Kosningar til Alþingis

Stjórnarskrá Íslands var formlega breytt eftir seinustu kosningar og ný kosningalög voru sett. Tilgangurinn með breytingunum var, eins og svo oft áður, að jafna atkvæðavægi. (Sumir segja að á Íslandi sé eini hvatinn að baki stjórnarskrárbreytingum að minnka völd Framsóknarflokksins.)

Hin nýja 31. grein Stjórnarskrár hljóðar svo:

[…]Kjördæmi skulu vera fæst sex en flest sjö. Mörk þeirra skulu ákveðin í lögum, en þó er heimilt að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni. Í hverju kjördæmi skulu vera minnst sex kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu.[…]Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu. Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun.[…]“

Um framkvæmd kosninga gilda síðan sérstök lög. Samkvæmt núgildandi kosningalögum er gert ráð fyrir 6 kjördæmum, þremur 11 manna kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu og þremur tíu manna á landsbyggðinni. Með þessu eru þingmenn höfuðborgarsvæðisins í fyrsta skipti komnir í meirihluta á Alþingi. Það lítur reyndar allt út fyrir að færa þurfi einn þingmann frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis (sveitarfélög umhverfis Reykjavík) en menn á kjörskrá að baki hverjum þingmanni Norðvesturkjördæmi eru nú helmingi færri en í Suðvesturkjördæmi. Það er hér við hæfi að hrósa löggjafanum hér fyrir að hafa búið til tiltölulega sveigjanlegt kerfi sem getur lagað sig að breyttu búsetumynstri á skömmum tíma en ekki þarf lagabreytingu til að samþykkja umrædda tilfærslu. Eini ókosturinn sem má sjá er að ef einhvern tímann þarf að færa þingmann í annað hvort Reykjavíkurkjördæmanna þá verða kjördæmin tvö ekki lengur með jafnmarga þingmenn og munu því ekki lengur geta verið „jafnstór“ eins og gert er ráð fyrir. En úr þessu má væntanlega leysa.

En þá að úthlutun þingsæta. Fyrir breytingar var notast við svokallaða „reglu hinna stærstu leifa“. Þar var fjöldi kjósenda bak við hvert þingsæti fundinn út og þeirri tölu deilt upp í atkvæðafjölda hvers framboðs. Þau þingsæti sem upp á vantar koma í hlut framboða með stærsta afganginn af deilingunni. Oft geta það verið framboð sem hafa fengið tiltölulega fá atkvæði, sérstaklega ef margir eru í framboði. Tökum dæmi:

Í kjördæmi með 10 þingmenn fær A 8300 atkv., B 1300 og C 400 atkv. Fjöldi atkvæða á hvert þingsæti er 1000. A fær því 8, B fær 1 og C fær 0. En C er með stærstu leifina, þ.e. 400 á meðan að hinir eru báðir með leifar upp á 300 atkv. svo C fær að auki eitt þingsæti.

Aðferðin sem héðan í frá verður notast við kallast heiltöludeiling. Þar er tölunum 1,2,3… deilt í atkvæðafjölda hvers framboðs. Hæsta talan í töflunni táknar fyrsta þingmann kjördæmis, næsthæsta annan o.s.frv. Í dæminu hér að ofan fengi A því sinn níunda þingmann á kostnað C því 8300/9=922,22… sem er stærra en 1300/2=650 (annar þingmaður B) eða 400/1=400 (fyrsti þingmaður C). Almennt má því segja að heiltöludeiling henti betur stórum framboðum og minnki t.d. töluvert möguleika hvers kyns sérframboða.

Heiltöludeilingin er ekki það eina sem minnkar möguleika minni stjórnmálaflokka. Íslendingar hafa fengið að láni svo kallaða 5% reglu sem notuð er víða í Evrópu. Samkvæmt hennar íslensku útgáfu eiga framboð aðeins rétt á uppbótarþingmönnum hafi þau fengið 5% atkvæða á landsvísu. Þessu regla er oftast notuð á mjög stórum þjóðþingum sem annars myndu fyllast af hvers kyns smáframboðum en hennar er varla þörf hér. Eðlilegra væri að miða við einn kjördæmakjörinn þingmann eins og áður eða einhverja samblöndu af hvoru tveggja.

Annars er úthlutun uppbótarþingmanna ekki svo skelfilega flókin. Fyrst er farið að sem landið væri eitt kjördæmi og fundið út með heiltöludeilingu hvaða framboð eigi að fá næsta mann inn. Síðan er fundin sá einstaklingur úr því framboði sem næstur er því að komast inn og honum úthlutað þingsæti. Þá er aftur fundið hvaða framboð eigi rétt á næsta manni og svo koll af kolli. Ókosturinn er að seinustu þingmennirnir sem ná inn kunna hafa fengið fá atkvæði í sínu kjördæmi en það er engin önnur leið til jafna vægi atkvæða án þess að koma á landslistum. Einnig geta litlar breytingar á fylgi haft það för með sér að þessir öftustu menn „detti oft inn og út“ fram eftir nóttu sem fær marga til að halda að kerfið sé tilviljunum háð. Svo er hins vegar ekki. Það er til dæmis alltaf gott fyrir þingmann ef einhver kýs hann og slæmt ef einhver kýs andstæðingin. Uppbótarþingmannakerfið breytir því ekki.

