Páfinn og ESB

Ljóst var að pólska ríkisstjórninn gerði sér miklar vonir um góðan stuðning Páfans. Það sést meðal annars á því að sjálfur Aleksander Kwasniewski forseti var mætti til að hlýða á, auk fjölmenns flokks ráðherra úr stjórninni. Það var því ljóst að ráðamenn töldu að ræðan hefði mikið vægi í umræðunni innanlands.

Pólska stjórnin stendur afar veikt. Síðan Bændaflokkurinn yfirgaf hana eftir áramót hefur Lýðræðislega vinstribandalagið setið í minnihlutastjórn. Hófsamir stjórnarandstöðuflokkar hafa varið stjórnina falli en almennt eru menn sammála um að eini tilgangur þessarar stjórnar sé að koma landinu gegnum þjóðaratkvæðagreiðsluna, að því loknu verður boðað til þingkosninga.

Það er ljóst að Páfinn hefur ekki valdið pólskum Evrópusinnum vonbrigðum. Í lok seinustu ferðar sinnar til Póllands talaði hann aðeins um að „Pólland yrði að finna sinn stað í samfélagi Evrópuþjóða“. Sá staður gæti auðvitað verið Evrópuráðið eða EFTA, enda voru alheimssinnaðir pólskir ESB-andstæðingar fljótir að túlka þetta einmitt á þann veg. Að þessu sinni var Evrópusambandið sem slíkt nefnt beint á nafn:

„Pólland og önnur lönd gömlu austurblokkarinnar sem nú ganga í Evrópusambandið hafa mikilvægu hlutverki að gegna í álfunni. Pólland þarfnast Evrópu og Evrópa þarfnast Póllands. Innganga í Evrópusambandið á skilmálum til jafns við önnur ríki er okkur og slavneskum frændþjóðum okkar tákn um sögulegt réttlæti. Enn fremur getur þetta gert Evrópu sjálfa ríkari.

Þó að orðin séu sterk og Pólverjar flestir kaþólskir þarf alls ekki að vera að orðin muni hafa það mikil áhrif. Sér í lagi er afar ólíklegt að einhverjum hörðum ESB-andstæðingum muni snúast hugur þrátt fyrir að flestir þeirra liggi einmitt á hinum þjóðerniskaþólska væng pólskra stjórnmála. Páfinn hefur jú áður lýst yfir stuðningi við aðild Póllands að ESB, m.a. í pólska þinginu árið 1997 en engu að síður héldu þeir áfram að berjast gegn aðild, þvert á orð hins „óskeikula“ leiðtoga síns. Það hefur verið bent á að pólskir jaðarhægrimenn séu mun meiri þjóðernissinnar en kaþólikkar þó að þeir noti gjarnan trúarleg rök til að ná eyrum fólks.

Það verður síðan forvitnilegt að sjá hve afgerandi afstöðu kirkjan tekur í kosningabaráttunni. Í Litháen hvöttu prestar fólk eindregið á sunnudegi til að mæta á kjörstað og kjósa „já“ og telja sumir að þannig hafi tekist að koma kjörsókninni yfir 50% sem nauðsynlegt var til að kosningin teldist gild. Sömu kröfur eru gerðar til kjörsóknar í Póllandi og í raun virðist það nú vera helsti þröskuldurinn í vegi Pólverja inn í ESB. Í Slóvakíu voru t.d. 92% kjósenda fylgjandi aðild en kjörsóknin var aðeins 52%. Það hefur því verið bent á að það á sinn hátt andstæðingar aðildar sem komu landinu í ESB, með þáttöku sinni í kosningum.

Hvort að boðskapur Páfans muni hafa áhrif á þá Pólverja sem búa hér á landi skal ósagt látið en alla vega geta þeir nú nýtt atkvæðisréttinn með því að skrá sig til kosninga hjá Pólska sendiráðinu í Osló. Heyrst hefur að áhuginn sé mikill enda mun innganga Póllands í ESB hafa veruleg áhrif á réttarstöðu Pólverja á Íslandi, sérstaklega hvað dvalar- og atvinnuleyfi varðar.

Æskudýrkun?

Mörgum er tíðrætt um svokallaða „æskudýrkun“ þjófélagsins. Hún á að felast í því að vinsælt sé að vera ungur, hvort sem er í starfi eða stjórnmálum. Ungt fólk er ráðandi á í auglýsingum, hvort sem er fyrir farsíma, bílalán eða fatnað. Andlit ungs fólks eru því jafnan tengt einhverju frísku, einhverju frumlegu.

Eins, þegar fyrirtæki ráða til sín fólk eða stjórnmálaflokkar raða saman listum þá leitast stjórnendurnir við að hafa sem flesta „unga“ innan sinna vébanda. Sumir þeirra gera þetta eflaust meðvitað, til að láta aðra tengja flokkinn eða fyrirtækið einhverju frísku og frumlegu, meðan að aðrir eru sjálfir svo djúpt sokknir í æskudýrkuninni að þeir velja bara unga óhæfa fólkið fram yfir hina eldri og reyndari.

