Illa tímasett fertugsafmæli

CC-BY-SA 2.0: Omer Wazlr

Áður óbirt – skrifað 2014 

Ég myndi ekki áfellast Sigmund Davíð fyrir að hafa tekið sér frí frá vinnu á stórafmæli konu sinnar. Okkur hinum ætti það án efa  miður og asnalegt ef Sigmundur Davíð myndi gera athugasemdir við það að við tækjum okkur í einn til tvo daga til að halda upp á stórafmæli maka okkar. Þannig að þótt Sigmundur skreppi til útlanda til að rækta samband sitt við manneskju sem gengið hefur með afkvæmi hans og gefið honum knús þegar Steingrímur J. er leiðinlegur við hann finnst mér það allt í lagi. Ég ætla hvorki að kjósa hann frekar né síður út af þessu.

Mér er það ekki sérstaktkappsmál að þeir einir veljist til þingmennsku sem sætti sig við að eiga ömurlegt fjölskyldulíf. Jón Gnarr kvartar undan því nýrri bók sinni að þá sjaldan sem hann tók sér leyfi hafi andstæðingar hans gera mál úr því með herferðum á borð við “Leitin að borgarstjóra.” Það er því vissulega talsverð hefð fyrir því að hæðast að leti  ef þeir taka sér stutt frí en ég held að það sé ekki góð hefð.

Stjórnmálamenn vinna hvorki stuttan né auðveldan vinnudag. Forsætisráðherrar vinna örugglega meira en meðalstjórnmálamaður. Og ef þeir menn taka sér frí, þótt stutt sé þá kemur það í fréttum. Eflaust má segja að menn viti að hverju þeir gangi þegar þeir velja sér þennan starfsframa. En ég er ekki viss um að það þurfi að að vera eitthvað lögmál. Mér er það ekkert kappsmál að forsætisráðherra eigi sér ömurlegt fjölskyldulíf.

Skaðaminnkun með lögleiðingu kannabis

Á undanförnum árum hafa mörg ríki og landsvæði horfið frá bannstefnunni þegar kemur að kannabis. Má þar nefnda Úrúgvæ, Kanada og nokkur fylki Bandaríkjanna.

Stuðningsmenn breytinganna innihalda fólk á borð við Barrack Obama og Kofi Annan. Global Commission on Drug Policy hefur sagt að stríðið gegn eiturlyfjum hafi tapast og að það sé kominn tími fyrir alvöru skaðaminnkun, sem byggist á vísindalegri nálgun.

Hin harða vímuefnastefna hefur ekki haft þau forvarnaráhrif sem menn hafa vonast eftir en skapað þess í stað gríðarlegt öryggisvandamál. Fangelsi heimsins eru full af fólki sem ýmist framleiðir dóp, dreifir því, selur eða neytir. Enn fleiri komast í kast við lögin án þess að lenda í fangelsi, eru kannski handteknir eða sektaðir. Á Íslandi eru þetta yfir 1000 manns á ári.

Afglæpavæðing, án reglusetningar yrði framfaraskref. En ef framleiðsla og sala verða áfram ólögleg þá missum við tækifæri til að gera einmitt það sem máli skiptir: hafa eftirlit með framleiðslu, stýra aðgengi, vernda börn og ungmenni og skattleggja neysluna.

***

Ég hef lagt fram frumvarp sem felur í sér að reglur verði settar um framleiðslu, sölu og meðferð á kannabisefnum og neyslan leyfð.

Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sem er að byggt á handbókinni „How to Regulate Cannabis: A Practical Guide“ á vegum Transform hugveitunnar.

Með mér á frumvarpinu er Sigrún Inibjörg frá Viðreisn ásamt tveimur þingmönnum Pírata, Gunnari Hrafni Jónssyni og Jóni Þóri Ólafssyni.

Meginpunktar frumvarpsins

 • Framleiðsla, sala og neysla leyfð.
 • Aldursmörk verða 20 ár.
 • Smásala heimil í sérstökum verslunum.
 • Veitingasala heimil í sérstökum kannabisveitingastöðum, sem t.d. mega ekki selja áfengi
 • Efnið selt í gráum umbúðum með einfaldri áletrun þar sem kemur fram nafn framleiðanda og vöruheiti og tegund vöru, nánari innihaldslýsing og viðvörun um skaðsemi
 • Algert auglýsingabann.
 • Kannabisgjald, áþekkt áfengisgjaldi. Upphæðin verður 2000kr. á hvert  gram af virka efninu THC. (Ef THC styrkleikinn er 15% þýðir það 300 kr. gjald á gramm).

