Nýjasta óskabarniðÁ Íslandi er alltaf pláss fyrir eitt fyrirtæki sem fólk dýrkar.

Þetta fyrirtæki er bjargvætturinn. Þetta fyrirtæki breytir því hvernig Íslendingar sjá sjálfa sig. Allt sem þetta fyrirtæki gerir er gott. Allt sem gert er til að torvelda þessu fyrirtæki vinnu sína er slæmt og illa séð. Stjórnendur fyrirtækisins eru klárt fólk sem getur kennt okkur margt. Allir háskólanemar vilja fá sumarstarf hjá fyrirtækinu.

Ætli Eimskip sé ekki eitt fyrsta þannig fyrirtækið. Óskabarnið. Á minni lífsstíð á Íslandi man ég alla vega eftir:

Bónus,
Decode,
Kaupþing (og hinum bönkunum),
CCP
CostCo.

Bónus var Costco síns tíma. Þarna kom einhver inn á markaðinn og breytti öllu. Skyndilega kom búð þar sem allt var ódýrara. Búðin leit út eins og vörulager, fyrirtækið þótti nastý við birgja og gæðin stundum umdeilanleg. En menn lækkuðu verð og fyrir vikið var margt annað fyrirgefið.

Decode setti okkur á kortið. Litla Ísland gat orðið vagga framfara í erfðavísindum. Hámenntaðir erlendir vísindamenn mættu til landsins. Hámenntaðir Íslendingar fluttu heim. Allir fengu ógeðslega mikið borgað. Fjárfestar höfðu trú á verkefninu. Almenningur fjárfesti í verkefniu. Reynt var í tvígang að setja sérstök lög til að auðvelda fyrirtækinu að stunda ákveðinn rekstur (lög um gagnagrunn / ríkisábyrgð á lyfjaframleiðslu).

Kaupþing og hinir bankarnir gáfu Íslendingum trú á eigin getu. Skyndilega voru íslensku bankarnir ekki bara einhverjir lúðasparisjóðir sem börðust um sparifé unglinga með því að bjóða þeim íþróttatöskur og rakspíra. Nei, nú sáu Íslendingar um eignastýringu fyrir þá allra stærstu og óðu inn á nýja markaði, opnuðu útibú hingað og þangað og kepptu við þá allra bestu. Og allmargir voru bara ansi ánægðir með þetta.

CCP gaf okkur svo AFTUR trú á að við gætum gert eitthvað. Milljónir manna voru að spila íslenskan leik! Fréttaflutningur af fyrirtækinu var afar jákvæður. Sama gilti um mörg önnur tæknifyrirtæki, til dæmis Plain Vanilla. „Af hverju voru lífeyrissjóðirnir ekki að fjárfesta meiri í nýsköpun?“ spurði fólk. Í stjórnlagaráðinu notuðum við Agile Scrum til að  skrifa stjórnarskrá. Því það var það sem nýsköpunarfyrirtækin notuðu.

Costco er nýja óskabarnið og það fyrsta sem er alfarið erlent. Um daginn mátti lesa að Costco gæti átt yfir höfði sér dagsektir vegna óviðunanandi merkinga á efnavörum. Fyrstu viðbrögð margra voru eins og ef Víkingasveitin hefði stöðvað tombólu fyrir utan Melabúðina.

Auðvitað voru þetta bara samkeppnisaðilar að leggja kostnað á nýjan keppinaut með hjálp eftirlitsstofnunar en það er bara  mjög oft þannig. Og mörgum sem lenda í þessu má vorkenna meira en alþjóðlegum verslunarrisum. Ég versla stundum við pólskar búðir hér á landi sem þurfa að  líma íslenskar innihaldslýsingar ofan á pólskar pakkasúpur. Einhvern veginn ráða þær við þetta.

Costco færði Íslendingum vörur sem þeir þráðu, á verði sem þeir kunnu að meta (í magni sem þeim var ekki alltaf nauðsynlegt… en allt í lagi). Það er ekki skrítið að Costco sé nýjasta óskabarnið. Og á meðan það er þannig munu margir halda með þeim og leyfa þeim ýmislegt.

Það er gaman að vera á toppnum. En sagan kennir okkur samt að á toppnum er ekki pláss fyrir marga, menn stoppa þar stutt, og ekki víst að allir líti þá sömu augum þegar þeir loksins koma niður.

2 svör við “Nýjasta óskabarnið”

  1. Er það þín heitasta ósk að Costco dettinad stalli sínum og jafnvel hverfi héðan eða er það þín heitasta ósk að landsmenn geti keypt vörur à sanngjörnu verði?

    1. Fagna samkeppni sem neytandi. Væri raunar ekkert sérstakt ef nýr aðili (Costco) myndi ná einhvers konar einokunarstöðu heldur, en leiðin til að fyrirbyggja slíkt er einfaldlega að tryggja að markaðurinn sé opin fyrir nýjum aðilum.

Skildu eftir svar