Þetta eiga að vera birtingarmyndir hinnar svokölluðu æskudýrkunar.

Nú er það freistandi, og reyndar víðtekin venja, að þegar einhver skoðun er algeng þá leitast pistlahöfundar eins og ég við halda fram hinu gagnstæða. Þetta er svipað því þegar einhver segir að appelsínugulur sé uppáhaldsliturinn hans, eingöngu til að skapa sér sérstöðu, því allir vita að hvaða litur er flottastur og ekki er það appelsínugulur.

Spurningamerkið í lok fyrirsagnar, hæðnislegar spurningar í innganginum og “hin fíflin segja”-formáli ættu nú að gera öllum ljóst að það sé einmitt tilgangur þessa pistils að gera lítið úr æskudýrkun þjóðfélagsins. Vonandi að það takist áður en höfundur kafnar í sínum eigin formhroka.

Nú skal það að viðurkennt að eflaust eigi ungt fólk auðveldara uppdráttar á ýmsum sviðum sökum aldurs. En er það fólk í hvívetna einhverjir sérstakir boðberar æskunnar? Hver er yfirhöfuð hin íslenska æskumenning?

Til að byrja með þá gera fáranleg lög um áfengiskaupaaldur það að verkum að engin vill kannast við að vera á aldrinum 16-20 ára. Fólk á þessum aldri hefur fáa staði til að skemmta sér á löglega. Fólk leitast því við að klæða sig í fullorðinslegri föt, mála sig, lita hýunginn dökkann og sprengja bólurnar. Hvað sem er til að eldast um tvö þrjú ár.

Reyndar kemur fyrir að menntaskólakrakkar fá að fara löglega inn á skemmtistaði. Það gerist á svokölluðum „skólaböllum“. Þá klæða ungmennin sig upp jakkaföt og síðkjóla til að stíga dans við tónlist Stuðmanna. Æskudýrkuninni til dýrðar!

Þegar ungt fólk kemst á þing og í bæjarstjórnir er hagar það þá sér sem sérstakir „fulltrúar“ ungs fólks? Nei, þeir eru bara fulltrúar fyrir sinn flokk eða hreyfingu, enda engin ástæða fyrir sérstaka „fulltrúa“ hinum og þessum smáhópum til dýrðar. En samt eru þeir alltaf auglýstir þannig fyrir kosningar.

Vonandi ætlar einhver hinna nýkjörnu „ungu fulltrúa“ að berjast fyrir mesta hitamáli fólks á aldrinum 18-20 ára nái þeir kjöri. Það er samt ólíklegt að svo verði. Í KosningaAti um daginn gafst ungum kjósendum færi á að spyrja frambjóðendur spurninga. Unga fólkið spurði um menntun, skatta og fæðingarorlof sem vissulega skipta miklu máli en engin spurði þeirrar einföldu spurningar sem brennir á svo mörgum: „Hvenær ætlið þið að leyfa fullorðnu fólki að kaupa sér bjór?“

Í allri æskudýrkuninni er ungt fólk nefnilega oft hrætt við að taka þátt í umræðunni á sínum eigin forsendum. Af ótta við að vera álitið barnalegt.

Ríkiskirkjan lifir

Á Íslandi nýtur eitt trúfélag, Þjóðkirkjan, verndar og stuðnings hins opinbera umfram önnur. Þó að trúfrelsis sé að öðru leyti oftast gætt hér á landi eru samt margar ástæður fyrir því að nauðsynlegt sé að breyta núverandi kerfi. Um þetta skrifaði ég í pistlinum „Að skilja Ríkið (og Kirkju)“ sem birtist hér á Deiglunni fyrir nokkru.

Um daginn var haldinn málfundur þar sem fulltrúar fimm flokka útskýrðu stefnu sína í þessum málum. Af þeim flokkum hafði aðeins einn þeirra, Frjálslyndi flokkurinn, tekið þá afstöðu að skilja bæri milli ríkis og trúar. Vinstriflokkarnir tveir sögðust ekki myndað sér stefnu í þessum málum. Össur Skarphéðinsson sagði að í flokknum væru margir sem vildu lögskilnað en einnig margir prestar og flokkurinn sem slíkur hafði ekki myndað sér stefnu í trúmálum. Einnig taldi hann að:

„[…]Kirkjan hefði átt erfitt uppdráttar um langt skeið en upp á síðkastið hefði hún komið inn í umræðuna og nú sæjust þess merki að hún væri að verða sá móralski viti sem væri nauðsynlegur. Hún eigi að vera uppspretta siðlegra gilda sem ríkja eigi í samfélaginu.[…]“

Sá sem þetta skrifar dregur í efa þörf á ríkisreknum mórölskum vita.

Drífa Snædal, fulltrúi VG sagði að málið væri þverpólitískt innan hreyfingarinnar og þótt Árni Steinar þingmaður hafði á sínum tíma lagt fram frumvarp þess efnis væru margir innan hennar á öðru máli. Afstaða þessara manna mótast væntanlega af almennum ótta við hvers kyns frjálslyndi og ást á ríkisreknum fyrirbærum almennt, því ekki hafa sósíalistar hingað til þótt sérstaklega trúrækið fólk.

