Hrun kommúnismans

Það er gaman að ræða við róttæka vinstrimenn um líf mitt hinum megin við Járntjaldið. „Þetta hlýtur að hafa verið ömurlegt,“ segja þeir skilningsríkir. „En hvernig lýðræði búum við við hér á Vesturlöndum?“ spyrja þeir svo heimspekilega og hella sér út í auðhringaeintalið. Þetta er svipað og maður sem situr að snæðingi á Hótel Borg og útskýrir að hungur sé afstætt, það sé hugarástandið sem ráði hvort okkur finnist við svöng. Aðrir vinstrimenn kunna betur að meta okkar vestræna lýðræði en misskilja þá í staðinn ástæður hrunsins. Í grein eftir Sverri Jakobsson sem birtist á Múrnum þann 19.11 síðastliðinn má meðal annars finna þessa setningu:

[…]“Hrun kommúnismans“ í Austur-Evrópu var fyrst og fremst gjaldþrot lögregluríkis sem byggt var á flokksræði.[…]

Þetta er frekar algeng skoðun meðal sósíalista á Vesturlöndum. Það má skilja sem svo að ástæðan fyrir því að „sósíalisminn“ gekk ekki upp sé sú að ríkisstjórnir landanna hafi verið verið harðstjórnir sem virtu ekki mannréttindi. „Það sem gerðist í A-Evrópu var ekki sósíalismi, þetta var fasismi,“ segja menn gjarnan við mig.

Hvað var það nákvæmlega sem var svona gríðarlega „ósósíalískt“ við þessi ríki? Tökum Pólland sem dæmi. Öll menntun var ókeypis. Öll læknisþjónusta var ókeypis. Launamunur var ekki mikill. „Hvort hann stendur eða hvílir, þúsund zloty á hann skilið,“ var gjarnan sagt. Fólk borgaði ekki tekjuskatt því ríkið var hvort sem er næstum því eini vinnuveitandinn. Rafmagn var framleitt í ríkisreknum raforkuverum. Bílar voru framleiddir í ríkisreknum bílaverksmiðjum. Víða um sveitir var komið upp ríkisreknum samyrkjubúum. Þessar stofnanir áttu að sjá um að framleiða nauðsynjavörur fyrir almenning og greiða arð til ríkissjóðs.

Nú er það vissulega rétt að hluti hrunsins skrifast á hið áðurnefnda lögregluríki. Það er hins vegar ekki rétt að segja að skortur á málfrelsi og félagafrelsi hafi verið aðalástæðan. Það er sér í lagi afar villandi að halda því fram að umrætt hrun hafi „fyrst og fremst“ snúist um þessi lýðréttindi, eða skort á þeim.

Það sem hinn dæmigerða Pólverja dreymdi um á tímum kommúnismans var að klæðast gallabuxum, drekka kók, aka um á vestrænum bíl, eiga gervihnattadisk og geta keypt Lego-kubba handa börnunum. Það er fyrst og fremst þetta sem hinu miðstýrða markaðshagkerfi láðist að uppfylla. Bann við umfjöllum um einstaka þætti þjóðlífsins er kannski íþyngjandi fyrir blaðamenn og sögukennara en snertir ekki svo mikið hinn venjulega verkamann.

Þeir Pólverjar sem flúðu til Bandaríkjanna gerðu það sjaldnast til að gerast dálkahöfundar eða skáld. Flestir urðu „bara“ venjulegir launamenn og gátu farið að drekka kók og ganga í Levi’s buxum. Ég get nefnilega fullyrt af minni eigin reynslu að það sem Pólverjum fannst best við Vesturlönd og kapítalisma var það hversu miklu flottara allt var fyrir vestan. Flottari flugvellir, flottari búðir, flottari bílar.

Það sem orsakaði hrunið var því „fyrst og fremst“ einmitt hið miðstýrða markaðshagkerfi sem gat ekki tryggt fólki sama vöruúrval og í ríkjum kapítalismans. Hjá okkur voru allir bakpokar rauðir, öll tjöld gul, allar lestir brúnar og öll húsin grá. Skortur á lýðréttindum átti auðvitað líka sinn þátt en hann var ekki aðalatriðið.

Það er hins vegar skiljanlegt að sósíalistar á Vesturlöndum eigi erfitt að sætta sig við þessar staðreyndir. Þeir eiga erfitt með að sætta sig við að Hrunið sannaði einmitt óskilvirkni miðstýrðs markaðar. Slíkt væri erfiður biti að kyngja fyrir fólk sem telur enn að Ríkið sé á mörgum sviðum færara en einstaklingarnir til að veita þjónustu, ekki bara menntun og heilbrigðisþjónustu, heldur einnig verslun og bankaþjónustu.

Því beina þeir athyglinni frá þeim efnahagslega boðskap atburðanna fyrir 13 árum síðan og gera aðalástæður hrunsins aðrar en þær sem fólkið í þessum löndum hafði. Ég er, enn og aftur, ekki að segja að mannréttindi hafi ekki skipt neinu máli í baráttunni við kommúnismann en þær voru ekki aðalástæðan fyrir hruninu. Það var hið miðstýrða markaðshagkerfi sem gat ekki uppfyllt væntingar neytenda.

