál.

Auðvitað á ekki að banna fullorðnu fólki að labba upp á há fjöll, jafnvel þótt áhættan er mikil. Það er ekki samfélagsins að hámarka lífslíkur fólks ef fólk sjálft hefur aðrar hugmyndir um hvað gerir það glatt. En í því ljósi er merkilegt hve mikið af öðrum áhugamálum fólk er til í að banna. Jafnvel áhugamálum sem eru mun hættuminni en það að reyna klifra upp á K2.

Væri áfengi leyft í dag?

Væri áfengi leyft í dag?

Þessi spurning er oft sett fram, gjarnan í skólastofu, í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar um skaðsemi áfengis.

Sá sem ber spurninguna upp er oftast að gera það til að fá fram „nei“. Að áfengi sé það skaðlegt að það væri galið að leyfa það í dag. Að líta megi á þá staðreynd að það sé enn leyft sem söguleg mistök.

Spurningin er alls ekkert úreld. Það er skammt síðan að þeir sem vildu svara henni neitandi urðu ofan á víða í Evrópu og Ameríku. Og langflestir eru enn sömu skoðunar þegar kemur að flestum öðrum vímugjöfum. Við skulum því reyna að svara henni. Mín skoðun er að það eigi ekki að banna áfengi.

Skorkort áfengis

Skoðum lauslega áhrif áfengisneyslu. Hófleg áfengisneysla hefur af sumum vera talin geta dregið úr líkum á hjartasjúkdómum, sykursýki, gallsteinum og stundum heilabilum. En áfengisneysla, sérstaklega óhófleg veldur líka margs konar skaða frá skorpulifur til allskonar krabbameins.  Þetta eru langtímaáhrif.  Flestir neyta áfengis vegna skammtímaáhrifa. Einbeitum okkur að þeim.

Hver eru skammtíma-kostir áfengisneyslu? Og, jú, áður en fólk hneykslast á þessu orðalagi þá er augljóst að fólk á leið í partí fær sér áfengi vegna þess að það telur að því fylgi kostir. Reynum að telja upp einhverja:

[table caption=“Skammtímaáhrif áfengis“]
Kostir, Gallar
Fólk verður félagslyndara
Hlutir virðast fyndnari
Fólk syngur frekar
Fólk slappar af
Nýjar tilfinningar koma fram
[/table]

En skammtíma-gallarnir eru svo sannarlega til staðar. Reynum því að bæta þeim við töfluna.

[table caption=“Skammtímaáhrif áfengis“]
Kostir, Gallar
Fólk verður félagslyndara, Skert hreyfigeta
Hlutir virðast fyndnari, Skert dómgreind
Fólk syngur frekar, Aukin ofbeldishneigð
Fólk slappar af, Ógleði,
Nýjar tilfinningar koma fram, Skert starfsgeta daginn eftir
,Of stórir skammtar lífshættulegir
[/table]

Ef við skoðum nú þessa töflu í heilu lagi þá getum við vissulega komist að þeirri niðurstöðu að aukaáhrifin í hægridálkinum séu of slæm til vega upp á móti kostunum í þeim vinstri. Og ef við erum stjórnlynt fólk þá getum við komist að þeirri niðurstöðu að réttast væri að banna allt áfengi út af því.

Ef áfengi væri krabbameinslyf

En bíðum aðeins. Framkvæmum smá hugartilraun. Ímyndum okkur að hægri dálkurinn lýsi ekki aukaverkunum af áfengisneyslu heldur aukaverkunum af lyfi við áður ólæknandi krabbameini.

Flestir myndu auðvitað láta sig hafa krabbameinsmeðferð sem hefðu sömu skammtímaafleiðingar og áfengisneysla (enda eru flestar lyfjameðferðir í dag síst skárri). Síðan myndu lyfjaframleiðendur bara vinna að því að milda þessar neikvæðu aukaverkanir.

Niðurstaðan yrði ekki að banna slíkt lyf.

Fólk mun sækjast eftir stundaránægju

Sama hvort okkur líkar betur eða verr þá sækist fólk eftir þeim áhrifum  sem áfengi veitir. Og, það sem meira er, fólk mun halda áfram að sækjast eftir þeim.

Verkefnið ætti ekki að banna hluti sem fólk sækist eftir heldur að bæta þá. Ímyndum okkur til dæmis að einhverjum tækist að búa til „áfengi plús“, sem myndi ekki valda þynnku, ekki valda ofbeldishneigð, ekki drepa fólk úr ofneyslu og hægt væri að taka töflu í lok kvölds og keyra heim. Við værum þá komin með töflu sem liti svona út:

[table caption=“Áfengi plús?“]
Kostir, Gallar
Fólk verður félagslyndara, Skert hreyfigeta (móteitur til)
Hlutir virðast fyndnari, Skert dómgreind (móteitur til)
Fólk syngur frekar, Ógleði
Fólk slappar af,
Nýjar tilfinningar koma fram,
[/table]

Ímyndum okkur öll þau ofbeldisverk sem hægt væri að koma í veg fyrir, öll þau slys sem hægt væri að hindra ef einhverjum tækist að búa til slíkt, endurbætt áfengi. Talandi ekki um ef unnt væri hindra þau skaðlegu langtímaáhrif á heilsu sem vitað er um.

En því miður má ætla að þróun á slíku endurbættu áfengi myndi mæta andstöðu fagfólks og stjórmálamanna.

„Unglingar fara að drekka þetta“.

„Fólk mun ekki kunna sér neins hófs ef þynnkan verður ekki til staðar.“

„Stökkpallur í harðari efni.“

Allt yrði þetta sagt.