Sólveig Pétursdóttir Dóms- og Kirjumálaráðherra fór yfir stöðu mála, útskýrði að Kirkjan væri orðin mjög sjálfstæð stofnun. Frekari aðskilnaður væri flóknara mál m.a. annars vegna þess að kirkjan ynni mikið starf erlendis. Sólveig tilgreindi síðan 62. grein Stjórnarskrárinnar (Vernd og stuðningur Ríkisins við Þjóðkirkjunu) máli sínu til stuðnings.

Það má vel vera að málið sé „flókið“. En er það flóknara en til dæmis einkavæðing bankanna? Auka þarf sjálfstæði og fjárhagslegan grundvöll Kirkjunnar smám saman og síðan skera á tengslin þegar hún er fær um að bera sig sjálf. Það hvort málið sé flókið kemur málinu ekki svo mikið við einkavæðingin var einnig flókin en samt var ráðist í hana. Það er einnig asnalegt að skýla sig bak við Stjórnarskrána því henni má breyta og það er jafnvel sú grein innan hennar sem auðveldast er að breyta. Ef spurt er um afstöðu til aðskilnaðar er þá væntanlega einnig verið að spyrja um afstöðu til þessarar tilteknu greinar.

Jónína Bjartmarz talaði loks fyrir hönd Framsóknarflokksins. Hún sagði að flokkurinn væri á móti aðskilnaði ríkis og kirkju. Síðan bætti hún við:

„Hér ríkir kristilegt siðferði. Margt í öðrum trúarbrögðum stangast á við gott siðferði, til dæmis múhameðstrú og hvernig hún skilgreinir stöðu

kvenna.“

Þetta eru athyglisverð ummæli sem vert er að athuga. Stjórnarskráin gerir einmitt ráð fyrir að heimilt sé að stofna trúfélög svo lengi sem trúin stríði ekki gegn „góðu siðferði“. Það má því skilja það svo að múslimar fengu ekki skrá trúfélag sitt á Íslandi, fengi Jónína Bjartmarz einhverju ráðið. Það er að auki er staða konunnar álíka „vel skilgreind“ í kristinni trú og Íslam, eins og lesa má í 1. Kórinþubréfi:

[1.Kor. 11:7-9] Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins. Því ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum, og ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins.

Það siðferði sem við lifum við á Vesturlöndum er samblanda af kristnum gildum og heilbrigðri skynsemi. Og ekki er nú hægt að fullyrða að kirkjan hafi verið sá aðili sem gegnum tíðina hefur dregið taum jafnréttis og umburðarlyndis. Eflaust fengju konur aldrei að vera prestar, skilnaðir væru bannaðir og samkynhneigðir væru enn álitnir glæpamenn ef ekki væri fyrir inngrip „eiganda“ trúfélagsins, þ.e. Ríkisins.

Það er oft talað um að kirkjan þurfi að veita ríkinu siðferðislegt aðhald. Í raun hefur þetta verið öfugt. Í siðferðismálum er ríkið oftast ljósárum á undan.

Súrt land

Það er nú meira hvað Bandaríkjamenn ætli sér að taka uppbyggingu Íraks alvarlega. Ruslatunnurnar í Bagdad loguðu enn þegar tilkynnt var hver yrði næsti áfangastaður á tjónleikaferðagi Bandaríkjahers um múslimaríki: Sýrland.

Hér á Íslandi höfum við kannski ekki mikið orðið vör við undirbúning ásakana á hendur Sýrlendingum enda eru íslenskir fjölmiðlar enn býsna uppteknir af nútíð og framtíð Íraks. Hins vegar kveður við annan tón þegar horft er á bandarísku fréttastöðina Foxnews.

Ég veit ekki til þess að íslenskir áhorfendur hafi enn fengist að kynnast þeirri merku fréttastöð en sjálf skilgreinir hún sig sem mótvægi við “ofurfrjálslyndar og vinstrisinnaðar” fréttastöðvar á borð við CNN. Stöðin hefur flutt nær stanslausar fréttir af “stríðinu gegn hryðjuverkum” í á annað ár, með bandaríska fánann blaktandi í skjáhorninu. Af og til brjóta fréttamenn stöðvarinnar þó upp dagskránna með því að taka fyrir nýleg morð og krefjast dauðadóms yfir hinnum grunuðu. Erlendar fréttir stöðvarinnar takmarkast nær eingöngu við ríki sem Bandaríkin hyggjast gera árás á. Já, og auðvitað Ísrael.

Það var fróðlegt að fylgjast með útsendingu stöðvarinnar í gær, páskadag. Náðu andbandarísk mótmæli í Bagdad að fanga athygli fréttamannana? Höfðu þeir áhuga á lyfjaskorti á sjúkrahúsum í Bagdad? Vatnsskorti í Basra? Eða því hvort tækist að byggja upp lýðræði í landinu með jákvæðum afleiðingum fyrir öll Mið-Austurlönd? Nei. Írak tilheyrir nefnilega fortíðinni. Framtíðin er Sýrland.