Erlent vinnuafl

Hvernig stendur yfirleitt á því að goðsögnin um útlenska atvinnuþjófinn dúkki upp meðal fólks? Alls staðar þar sem útlendingar finnast gerist það af og til að þeir fái störf sem einhverjir innfæddir sóttu einnig um. Frumbyggjarnir segja sögu sína og eftir því sem tilfellunum fjölgar er líklegra að fleiri aðhyllist kenningar um erlenda atvinnuræningjann.

En stöldrum aðeins við. Því verður ekki neitað að í ofangreindu tilfelli er útlendingur vissulega að fá starf sem Íslendingur hefði fengið ella. Er þetta þá kannski bara rétt eftir allt saman? Eru útlendingar að taka atvinnu af Íslendingum?

Ranghugmyndin felst í þeirri langlífu kreddu um að atvinna sé einhver takmörkuð auðlind. Auðvitað gerist það að útlendingar fá störf sem Íslendingar gætu verið að vinna. En það minnkar ekki möguleika Íslendinga á því að fá vinnu. Svipað og tilkoma kvenna á vinnumarkaðnum hefur minnkað möguleika karlmanna á því að fá gott starf.

Nýbúar eru ekki einhliða blóðsugur á atvinnulífið. Þeir þurfa að kaupa sér mat, gera við bílinn, fara í bíó og senda börnin í skólann. Allt þetta eykur veltuna í viðkomandi starfsgreinum og störf skapast. Það er því álíka fáranlegt að halda því fram að útlendingarnir séu að taka störf af Íslendingum og til dæmis að halda því fram að nýbúar sem spila í lottóinu séu að taka vinninga af Íslendingum eða að útlendingar sem fari út að borða á laugardagskvöldi taki borð af innfæddum. Fólk sem heldur slíku fram ætti helst ekki að eignast börn því þegar krílin vaxa úr grasi fara þau að hirða til sín öll störf eldra fólksins.

Í Steglunni í þættinum Silfur Egils er fólk gjarnan spurt: „Fleiri innflytjendur til landsins?“ Þetta er svolítið asnaleg spurnig því við getum ekki flutt fólk hingað nauðugt eða alfarið bannað því að koma. Stjórnmálamenn geta ekki ráðið því beint hve margir setjast hér að, einungis er hægt að gera það miserfitt.

Sumir hafa svarað ofangreindri Stegluspurningu á eftirfarandi hátt: „Já, ef við getum tekið vel á móti þeim.“ Skrýtið þetta „ef“ hjá fimmtu ríkustu þjóð í heimi. Eða kannski halda menn að útlendingarnir þurfi einhverja sérstaka „móttöku“? Félagslegt húsnæði, skyldunámskeið í íslensku eða persónulegan ráðgjafa frá ríkinu?

Íslenskt þjóðfélag getur hæglega bætt mörgum einstaklingum til viðbótar. Þar sem líklegt er að nýfæðingum meðal Íslendinga fækki á næstu árum líkt og gerst hefur annars staðar í V-Evrópu þurfum við ferskt blóð inn í landið. Það er nóg að fólki í heiminum sem vill lifa heiðvirðu lífi í ríku velferðarríki. Ísland er gott land til að búa í með blómstrandi atvinnulífi og skilvirkri stjórnsýslu. Það er okkar móttaka.

Maígabb

Það er vissulega ánægjulegt að tímasetning stækkunar sé kominn á hreint. Þó að Evrópusambandið sé oft hlægileg stofnun þá þýðir innganga Austur-Evrópuþjóða í flestum tilfellum skref í átt til frjálsræðis fyrir umræddar þjóðir. Ég hef áður fjallað um ESB-andstöðuna í Póllandi í pistli mínum „Tvær hliðar ESB andstöðu“ hér á Deiglunni. Þótt að andstæðingarnir komi oft vel fyrir með slagorðum á borð við „allan heiminn sem markað“ eru þeir oftast bara venjulegir þjóðernissinnar. Þar sem þeir menn komast til valda er fyrsta verk þeirra að planta krossum í allar skólastofur en ekki að auka frelsi í viðskiptum. Frjálshyggjurökin gegn stækkun eru notuð á alþjóðlegum ráðstefnum, í samskiptum við almenning nota menn heldur bara gamla góða þjóðrembinginn.

Nú hafa andstæðingar ESB í Póllandi fengið vænan pakka frá framkvæmdarstjórninni. Þó að ég hafi leitað vel í dagatalinu tókst mér ekki að finna neina mögulega verri dagsetningu fyrir stækkun sambandsins. Hugsanlega hefði verið óheppilegt að stækka sambandið á Hrekkjavöku. Fyrsti apríl væri ef til vill heldur ekki besti kosturinn, því það gæti orðið uppspretta mjög lélegra brandara í fréttatímum álfunnar á þeim degi. Föstudagurinn langi gæti lagst illa í sumar kristnari þjóðir og afmæli októberbyltingarinnar mundi eflaust vekja blendnar tilfinningar. En ég held að engin dagur slái verkalýðsdeginum við.

1. maí er í Póllandi mjög sérstök götuslagsmálahátíð. Dæmigerð atburðarás dagsins er eftirfarandi: Fyrir hádegi safnast hægrisinnaðar og vinstrisinnaðar verkalýðshreyfingar hver á sínum stað. Vinstrimenn á torgum og í kröfugöngum en hægrimenn í kirkjum. Fáir vita að fyrsti maí er einnig hátíðardagur kaþólsku kirkjunnar. Þá er nefnilega „messa heilags Jósefs verndara verkamanna“. Upp úr hádegi kemur að því að ungir jaðarhægrimenn reyna að koma í veg fyrir að fyrrverandi kommúnistar geti lagt blómsveig að Leiði hins óþekkta hermanns í Varsjá. Beita þarf lögregluvaldi.

