Íslendingar mun yngri en Svíar og eiga að eyða minna

Ég fór í Kastljósið í gær og mætti Kára Stefánssyni. Mig langar að fylgja eftir þeirri reynslu með nokkrum almennum pælingum og hlutum sem ég hefði sagt ef ég hefði verið nógu sniðugur. Loks langar mig að koma að kjarna andstöðu minnar við markmiðið um stóraukin útgjöld til heilbrigðismála.

Kastljósið

Kári Stefánsson kann alveg að gera það sem þarf í svona þáttum. Og ég segi það ekki af einhverri vanvirðingu. Hann kann að halda orðinu þegar hann færð það og hann kann grípa það af manni, þannig að manni finnst að maður eiga að gefa það eftir.

Hann notar stundum tölur. Það er gott og heiðarlegt að nota tölur því það er, þrátt fyrir allt erfiðara að ljúga með tölum en án þeirra. Þess vegna setur fólk tölur í texta. Það eykur trúverðugleikann.

Kári segir reyndar að tölurnar í kröfunni hans séu “markmið” en ekki rök. En það er ekki alveg rétt hjá honum. Í myndbandinu segir Kári: “[Við] þyrftum að öllum líkindum að nota 11%. Meðaltalið í Skandinavíu eru 10 % en okkar samfélag er dreifðara […]”

Talan “11%” er markmið, já. En það markmið er rökstutt það er rökum. Þau rök mætti skrifa út með formúlunni:

(SWE + DEN + NOR)/3  + 1 % = 11 %

Og vel að merkja það var ekki verið að taka meðaltal af markmiðum Skandinavanna, heldur raunverulegum útgjöldum þeirra til heilbrigðismála.

Tölur vs. tilfinningar

Ekki að þessi nafnorðanotkun mín eða Kára séu nein þungamiðja þessarar umræðu en hún þetta er hluti af ákveðnu mynstri sem mér finnst vera orðinn ósiður af hans hálfu. Hann hendir fram tölum og þegar menn rýna í tölurnar er ekki endilega brugðist við gagnrýni á tölurnar held sagt að tölurnar séu nú ekki aðalatriðið eða reynt að tortryggja talnarýninn með einhverjum hætti. (Þó ég hafi sjálfur sloppið við það síðarnefnda).

Ég minnist nýlegs “Ísland í dag” þáttar þar sem Kári hélt því fram, í umræðum við Áslaugu Örnu að 35% þjóðarinnar leituðu sér aðstoðar vegna áfengissýki einhvern tímann á ævinni.. Þegar hún nefndi réttar tölur sagðist Kári vera nýbúinn að tala við Þórarinn Tyrfingsson og treysti honum betur en henni. Svo var þetta borið undir heimildina og sem staðfesti orð Áslaugar. Mér fannst þetta ekki sérlega virðingarfullt skot, og það að það hafi geigað svona rosalega gerir það aulalegt. Kári hefði átt að biðja Áslaugu afsökunar. En einhverjir sáu þetta, og fannst “Kári hafa jarðað stúlkuna” með þessu bragði. Þeir sáu ekki fact-checkið hjá Viðskiptablaðinu og halda þetta enn.

En aftur að Kastljósinu og umræðunni þar. Það er rétt hjá mér að Íslendingar hafi eytt miklu til heilbrigðismála undanfarinn aldarfjórðung og rangt hjá Kára að málaflokkurinn hafi verið vanræktur, alla vega ef maður horfir á peningana eina. En ég veit jafnvel og hann að fólk skrifaði ekki undir áskorunina út af tölum, heldur út af tilfinningum. Því reyndi Kári eins og hann gat að halda umræðunni þeim megin vallarins.

Reglan um bestu meiningu

Ég hef áður gagnrýnt það að skjal sem einungis virðist tala um aukin opinber útgjöld miðið við tölur þar sem hlutdeild sjúklinga er tekin með. “En er þetta aðalatrið, Pawel?” má spyrja. Og það var spurt að því.