***

Í ljósi liðinna atburða er líklegt að sú ásökun komi fram að um sé að ræða  einhvers konar upphlaup, tilraun til að dreifa athygli frá öðrum málum. Í því ljósi langar mig bara að skýra frá því að frumvarpið hefur verið í vinnslu frá desember síðastliðnum. Beðið var með framlagningu í vor og það unnið yfir sumartímann þar sem fólk úr Ungliðahreyfingu Viðreisnar kom meðal annars að.

Það stóð því alltaf til að leggja málið fram í þessari viku, að lokinni fyrstu umræðu um fjárlög. Þingflokkur Viðreisnar féllst á að veita því brautargengi svo það kæmist á dagskrá.

Ef ekkert hefði gerst hefði það því verið rætt í þingsal á þessu hausti og farið til umsagnar. Það gekk því miður ekki eftir, út af öðrum, þekktum ástæðum. En ég vona þó að frumvarpið brjóti ísinn, hefji umræðuna og verði til þess að við munum einhvern daginn hætta að refsa fólki fyrir að neyta þessara tilteknu efna.

Ísland tækifæranna: Menntun

CC-BY-SA 2.0 Notandi: knittymarie

Ein helsta röksemd fyrir rekstri opinbers menntakerfis er að það eigi jafna tækifæri fólks. En þá er auðvitað gott að menntakerfið sannarlega geri það.

Í svari við fyrirspurn frá Nichole Leigh Mosty um brottfall innflytjenda úr framhaldskólum kom fram að brottskráningarhlutfall innflytjenda eftir 7 ár var einungis 31% (samanborið við 62%, hjá nemendum án erlends bakgrunns, sem raunar er ansi slappt líka).

Ég þykist ekki hafa svörin á reiðum höndum en ég veit að það þyrfti að veita málaflokknum meiri gaum. Til að byrja með eru svörin við fyrirspurn Nichole byggð á gögnum frá 2004-2011 enda virðist erfitt að nálgast þessar upplýsingar. Það væri því fyrsta skrefið, að huga að nákvæmari skráningu nemenda.

Skimun opinbers lesefnis um íslenska menntakerfið, ætlaðs innflytjendum, gefur til kynna að það sé engin sérstök opinber stefna eða lögfest áætlun um hvernig haga skuli að móttöku erlendra nemenda, þótt vissulega megi finna dæmi um skóla og sveitarfélög sem sett hafa sér verkáætlanir um þetta. Almennt mætti huga betur að því hvernig við mælum færni nemenda.

Mér skilst að það sé ekki óalgengt að pólsk sex ára börn sem fædd eru á Íslandi mælist með málþroska á við fjögurra ára börn í íslensku, en hafa sex ára málþroska í pólsku. Það segir manni að fjölskyldan og nærumhverfið standi sig betur í málörvun en skólakerfið. Hér þarf hugsanlega einhverja hugarfarsbreytingu og menntun starfsfólks til að örva betur málvitund barna sem læra tungumálið aðallega í gegnum leikskólann.

Þá verður að nefna eitt. Engin sérstök krafa er um að sveitarfélög styðji móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna eða hafi hana sem hluta af skólastarfi. Einhverjir hópar innflytjenda hafa tekið að sér að gera slíkt upp á eigin spýtur og reynt að fá niðurgreiðslu í gegnum frístundakerfi sveitarfélaganna. Það hefur gengið misvel. Hafnarfjörður hefur til dæmis hafnað slíkum beiðnum, sem þýðir að foreldrarnir greiða fyrir starfið sjálfir.

Ísland tækifæranna: Ríkisborgararéttur

Flestir þeirra sem fá íslenskan ríkisborgararétt fá hann í gegnum Útlendingastofnun að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ef menn uppfylla ekki þessi skilyrði, geta þeir sent inn umsókn til Alþingis sem getur tekið (geðþótta)ákvörðum um að fallast á beiðninni eða ekki.

Það má segja ýmislegt um þessa venju en hún er ekki einstök. Mörg ríki hafa einhvers konar bakdyraleið í boði sem er þá ekki endilega fordæmisgefandi.