Hópur “álitsgjafa” stöðvarinnar tók að sér að búa til ásakanir á hendur Sýrlendingum. Sýrlendingar héldu hlífsskildi yfir samstarsmönnum Saddams. Sýrlendingar byggju yfir gereyðingavopnum. Stjórn Sýrlands væri ekki lýðræðislega kjörin. Sýrlendingar studdu við bakið á palestínskum hryðjuverkamönnum. Sýrlendingar hefðu með ólögleglegu hætti tryggt sér ítök í stjórn Líbanons o.fl.

Þessar ásakanir eru svipaðar þeim sem Donald Rumsfeld dómsmálaráðherra hefur verið að tína til eftir falli Bagdad. Það segir nú eitthvað um tryggð Bandaríkjamanna við heimsfriðinn að þeir skyldu hafa uppi alvarlegar hótanir við eitt ríki á meðan hernaði gegn öðru er vart lokið. Væri ekki málið að byggja upp lýðræði í Írak og vonast til að það gefi gefi nágrannaríkjum Íraka gott fordæmi?

Að lokum er ekki hægt að annað en að minnast á spilastokkinn sem gefinn var út með 55 eftirlýstum Írökum. Maður hugsar nú bara: “Krapp!” Hvaða Lukku-Láka fílingur er þetta eiginlega? Halda sumir að Miðausturlönd séu Villta-Vestrið? Ætlar Bandaríkjastjórn kannski að endurreisa íraskan efnahag með gerviperlum og glópagulli?

Einveldið Heimur

Bandaríkin eru merkilegt ríkjasamband og eðlilegt að fólk dáist að þeim. Það er eðlilegt að menn líti upp til sinna fyrirmynda og veiti þeim móralskan stuðning hver á sínum vettvangi. Það er hins vegar ótrúlegt hvað sumir eru tilbúnir að leggja á sig við hvolfa við hefðbundinni rökfræði, afneita almennum siðferðisgildum og leggjast í tímaferðalög til þess einungis að reyna að hnoða saman rökum fyrir hinum og þessum geðþóttaákvörðunum Bandaríkjastjórnar.

Það kæmi mér ekki á óvart ef Bandaríkin mundu nota kjarnorkuvopn í Írak að fram kæmu menn sem tilbúnir væru að rökstyðja þá ákvörðun. Þeir mundu halda því fram að hún hefði í raun bjargað mannslífum því miklu fleiri hefðu geta látist í „beinum“ átökum. Þetta væri nú lítil tala miðað við alla þá sem látist höfðu fyrir Saddams hendi o.s.frv.. Auðvitað mundu þessir menn harma mannfall meðal óbreyttra borgara en „slíkt fylgir nú alltaf stríði“. Og að sjálfsögðu „gera herir bandamanna allt til að lágmarka fall meðal óbreyttra borgara“ ólikt mannætuherjum Saddams sem skytu á börn sér til skemmtunar.

En komum okkur að aðalatriði málsins – stríðinu í Írak. Aðdragandi þess stríðs er ekki ósvipaður aðdraganda stríðsins í Afganistan. Í upphafi snerist stríðið í Afganistan um að koma höndum yfir Al’Kaida leiðtoga og uppræta starfsemi samtakanna. Þegar illa gekk að ná því markmiði settu menn upp málið þannig að verið væri að frelsa þjóð undan ógeðslegri harðstjórn. Það sama er að gerast nú. Í upphafi snerist stríðið um gjöreyðingavopn Íraka. Nú þegar stríðið hefur staðið í hálfan mánuð og vísbendingar um þau vopn hafa ekki fundist (eða ekki gerðar opinberar) er aftur allri athygli beint að „frelsun íraskrar þjóðar“.

Það er auðvitað gott mál að frelsa þjóð undan harðstjórn. Slíkt verður þó að gerast með löglegum hætti og ekki án þess að breiður alþjóðlegur stuðningur sé til staðar. Bandaríkjamenn tóku þá afstöðu að Sameinuðu Þjóðirnar höfðu brugðist vegna þrjósku ríkis með neitunarvald og því þyrfti að grípa til aðgerða með þessum hætti.

En hvaða þrjóska ríki er þetta sem hefur með illum ráðum ákveðið að lama alþjóðasamfélagið. Þetta er væntanlega eitthvað ríki sem hefur annarlegra hagsmuna að gæta, með stjórn sem hefur komist til valda með vafasömum hætti og hefur oft áður stofnað til vandræða með yfirgangi og leiðindum á alþjóðlegum vettvangi. Er þetta Kína? Sýrland? Sovétríkin? Nei, kæru lesendur ríkið sem um ræðir heitir Frakkland og er stjórnað af miðjuhægrimönnum. En eflaust lætur franska stjórnin stjórnast af pópúlisma í þessu máli enda aðeins 4 ár í næstu kosningar og því mikið í húfi.