Og svarið, er í fullri hreinskilni: “Nei. Þetta er ekki aðalatriðið.” Þetta er klúður. Menn eiga að setja tillögur sínar fram þannig að rökin gangi upp og að skýrt er hvers sé krafist. Menn eiga ekki að saka aðra um vanrækslu án þess að það standist skoðun. En það er ekki aðalatriðið. Ef ég á að vera eins sanngjarn og hugsast getur gagnvart Kára og því sem þeir sem skrifað hafa undir meintu þá verð ég að ráðast á tillögunni í sinni sterkustu mynd. Svona eins og hún HEFÐI getað litið út.

Leiðrétt krafa

Krafan hans Kára hljómar svo:

VIÐ UNDIRRITUÐ KREFJUMST ÞESS AÐ ALÞINGI VERJI ÁRLEGA 11% AF VERGRI LANDSFRAMLEIÐSLU TIL REKSTURS HEILBRIGÐISKERFISINS.

Það er hæpið að Alþingi geti varið peningum einstaklinga. Annað hvort gæti Kári þá vísað í opinber framlög, og leiðrétt töluna út frá því eða, ef þetta snýst um að vísa í sænskt fordæmi, orðað kröfuna einhvern veginn svona:

VIÐ UNDIRRITUÐ KREFJUMST ÞESS AÐ ALÞINGI  SJÁI TIL AÐ ÞJÓÐIN VERJI ÁRLEGA 11% AF VERGRI LANDSFRAMLEIÐSLU TIL REKSTURS HEILBRIGÐISKERFISINS.

Út frá þessu einu saman mætti ímynda sér ýmsar leiðir sem þingið gæti farið til að uppfylla þessa kröfu. Þær má skoða í eftirfarandi töflu:

[table]
, Óbreytt ástand, Einkaframtaks-leiðin, Sænska leiðin, Sósíalíska leiðin
Opinbera, 7.1, 7.1, 9.1, 9.4
Aðrir, 1.6, 3.9, 1.9, 1.6
Alls, 8.6, 11.0, 11.0, 11.0
[/table]

Stjórnvöld sem myndu fara einkaframtaks-leið væru án efa ekki að fara að vilja þeirra sem rita undir áskorunina. Stjórnvöld sem færu sósíalísku leiðina væru líklega að uppfylla óskir flestra. En hvað með sænsku leiðina? Voru allir þeir sem kvittuðu undir skjalið að samþykkja það að þessi aukna hlutdeild útgjalda gæti að einhverju leyti komið úr vösum sjúklinga?  Það er auðvitað ekki mitt að svara því.

Ef ég á hins vegar að reyna að setja tillöguna fram í sinni sterkustu mynd þá er hún sú að heildarútgjöld eigi að vera 11% af VLF en engin veruleg breyting eigi að vera frá þeirri norrænu stefnu að langstærsti hluti kostnaðar við nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sé greiddur af ríkinu. Sænska leiðin myndi því ganga, einkaframtaksleiðin ekki.

Er þetta þá orðið nógu gott fyrir þig?

Og þá er spurningin, þegar búið er að setja fram tillöguna þannig að hún sé skýr, þegar tillagan eiginlega er orðin: “eyðum jafnmiklu og Svíar”, get ég þá fallist á því að hún sé góð hugmynd?

Svarið er áfram “nei”.

Og það er ekki út af því að ég vilji ekki að hér sé rekin góð heilbrigðisþjónusta. “Forgangsröðun” þýðir hins vegar að við eyðum peningum í þennan málaflokk í stað þess að eyða þeim í aðra hluti eða lægri skatta. Ég ekki tilbúin til að gera það sama hvað. Þegar við fáum kreppur er ekki sjálfgefið að halda heilbrigðiskerfinu óbreyttu en skera niður í bótamálum. Það er raunar galið, í kreppum þarf fólk á stuðningi ríkisins að halda. Það er heldur ekki sjálfgefið að halda heilbrigðiskerfinu óbreyttu en skera niður í skólakerfinu, því skólar fyllast í kreppum.