Ég skal leggja það beint á borðið að ég er ekki sammála þeim sem telja að taka eigi út þessa bakdyraleið. Lögin geta ekki gripið allt. En það er hægt að láta þau grípa meira, og sumt af þeim skilyrðum sem sett eru ýmist óþörf eða óþarflega ströng.

Í fyrsta lagi er gerð krafa um 7 ára dvöl. Það er að sjálfsögðu ekki ólíðandi langur tími en það yrði að mínu mati okkur algerlega að meinalausu að stytta þennan tíma niður í fimm ár.

Krafan um framfærslu er, að mínu mati óþörf, og ein algeng ástæða fyrir neitun. Þar sem öll dvalarleyfin gera sérstaka kröfu um framfærslu eru viðbótarskilyrði um þetta óþarfa skriffinnska. Hafi menn getað framfleytt sér á Íslandi í 7 ár er líklegt að þeir geti það áfram.

Þá er krafan um að mega ekki hafa fengið neinar félagslegar bætur frá sveitarfélagi seinustu þrjú ár of stíf. Fólk getur lent í tímabundnum vandræðum. Að sama skapi ætti að fella burt kröfu um gjaldþrot, árangurslaust fjárnám.

Þá eru gerðar kröfur um meðmæli frá tveimur valinkunnum Íslendingum. Það er vart hægt að sjá hvaða gagn þetta geri, annað en að láta fólk tikka við eitthvað box. Lítils væri saknað ef þetta félli burt (nema gleðin sem valinkunna fólkið fær við að skrifa slík meðmæli sem ég kannast við).

Þá ætti að að slaka á kröfum um að menn hafi ekki sætt sektum til að fá ríkisborgararétt. Hafi fólk greitt sekt að fullu á ekki að þurfa láta það taka út refsingu með öðrum hætti. Stór hluti af tíma Alþingis í þessum málum fer í að afgreiða umsóknir manna sem hafa brotið umferðarlög tvisvar. Þar sem reynslan sýnir að þingið er jafnan fyrirgefandi í þessum efnum ætti einfaldlega að fella þá framkvæmd í lög.

Samantekt um tillögur

 • Stytta biðtímann úr 7 árum í 5.
 • Slaka á kröfum um framfærslu
 • Falla frá kröfu um meðmælendur
 • Einungis fangelsisrefsingar tefji umsókn  – ekki sektir

Ísland tækifæranna: Heilbrigðisþjónusta

Innflytjendur frá EES-löndum geta komið til landsins með bláa evrópska sjúkrakortið sitt og fengið aðgang að sambærilegri heilsugæsluþjónustu og Íslendingar.

Aðrir útlendingar eru ekki jafnheppnir. Á Íslandi komast innflytjendur ekki inn í sjúkratryggingakerfið fyrr en eftir 6 mánaða dvöl. Fyrstu sex mánuðina þurfa menn að kaupa sér einkatryggingu. Þær tryggingar sem í boði eru koma með sjálfsábyrgð og eru ekki jafnviðamiklar og þær opinberu tryggingar sem aðrir búa við.

Mér sýnist Ísland aftur standa síst að vígi í norrænum samanburðu hvað varðar réttindi innflytjenda. Í Danmörku og Svíþjóð eru allir sem eru löglega skráðir með búsetu með tryggingu frá fyrsta degi. Í Noregi og Finnlandi er ekki gengið jafnlangt er þar er þó frekar miðað við áformaða dvöl, þ.e.a.s. þeir sem hyggjast búa í ár eða lengur og eru með þannig dvalarleyfi eru heilbrigðistryggðir frá upphafi.

Auðvitað kostar þetta. En við verður líka að sjá þetta frá því sjónarhorni að erum að reyna að fá fólk. Mörg lönd hafa komið sér upp kerfum þar sem sem auðvelda sérfræðingum í eftirsóttum starfsgreinum til að koma til landsins. Þeir sem það gera,  flytja búferlum, og taka fjölskyldur sínar með, vilja auðvitað að öll fjölskyldan njóti fullnægjandi heilbrigðistryggingar frá fyrsta degi.

Ísland tækifæranna: Ótímabundið dvalarleyfi

Bandaríska „græna kortið“ er dæmi um ótímabundið dvalarleyfi.

Stór hluti innflytjenda. EES-borgarar, hefur í reynd rétt til að dvelja á Íslandi ótímabundið. En staða hinna er í raun miklu veikari en hún var fyrir tuttugu árum.