Hinar nýju breytingar á kosningum til Alþingis eru upp til hópa vel unnar. Nú er bara að sjá hvort hið nýja fyrirkomulag nái að festa sig í sessi eða hvort því verður breytt aftur áður en langt um líður.

Misheppnuð skyndikynni

Útliti DV var nýlega breytt í takt við breytingarnar á íslenskum dagblaðamarkaði sem áttu sér stað með tilkomu mánudagsmoggans. Enn fremur mun blaðið hér eftir koma út um hádegi á mánudögum en ekki um morguninn eins og áður var. Það stafar af því að DV er prentað í prentsmiðjum Morgunblaðsins en ritvélarnarnar þar eru nú uppteknar við að prenta Moggann á mánudagsmorgnum. Um útlitsbreytingarnar verður ekki fjallað hér, þær eru væntanlega enn ein tilraun blaðsins til að finna sig á markaðnum eftir tilkomu Fréttablaðsins.

Hápunktur þessa tölublaðs DV, ef frá er talin fyrirsögnin „Fertugir offitusjúklingar deyja fyrr en aðrir“, er án efa skoðankönnunin þar sem Samfylkingin mælist í fyrsta skipti með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Eitthvað hafa blaðamenn DV orðið æstir yfir þessum niðurstöðum og dottið í slíkan fyrirsagnaham að hæfileiki þeirra til að leggja saman heilar tölur beið skaða af.

Ef að þingmannafjöldi bak við hvert framboð er reiknaður út kemur í ljós að Samfylkingin mundi fá 26 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn 24, Framsóknarflokkurinn 8, Vinstri-Grænir 5 en Frjálslyndi flokkurinn nær ekki 5% lágmarksfylgi og fær því engan. Af þessu telur DV að „ljóst sé“ að meirihlutinn sé fallinn. Stöldrum nú aðeins við. Stjórnin fær 24+8=32 en minnihlutinn fær 26+5=31. Það er því ljóst að stjórnin heldur velli þvert á ályktun DV. Það stafar af þeim dulræna eiginleika tölunnar 32 að hún er stærri en talan 31.

Það er alveg ótrúlegt að „alvörublað“ skyldi gera slík mistök. Það sem verra er að ég sá þau aldrei leiðrétt. Menn hljóta að spyrja sig hvort að fólk sem kann ekki að leggja saman tveggja stafa tölur eigi yfirleitt að sjá um að framkvæma skoðanakannanir. Svarið við slíkri spurningu hlýtur að vera nei. DV hefur greinilega ekki mannskap eða þekkingu til að framkvæma slíkar kannananir ef að stærðfræðikunnátta sem krafist er af 8 ára börnum er þeim ofviða. DV hefur oft áður gert mistök við túlkun slíkra úrslita. Fyrir skömmu reiknuðu þau Ingibjörgu Sólrúnu inn í þingsæti þrátt fyrir að hún hafi verið sú ellefta inn en aðeins 9 þingmenn eru kjördæmakjörnir. Þar fyrir utan virðist DV ekki átta sig á nú er þingsætum úthlutað eftir annarri aðferð en áður (heiltöludeiling í stað reglu hinna stærstu leifa) svo Ingibjörg hefði líklegast ekki náð inn hvort sem er.

Menn ættu að halda sig við það sem þeir hafa vit á. Stærðfræðilegir hæfileikar blaðamanna DV gefi ekki til kynna að þar á bæ hafi menn þekkingu til að framkvæma skoðanakannanir. Þessi kynni mín á DV seinustu viku voru ekki til að auka traust mitt á blaðinu. Frekar má segja að um misheppnuð skyndikynni hafi verið að ræða.

ESB-árið

Á fundi ESB ríkja í Kaupmannahöfn 13. desember var ákveðið að bjóða tíu ríkjum að ganga inn í sambandið frá 1. maí 2004. Þetta voru Eystrasaltslöndin, Eistland, Lettland og Litháen; Pólland, Tékklandland, Slóvakía, Ungverjaland, Slóvenía, Malta og Kýpur. Rúmenía og Búlgaría eru aftar í biðröðinni og almennt talið raunhæft að þau geti fengið inngöngu árið 2007 á meðan að Tyrkir þurfa að bíða enn um sinn eftir að formlegar aðildarviðræður hefjist.

Af þeim tíu tilvonandi aðildarríkjum sem geta hlotið inngöngu í fyrstu lotu stækkunar hafa hafa öll nema eitt, Kýpur, ákveðið að leggja inngöngu undir dóm þjóðarinnar. Líklegt er að Malta ríði á vaðið. Upphaflega stóð til að kjósa jafnvel í janúar en nú þykir mars líkleg dagsetning.

Ákvörðun dagsetningar er nefnilega fjarri því að vera einungis tæknileg ákvörðun heldur getur hún haft, a.m.k. að mati stjórnmálamanna, töluverð áhrif á niðurstöður kosninga. Þannig hafa þau ríki þar sem stuðningur hefur mælst hár að undanförnu reynt að setja niður atkvæðagreiðslurnar tiltölulega snemma á árinu og vonast þannig eftir stuttri kosningabaráttu með minni hættu á (óhagstæðum) fylgissveiflum. Á hinn bóginn hafa ríki þar sem stuðningur hefur mælst lágur reynt að fresta sínum þjóðaratkvæðagreiðslum fram á haust með von um að röð sigra Evrópusinna yfir vor- og sumarmánuðina gefi baráttunni heima byr undir báða vængi.