Eftir hádegi kemur til átaka milli friðarsinna og kristinnar æsku. Ungir þjóðernissinnar henda flöskum í unga sósíalista. Þeir svara fyrir sig. Og svona langt fram á nótt. Atburðarásin er síðan endurtekin á þjóðhátíðardeginum 3. maí sem orðinn svona „annar í fyrsta maí“ dagur.

Nú er erfitt að sjá hvernig hægt verði að koma fyrir hátíðarhöldum í tilefni af inngöngu Póllands í ESB í jafn þéttsetna dagskrá. Það hefði auðvitað bara verið langbest að stækka sambandið 1. janúar 2004. Fólki finnst eðlilegt að stórar breytingar eigi sér stað á nýju ári. Að auki eru allir vinir á þeim degi, menn lyfta upp glösum og skála fyrir framtíðinni og það er of kalt fyrir hópslagsmál.

Ástæða frestunar er víst sú að inngöngusáttmálinn þarf að vera samþykktur í öllum núverandi ESB ríkjum og slíkt tekur tíma. Í Belgíu þarf hann til dæmis að fara í gegnum 7 mismunandi þing, meðal annars þing þýska minnihlutans. Mér finnst hins vegar skárra að láta belgíska þingmenn missa af kaffinu sökum anna heldur en að sitja upp með dagsetningu sem er umdeild og margir Austur-Evrópubúar eiga erfitt með að sætta sig við sem hátíðarstund.

Að kjósa ekki

Ef að kosning um framtíðarskipulag Geldinganess færi fram í dag hefði ég ýmsar ástæður til að kjósa ekki. Til dæmis gæti ég haft almenna óbeit á beinu lýðræði, eða jafnvel lýðræði almennt. Einnig gæti ég talið mig ekki neinna hagsmuna að gæta í málinu eða einfaldlega ekki hafa nógu mikla þekkingu á því til að ljá öðrum hvorum kostinum atkvæði mitt. Þyngst mundi þó eflaust vega sú staðreynd að ég er staddur í Þýskalandi og er ekki tilbúinn til að fljúga heim einungis til þess að taka þátt í slíkri kosningu.

Eflaust væru fleiri, eins og ég, sem hefðu sínar ástæður til að sitja heima. Gefum okkur nú að kjörsókn verði rétt undir 40% og fylgismenn þess að gera Geldinganesið að Manhattan norðursins, með 50 hæða háhýsum, ynnu nauman sigur á fuglagriðlandssinnum. Þá má ganga út frá því sem vísu að Hollvinir Geldinganess héldu því fram að aðeins um fimmtungur kjósenda hafi stutt þá tillögu að fremja náttúruspjöll á Nesinu. Hefðu kosningarnar svo farið á hinn veginn má ætla Samtök um betra Geldinganes héldu því fram að yfir 80% kjósenda hefði ekki haft neitt á móti því að reisa þar fjármálamiðstöð.

Eins langt aftur í tímann og evrópsk lýðræðishefð nær hafa þeir sem tapa kosningum beitt sömu talnabrellunni til að gera lítið úr kosningasigri andstæðinganna. Ef mönnum finnst til dæmis fúlt hve mörg atkvæði Ólafur Ragnar hafi fengið þá geta menn leikið sér við að reikna út að aðeins um þriðjungur kjósenda hefði í raun viljað gera hann að forseta. Ef menn hafa áhuga á nýlegri dæmum þá geta menn margfaldað saman tvær tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni á Írlandi og þverstæðast síðan út í það að innan við helmingur Íra hafi samþykkt samninginn (líkt og innan við helmingur hafði fellt hann á sínum tíma).

Það ósvífnasta við þessa talnabrellu „lúseranna“ er að hún gerir kjósendum upp skoðanir. Þegar sigur andstæðinganna er minnkaður með lágri kjörsókn er verið að segja að hefðu fleiri kosið hefði niðurstaðan orðið önnur og væntanlega eru menn þá ekki að segja að þeir hefðu tapað enn stærra, heldur einmitt þveröfugt.

Eins og áður sagði getur fólk haft mismunandi ástæður fyrir að kjósa ekki á sama hátt og fólk hefur ólíkar ástæður fyrir því hvað það kýs. Ekki er víst að allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi verið að mótmæla „tíföldun skulda Borgarinnar“ eða að hver einasti kjósandi R-listans hafi „ekki gleypt við talnabrellum minnihlutans“.

Það er hins vegar ólíkt skárra að koma fram fyrir hönd fólks sem menn voru kosnir af heldur en að leggja orð í munn einstaklinga sem sérstaklega kusu að tjá sig ekki. Nýlega mátti lesa í Stúdentablaðinu að í Háskólanum sé einmitt allt morandi í svona þöglu félagshyggjufólki sem gleymir að kjósa. Þöglu félagshyggjufólki sem nennir samt ekki að kjósa þótt það hafi tvo daga til þess og annað félagshyggjufólk hringi í það og bjóðist til að skutla því á kjörstað.

Að ætla sér að smána sigur pólitískra andstæðinga með því að benda á lága kjörsókn er alveg einstaklega heimskulegt. Það voru, jú, þeir sem fengu yfirhöfuð flesta til að mæta á kjörstað.