Búið er að lengja biðtíma eftir ótímabundnu dvalarleyfi úr þremur í fjögur.

Þá veita ekki öll dvalarleyfi rétt til að fá ótímabundið dvalarleyfi. Staðan í dag er þessi:

Þessi leyfi telja inn í búseturétt:

 • Dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar
 • Dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki
 • Dvalarleyfi fyrir íþróttafólk
 • Dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar
 • Dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða
 • Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið

Þessi gera það stundum:

 • Dvalarleyfi vegna náms (ef menn klára framhaldsnám og fá vinnu sem sérfræðingar)
 • Dvalarleyfi fyrir sjálfboðaliða og trúboða (fyrir skráð trúfélög)

Þessi gera það ekki:

 • Dvalarleyfi vegna samninga Íslands við erlend ríki
 • Dvalarleyfi fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings
 • Dvalarleyfi vegna vistráðningar
 • Dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals
 • Dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals
 • Dvalarleyfi vegna sérstaks og lögmæts tilgangs
 • Bráðabirgðarleyfi

Best væri að við myndum fara til ástandsins eins og það var einu sinni: Að öll lögleg dvöl teldi til ótímabundins dvalarleyfis. Ef við nauðsynlega viljum takmarka réttinn við eitthvað ætti það takmarkast við au-pair leyfin og útsenda starfsmenn.

Þá yrði það algerlega að skaðlausu að stytta biðtímann úr fjórum árum í þrjú. Það myndi líka minnka skriffinnsku og álag á Útlendingastofnun.

Þá ætti að slaka á framfærsluviðmiðum dvalarleyfa. Framfærsluviðmiðin eru hugsuð til að innflytjandinn geti framfleytt sér sjálfur, en í einhverjum tilfellum (t.d. í tilfelli námsmanna) eru þau líklegast of há og auk þess hefur maður heyrt að stíf túlkun þeirra leiðir til þess að fólk með ekkert vesen lendir í vandræðum ef það verður tekjulítið yfir einhvern smá tíma.

Samantekt yfir tillögur

 • Öll lögleg dvöl telji inn í ótímabundið dvalarleyfi
 • Biðtími styttur úr fjórum árum í þrjú
 • Endurskoða kröfur um framfærsluviðmið

Ísland tækifæranna: Vernd gegn mismunun

Á Íslandi er engin löggjöf um bann við mismunum á grundvelli, þjóðernis, kynþáttar, trúar eða þjóðernisuppruna. Ísland sker sig úr meðal Evrópuríkja hvað þetta varða, og ekki á jákvæðan hátt.

Vissulega höfum við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og erum aðilar að alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem sumir hafa verið lögfestir, en við höfum enga löggjöf, svipaðra jafnréttislögum þegar kemur að þeirri mismunun sem innflytjendur eru líklegastir til að lenda í.

Á seinasta þingi lagði Þorsteinn Víglundsson fram tvö frumvörp sem hefðu lagað stöðuna. Það voru:

Frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna

Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði

Líkt og gildir um allar tillögur sem snúast um mannréttindi má finna fólk sem telur að tillögurnar gætu gengið mun lengra og svo eru þeir eflaust til sem gráta þurrum tárum yfir þeirri staðreynd að  þær hafi dagað uppi.

Mín skoðun væri að það væri gott að fá þessar tilögur inn, sem alla vega fyrsta skref. Vonandi tekst það á næsta þingi.

 

Nei, það verður ekki frítt að fljúga

Ég fíla lággjaldaflugfélög. Það er þeim að þakka að flugmiðar eru svipað dýrir í krónum talið og þeir voru fyrir 30 árum. Þá ferðaðist maður einu sinni á ári, fékk máltíð, tók með sér tvær töskur, fékk frítt Morgunblað og leið eins og smákóngi í nokkra tíma. Enda borgaði maður líka fyrir það.

Svo komu lággjaldaflugfélögin og maður fór að ferðast eins og í rútu með vængi en borgaði líka eins og fyrir rútu með vængi. Og allt þetta er bara fínt. Mér finnst heiðarlegt að þeir sem þurfi tvær töskur borgi meira ein þeir sem þurfi enga og að þeir sem drekki engan bjór borgi ekki bjórinn fyrir þá stúta fjórum á fluglegg.

Einu sinni kom SouthWest og gerði allt vitlaust í Bandaríkjunum. Svo kom Ryanair og hermdi eftir SouthWest í Evrópu. Svo herma öll þessi félög hvert eftir öðru.