Upphaflega stóð til dæmis til að Eystrasaltsríkin myndu hafa samráð um ESB-kosningar og áttu þær að fara fram í águst. Hins vegar hefur stuðningur við ESB-aðild í Litháen verið töluvert meiri að undanförnu en í hinum tveimur og hafa Litháir af þeim ástæðum flýtt sínum kosningum til 11. maí. Eistar hyggjast kjósa 14. september, sama dag og Svíar greiða atkvæði um Evruna en Lettar munu ganga að kjörborðinu sex dögum síðar, 20. september.

Vysehrad-löndin, Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland höfðu ákveðið að hafa samráð um atkvæðagreiðslurnar, þ.a. fyrst sé kosið í því ríkinu með mestan ESB-stuðning og svo koll af kolli. Það samkomulag virðist ætla að halda. Ungverjar munu kjósa 12. apríl, Slóvakar 5.-6. júní, Pólland hefur ekki ákveðið dagsetninguna en 8. júní þykir líklegur og Tékkar ganga að kjörborðinu dagana 15.-16. júní.

Mestu áhyggjur stjórnvalda í Póllandi og Tékklandi felast ekki í því að ekki sé nægjanlegur stuðningur fyrir aðild heldur að kosningaþátttaka verði ekki næg. Áhugaleysi kjósenda hefur verið mikið vandamál í þeim löndum á undanförnum árum, kosningaþátttakan í Póllandi oftast rétt slefar yfir 40%. Til að auka hana hafa Tékkar ákveðið að kjósa tvo daga í röð og Pólverjar hafa verið að gæla við sömu hugmynd. Þá hefur jafnvel verið nefndur sá möguleiki að hafa kjörstaði opna í 48 tíma samfleygt til að fólk sem vinnur um helgar eigi auðveldara með að kjósa. Margir hafa þó lagst gegn þeirri hugmynd því þeir óttast að kosningasvik geti átt sér stað í skjóli nætur.

Í öllu falli er ljóst að næsta ár verður mjög spennandi fyrir álfuna alla og fróðlegt verður að fylgjast með hvaða áhrif úrslit þjóðaratkvæðagreiðslna í A-Evrópu munu hafa á Evrópuumræðuna hér á landi.

Gaman að drepa?

Það var eitt sem sló mig þegar ég fylgdist með fréttamyndum úr Afganistanstríðinu. Sýnd var upptaka innan úr bandarískri sprengjuþotu. Allar sprengjurnar voru útkrotaðar með myndum og skilaboðum hermanna. Við sem í einfeldni okkar viljum oft trúa að Vesturveldin hái stríð á einhvern göfuglyndari hátt en „villimennirnir“ hljótum að hugsa okkar gang þegar við sjáum slíkar myndir.

Sá sem telur að skilaboð á borð við „DIE SUCKERS“ séu nauðsynlegt skraut á Daisy Cutter sprengju er ekki bara smekklaus. Hann er ógeðslegur. Skilaboðin sýna að manndráp eru ekki aðeins atvinna hans, þau eru hans yndi. Hann hefur unun af þeim. Þess vegna persónugerir hann manndrápin með því að bæta við stuttri orðsendingu ofan á öll megatonnin.

Annað atriði er að menn bera aldrei virðingu fyrir lífi óvinahermanna. Ljósið beinist alltaf að falli meðal óbreyttra borgara eingöngu. Ég veit ekki einu sinni hve margir júgóslavneskir hermenn dóu í seinasta stríði. Menn í herbúningi virðast ekki hafa neinn rétt til lífs. Þegar Júgóslavía gafst upp í kjölfar mikils mannfalls innan hersins sagði Jamie Shea að NATO hafi „burstað þá“.

Vissulega eru hermenn á einhvern hátt „lögmætari“ skotmörk en varnarlaust fólk. En sem talsmaður einstaklingsfrelsis get ég ekki fallist á það að maður sem önnur ríkisstjórn hefur þvingað til að berjast sé sjálfkrafa orðinn réttindalaus skotskífa og fráfall hans orðið eitthvað til gorta sig af og hæðast.

Skilaboðin eru skýr. Stríð eru „kúl“. Það er ekki bara ill nauðsyn að drepa fólk. Það er gaman. Nýlega sá ég myndir frá hernaðaræfingum Bandaríkjahers í Kúveit. Þar hafði einhver málað „ALL THE WAY TO BAGDAD“ á hlaupið og eflaust fundist það gríðarlega kúl.

Í hernum heyrir fólk undir annað fólk. Þeir yfirmenn sem leyfa hermönnum sínum að skemmta sér við morð eru sjálfir að skemmta sér við morð. Sömuleiðis yfirmenn þeirra sem láta slíkt viðgangast. Svona má reka sig upp eftir öllum tignum og stöðum hersins – alla leið til Forsetans.

Allt þetta fólk virðist sem sagt hafa gaman að því að drepa.