Nei, það segir mér enginn að Frakkar séu einhverjir harðhausar sem ekki sé hægt að tala til ef málefnið er gott. Ég man a.m.k. ekki eftir að Frakkar verið hingað til beitt neitunarvaldi sínu hægri og vinstri til þess eins að fólk tæki eftir þeim. Ætli staðreyndin sé ekki bara sú að Frakkar höfðu rétt fyrir sér: Enn var tími til að vinna að díplómatískri lausn að málinu. Enn var tími til að láta reyna á vopnaeftirlitið.

Þó að það sé ef til vill ágætt að losa sig við Saddam má ekki gera það á kostnað trúverðuleika Sameinuðu Þjóðanna. Hafi Frakkar verið á móti vopnabeitingu áttu menn að reyna tala þá til eða í versta falli bara að láta sig hafa það. Öryggisráðið á að vera stofnun sem ríkisstjórnir taka mark á. Ef að þau ríki sem hafa mest vald innan Ráðsins kjósa sjálf að hundsa það, hvernig eiga hin ríkin þá að taka alyktanir þess alvarlega?

Sameinuðu þjóðirnar eru ef til vill ekki nein frábær stofnun. Hins vegar held ég að sú heimsregla sem SÞ bjóða upp á sé betri en engin. Einhliða ákvarðanir um stríð færa okkur skrefi nær heimsstjórnleysi. Og þá fyrst mun allt fara til fjandans.

MR getur best

Nei, sigur MR í Gettu betur kemur ekki mikið á óvart. Þessi sigur er víst sá tólfti í röð og er því ekki langt í að MR nái því þeim merka áfánga að geta sett lið sitt saman einungis af mönnum sem fæddir voru eftir að sigurgangan hófst.

Að sama skapi og maður gleðst með sigri síns gamla skóla og óskar hinum hárprúðu ungu möngum góðrar, heilbrigðrarskemmtunar í heitu sumarlandi kemst maður ekki hjá því að taka svolítið undir með hinum almenna áhorfanda. Þessi langa sigurganga hefur komið niður á skemmtanagildi keppninnar.

Einhver staðar heyrði ég að teigurinn í NBA deildinni hafi verið stækkaður á sínum tíma til að minnka yfirburði Jabbars. Á sama hátt hafa komið fram ýmsar hugmyndir um hvernig minnka mætti sigurlíkur MR og auka skemmtanagildi keppninnar. Einhvern tímann voru spurningarnar gerðar einfaldari í von um að hin liðin yrðu stundum fyrir tilviljun fljótari en MR til að hringja bjöllunni og ef það gerist oft í einni keppni getur jafnvel farið svo að MR verði undir. Síðan hafa stundum komið fram hugmyndir um að skeyta saman Gettu betur og Morfís en MR hefur ekki unnið seinni keppnina í mörg ár. Einhvern tímann voru hraðaspurningarnar færðar aftur fyrir til að MR mundi ekki gera út um keppnina á fyrsta korterinu og að lokum má ekki gleyma þeirri skondnu hugmynd sem fram kom á FF þingi í fyrra um að banna þeim skóla sem vinna þrjú ár í röð að taka þátt á komandi ári.

Öllum sem sáu úrslitin var ljóst að yfirburðir MR voru miklir. En að baki þeim yfirburðum liggur gríðarmikil vinna. Tveir í MR-liðinu höfðu verið í þjálfun í 2 ár áður en þátttaka þeirra í keppninni hófst. Það má því fullyrða að keppnin verður ekki spennandi fyrr en hinir skólarnir taka sér tak og fara skipuleggja sína þátttöku betur að keppnin geti orðið spennandi á ný.

MR-hefur að undanförnu komið sér upp öflugu kerfi við val og þjálfun keppenda. Í upphafi árs er haldin skrifleg undankeppni sem gamlir keppendur skipuleggja. Þeim fyrsta árs nemum sem lenda ofarlega er boðið að gerast liðstjórar. Þeir sjá þá um að semja spurningar fyrir aðaliðið í eitt eða tvö ár og afla sér þannig gríðarlegrar þekkingar áður en þeir taka sjálfir sæti. Reynt er að koma því þannig fyrir að liðsmenn komi ekki úr sama árgangi til að alltaf séu einhverjir með reynslu innan liðsins. Einn gamall keppandi tekur að sér að þjálfa liðið.

Að auki sér liðið um spurningakeppni bekkjardeilda innan skólans þar sem þeir notast væntanlega að einhverju leiti við spurningar úr þjálfuninni. Þessi litla spurningakeppni er með mjög svipuðu sniði og Gettu betur. Hugmyndin með henni er að gefa bekkjum færi á að meta visku sína og að halda uppi almennum áhuga á stóru keppninni.

Af og til koma upp lið úr öðrum skólum sem geta skákað MR, t.d. Borgarholtsskóli fyrir 2 árum og MH fyrir nokkrum árum áður. Þeim skólum hefur ekki tekist að fylgja eftir þeim árangri enda oft um að ræða fólk af sama árgangi sem hættir allt á einu bretti og nær ekki að skapa hefð. Það er því mín tillaga um að aðrir skólar komi sér upp þjálfara- og inntökukerfi að fordæmi MR. Aðeins þannig verður MR-veldinu ógnað.