Lykillinn að því að reka lággjaldaflugfélag er að bjóða ódýr flug (augljóslega) ásamt því að troða sér í fjölmiðla með yfirlýsingum sem leggja áherslu á að hve ódýr maður er.

Michael O’Leary hjá Ryanair er snillingur í þessu.

„Ryanair ætlar að rukka fyrir klósettin.“
„Ryanair ætlar að láta fólk standa.“

Það skipti engu máli hvort Ryanair hugðist eða gat gert þetta. Þetta festi ímyndina um flugfélagið sem fór ótroðnar slóðir til að lækka verð. Þetta var fín ókeypis auglýsing.

Eitt af því sem maður heyrir reglulega frá lággjaldaflugfélögum er fullyrðingin: „Í framtíðinni verður ókeypis að fljúga.“ Einhver annar muni borga flugið. Hóteleigandinn á Alicante mun borga flugið. Ferðamaðurinn sem kaupir sér vatn og sígarettur mun borga fyrir flugið.

Með fullri virðingu, þá hef ég enga trú á að það verði ókeypis að fljúga. Ef markaðurinn er heilbrigður þá verður vonandi mjög ódýrt að fljúga og það er ekki útilokað að menn gefi sum sæti í kynningarskyni.

En ef markaðurinn verður heilbrigður og einvher reynir að reka flugfélag með því að rukka nógu mikið fyrir valkvæða viðbótarþjónustu þá fer valkvæða viðbótarþjónustan að verða ansi dýr. Og þá hættir fólk að velja hana, sleppir handfarangri, smyr nesti. Og flugfélagið fer að tapa. Til lengdar getur engin rekið fyrirtæki með því að gefa hluti.

Þannig að gleðjumst yfir uppgangi lággjaldaflugfélaga. Gleðjumst yfir samkeppninni. En það verður ekki ókeypis að fljúga. Þeir sem halda hinu fram eru bara að leita að ókeypis auglýsingu.

Ísland tækifæranna: Pólitísk þátttaka

CC-BY-SA 3.0: Serenity

Við eigum ekki að hræðast pólitíska þátttöku innflytjenda. Ég myndir frekar hræðast hitt að fólk tæki EKKi þátt.

Kosningaréttur

Það er orðið nokkuð algengt að útlendingar megi kjósa í svæðiskosningum víða um heim. Slíkt þekkist á Norðurlöndum, í Evrópusambandinu og víðar.

Sjaldgæfara er hins vegar að erlendir ríkisborgarar geti kosið í kosningum á landsvísu. Slíkt einskorðast aðallega við ríki breska samveldisins sem veit borgurum hvort annars slíkan rétt í einhverjum tilfellum.

Á Íslandi geta útlendingar kosið til sveitarstjórna eftir 5 ár, nema Norðurlandabúar eftir 3 ár. Þetta er lengri biðtími en annars  staðar á Norðurlöndum, þar sem Norðurlandabúar (og ESB borgarar í ESB ríkjunum þremur) fá kosningarétt samstundis en aðrir þurfa að bíða í 3 ár.

Þingmenn Viðreisnar flutt frumvarp þess efnis á seinasta þingi að staðan yrði svipuð og á hinum Norðurlöndunum. Við vildum gefa EES borgurum réttinn strax en hinum, að þremur árum liðnum. Frumvarpið náði ekki fram að ganga á seinasta þingi.

Þáttaka í stjórnmálaflokkum

Lög banna ekki útlendingum að skrá sig í stjórnmálaflokka, sem er gott. Hins vegar er flokkum bannað að taka við peningum frá útlendingum, líka þeim sem búa á Íslandi. Það er órökrétt takmörkun. Ef innflytjandi, búsettur á Íslandi, getur skráð sig í flokk ætti hann að geta greitt til hans félagsgjöld og stutt hann fjárhagslega.

Samráð

Stór hluti lagasetningarvinnu gengur út á það að kynna sér umsagnir. Sum hagsmunasamtök eru mjög dugleg að senda inn umsagnir. Dæmi slík samtök eru ASÍ eða Samband íslenskra sveitarfélaga, eða fleira. Þetta eru oft stofnanir með fasta starfsmenn, mikla þekkingu og mikinn slagkraft.