Stríðsástandið í Póllandi

Allt árið 1980 höfðu stjórnvöld Póllands smám saman verið að missa tökin á ástandinu í landinu. Pólskur efnahagur var í molum og verðhækkanir í júnímánuði vöktu af sér mikla öldu óánægju og verkfalla. Starfsfólkið krafðist krafðist afnáms ritskoðunar, leyfis til að stofna frjáls verkalýðsfélög, launahækkana, verðlækkana o.fl.

Stjórnin ákvað að koma til móts við margar af kröfum fólksins. Þannig var óháða verkalýðsfélagið „Samstaðan“ skráð formlega þá um haustið og samnefnt vikublað hóf göngu sína á svipuðum tíma. Margir verkalýðsforingjar litu á þetta sem veikleikamerki af hálfu ríkisstjórnarinnar og fóru að setja fram nýjar kröfur.

Hins vegar hvöttu margir menntamenn úr hópi stjórnarandstöðunnar fólk til að sýna skynsemi. Þá þegar voru stjórnvöld í Moskvu farin að krefjast þess af Pólverjum að komið yrði lögum yfir „andbyltingarsinna“ í landinu. Þá hófu ríki Varsjárbandalagsins hafið undirbúning að innrás inn í landið. Frekari tilslakanir stjórnvalda mundu aðeins auka líkur á sovéskri innrás, en slíkt væri engum til góðs.

Þann 13. desember 1981 var lýst yfir stríðsástandi í landinu þrátt fyrir að engin hafði ráðist inn í það. „Neyðarástand“ var nefnilega ekki skilgreint í Stjórnarskránni. Verkföll voru laminn niður með valdi, um 70 manns létu lífið og 50 þús. voru fangelsuð. Sjónvarpið flutti aðeins fréttir og þjóðrernissinnaðar stríðsmyndir. Slökkt var á símum. Óheimilt var að ferðast út fyrir bæjarmörk án leyfis. Öll miðstjórn Samstöðunnar var fangelsuð.

Stríðsástandið varði í eitt og hálft ár en margar frelsisskerðandi tilskipanir voru ekki afnumdar fyrr en mörgum árum síðar.

Í heildina mörkuðu stríðslögin þó upphaf á enda kommúnismans. Flestir forustumenn Samstöðunnar héldu áfram að berjast gegn alræðinu þegar þeim var sleppt. Engin þeirra var t.d. tekinn af lífi fyrir landráð eða neitt svoleiðis. Samstaðan var jafnvel fyrir formlega skráningu komin með um 3 milljónir félagsmanna. Mest urðu þeir 10 milljónir þar af 1 milljón sem einnig voru félagar í Kommúnistaflokknum. Hún var einfaldlega of sterk fyrir stjórnvöld til að ráða við.

Í lok níunda áratugarins fóru svo fram hringborðsumræður milli stjórnar og stjórnarandstöðu sem leiddu af sér frjálsar kosningar, umbætur í átt til frjáls markaðskerfið og langþráð lýðréttindi. Pólska alþýðulýðveldið hætti að vera til og í staðinn varð til Lýðveldið Pólland.

Hið pólitíska svið Póllands mótast enn í dag að stórum hluta af atburðunum fyrir tveimur áratugum síðan. Vinstrimenn koma flestir úr röðum fyrrverandi kommúnista en hægrimenn úr röðum Samstöðunnar. Það eru auðvitað frekar skrýtnir hægrimenn sem eiga rætur sínar að rekja til verkalýðsfélags. Pólska stjórnmálasviðið er því skipt eftir sögulegum forsendum og því miður er enn sjaldgæft að menn úr fylkingunum tveimur geti starfað saman. Vonandi styttist þó í það að á sviðið stigi menn sem geti starfað með öðru fólki á málefnalegum forsendum en ekki eftir pólitískum víglínum vonds ríkis sem sem betur fer er hætt að vera til.

Strákarnir í Heimdalli

Af Söguvef Heimdallar á Frelsi.isÞað er ekki skoðun undirritaðs að það eigi vera takmark með jafnréttisbaráttu að hlutföll milli kynjanna séu alls staðar og ávallt jöfn. Hlutföllin eru fyrst og fremst mælikvarði á framgang jafnréttisbaráttunnar. Ef við göngum út frá því að kynin séu jafnhæf til að gegna ákveðnu starfi þá má rökstyðja að þegar ráðið er í störf eftir hæfni eingöngu eru mestar líkur á að hlutföll milli kynjanna verði jöfn. Þetta virkar hins vegar ekki í hina áttina, jöfn hlutföll tryggja okkur ekki sjálfkrafa hæfasta starfsliðið. Þar liggur villan hjá þeim sem hallast að hvers kyns kynjakvótum. Kynjakvótar ráðast á mælikvarðann en ekki á vandamálið sjálft. Þetta er svipað og maður með hita mundi fikta við hitamælinn í stað þess að leggjast í rúmið.

Í prófkjörinu tóku þátt sjö einstaklingar sem talist geta til ungliða. Þar af voru fjórir karlmenn og þrjár konur. Allir ungu karlmennirnir lentu á undan ungu konunum þremur. Allir. Nú segi ég ekki að óhugsandi sé að þeir hafi allir verið hæfari til þingsetu en konurnar en það er hins vegar ólíklegt út frá tölfræðilegu sjónarhorni.