Þó að öllum ætti að vera kappsmál að kjörsókn verði sem hæst á hún aldrei að hafa neina þýðingu fyrir niðurstöður kosninga. Sum ríki beita sérstökum aðgerðum til að ýta upp kjörsókn. Víða eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekki gildar nema helmingur kjósenda taki þátt í þeim. Í Júgóslavíu á þetta jafnvel við um almennar kosningar. Það sem er slæmt við þessa reglu er að hún gerir kosningabindini raunverulegum og oft áhrifaríkum valkosti í baráttunni. Víða þar sem kosið hefur verið um fóstureyðingar hafa andstæðingar þeirra til dæmis kvatt sitt fólk til að sitja heima og tryggja þannig að kosningarnar verði ekki gildar.

Annars staðar, t.d. í Ástralíu, er fólk sem kýs ekki beitt sektum. Það er sorglegt að sumir telji lýðræðið ekki hvíla á sterkari grunni en svo að neyða verði fólk til þátttöku í kosningum.

Rétturinn til að hafa ekki skoðun hlýtur að vera jafnmikilvægur og rétturinn til að kjósa. Engin ætti að gera öðrum upp skoðanir sem hann hefur ekki tjáð. Við hljótum að ætla að þeir sem sitja heima kjósa að láta okkur hinum eftir ákvarðanirnar. Það er sjálfsögð kurteisi að virða það val.

Skyldunámskeið í íslensku

Nýlega var lögum um útlendinga breytt hér á landi. Sumar breytingar voru til hins betra en aðrar síðri. Ein verstu hugmyndanna birtist í eftirfarandi grein.

[…]Veita má útlendingi, sem dvalist hefur hér á landi samfellt síðustu þrjú ár samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og sótt hefur námskeið í íslensku fyrir útlendinga, búsetuleyfi samkvæmt umsókn […] [Lög um útlendinga]

Þarna hefur lögjafanum tekist að fylgja eftir barnalegum hugmyndum margra Íslendinga um að „eitthvað verði að gera“, því „þetta fólk bara skilur ekki neitt og vill ekki læra.“ Lögin taka gildi í upphafi næsta árs.

Fljótt á litið virðist það ekki vera nein hræðileg hugmynd að skylda fólk til að læra íslensku ætli það sér að búa hér. Við Íslendingar þurfum, jú, að læra málið 10 ár í grunnskóla. Af hverju ætti það að vera svo slæmt að þurfa sækja nokkur kvöldnámskeið? Það er heldur ekki eins og það sé eitthvað böl að kunna nýtt tungumál. Íslenskukunnátta mundi auðvelda nýbúunum lífið í íslensku samfélagi, þýðingarkostnaður mundi lækka, fordómar minnka og fleira í þeim dúr.

Einnig hefur einhver veifað fram könnun þar meirihluti nýbúa lýsti sig fylgjandi hugmyndinni. „Fyrst að þau sjálf vilja það, hvað er fólk þá að væla?“ gæti einhver spurt.

Í fyrsta lagi þá var umrædd könnun framkvæmd meðal útlendinga á námskeiði hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Útlendingar sem hafa ótilneyddir skráð sig í íslenskunámskeið eru auðvitað ömurlega ómarktækur úrtakshópur, á sama hátt og fólk á sjálfsvarnarnámskeiði er ekki góður úrtakshópur fyrir könnum á nauðsyn þess að kunna verja sig.

Í öðru lagi má ekki gleyma því að margir, sérstaklega í A-Evrópu, setja samasemmerki milli þess sem er skylda og þess sem er ókeypis. Einhverjir hafa því skilið spurninguna sem: „Mundirðu vilja sleppa borga fyrir námskeiðið sem þú ert á núna?“ Hins vegar hefur aldrei staðið til að hálfu löggjafans að námskeiðin yrðu ókeypis. Aðeins skylda.

En skoðun útlendinganna er auðvitað ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hvort umrædd lög muni yfirleitt skila einhverjum árangri. Það er því miður ólíklegt.

Það vita það allir allir sem það hafa prófað að ekki er hægt að læra tungumál á einu kvöldnámskeiði. Hvað þá íslensku. Þar sem frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að menn þurfi að þreyta neitt próf þá er hætt við að námskeiðin verði aðeins skriffinnska og formlegheit sem muni engu skila. Þeir sem eru neyddir til að læra e-ð sem þeir hafa ekki áhuga á verða sjaldnast góðir nemendur.

Einnig verður að skoða hverjir það munu verða sem þurfi að sækja þessi námskeið. Norðurlandabúar eru undanþegnir þeim því þeir þurfa ekki að sækja um dvalarleyfi. Sama á við alla ESB-borgara en EES samningurinn tryggir frjálsa fólksflutninga milli landa. Innan tveggja ára mun gamla austurblokkin ganga í Evrópusambandið og þá munu t.d. Pólverjar, stærsti minnihlutahópurinn, „sleppa“. Stærsti hópur útlendinga sem munu þurfa sitja íslenskunámskeið verða þá… Bandaríkjamenn. Einhvern veginn leyfi ég mér að efast um að það hafi verið ætlun þeirra sem settu hugmyndina fram. Vegna þrýstings að vestan munu USA-borgarar áreiðanlega einnig sleppa við námskeiðin svo loks mun það lenda á Asíubúum einum að þurfa sitja námskeiðin góðu.