Skilum syndinni til miðaldanna

Stór hluti fólk virðist hafa þá afstöðu að það sé eitthvað rangt, jafnvel syndugt, við það að nota efnafræði til að breyta upplifun sinni af umheiminum. Þess vegna þarf að fara í stríð við rafretturnar… því nikótín er vímuefni og markmiðið er níkótínlaust samfélag. Eiturlyfjalaust samfélag. Áfengislaust samfélag.

Ég er ósammála. Markmiðið er samfélag sem virðir sjálfsákvörðunarrétt fólks, en leyfir tækninni að þróast til að fólk sem leitast eftir ákveðnum áhrifum geti fengið þau á sem skaðminnstan máta.

Þjónustan er ekki í boði fyrir þig, kennitöluleysan þín

Ég reyndi að borga fyrir bílastæði með símanum mínum í Kaupmannahöfn. Skilti á bílastæðinu bauð mér upp á þrjá möguleika.  Þrjú ólík öpp. „Æi gott, hugsaði ég. Eitthvað af þeim hlýtur að virka.“

Fyrsta appið var hægt að setja upp með því að senda sms með tilteknu orði á eitthvað símanúmer. Gerði það og fékk villuskilaboð til baka. Jæja…

Næsta app tókst mér að ná í og setja upp í gegnum Google Play Store. Og jafnvel að að opna það. En í innskráningarferlinu þurfti að slá inn símanúmer. Nokkrir landakóðar voru í boði, Danmörk og Svíþjóð og örfá önnur en Ísland ekki. Þannig að… Jæja tvö.

Þriðja forritið var ekkert að flækja málin. „This app is not available in your country.“ Og „mitt land“ var ekki landið sem ég var staddur í heldur landið sem stýrikerfið veit að ég bý í. Þannig að … Jæja numero tres.

Kortasjálfsalarnir virkuðu enn þá óháð þjóðerni svo þetta reddaðist, en djöfull er þetta orðið algengt. Maður vill kaupa einhverja þjónustu og byrjar að pikka inn óþarfa persónuupplýsingar einungis til að heyra „nei„.

Nei, vegna þess að forritarinn gerði ekki ráð fyrir að símanúmer gæti verið svona stutt eða vegna þess sá sem er að selja hafði ekki áhuga á markhópnum manns.

Þannig að menn biðja um kennitölur, símanúmer, póstnúmer og aðra eins dellu sem er algerlega óþörf fyrir viðskiptin. Stundum finnst mér þetta farið að líkjast eins konar stafrænu alþýðulýðveldi.  „Þú ert vissulega búinn að spara fyrir Trabantinum, en kvótinn fyrir háskólamenntaða í Leipzig er búinn fyrir þennan áratug.“

Þar sem ég þekki nokkuð vel til Danmerkur veit ég að Danir eru ansi slæmir með þetta. Þeim hefur tekist að gera almenningssamgöngur mjög óvinveittar útlendingum, þeir bjuggu til eitthvað sérdanskt „ferðakort“, meðan ferðamenn þurfa að staðgreiða allt. Mér tókst reyndar að kaupa einhverja afsláttarmiða í lestirnar gegnum app í fyrra en miðarnir „úldnuðu“ á einu ári. „Sorrý peningarnir þínir virka ekki lengur!“

Ekki hægt að leggja bíl með appi af maður er útlendingur

En nóg um Danmörku. Við erum sjálf örugglega litlu verri.

Hér er eitt skrefið í skráningarferlinu fyrir appið leggja.is, sem gerir fólki kleift að borga fyrir bílastæði með símanum.

Reyni maður að slá inn erlent bílnúmer koma villuboð „engar upplýsingar finnast um bílinn“. Þannig að ekki halda að þú getir tekið bílinn með Norrænu og borgað fyrir bílastæði í miðbænum með appi.

En tökum miklu algengara notkunardæmi: Ferðamaður á bílaleigubíl. Sá ferðamaður er með bíl með íslensku bílnúmeri en erlent símanúmer. Þá… nei… Það er ekki einu sinni pláss fyrir símanúmer með fleiri en 7 tölustöfum, hvað þá pláss fyrir einhverja landakóða.

En segjum nú að þessi erlendi ferðamaður, sé sjálfstætt starfandi nýsjálenskur ljósmyndari sem er hér verkefni í 2 mánuði og verður sér úti um íslenskt símanúmer. Þá kemst hann í gegnum þetta skref í skráningarferlinu en ekki mikið lengra því á næstu síðu er hann, að sjálfsögðu, að sjálfsögðu, beðinn um kennitölu. Ásamt, nafni, heimilisfangi og póstnúmeri.

Sko, ég get alveg skilið af hverju einhver myndi vilja hafa kerfið sitt tengt við þjóðskrá og ökutækjaskrá. Og leggja.is er bara fyrirtæki (líkt og dönsku fyrirtækin sem bjuggu til öppin sem ég reyndi að setja upp) sem ef til vill telur umstangið sem felst í því að selja kennitöluleysingjum þjónustu sína ekki fyrirhafnarinnar virði.

En ég get sagt að þegar ég lendi í svipuðu erlendis þá bölva ég hiklaust þarlendu samfélagi í heild sinni. Þó það sé kannski ósanngjarnt.

En samt: Ímyndum okkur að hlutur verslana í Kringlunni væri merktur með rauðbláum tígli, sem merkti „aðeins fólk með kennitölu má versla hér“. Væri það ekki frekar ógeðslegt?