Maður á auðvitað erfitt með að trúa því að einhver hafi verið að kjósa Sigurð Kára vegna þess að hann sé karlmaður. Hins vegar er hægt að fullyrða að allir karlmennirnir hafi verið þekktari andlit, ef svo má segja, og t.d. of komið fram fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í fjölmiðlum. Vandamálið snýst því ekki endilega um hvort menn hafi verið að kjósa besta fólkið á kjördag heldur almennt um hver staða ungra kvenna innan Heimdallar sé.

Málgagn Heimdallar heitir frelsi.is. Hve margar konur eru taldar upp sem „frelsispennar“ á því vefriti? Ein! Síðast birti hún grein í júní 2001. Ef til vill er listi yfir pennana ekki tæmandi en í öllu falli er liðið eitt og hálft ár síðan að kona fékk að birta pistil á vefriti ungmennafélags stærsta stjórnmálaflokksins í stærstu borg landsins.

Hins vegar er ekki svo að hægristefna höfði almennt illa til ungra kvenna. Fjölmargar konur starfa til dæmis innan Vöku, sem er hægra megin við andstæðinga sína, samtök félagshyggjufólks, í stúdentapólitíkinni, og einnig eru nokkrar stelpur sem halda uppi vefritinu Tíkinni. Það er því ekki eins og það almennt vanti hægrisinnaðar konur á Íslandi. Vandamálið er að kraftar þeirra eru ekki nýttir. Konur skrifa ekki á Frelsi, konur eru ekki sendar í fjölmiðla sem málsvarar félagsins.

Það er ágætt að hægrisinnaðar konur haldi uppi eigin vefriti. Í stórum flokki er eðlilegt að til verði minni fylkingar, hver með sínar áherslur. En þá er það hlutverk móðurfélagsins að hafa breiðari skírskotun og höfða til allra félagsmanna. Heimdallur virkar hins vegar eins og ein slíkra minni fylkinga en ekki félag allra ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég bendi til dæmis á grein eftir Sigurð Guðmundsson sem birtist á Frelsinu stuttu fyrir prófkjörið:

Við þurfum meira af ungu fólki á Alþingi enda treysti ég engum betur til að gera vel við námsmenn. Birgir Ármanns fer í 6. sæti, Sigurður Kári Kristjánsson í 7. sæti, og Ingvi Hrafn í 8. sæti. Allt toppmenn.

Það er ótrúlegt að málgagn Heimdellinga skuli lýsa stuðningi við „strákana sína“ svona stuttu fyrir kjördag. Ekki var minnst á ungu konurnar sem einnig tóku þátt í prófkjörinu.

Vandamálið er að Heimdallur virkar sem frekar lokaður klúbbur fólks með sérstakan áhuga á frjálshyggju, ESB-andstöðu og velferð Repúblikanaflokksins. Aðrar skoðanir rúmast ekki þar inni eins og sjá má á Frelsisgreinum undanfarinna missera sem hafa verið með eindæmum einhæfar. Félagið skortir breiðari skírskotun en í dag virkar það eins og hálfgert leynifélag. Bág staða ungra kvenna er ein birtingarmynd þess.

***Athugasemd***
Deiglunni hefur borist athugasemd er varðar efni þessa pistils. Í pistlinum er sagt að einungis einn pistill hafi birst eftir konu á síðustu átján mánuðum. Hið rétta mun vera að þeir séu þrír.

Ritstj.

Hrun kommúnismans

Það er gaman að ræða við róttæka vinstrimenn um líf mitt hinum megin við Járntjaldið. „Þetta hlýtur að hafa verið ömurlegt,“ segja þeir skilningsríkir. „En hvernig lýðræði búum við við hér á Vesturlöndum?“ spyrja þeir svo heimspekilega og hella sér út í auðhringaeintalið. Þetta er svipað og maður sem situr að snæðingi á Hótel Borg og útskýrir að hungur sé afstætt, það sé hugarástandið sem ráði hvort okkur finnist við svöng. Aðrir vinstrimenn kunna betur að meta okkar vestræna lýðræði en misskilja þá í staðinn ástæður hrunsins. Í grein eftir Sverri Jakobsson sem birtist á Múrnum þann 19.11 síðastliðinn má meðal annars finna þessa setningu:

[…]“Hrun kommúnismans“ í Austur-Evrópu var fyrst og fremst gjaldþrot lögregluríkis sem byggt var á flokksræði.[…]

Þetta er frekar algeng skoðun meðal sósíalista á Vesturlöndum. Það má skilja sem svo að ástæðan fyrir því að „sósíalisminn“ gekk ekki upp sé sú að ríkisstjórnir landanna hafi verið verið harðstjórnir sem virtu ekki mannréttindi. „Það sem gerðist í A-Evrópu var ekki sósíalismi, þetta var fasismi,“ segja menn gjarnan við mig.

Hvað var það nákvæmlega sem var svona gríðarlega „ósósíalískt“ við þessi ríki? Tökum Pólland sem dæmi. Öll menntun var ókeypis. Öll læknisþjónusta var ókeypis. Launamunur var ekki mikill. „Hvort hann stendur eða hvílir, þúsund zloty á hann skilið,“ var gjarnan sagt. Fólk borgaði ekki tekjuskatt því ríkið var hvort sem er næstum því eini vinnuveitandinn. Rafmagn var framleitt í ríkisreknum raforkuverum. Bílar voru framleiddir í ríkisreknum bílaverksmiðjum. Víða um sveitir var komið upp ríkisreknum samyrkjubúum. Þessar stofnanir áttu að sjá um að framleiða nauðsynjavörur fyrir almenning og greiða arð til ríkissjóðs.