Það er því ekki nóg með að hugmyndin sé vafasöm frá sjónarhóli mannréttinda og ólíkleg til að skila árangri heldur einnig mun hún ná til hlutfallslega þröngs hóps nýbúa. Það má því segja að hún sé þegar úreld.

Mun betri hugmynd felst í því að búa til stöðluð íslenskupróf fyrir útlendinga, líkt og þekkjast í öðrum löndum. Þeir sem lokið hefðu samræmdu prófi í íslensku (eða hærri prófum) þyrftu ekki á þeim að halda, en hinir gætu þreytt þau ef þeim sýndist. Vinnuveitendur og hið opinbera gætu síðan umbunað þeim sem lokið prófunum með hærri launum o.s.frv.

Ríkið eða einhver stofnun þess, t.d. Háskólinn, sæi um samningu og yfirferð prófanna en aðrir gætu tekið að sér kennslu fyrir þau, líkt og er gert með bílpróf í dag. Ef þess yrði gætt í kjarasamningum að umbuna þeim sem staðist hefðu prófin er tryggt að margir tækju þau sjálfviljugir. Þannig losna námskeiðshaldarar við fólk sem þarf bara mætingarstimpil í kladdann. Að auki mundi slík próf eiga við alla sem vildu sanna kunnáttu sína, jafnt Dana sem Tælending.

Það er nefnilega skrýtinn krafa að skylda aðeins gult fólk til að læra íslensku. Betra er að leyfa öllum að sýna fram á getu sína í íslensku og uppskera svo laun erfiðis sín.

Öllum sem vilja.

Bjarnargreiði

Eins og ég hef minnst á í mínum fyrri pistlum er ekkert ókeypis í Þýskalandi. Eitt af því sem er ekki ókeypis er bankaþjónusta. Flestir minni spámenn þurfa að punga út á bilinu 2-4 evrum fyrir að hafa reikning í banka. Bankarnir bjóða reyndar upp á ýmis tilboð sem felast í því að láta þjónustugjöldin falla niður, t.d. ef lágmarksupphæð í hverjum mánuði fer ekki undir 1000 evrur o.s.frv.

Ég komst hins vegar að því, mér til eðlilegrar ánægju, að stúdentar geta stofnað og rekið reikninga án þess að þurfa greiða fyrir það sérstaklega. Sá sem hugsar að um sé að ræða herbragð bankanna til að ná til sín nýjum viðskiptavinum verður þó fljótt fyrir vonbrigðum.

Í Berliner Sparkasse er mér sagt að ég muni dvelja í Þýskalandi of stutt til að það borgi sig að opna reikning fyrir mig. 12 mánuðir er lágmark. Mér er bent á að tala við Commerzbank.

Í Commerzbank er mér sagt að tími fyrir stúdenta til að sækja um reikning í bankanum sé liðinn og að ég verði að koma aftur í byrjun nóvember. Þetta var 9. október.

Í Berliner Bank segja þeir mér aftur að þeir verða að sjá staðfestingu á því að ég verði hjá þeim lengur en ár. Ég spyr hvort það sé engin leið til að stofna reikning í Berlín án þess að vilja stofna hér fjölskyldu. Síðan spyr ég hvort megi ekki stofna reikning og borga fyrir það eins og hver annar kúnni. Fulltrúinn bannar mér það en gefur um leið vinalegt ráð:

„Farðu yfir til Drezdner Bank og ljúgðu að þú verðir hér í 2 ár. Svo ferðu bara heim og þá geta þeir ekkert gert.“

Sums staðar í heiminum er venjan að festa sprengju undir bíl samkeppnisaðilans. Í Þýskalandi tíðkast að senda til hans stúdent.

Í Drezdner Bank er mér sagt að koma á morgun. Í næsta banka, sem er annað útibú af Berliner Sparkasse, nálægt Háskólanum, er mér sagt að ég verði að stofna reikning þar sem ég bý. „Það koma svo margir stúdentar hérna til okkar út af því að þetta er svo stutt frá Háskólanum.“ Hver hefði getað hugsað sér… Væru stúdentar eftirsóttur hópur viðskiptavina væri eflaust fjölgað í starfsliðinu eða jafnvel annað útibú opnað nálægt skólanum. En viðskipti við stúdenta eru ekki eftirsótt.

Reglan um „ókeypis“ bankareikninga fyrir stúdenta er nefnilega ekki sölubrella heldur boð að ofan. Einhver umhyggjusamur stjórmálamaður vildi með þessu móti lækka bankakostnað stúdenta. Niðurstaðan varð hins vegar sú að nemar eru óhagstæðari viðskiptavinir en annað fólk. Þeim er því hent fram og tilbaka milli banka, því viðskipti við þá borga sig ekki.

Það sem gleymdist var að bankar geta áfram meinað námsmönnum og reikning. Ef einhverjum dytti til dæmis í hug að setja efraþak á leigu námsmanna í Reykjavík mundi það hafa þau áhrif að enginn mundi vilja leigja nema íbúð. Það gleymist nefnilega oft að engin verður þröngvaður til að græða ekki á vinnu sinni.

Sama hvað allri góðmennsku stjórmálamanna líður.