Talið vitlaust

Yfir 300 þúsund kjósendur voru á kjörskrá fyrir atkvæðagreiðsluna á laugardaginn. Þar af kusu 91%. Af þeim sem afstöðu tóku voru 53,6% með aðild en 46,4% á móti.

Maltnesk stjórnmál undanfarin ár hafa að miklu leyti snúist um ESB-aðild. Tveir stórir flokkar eru á Möltu. Verkamannaflokkurinn hefur undanfarin ár barist gegn aðild en Þjóðernisflokkurinn verið fylgjandi. Þannig er töluvert langt síðan að landið sótti um inngöngu í ESB en hins vegar var aðildarumsóknin „fryst“ þann tíma sem Verkamannaflokkurinn var við völd. Það er því engin vafi á að úrslitin séu sigur fyrir Þjóðernisflokkinn og Eddie Fenech Adami forsætisráðherra þó að hinn eiginlegu úrslit ráðist í þingkosningum sem fara fram í næsta mánuði.

Verkamannaflokkurinn tók furðulega afstöðu til atkvæðagreiðslunnar. Um tíma stóð til að hvetja fólk til að ógilda seðilinn með því að rita á hann „Viva Malta“ en undir lokin hvatti flokkkurinn kjósendur sína til að gera eitt af þrennu: Að kjósa „nei“, ógilda atkvæði sitt, eða að sniðganga kosningarnar. Það var einmitt hið síðastnefnda sem formaður flokksins gerði en hann mætti þó á kjörstað til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum sem fóru fram á sama tíma.

Þegar talið var upp úr kjörkössunum og ljóst var hvernig atkvæðin lágu lýsti Verkamannaflokkurinn yfir sigri enda var fjöldi þeirra sem “farið höfðu að þeirra ráðum” hærri um 7 þús. en fjöldi þeirra sem kosið höfðu „já“. Þ.e.a.s þeir sem kusu, „nei“, ógiltu atkvæðin eða kusu ekki voru sem sagt fleiri en þeir sem kusu „já“.

Í greininni „Að kjósa ekki“ sem birtist hér á Deiglunni fyrir nokkru síðan var fjallað um þá algengu talnabrellu þeirra sem tapa í kosningum að túlka lága kosningaþátttöku sér í hag og er ofangreint tilfelli frá Möltu einmitt dæmi um slíkt.

Það er þó sem betur fer þannig ofangreindar ranghugmyndir maltneskrar stjórnarandstöðu geta ekki talist ógn við lýðræðið enda hafa þær engar afleiðingar í för með sér. Verra er þegar ákveðið er að láta kosningaþátttöku eða auð atkvæði hafa áhrif á úrslit kosninga, eins og til dæmis þegar 50% þátttöku er krafist. Það er grundvallaratriði að kosningar skulu leynilegar til þess að ekki sé hægt að kaupa atkvæði fólks. Þess vegna ógilda menn atkvæði sitt með því að krota kennitölu og bankareikning aftan á seðilinn. Um leið og ógild atkvæði fara að hafa áhrif á niðurstöðuna er komin hætta á að flokkar greiði mönnum fé fyrir að ógilda seðilinn eða einfaldlega að sitja heima.

Möltubúar ganga aftur að kjörborðinu eftir mánuð til að kjósa sér nýtt þing. Þær kosningar skipta öllu um það hvort landið gangi inn í ESB eða ekki. Það er því von að stjórnarandstaðan einbeiti sér að því að fá fólk á sitt band með hefðbundnum aðferðum í stað að þess reikna óákveðna kjósendur til liðs við sig með vafasömum talnabrellum.

Kristíanía

Nýlegir tilburðir dönsku stjórnarinnar eru síður enn svo nýir af nálinni. Íbúar Kristíaníu hafa oft þurft að berjast fyrir tilveru sinni og hafa áður verið gerðar fjórar tilraunir til að bera út íbúana í 30 ára sögu Fríríkisins. Þær hafa allar mistekist.

Það má segja að það sé misgott milli ára að vera Kristíaníubúi. Afstaða framkvæmdavaldsins til “tilraunarinnar” breytist með hverri stjórn svo framtíðin er ávallt óráðin. Frá því að ný stjórn hægriflokka tók við í Danmörku hefur hallað undan fæti. Lögreglan fjölgað heimsóknum sínum verulega.

Slíkar heimsóknir eru alltaf eins. Lögreglumennirnir ryðjast inn í Kristíaníu og til stimpinga kemur milli lögreglumanna og íbúa (og hunda) Fríríkisins. Lögreglan er á staðnum í um klukkutíma og gerir upptækt eitthvað magn af kannabisefnum. Korteri eftir að hún er farin eru hasskökurnar farnar að seljast að nýju.