Nú er það vissulega rétt að hluti hrunsins skrifast á hið áðurnefnda lögregluríki. Það er hins vegar ekki rétt að segja að skortur á málfrelsi og félagafrelsi hafi verið aðalástæðan. Það er sér í lagi afar villandi að halda því fram að umrætt hrun hafi „fyrst og fremst“ snúist um þessi lýðréttindi, eða skort á þeim.

Það sem hinn dæmigerða Pólverja dreymdi um á tímum kommúnismans var að klæðast gallabuxum, drekka kók, aka um á vestrænum bíl, eiga gervihnattadisk og geta keypt Lego-kubba handa börnunum. Það er fyrst og fremst þetta sem hinu miðstýrða markaðshagkerfi láðist að uppfylla. Bann við umfjöllum um einstaka þætti þjóðlífsins er kannski íþyngjandi fyrir blaðamenn og sögukennara en snertir ekki svo mikið hinn venjulega verkamann.

Þeir Pólverjar sem flúðu til Bandaríkjanna gerðu það sjaldnast til að gerast dálkahöfundar eða skáld. Flestir urðu „bara“ venjulegir launamenn og gátu farið að drekka kók og ganga í Levi’s buxum. Ég get nefnilega fullyrt af minni eigin reynslu að það sem Pólverjum fannst best við Vesturlönd og kapítalisma var það hversu miklu flottara allt var fyrir vestan. Flottari flugvellir, flottari búðir, flottari bílar.

Það sem orsakaði hrunið var því „fyrst og fremst“ einmitt hið miðstýrða markaðshagkerfi sem gat ekki tryggt fólki sama vöruúrval og í ríkjum kapítalismans. Hjá okkur voru allir bakpokar rauðir, öll tjöld gul, allar lestir brúnar og öll húsin grá. Skortur á lýðréttindum átti auðvitað líka sinn þátt en hann var ekki aðalatriðið.

Það er hins vegar skiljanlegt að sósíalistar á Vesturlöndum eigi erfitt að sætta sig við þessar staðreyndir. Þeir eiga erfitt með að sætta sig við að Hrunið sannaði einmitt óskilvirkni miðstýrðs markaðar. Slíkt væri erfiður biti að kyngja fyrir fólk sem telur enn að Ríkið sé á mörgum sviðum færara en einstaklingarnir til að veita þjónustu, ekki bara menntun og heilbrigðisþjónustu, heldur einnig verslun og bankaþjónustu.

Því beina þeir athyglinni frá þeim efnahagslega boðskap atburðanna fyrir 13 árum síðan og gera aðalástæður hrunsins aðrar en þær sem fólkið í þessum löndum hafði. Ég er, enn og aftur, ekki að segja að mannréttindi hafi ekki skipt neinu máli í baráttunni við kommúnismann en þær voru ekki aðalástæðan fyrir hruninu. Það var hið miðstýrða markaðshagkerfi sem gat ekki uppfyllt væntingar neytenda.

Erlent vinnuafl

Hvernig stendur yfirleitt á því að goðsögnin um útlenska atvinnuþjófinn dúkki upp meðal fólks? Alls staðar þar sem útlendingar finnast gerist það af og til að þeir fái störf sem einhverjir innfæddir sóttu einnig um. Frumbyggjarnir segja sögu sína og eftir því sem tilfellunum fjölgar er líklegra að fleiri aðhyllist kenningar um erlenda atvinnuræningjann.

En stöldrum aðeins við. Því verður ekki neitað að í ofangreindu tilfelli er útlendingur vissulega að fá starf sem Íslendingur hefði fengið ella. Er þetta þá kannski bara rétt eftir allt saman? Eru útlendingar að taka atvinnu af Íslendingum?

Ranghugmyndin felst í þeirri langlífu kreddu um að atvinna sé einhver takmörkuð auðlind. Auðvitað gerist það að útlendingar fá störf sem Íslendingar gætu verið að vinna. En það minnkar ekki möguleika Íslendinga á því að fá vinnu. Svipað og tilkoma kvenna á vinnumarkaðnum hefur minnkað möguleika karlmanna á því að fá gott starf.

Nýbúar eru ekki einhliða blóðsugur á atvinnulífið. Þeir þurfa að kaupa sér mat, gera við bílinn, fara í bíó og senda börnin í skólann. Allt þetta eykur veltuna í viðkomandi starfsgreinum og störf skapast. Það er því álíka fáranlegt að halda því fram að útlendingarnir séu að taka störf af Íslendingum og til dæmis að halda því fram að nýbúar sem spila í lottóinu séu að taka vinninga af Íslendingum eða að útlendingar sem fari út að borða á laugardagskvöldi taki borð af innfæddum. Fólk sem heldur slíku fram ætti helst ekki að eignast börn því þegar krílin vaxa úr grasi fara þau að hirða til sín öll störf eldra fólksins.