Á degi þýskrar einingar

Það fyrsta sem tekið er eftir þegar komið er til Lichtenberg hverfisins í Berlín er fólk að taka til. Slá grasið, þvo glugga og raka saman laufin. Klukkan er eina mínutu í sjö um morguninn. Biðröð hefur myndast fyrir framan Sparmarkt. Sumir líta óþolinmóðir á úrið sitt. „Er hún ekki orðin?“ spyr einhver.

Sumar goðsagnir eru einfaldlega sannar.

Ég dingla bjöllunni að stúdentaskrifstofunni. Miðaldra þýsk kona segir mér að bíða. Síðan hleypir hún mér inn til sín og býður sæti. Þegar hún heyrir að þýskan mín er eitthvað ryðguð og skiptir hún yfir í ensku. Án þess að vera fúl.

Sumar goðsagnir eru bara goðsagnir.

Ég bý í austurþýsku blokkahverfi. Sumar blokkirnar eru stúdentagarðar en aðrar ætlaðar venjulegum íbúum. Margar þeirra hafa verið fegraðrar upp – grái liturinn látinn víkja fyrir litskrúðugu handklæðamynstri, en aðrar, þar á meðal mín, eru í þann mund að ganga gegnum hamskiptin.

Engin hamskipti eru hins vegar sjáanleg innandyra í íbúðinni. „Kannskihvítir“ veggir. Skökk „kannskigræn“ gólf. Rispaðir gluggar. Ryðguð málmstykki standa út úr veggjum.

Væri ég pistlahöfundur á þverstæðuveiðum væri ég kominn með bráð: Hús sem er fagurt að utan en ljótt að innan! Dæmigert fyrir þróun mála í Austur-Evrópu eftir hrun kommúnismans! En ég er bara námsmaður, gestur í öðru landi. Herbergið er stórt og leigan ódýr: 130 evrur á mánuði og allt innifalið.

Almennt má segja að í Þýskalandi sé allt ódýrt en ekkert ókeypis. Það kostar að nota kerru í stórmarkaði. Það kostar að fá poka. Menn geta gleymt því að fá gefins penna á stöðum þar sem þeir eru nauðsynlegir eins og til dæmis á hagstofum. „Gæti ég fengið lánaðan penna?“ spyr ég en fæ hvorki penna né svar.

Þegar farið er austur yfir landamærin til Póllands eru hlutirnir ódýrari en áfram kosta þeir alltaf. „Þverstæðurnar“ eru einnig áfram til staðar. En þverstæðurnar stafa af því að þróunin til hins frjálsa markaðar er lýðræðisleg og óþvinguð. Auðvelt er að mála göturnar, laga gangstéttirnar og setja upp flott umferðarmerki. Erfiðara er hins vegar banna fólki að keyra um þær á gömlu, ljótu bílunum sínum. Auðvelt er að búa til flottar verslanir en erfiðara að skylda fólk til að klæðast flottum fötum þegar það verslar í þeim.

Ekki ber svo að skilja að einstaklingarnir séu alltaf á eftir stofnunum og fyrirtækjum. Til dæmis hefur farsímavæðing hjá venjulegum Austur-Evrópubúum orðið mun hraðari en tölvuvæðing ríkisstjórna þeirra. Margir pólskir dómstólar notast enn við ritvélar. Auðveldara er fyrir mann að kaupa sér síma en fyrir ríkisstjórn að kaupa 20 þús. tölvur með hugbúnaði.

Í hvert sinn sem ég kem til Póllands finnst mér hlutirnir betri. Auðvitað eru sumir ekki sáttir við sinn hlut. Þó að lýðræði sé komið á og ritfrelsi og skoðanakúgun heyra sögunni til má ekki gleyma að flestir litu til kapítalismans í leit að bættum lífsgæðum. Sumir eiga eftir að uppskera sitt.

En almennt held ég að þróunin sé góð.

Þessi pistill er í persónulegri kantinum en vænta mætti af sögulegu uppgjöri á afmælisdegi sameinaðs Þýskalands. Ég hef reynt sleppt háfleygum yfirlýsingum og afgerandi skoðunum. Á milli hátíðsdaga er A-Evrópa nefnilega að taka ósköp venjulegum breytingum. Veruleikinn er oftast hvorki háfleygur né verulega afgerandi.

Kaliningrad

Borgin Kaliningrad liggur við austurströnd Eystrasalts. Borgin hét áður Königsberg og svæðið umhverfis hana – Austur-Prússland. Héraðið tilheyrði eitt sinn Þýskalandi en er í dag hluti Rússneska sambandslýðveldisins. Þegar Pólland og Litháen ganga í Evrópusambandið mun héraðið verða landlyksa innan ESB og munu rússneskir borgarar þá þurfa vegabréfsáritanir til að ferðast „innanlands“.

Þetta finnst mörgum Kalingradbúum óþægilegt enda furðulegt að þurfa sækja um vegabréfsáritun til að heimsækja vini og ættingja sem búa í sama landi. Rússneskir stjórnmálamenn hafa fylgt eftir kvörtunum borgara sinna með ýmsum kröfum sem reifaðar verða síðar. Kröfurnar þarf hins vegar að skoða út frá ákveðnu samhengi.

Í fyrsta lagi þá geta Rússar sjálfir sér um kennt hvað staðsetninguna varðar. Landið tilheyrði og áður Þýskalandi en Rússarnir hirtu það sem stríðsfeng eftir styrjöldina, einmitt til að styrkja stöðu sína á svæðinu og skapa vandræði í framtíðinni. Þetta er gamalt bragð: að flytja slatta þjóðar til einhvers lands, tryggja sér þannig óbein pólitísk áhrif og grafa undan þjóðaranda hinna upprunalegu íbúa.

