Geimdagurinn – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 1/100

rocketÞegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis var haldinn svona „geim-þemadagur“ í skólanum mínum. Hápunktur dagsins var að það mætti einhver  maður í einkennisbúningi með massífan hatt. Ég ímynda mér að þetta hafi verið pólski geimfarinn Mirosław Hermaszewski, hann var og er alltaf að þvælast um skóla að hitta krakka og svoleiðis. Ég játa að ég er samt ekki viss. Það er langt síðan. (Ég var bara átta ára. Og Jaruzelski var við stjórn. Pólland var kommúnistaríki. Hefur það komið fram?)

Það sem ég man hins vegar mjög vel er að gesturinn góði fékk plantaðar spurningar. Heimsókn hans var æfð það var fyrirfram ákveðið að strákur og stelpa myndu spyrja hann sína spurninguna hvort. Eitthvað svona eins og „Hvernig lítur Pólland út úr geimnum?“ Það fékk engin að spyrja um það sem alla langaði virkilega að vita:

„Hvernig kúkar maður og pissar í þyngdarleysi?“

Það er athyglisvert að ég hef gleymt öllum smáatriðum þessa dags, en eftir situr minning um þá tilfinningu að maður er að taka þátt í einhverju sem er feik. Í því felst ákveðin hughreysting. Það þýðir að jafnvel átta ára börn koma auga á augljósar blekkingar jafnvel þó þau spili með.