Ég held að það vanti stundum, meiri stofnanabrag, jafnvel fagmennsku, í hagsmunagæslu fyrir innflytjendur.  Tökum til dæmis lista yfir aðila sem sendu inn umsagnir við seinustu heildarendurskoðun útlendingalaga:

http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/?ltg=145&mnr=728

Á listanum eru ASÍ, Rauði krossinn, No Borders, Viðskiptaráð,  Útlendingastofnun og svo framvegis. Stofnanir sem tengjast málaflokknum, heildarhagsmunasamtök,  engin engin samtök sem tengjast innflytjendum beint. Það er í dag óhugsandi að sambærilegt myndi gerast varðandi lög sem sneru til dæmis að eða einhverri starfsstétt.

Þetta er auðvitað ekki eitthvað sem stjórnvöld geta einfaldlega lagað sjálf. Ég held ekki, stundum verður frumkvæðið að koma frá þeim sem um ræðir. En ég held til dæmis að innflytjendaráð sem skipað er af ráðherra án atbeina þeirra sem um ræðir mun aldrei verða mjög öflugt.

Kannski er of bratt að bjóða öllum íbúum Íslands kosningarétt í þingkosningum óháð í ríkisfangi, þótt ég held að það gæti alveg gengið. En ég hef stundum hugsað hvort ekki mætti, samhliða þingkosningum að halda kosningar til ráðgefandi ráðs, og þar hefðu allir erlendir ríkisborgarar kosningarétt. Ég hef ekki hugsað þessa hugmynd til enda en fleygi henni samt fram hér.

Ísland tækifæranna: Fjölskyldan

Þegar kemur að rétti fólks til að taka með sér börn, maka eða aðra fjölskyldumeðlimi þá stendur Ísland svipað af vígi og hin norræn ríkin. Lagalega virðist staðan hafa batnað örlítið með útlendingalögunum sem samþykkt voru á seinasta kjörtímabili, þótt enn sé mikið um að lög heimili hitt og þetta „þegar sérstaklega stendu á“, frekar en að bara gera það.

Íslensk lögin gera til dæmis ekki kröfu um lágmarksbúsetutíma áður en fólk getur fengið börn sín til landsins. Sem er gott. Lögin útiloka hins vegar margs konar fólk frá því að geta fengið börn sín til sín.

Til dæmis geta námsmenn í grunnnámi, tímabundnir starfsmenn, fólk sem sem kemur til landsins á grundvelli menningarskiptasamninga, ekki tekið börn sín með sér. Frá sjónarhóli rétts barna er þetta hæpið. Börn eiga að geta fylgt foreldrum sínum, sama þótt foreldrarnir séu í námi eða vinna tímabundið. Þá er augljóst að þessi regla stuðlar að misrétti kynjanna.  Karlar eru líklegri til að flytja tímabundið til útlanda og skilja börnin eftir heldur en hitt.

Þá vantar betri réttarvernd fyrir þau börn innflytjenda, sem eru eldri en 18 ára. Ég játa að ég varð ekki fullkomlega sjálfbjarga að öllu leyti við 18 ára aldur og þótt þetta kunni að þykja jaðartilfelli þá eru samt dæmi um að fólk búi hjá foreldrum sínum fram á þrítugsaldur, eða sé háð þeim af öðrum ástæðum, og í þeim tilfellum ætti að bjóða upp á víðtækari heimildir en nú er gert.

Þá hefur verið opnað á ýmsa möguleika fyrir fjölskyldumeðlimi til að vera áfram ef aðstæður breytast. Fólk sem missir maka sinn, verður fyrir ofbeldi af hans hálfu, eða á hættu á að verða fyrir fordómum heima fyrir vegna skilnaðar getur til dæmis fengið að dvelja á landinu eftir að hjúskap líkur „ef sérstaklega stendur á“.

Hins vegar mætti kveða skýrar á um rétt fólks sem skilur við maka sinn af „venjulegum“ ástæðum, þ.e.a.s. án þess að ofbeldi komi við sögu. Séu öll önnur skilyrði fyrir hendi er engin ástæða til að reka fólk úr landi við slíkar aðstæður.

Samantekt yfir tillögur

 1. Börn geti fylgt foreldrum sem eru í námi eða vinna tímabundið.
 2. Dvalarleyfi fyrir börn eldri en 18 ára sem eru á framfæri foreldra sinna.
 3. Fólk sem skilur þurfi ekki að fara úr landi.