Í öðru lagi þá geta Rússar í dag heimsótt ættingja sína án þess að framvísa vegabréfi. Þeir geta til dæmis farið með flugi, eða skipi til St. Pétursborgar. Slíkt er hins vegar dýrt og kannski ekki á færi Meðal-Júrís og Meðal-Svetlönu.

Kröfur Rússa hafa verið margs konar:

  1. Að Rússar geti ferðast um Evrópu án vegabréfsáritunar.
  2. Að Rússar geti ferðast til og frá Kaliningrad svæðinu án vegabréfsáritunar.
  3. Að Rússar geti keyrt á hlutlausum hraðbrautum og lestarteinum gegnum Pólland án þess að sæta vegabréfsskoðun.
  4. Að rússneskar lestir geti brunað gegnum Litháen án þess að farþegar sæti vegabréfsskoðun en þó fái Litháar að vita hverjir séu í lestinni.

Ólíklegt er að ESB afnemi vegabréfsáritanir fyrir Rússa í náinni framtíð. Rússland er gríðarlega víðfemt ríki með löngum landmærum sem sum liggja að ríkjum sem vesturlandabúum þykja súr. T.d. Kína, Norður-Kórea og Finnland.

Sömuleiðis er óásættanlegt fyrir Pólverja að heimila áritanalausa flutninga til og frá svæðinu því slíkt útilokar aðild að Schengen. Ekki er hægt að tryggja að menn á ferð til Kaliningrad fari ekki bara til Berlínar í staðinn. Þjóðverjar mundu ekki sætta sig við slíkt og líklegast ekki afnema landamæraeftirlit á Oder-ánni við

slíkar aðstæður. Taka skal fram að Schengen-aðild er í augum Pólverja það eftirsóknarverðasta við ESB-aðild.

Hugmyndir um einhverja skrítna lestarteina og hraðbrautir eiga heima í kalda stríðinu. Fáranlegt er að ætla að þjóðir sem hafi í hálfa öld þurft að lifa við, því sem næst, hersetu Rússa láti þeim nú eftir land svo þeir gæti keyrt til og frá héraðinu sem var búið til til að halda þeim í heljargreipum.

Lestir með neglda glugga eru heldur ekki ýkja geðfeld hugmynd þó eflaust sú einfaldasta í framkvæmd. Þetta mundi þó aðeins eiga við um Litháen því Pólland liggur ekki (enn þá) að „aðalhluta“ Rússlands.

Í þessu máli er erfitt að samræma eðlilegar kröfur venjulegra íbúa Kaliningrad við jafneðlilegar kröfur ríkja um að stjórna því hver fari yfir landamæri þeirra. Hitt er svo annað mál að rússnesk yfirvöld ættu að horfa í sinn eigin barm áður en þau saka nágrannaþjóðir sínar um ósanngirni. Áætlaðar vegabréfsáritanir til Póllands munu kosta 5 dollara. Það kostar Pólverja 35 dali að fara til Rússlands. Eins hefur pólska hafnaborgin Elblag ekki haft aðgang að Eystrasaltinu í hálfa öld, vegna frekju Rússa. Eina opna sjóleiðin frá Elblag liggur einmitt gegnum Kaliningrad svæðið.

Að skilja Ríkið (og Kirkju)

Þegar ungur frjálslyndur maður ræðir við fólk í sínu nánasta umhverfi kemst hann ekki hjá því að velta því fyrir sér hvert allir þeir sem stjórna gangi ríkisins sækja sitt fylgi.

Ég hef ítrekað rætt við marga jafnaldra mína um málefni líðandi stundar. Stundum eru skoðanir skiptar, línurnar dregnar eftir stjórnmálastefnum, búsetu eða jafnvel kyni hvers og eins. En stundum eru bara allir sammála.

Eitt af þeim málum sem ég hef rætt án þess að upp úr syði nokkurn tímann er aðskilnaður Ríkis og Kirkju. Á Íslandi er eitt trúfélag skilgreint sem trúfélag Ríkisins og nýtur sérstakrar verndar þess. Mörgum finnst þetta vera brot á jafnræðisreglu. Sólveigu Pétursdóttur finnst það ekki eins og fram kemur í andsvari hennar seinast þegar málið var rætt á Alþingi.

„[…]Því langar mig til þess að geta þess að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar kemur ekki í veg fyrir ríkiskirkju í sjálfu sér. Það er viðurkennt á vettvangi alþjóðlegra mannréttinda að svo lengi sem menn missa engra borgaralegra réttinda, þótt þeir tilheyri öðrum trúfélögum, þá sé þetta í lagi.“

Gott og vel. Ég er trúleysingi. Þar sem ég hef samt rétt til að giftast, ættleiða börn, borga hluti með raðgreiðslum, stunda box og fara til útlanda þá ætti ég víst ekkert að kvarta. En það eru fleiri hliðar á þessu máli en borgaralegu réttindin. Borgararnir hafa nefnilega stundum skyldum að gegna. Ég er, til dæmis, óneitanlega verri kandídat í Kirkjumálaráðherra en aðrir þar sem hægt er að efast (réttilega) um vilja minn til að „styðja og vernda“ hina lúthersku evangelísku þjóðkirkju.