Í Steglunni í þættinum Silfur Egils er fólk gjarnan spurt: „Fleiri innflytjendur til landsins?“ Þetta er svolítið asnaleg spurnig því við getum ekki flutt fólk hingað nauðugt eða alfarið bannað því að koma. Stjórnmálamenn geta ekki ráðið því beint hve margir setjast hér að, einungis er hægt að gera það miserfitt.

Sumir hafa svarað ofangreindri Stegluspurningu á eftirfarandi hátt: „Já, ef við getum tekið vel á móti þeim.“ Skrýtið þetta „ef“ hjá fimmtu ríkustu þjóð í heimi. Eða kannski halda menn að útlendingarnir þurfi einhverja sérstaka „móttöku“? Félagslegt húsnæði, skyldunámskeið í íslensku eða persónulegan ráðgjafa frá ríkinu?

Íslenskt þjóðfélag getur hæglega bætt mörgum einstaklingum til viðbótar. Þar sem líklegt er að nýfæðingum meðal Íslendinga fækki á næstu árum líkt og gerst hefur annars staðar í V-Evrópu þurfum við ferskt blóð inn í landið. Það er nóg að fólki í heiminum sem vill lifa heiðvirðu lífi í ríku velferðarríki. Ísland er gott land til að búa í með blómstrandi atvinnulífi og skilvirkri stjórnsýslu. Það er okkar móttaka.

Maígabb

Það er vissulega ánægjulegt að tímasetning stækkunar sé kominn á hreint. Þó að Evrópusambandið sé oft hlægileg stofnun þá þýðir innganga Austur-Evrópuþjóða í flestum tilfellum skref í átt til frjálsræðis fyrir umræddar þjóðir. Ég hef áður fjallað um ESB-andstöðuna í Póllandi í pistli mínum „Tvær hliðar ESB andstöðu“ hér á Deiglunni. Þótt að andstæðingarnir komi oft vel fyrir með slagorðum á borð við „allan heiminn sem markað“ eru þeir oftast bara venjulegir þjóðernissinnar. Þar sem þeir menn komast til valda er fyrsta verk þeirra að planta krossum í allar skólastofur en ekki að auka frelsi í viðskiptum. Frjálshyggjurökin gegn stækkun eru notuð á alþjóðlegum ráðstefnum, í samskiptum við almenning nota menn heldur bara gamla góða þjóðrembinginn.

Nú hafa andstæðingar ESB í Póllandi fengið vænan pakka frá framkvæmdarstjórninni. Þó að ég hafi leitað vel í dagatalinu tókst mér ekki að finna neina mögulega verri dagsetningu fyrir stækkun sambandsins. Hugsanlega hefði verið óheppilegt að stækka sambandið á Hrekkjavöku. Fyrsti apríl væri ef til vill heldur ekki besti kosturinn, því það gæti orðið uppspretta mjög lélegra brandara í fréttatímum álfunnar á þeim degi. Föstudagurinn langi gæti lagst illa í sumar kristnari þjóðir og afmæli októberbyltingarinnar mundi eflaust vekja blendnar tilfinningar. En ég held að engin dagur slái verkalýðsdeginum við.

1. maí er í Póllandi mjög sérstök götuslagsmálahátíð. Dæmigerð atburðarás dagsins er eftirfarandi: Fyrir hádegi safnast hægrisinnaðar og vinstrisinnaðar verkalýðshreyfingar hver á sínum stað. Vinstrimenn á torgum og í kröfugöngum en hægrimenn í kirkjum. Fáir vita að fyrsti maí er einnig hátíðardagur kaþólsku kirkjunnar. Þá er nefnilega „messa heilags Jósefs verndara verkamanna“. Upp úr hádegi kemur að því að ungir jaðarhægrimenn reyna að koma í veg fyrir að fyrrverandi kommúnistar geti lagt blómsveig að Leiði hins óþekkta hermanns í Varsjá. Beita þarf lögregluvaldi.

Eftir hádegi kemur til átaka milli friðarsinna og kristinnar æsku. Ungir þjóðernissinnar henda flöskum í unga sósíalista. Þeir svara fyrir sig. Og svona langt fram á nótt. Atburðarásin er síðan endurtekin á þjóðhátíðardeginum 3. maí sem orðinn svona „annar í fyrsta maí“ dagur.

Nú er erfitt að sjá hvernig hægt verði að koma fyrir hátíðarhöldum í tilefni af inngöngu Póllands í ESB í jafn þéttsetna dagskrá. Það hefði auðvitað bara verið langbest að stækka sambandið 1. janúar 2004. Fólki finnst eðlilegt að stórar breytingar eigi sér stað á nýju ári. Að auki eru allir vinir á þeim degi, menn lyfta upp glösum og skála fyrir framtíðinni og það er of kalt fyrir hópslagsmál.

Ástæða frestunar er víst sú að inngöngusáttmálinn þarf að vera samþykktur í öllum núverandi ESB ríkjum og slíkt tekur tíma. Í Belgíu þarf hann til dæmis að fara í gegnum 7 mismunandi þing, meðal annars þing þýska minnihlutans. Mér finnst hins vegar skárra að láta belgíska þingmenn missa af kaffinu sökum anna heldur en að sitja upp með dagsetningu sem er umdeild og margir Austur-Evrópubúar eiga erfitt með að sætta sig við sem hátíðarstund.

