Þegar kommarnir tóku af mér leikskólann – Undir stjórn Jaruzelskis 11/100

Þegar ég var þriggja ára, undir stjórn Jaruzelskis, flutti ég frá Poznań til Sanok. Nokkru síðar byrjaði ég í leikskóla. Ég man kannski ekki allt úr leikskólanum. Mér fannst maturinn ekkert spes. Okkur var skipað að leggja okkur á daginn. En ég fékk að tína upp laufblöð og hitta aðra krakka. Þetta síðastnefnda var gaman (ég bjó á fríking Árbæjarsafninu).

Leikskólinn var dálítið frá, en í sérhúsi með garð og öllu. Foreldrar mínir löbbuðu með mig hvern dag. Stundum í vagni og stundum á sleða. Það eru fallegar minningar. Þetta er Suðaustur-Pólland, lengst inni í landi. Vetur þarna verður alveg svona alvöru vetur eins og í bókinni „Vetur í Múmíndal“. Trén og húsin verða eins og listaverk eftir Christo. Samt eiginlega flottari.

Mér er sagt að mér hafi þótt mjög gaman í leikskóla og ég get trúað því. Þegar ég var átta ára kom út í Bandaríkjunum bók eftir Robert Fulghum sem hét „Allt sem ég virkilega þurfti að vita lærði ég í leikskóla.“ Þessi tilvitnun er nú höfð sem einkunnarorð á heimasíðu annars hvers leikskóla í Póllandi. Maður veit auðvitað um hvað málið snýst. Í leikskóla á maður að læra haga sér ekki eins og fáviti. Sú kunnátta ef maður öðlast hana, kemur manni ótrúlega langt.

Undir stjórn kommúnismans var allt umvafið rauðleitri slikju. Til allrar hamingjum fengum við að hafa  bláa bangsa. Bláu bangsarnir voru sem lágvær hvíslandi rödd frelsis í ríki kúgunnar.
Undir stjórn kommúnismans var allt umvafið rauðleitri slikju, eins og sést á myndinni. Til allrar hamingjum fengum við að hafa bláa bangsa. Bláu bangsarnir voru sem lágvær hvíslandi rödd frelsis í ríki kúgunnar.

Þegar ég er fimm ára þá fæðist systir mín. Við það mátti ég ekki lengur vera í leikskóla. Þar sem mamma mín var heima í fæðingarorlofi fengu yfirvöldin, Jaruzelski og félagar, það út að ég hefði ekkert með þessa leikskóladvöl að gera. Þannig að ég þurfti að hætta að fara á sleða í leikskólann, tína laufblöð, hitta aðra krakka og leika mér með stóra bláa bangsa.

Nú mundi ég ekkert eftir þessu en þegar mér var sagt um daginn að ég hafi orðið leiður við það að mega ekki lengur vera í leikskóla, þá var ég auðvitað dálítið leiður og pinku bitur fyrir mínu ungu hönd.

Ég var auðvitað búinn að gleyma því að hafa nokkurn tímann verið leiður en man þó að ég eyddi þónokkrum tíma í Sanok með mömmu og litlu systur og horfði heilmikið á þátt á ríkisstöðinni sem hét „Heimaleikskólinn“ – Domowe Przedszkole. Það var svona þáttur fyrir börn sem þurftu að vera heima og gátu ekki verið í leikskóla. Það var (og er) kannski ágætlega krúttleg hugmynd og ekki sú alversta en í ljósi minnar reynslu lyktaði hún óneitanlega af því að vera dálítið skítmix.

Ég alla vega treysti mér ekki til að fullyrða að ég hafi „lært allt sem þurfti að vita í lífinu“ við það að horfa á þennan tiltekna sjónvarpsþátt.

Þegar við fengum síma, í smátíma – Undir stjórn Jaruzelskis 10/100

Fjölmargir Pólverjar hafa aldrei átt heimasíma. Þegar farsímafyrirtækin ruddust fram á veginn á tíunda áratugnum löbbuðu milljónir manna út úr búðum með fyrsta símann sem þeir höfðu nokkurn tímann átt. Net ríkissímafyrirtækisins hafði ekki beint staðið sig í því að dreifa tækninni til almennings.

Amma mín hafði örugglega beðið eftir síma í áratug. Svo tók við bið eftir símaskrá. Það var annar áratugur. Fjölmargir sem ég þekkti, raunar flestir, áttu ekkert síma. Við vorum lengst af í þeim hópi.

Ég bjó, líkt og ég kom að í seinasta pistli, í miðju útisafni, safnið var um 40 hektarar og það var örugglega um kílómeter frá innganginum og þangað sem litla græna húsið okkar stóð. Þannig að í sjálfu sér mátti skilja þá forgansröðun Jaruzelskis að vilja ekki leggja símalínu til okkar.