Sama á við um forsetaembættið sem er, að nafninu til, æðsta embætti Þjóðkirkjunnar. Erfitt getur verið fyrir efahyggjumann að sækjast eftir slíku embætti án þess að þurfa að svara spurningum um trú. Þetta sást best í seinustu kosningum þar sem sumir kusu að ljúga sig á ný inn í samfélag trúaðra til þess að forðast rökfræðilega stjórnsýsluflækju.

Að undanskildum ráðherra og nokkrum þingmönnum hef ég ekki hitt marga sem telja mikið vit í núverandi skipan. Ef til vill eru þeir minna áberandi eða kjósa að tjá ekki sínar miður nútímalegu skoðanir. Hins vegar er ekki að sjá að nokkur umræða eigi sér stað meðal stjórnmálamanna og búast má við að ástandið breytist ekki næstu árin.

Kannski er það ástæðan fyrir hve vel þeim líkar sambúðin. Hvort tveggja eru íhaldssamar stofnanir sem virðast lifa sínu eigin lífi áhyggjulausar af skoðunum þegna sinna.

Tvær hliðar á ESB-andstöðu

Evrópuandstæðan í Póllandi hefur tvær hliðar. Út á við koma andstæðingar Evrópusambandsins fram sem upplýstir heimsborgarar. Lausir við ksenófóbískt hatur tala þeir um frelsishamlandi skrifræðisbákn í Brussel. Hin hliðin byggist á gamaldags útlendingahatri og haftastefnu.

Af þeim flokkum sem sitja á pólska þinginu leggjast tveir gegn aðild landsins að ESB: LPR – Bandalag pólskra fjölskyldna og Samobrona – Sjálfsvörn.

LPR er kaþólskur þjóðernisflokkur. Roman Giertych úr LPR hefur skipað sér í fremstu röð pólskra ESB andstæðinga. Hann ber sig vel, er kurteis og agaður stjórnmálamaður. Dæmigerð ESB ræða hans er e-ð á þessa leið: „Hvers vegna ættum við að loka okkur innan tollabandalags? Það er barnalegt að einblína á Evrópu í stað þess að líta á allan heiminn sem markað! Landbúnaðarkerfi ESB er úrelt, stofnanir þess hægvirkar auk þess sem þær skortir lýðræðislegt aðhald. Við getum gert betur en svo!“

Þetta hljómar vel í eyrum hinna vestrænu ESB-andstæðinga – hægrimanna. Andstæðan felst, jú, augljóslega í sókn í meiri alþjóðavæðingu, meiri alþjóðavæðingu en ESB getur boðið okkur upp á.

Hinir sömu mundu reyndar verða fyrir vonbrigðum ef þeir læsu heimasíðu flokksins, www.lpr.pl, og ýmis blöð honum tengd. Síðan er aðeins til á pólsku enda ekki þar fyrir útlending að finna. Efst má finna texta andþýsks lags sem samið var fyrir um 100 árum á tímum þýskrar hersetu. Þar fyrir neðan stendur: „Nú þegar Pólverjar hafa verið arðrændir eignum sínum og þær seldar óvinalýð, jafn erlendum sem innlendum, er pólsk jörð það eina sem við eigum eftir! Við mótmælum sölu jarða til útlendinga.“ Sannkölluð nýfrjálshyggja.

Þegar póstlisti samtakanna er lesinn má finna nánari skýringar á þessu. Óvinaöflin eru Gyðingar sem, eins og allir vita, settu á svið Helförina til að afla sér samúðar. Einnig má finna „áhyggjur“ um að aðild Póllands leiði til bættrar réttarstöðu samkynhneigðra, en samkynhneigð er ónáttúra og hommar ekki fólk heldur mannhundar.

Samoobrona (Sjálfsvörn) eru öfgafull bændasamtök sem rekin eru í kringum persónudýrkun á Andrzej Lepper, stofnanda þeirra. Í kringum kosningar friðaðist Lepper. Hann gagnrýndi ESB fyrir að niðurgreiða landbúnaðarvörur og og torvelda pólskum bændum útflutning. Hann náði kjöri en er í banni frá þinginu vegna ofbeldisfullrar hegðunar og brotum á þingsköpum. (Kom með sinn eigin megafón til að framíköll hans heyrðust í sjónvarpi)

Helstu áhugamál samtakanna eru að lama samgöngur og valda skemmdum á eignum annarra. Til dæmis hafa þau ráðist á lestarvagna með innfluttu korni og skemmt það, því nóg er víst kornið í Póllandi.

Þannig er þetta víðar í Evrópu. Á alþjóðlegum ráðstefnum og í sjónvarpskappræðum er stillt upp hinum frelsislelskandi alþjóðasinnum. Þeir sjá um samskipti við útlendinga og menntafólk. Hinn hópurinn höfðar til bænda og láglaunafólks gegnum andþýskan hræðsluáróður. Þeir draga fánann að húni, syngja þjóðsönginn og hrópa kjörorð sín: „Kirkjan, þjóðin og föðurlandið.“

Samtökin Heimssýn voru stofnuð fyrir skömmu. Nafnið er í samræmi við hina ytri ímynd sem ESB andstæðan vill hafa á sér. Ég efast reyndar ekki vilja margra félagsmanna til að opnara samfélags, afnáms tolla og friðsamlegra samskipta við aðrar þjóðir. Af hverju það fólk hafi ákveðið að stofna félag með sósíalistum og þjóðernissinnum er mér torskilið.