Það er skiljanlegt að fólk skulu hafa horn í síðu manna sem gera það atvinnu sinni og lífsspeki brjóta lög samfélagsins. Það má hins vegar ekki gleyma þeim margsagða sannleik að menn eigi að vera frjálsir til að gera það sem þeim sýnist svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Kristíaníubúar hafa ekki ákveðið að sniðganga öll lög og siðferðisviðmið danska samfélagsins. Þau sniðganga bara mjög afmarkaðan hluta þeirra og um þennan afmarkaða hluta eru allir íbúar Kristíaníu sammála. Ræðukeppnarökin, “Eigum við þá ekki bara að leyfa þjófnað?” ganga því ekki upp.

Munurinn á sósíalísku alræðissamfélagi og frjálslyndu markaðsamfélagi á víst að vera sá að fólk í kapitalísku samfélagi eigi að geta tekið sig saman og stofnað kommúnu ef því svo sýnist en það gildir ekki öfugt fyrir markaðsinnað fólk sem býr í kommúnistaríki. Þetta hafa Kristíaníubúar einmitt gert.

Hitt er svo annað mál að stofnendur Kristíaníu voru margir hverjir hústökufólk og núverandi íbúar eiga því ekki húsin sem þeir búa í. Í því samhengi tel ég að Danska Ríkið hafi með aðgerðaleysi sínu í 30 ár í raun lagt blessun sína yfir eignatökuna. Gera þarf þær kröfur til ríkisvaldsins að réttarkerfið virki hratt svo fólk geti haldið áfram að lifa lífinu. Þess vegna firnast glæpir og þess vegna þykir það kappsmál að menn fá að afplána dóma sem fyrst. Það sama ætti að gilda um eignatöku á borð við þessa sem átti sér stað í Kristíaníu. Þrjátíu ára aðgerðaleysi ætti að vera nóg til að fólk vissi að Ríkið hygðist ekki vísa þeim á dyr.

Ég kom til Kristíaníu seinasta sumar. Mér fannst hún bara vera frekar notalegur staður, jafnvel á mörkum þess að vera fjölskylduvænn. Danskir krakkar hjóluðu um á fjallahjólum með Faxe Kondí í hönd. Húsin voru litskrúðug og snyrtileg og göturnar mátulega hreinar. Stemningin var afslöppuð og yfirþyrmandi ofbeldislaus. Þetta voru ekki bara útúrreyktir hippar og Jamaicabúar með dredda. Að mörgu leyti er Kristíanía einmitt eitthvað aldanskasta sem til er í Danmörku.

Ég óska henni að svo verði áfram.

Kjósum samstarf

Kosningar til Stúdentaráðs standa nú yfir. Að þessu sinni eru þrír listar í framboði og ættu því flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þó lítur fyrir að um helmingur stúdenta muni sitja heima. Hvers vegna telja þau að atkvæði þeirra skipti ekki máli? Og hvers vegna er það rangt hjá þeim?

Fólk getur haft ýmsar ástæður fyrir að kjósa ekki. Tvær þeirra eru helstar:

1.Það er fullt af öðru fólki að fara kjósa. Hvers vegna skiptir máli hvað ég geri?

2.Allir frambjóðendur eru eins svo það skiptir ekki máli hvað ég kýs.

Í seinustu Stúdentaráðskosningum munaði aðeins 4 atkvæðum á Vöku og Röskvu. Það hefði sem sagt verið nóg ef að einu vina- eða kærustupari hefði snúist hugur til að farið hefði á hinn veginn. Einnig var fjöldi þeirra sem gerði atkvæði sitt ógilt með því að strika menn út af öðrum listum eða breyta röð þeirra stærri en fjórir svo það má sannarlega segja að að orðin “að kjósa rétt” hafi orðast beinskeyttari merkingu þann dag.

Þá er að velta fyrir sér þeirri spurningu hvort að niðurstaða kosninganna skipti máli. Mörgum kjósendum virðist sem fylkingarnar séu mjög svipaðar, málefnin keimlík og jafnvel litasamsetning plakatanna stæluð hvor frá öðrum. Margir eru enn fremur þeirrar skoðunar að: “Flokkadrættir eigi ekki við í háskólapólitík sem sé sérhagsmunagæsla í eðli sínu. Stúdentar ættu að starfa saman í stað þess að karpa innbyrðis.”

Ýmislegt er til í áðurnefndri tilvitnun. En í því samhengi verður að skoðast hvor fylkingin eigi sér betri fortíð varðandi samstarf í Stúdentaráði. Þegar Röskva sigraði mjög naumlega í kosningunum fyrir tveimur árum var engu að síður ákveðið að ALLIR nefndarformenn skyldu koma úr röðum Röskvu. Tillögur Vöku í Stúdentaráði og nefndum þess voru allar kosnar niður. Skoðanir næstum helmings kjósenda voru virtar að vettugi.

Í ár hefur meirihluti Vöku meðal annars boðið Röskvu formennsku í nefndum, fjölgað fulltrúum minnihlutans í stjórn Stúdentaráðs auk þess sem margar tillögur Röskvu voru samþykktar í Stúdentaráði og nefndum þess.