Inngangurinn inn í safnið er í gegnum tignarlegt hvítt ættaróðal sem í daglegu tali var kallað „Dworek“ eða „Setrið“. Þar var miðasala og þar voru nokkrir yfirmenn safnsins, sem í dag væru kallaðir „mannauðsstjórar“ eða „kynningarstjórar“, með skrifstofur.

Sími, líkur þeim sem var ekki á heimili okkar, undir stjórn Jaruzelskis.
Sími, líkur þeim sem var ekki á heimili okkar, undir stjórn Jaruzelskis.

Dag einn, þegar ég var barn undir stjórn Jaruzelskis, kom svo til þess að við fengum loksins síma. Gott ef við fengum ekki að deila honum með konunni sem bjó í hinni íbúðinni. Úr þessum síma gátum við hringt…

… í Setrið. Sem sagt í miðasöluna.

Og ekki nóg með það. Líkt og ekki væri komið nóg af dekri, þá gátum við, einn klukkutíma í viku, hringt hvert á land sem er! Þennan klukkutíma var línan algerlega okkar. Þvílíkt blómaskeið fjarskipta sem þetta var!

Örfáum mánuðum eftir að við fengum síma voru verkamenn á útisafninu að vinna jarðvegsvinnu vegna annars, ótengds verkefnis. Vildi ekki betur en svo að þeir slitu við það í sundur símalínuna sem aðrir verkamenn höfðu nýlokið við að leggja.

Lauk með þar með símaævintýrinu okkar í Sanok.

„Víst bý ég á Árbæjarsafninu“- Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 9/100

Margir eiga bágt með að trúa því að eigi mér einhvern óíslenskan bakgrunn, svo íslenskt er útlit mitt, hegðan og öll mín lund. Sumir hafa reyndar haldið því að ég væri bara venjulegur gaur sem ólst upp í Laugarneshverfinu og væri að gera sér upp etnískan bakgrunn.

Aðrir hafa meira segja haldið því fram að ég væri bara upprspuni. Þá tilgátu hafði ritstjórn Deiglunnar heyrt á fyrstu dögum skrifa minna þar. Í sjálfu sér er það ekki galin ágiskun í ljósi þess að ritstjórn Deiglunnar hafði áður skapað fólk einungis í þeim tilgangi að koma höggi á íhaldsarm sjálfstæðisflokksins. Ég meina, Guðmundur Svansson eða Þorbjörg Gunnlaugsdóttir, hefur einhver í alvörunni hitt þetta fólk?

Lygasögu líkast

Kannski vissu einhverjir að ég væri með einhverjar pólskar rætur. En ég efast um að nokkur hafi haft um þá vitneskju að þegar ég var átta ára þá bjó ég í Póllandi undir stjórn Jaruzelskis. Enda hef ég verið þögull sem gröfin um þessa reynslu brenndur af því hve sárt það er þegar fólk trúir manni ekki.

Mamma mín er mannfræðingur. Eftir námið hafði hún fengið vinnu á einu stærsta útisafni Póllands, byggðasafninu í Sanok. Á þessari síðu má finna nokkrar myndir þaðan (http://www.twojebieszczady.net/mbl.php)

Starfinu fylgdi  húsnæði. Húsnæðið var lítið grænt tvíbýlishús … í miðju útisafninu.

http://skansen.sanok.pl/wirtualny-spacer-skansen-w-zimie.html

Þannig að já, á aldrinum 3-9 ára bjó ég á útisafni. Þetta olli mér töluverðum vandræðum við að fá vini í t heimsókn. Sérstaklega þar sem við vorum ekki með síma. Það var nú ýmislegt planað í leikskólanum og sex ára bekknum en þar sem ég bjó í 20 mín göngufjarlægð frá næsta barni þá þurfti aðstoð foreldra við að komast til mín. Ég sá fyrir mér að samtöl félag minna við foreldra sína hafi verið svona.

„Ég ætlaði að heimsækja Bartoszek á laugardaginn.“

„Besta mál, hvar á hann heima?“

„Hann segist eiga heima á útisafninu.“

„Ha?“

„Útisafninu.“

„Kjánabarn, það á enginn heima á útisafninu. Þar eru bara gömul hús sem enginn býr í…“

„En Bartoszek sagðist eiga heima á útisafninu, sagði að það væri alveg satt.“

„Iss, hann er bara að grínast í þér. Þessi drengur er ekki með öllum mjalla. Við förum ekki fet!“

Í nokkur skipti beið ég eftir heimsóknum sem komu aldrei (líkt og flest börn gera einhvern tímann á ævinni, jafnvel þótt þau búi ekki undir stjórn Jaruzelskis). Ég fór að venjast þessu. Sagði bara „já, koddu endilega“ og lét ekki einu sinni vita. Loks þegar ég fékk heimsókn, frá einum besta vini mínum á þessum árum hafði ég ekki einu sinni látið mömmu vita að neinn ætlaði að koma.