Ríkisfjármálin eru alltaf spurning um forgangsröðun.

Við eigum að eyða minna en eldri þjóðir

En ókei, Pawel, af hverju eigum við að forgangsraða eitthvað öðruvísi heldur en Svíar? Og ættum við ekki að eyða eitthvað meiru, því við erum svo fá og strjábýl?

Það er sagt að þjóðin sé að eldast. Það er rétt að fólk kostar heilbrigðiskerfið meira eftir því sem það eldist. Allt þetta er rétt…  en við erum enn mjög ung þjóð. Hér eru tölur frá OECD. Þetta graf sýnir fjölda fólks yfir 65 deilt með fólki á aldrinum 15-64 ára. Tökum eftir hvað við erum enn mikið lægri.

Screen Shot 2016-01-27 at 16.24.54

Það væri einfaldlega eitthvað verulega mikið að ef við værum að eyða JAFNMIKLU og Svíar í heilbrigðismál, verandi miklu yngri þjóð en þeir.

Það er ekki óeðlilegt að útgjöld til þessa málaflokks vaxi eitthvað á næstu árum, nú þegar þjóðarbúið réttir við kútnum. En við þurfum að vera skynsöm, og það þýðir stundum að vera nísk. En ef við þenjum okkur út og eyðum allt of miklu í heilbrigðismál meðan við erum enn þá svona ung, þá munum við lenda í verulegum vandræðum síðar meir.

Screen Shot 2016-01-27 at 01.53.18

One thought on “Íslendingar mun yngri en Svíar og eiga að eyða minna

  1. Pawel, enn verð ég að vera þér ósammála. Réttara væri að reikna vegið meðaltal allra Norðurlandanna en að taka út úr Noreg, Danmörku og Svíþjóð og reikna einfalt meðaltal af þeim, eins og þú gerir. Taki maður vegið meðaltal allra 5 Norðurlandanna (þ.e. ef maður vegur fólksfjöldann inn í) fær maður út svo til akkúrat 10% (munar á öðrum aukastaf). ´

    Dependency ratio er líka yfirleitt reiknað út frá öldruðum OG börnum, en ekki þessari einfölduðu uppsetningu sem þú gefur þér. Þar sem Íslendingar eru jafnan barnmargir, þá mun dependency ratio eitthvað breytast við að beita réttri formúlu. Talsvert eftirlit og heilsugæsla er lögbundin fyrir ungbörn, smábörn og skólabörn, án þess að ég ætli að setja verðmiða á það. Get samt fullyrt að þeim peningum er vel varið. Ég sé að á OECD síðunum er bæði fjallað um youth dependency ratio og old dependency ratio, og í því sem þú ert að fjalla um væri rétt að taka heildar dependency ratio (þ.e. taka bæði gamalmenni og börn inn í myndina).

    Tvennt til má nefna: heilbrigðiskerfið hefur verið fjársvelt, – það er t.d. ekki alsiða meðal nágrannaþjóðanna að vista sjúklinga í mygluðu húsnæði. Úr þeim kút þarf að rétta. Og að auki er landið stjrálbýlt, sem veldur enn frekari kostnaði við uppbyggingu og rekstur forsvaranlegrar heilbrigðisþjónustu. Verið getur að þú viljir vera nískur að þessu leyti, – en vonandi ekki svo nískur að þú segir landsbyggðarbúum að éta það sem úti frýs, eða sjúklingum á Landspítala að myglan sé bara fullgóð handa þeim.

    með kveðju frá Noregi (sem virðist æ ákjósanlegri í samanburði).

Leave a Reply

Your email address will not be published.