Að kjósa ekki

Ef að kosning um framtíðarskipulag Geldinganess færi fram í dag hefði ég ýmsar ástæður til að kjósa ekki. Til dæmis gæti ég haft almenna óbeit á beinu lýðræði, eða jafnvel lýðræði almennt. Einnig gæti ég talið mig ekki neinna hagsmuna að gæta í málinu eða einfaldlega ekki hafa nógu mikla þekkingu á því til að ljá öðrum hvorum kostinum atkvæði mitt. Þyngst mundi þó eflaust vega sú staðreynd að ég er staddur í Þýskalandi og er ekki tilbúinn til að fljúga heim einungis til þess að taka þátt í slíkri kosningu.

Eflaust væru fleiri, eins og ég, sem hefðu sínar ástæður til að sitja heima. Gefum okkur nú að kjörsókn verði rétt undir 40% og fylgismenn þess að gera Geldinganesið að Manhattan norðursins, með 50 hæða háhýsum, ynnu nauman sigur á fuglagriðlandssinnum. Þá má ganga út frá því sem vísu að Hollvinir Geldinganess héldu því fram að aðeins um fimmtungur kjósenda hafi stutt þá tillögu að fremja náttúruspjöll á Nesinu. Hefðu kosningarnar svo farið á hinn veginn má ætla Samtök um betra Geldinganes héldu því fram að yfir 80% kjósenda hefði ekki haft neitt á móti því að reisa þar fjármálamiðstöð.

Eins langt aftur í tímann og evrópsk lýðræðishefð nær hafa þeir sem tapa kosningum beitt sömu talnabrellunni til að gera lítið úr kosningasigri andstæðinganna. Ef mönnum finnst til dæmis fúlt hve mörg atkvæði Ólafur Ragnar hafi fengið þá geta menn leikið sér við að reikna út að aðeins um þriðjungur kjósenda hefði í raun viljað gera hann að forseta. Ef menn hafa áhuga á nýlegri dæmum þá geta menn margfaldað saman tvær tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni á Írlandi og þverstæðast síðan út í það að innan við helmingur Íra hafi samþykkt samninginn (líkt og innan við helmingur hafði fellt hann á sínum tíma).

Það ósvífnasta við þessa talnabrellu „lúseranna“ er að hún gerir kjósendum upp skoðanir. Þegar sigur andstæðinganna er minnkaður með lágri kjörsókn er verið að segja að hefðu fleiri kosið hefði niðurstaðan orðið önnur og væntanlega eru menn þá ekki að segja að þeir hefðu tapað enn stærra, heldur einmitt þveröfugt.

Eins og áður sagði getur fólk haft mismunandi ástæður fyrir að kjósa ekki á sama hátt og fólk hefur ólíkar ástæður fyrir því hvað það kýs. Ekki er víst að allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi verið að mótmæla „tíföldun skulda Borgarinnar“ eða að hver einasti kjósandi R-listans hafi „ekki gleypt við talnabrellum minnihlutans“.

Það er hins vegar ólíkt skárra að koma fram fyrir hönd fólks sem menn voru kosnir af heldur en að leggja orð í munn einstaklinga sem sérstaklega kusu að tjá sig ekki. Nýlega mátti lesa í Stúdentablaðinu að í Háskólanum sé einmitt allt morandi í svona þöglu félagshyggjufólki sem gleymir að kjósa. Þöglu félagshyggjufólki sem nennir samt ekki að kjósa þótt það hafi tvo daga til þess og annað félagshyggjufólk hringi í það og bjóðist til að skutla því á kjörstað.

Að ætla sér að smána sigur pólitískra andstæðinga með því að benda á lága kjörsókn er alveg einstaklega heimskulegt. Það voru, jú, þeir sem fengu yfirhöfuð flesta til að mæta á kjörstað.

Þó að öllum ætti að vera kappsmál að kjörsókn verði sem hæst á hún aldrei að hafa neina þýðingu fyrir niðurstöður kosninga. Sum ríki beita sérstökum aðgerðum til að ýta upp kjörsókn. Víða eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekki gildar nema helmingur kjósenda taki þátt í þeim. Í Júgóslavíu á þetta jafnvel við um almennar kosningar. Það sem er slæmt við þessa reglu er að hún gerir kosningabindini raunverulegum og oft áhrifaríkum valkosti í baráttunni. Víða þar sem kosið hefur verið um fóstureyðingar hafa andstæðingar þeirra til dæmis kvatt sitt fólk til að sitja heima og tryggja þannig að kosningarnar verði ekki gildar.

Annars staðar, t.d. í Ástralíu, er fólk sem kýs ekki beitt sektum. Það er sorglegt að sumir telji lýðræðið ekki hvíla á sterkari grunni en svo að neyða verði fólk til þátttöku í kosningum.

Rétturinn til að hafa ekki skoðun hlýtur að vera jafnmikilvægur og rétturinn til að kjósa. Engin ætti að gera öðrum upp skoðanir sem hann hefur ekki tjáð. Við hljótum að ætla að þeir sem sitja heima kjósa að láta okkur hinum eftir ákvarðanirnar. Það er sjálfsögð kurteisi að virða það val.