Því miður hafnaði minnihlutinn boði Vöku um formennsku í nefndum. Röskva svaraði því til að þau vildu “skýra ábyrgð”. Með öðrum orðum vildi Röskva einfaldlega ekki koma á fordæmi í þessum efnum. Það skipti engu máli að formannsembættin hefði mátt nýta til að vinna í þágu kjósenda sinna, Röskva vildi ekki koma á slíku fordæmi og þurfa þar með hugsanlega að afsala sér völdum í framtíðinni.

Þegar þetta er skrifað eru um 4 klukkustundir þar til að kjörstöðum lokar. Ég vil nýta tækifærið til að hvetja alla sem hafa kosningarétt til að nýta sér hann. Kjósum markvissa stefnu í stað nöldurs. Kjósum samstarf í Stúdentaráði. Kjósum betri Háskóla. Áfram Vaka!

Fyrirkomulag kosninga til Stúdentaráðs

Til stúdentaráðs eru kosnir 18 einstaklingar. Að nafninu til eiga þeir að vera kosnir til tveggja ára í senn. Hugmyndin með því er að nýta þá reynslu sem eldri stúdentaráðsliðar hafa aflað sér. Sá hængur er hins vegar á að upp gæti komið sú staða að tvær fylkingar hafi jafn mörg sæti í ráðinu og ómögulegt sé að mynda meirihluta.

Sú staða kom seinast upp í árdaga Röskvu og var upp frá því ákveðið að úrslit kosninga myndu hafa áhrif aftur í tímann. Þ.e. fái fylking fjóra menn kjörna árið 2003 fara fjórir efstu menn á listanum frá 2002 einnig inn. Sannleikurinn er því sá að stúdentaráðsliðar eru því ekki kosnir til tveggja ára heldur eru í framboði tvö ár í röð. Margir gallar eru á því fyrirkomulagi. Til dæmis skapast ákveðið ójafnvægi milli nýrra og eldri framboða. Nái Háskólalistinn, þriðja framboð til stúdentaráðs, manni inn fer næsti maður á listanum einnig inn vegna þess að listinn bauð ekki fram í fyrra.

Heppilegra kerfi væri að láta alla stúdentaráðsliða vera kosna til tveggja ára nema seinasta mann inn á hverju ári. Hann sæti aðeins í eitt ár og dytti síðan út. Fjöldi stúdentaráðsliða yrði þá oddatala og minni hætta á stjórnarkreppu. Önnur hugmynd væri að láta menn vera kosna til eins árs í senn og vilji menn síðan virkja kraft hinna eldri og reyndari geta þeir einfaldlega boðið sig fram aftur.

Sumum finnst það slæmt hve lítil áhrif þeir hafa á hvaða einstaklingar séu kosnir til ráðsins. Framboðin leggja fram tilbúna lista sem erfitt er að hafa áhrif. „Einstaklingskosning“ mun því alltaf vera mikið tískuorð. Vandi við einstaklingskosningar er að þær eru erfiðar í framkvæmd. Erfitt er að finna aðferð sem kemur í veg fyrir hvers kyns slys. Tökum sem dæmi tillögu Háskólalistans:

Háskólalistinn leggur til að fólk númeri frambjóðendur á seðlum sínum. Sá sem flest flest atkvæði hlýtur í 1.sæti verður Stúdentaráðsliði nr. 1. Sá sem flest flest atkvæði hlýtur í 1-2.sæti verður Stúdentaráðsliði nr. 2. o.s.frv..

Vægast sagt skelfileg hugmynd. Þetta kerfi, sem vinsælt er í prófkjörum hentar mjög illa til kosninga þar sem fólk skiptist í fylkingar. Gerum ráð fyrir að tveir listar séu í framboði. X-listi fær um 1500 atkvæði en Y-listi 1400. Kjósendur listanna hafa langflestir ákveðið fylgja fyrirframgefinni röð á listunum sínum þ.a. fyrsti maður á X-lista fékk 1500 atkv. í 1. sæti, annar maður fékk 1500 atkv í 2. sæti o.s.frv.

Nú er 1. maður á X-lista með flest atkv. í 1. sæti og hann kemst inn. Annar maður á X-lista er með 1500 atkvæði í 1.-2. sæti en 1. maður á Y-lista með 1400. Næsti maður inn kemur þá líka frá X-listanum. Svona gengur þetta koll af kolli og X-listinn fær alla menn inn þrátt fyrir aðeins 100 atkvæða mun.

Ég veit ekki hvað fólk í Háskólalistanum var að hugsa þegar það setti fram þessar tillögur. Það er ljóst að þær munu ekki auka persónukosningu því um sannkallað „Winner takes til all“ kerfi er að ræða. Lesendum er látið eftir að ákveða hvort um sé að ræða stórkostlega vanhugsun eða djöfullegt plott.

Hitt er svo annað mál að ég hef saknað tillagna frá Vöku og Röskvu um þetta mál. Til stendur að endurskoða lögin strax eftir kosningar og hefði verið forvitnilegt að sjá hvaða afstöðu fylkingarnar tvær hefðu til málsins.