Ég var bara á naríunum.  Ætli ég hafi ekki verið að horfa á klaufabárðana í svarthvíta sjónvarpinu okkar. Eða eitthvað álika.

Jaruzelski sjálfur – Þegar ég var 8 ára undir stjórn Jaruzelskis 8/100

Mikilvægasta aukapersóna þessarar sögu, Wojciech Jaruzelski er á lífi. Hérna er heimasíðan hans:

http://www.wojciech-jaruzelski.pl/

Þetta er frekar fábrotið html verður að viðurkennast. Uppfærslurnar ekki margar, sú seinasta eru þakkir vegna hamingjuóska sem honum hafa borist í tilefni af 90 ára afmælis hans seinasta sumar. Ég sé hann ekki á Instagram. Eða Vine. En ætli það fyrirgefist ekki manni á hans aldri.

Jaruzelski, nokkru áður en ég var átta ára undir hans stjórn.
Jaruzelski, nokkru áður en ég var átta ára undir hans stjórn.

Langumdeildasta ákvörðun Jaruzelskis á hans ferli voru herlögin 1981. Þá var stríðsástandi lýst yfir í öllu landinu, herinn sendur á göturnar, verkföll og mótmæli bönnuð og fjölmargir stjórnarandstæðingar setti í fangelsi. Sú persónulega tenging sem fjölskylda mín hefur við þá atburði er að faðir minn var á þessum tíma formaður stúdentaráðs í Poznań, og hafði fengið það verkefni að skipuleggja fyrstu frjálsu kosningarnar til stúdentaráðs síðan guð veit hvenær. En þær voru vitanlega blásnar af með skömmum fyrirvara eftir að herlögunum var komið á. Mér skilst að mörgum stúdentum hafi þótt þetta í meðallagi spes.

Það eru þingkosningar í Póllandi eftir tvö ár. HVer veit. Kannski að ég söðli um og fari bara í framboð. Ef ég næ að verða forseti þá getur Jaruzelski skrifað greinarflokk á síðuna sína um þegar hann var „92 ára undir stjórn Bartoszeks“. Það væri smá sögulegt réttlæti í því, maður!

Skyldusparnaður skólabarna – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 7/100

Dag einn, þegar ég var átta ára, undir stjórn Jaruzelskis, tilkynnti kennarinn okkur að það átti að kenna okkur sparnað. Næsta dag áttu allir að mæta með fyrirfram ákveðna upphæð til að setja í „Skólasparisjóðinn“.

Skólasparisjóðurinn var leið til að kenna skólabörnum sparnað. Maður kom með eitthvað klink, lét kennarann hafa, kennarinn tók peninginn, skráði niður upphæðina í einhverja bók. Skráði niður sömu upphæð í manns eigin bók. Og í lok skólaársins gat maður náðarsamlega tekið upp sömu upphæð, vaxtalaust.

Á þessu ári, 1988, var verðbólgan 59%. Árið áður hafði hún verið 26%. Árið eftir, 1989, átti hún eftir að fara upp í 244%.
http://datamarket.com/data/set/148w/inflation-consumer-prices-annual#!ds=148w!ga2=10&display=line&s=2tg&e=8gd

Vel að merkja. Kommúnistarnir fundu ekki upp „Skólasparisjóðinn“. Né heldur var hann alfarið lagður af eftir að þeir hrökkluðust frá völdum. En þeir gerðu hann að flaggskipi sínu, settu þetta verkefni í alla skóla landsins og gerðu að skyldu fyrir alla nemendur. Hápunktur Skólasparisjóðsins var 9. áratugurinn. Það þótti afar mikilvægt að kenna börnum þá dyggð að spara með því að láta þá setja peninga inn á vaxtalausan reikning meðan verðbólga fór aldrei undir 10%. Og var oftast miklu hærri.

Kannski var ásetningurinn ekki sá versti. Kannski voru upphæðirnar ekki þær hæstu. Kannski voru peningarnir ekki einungis notaðir til að efla leyniþjónustu landsins . En það að hrifsa pening af skólabörnum fer klárlega á „ekkert spes“ listann þegar gera á upp valdatíð hinna kommúnísku stjórnvalda Póllands.

Konan sem kenndi mér dreifiregluna – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 6/100

Glöggir lesendur þessarar síðu hafa eflaust uppgötvað að ég tók fyrstu skólaárin mín í Póllandi, undir stjórn Jaruzelskis. Ég kláraði þannig fyrsta og þriðja bekkinn, eins og kerfið var þá, úti í Póllandi. Í íslenska kerfinu í dag myndi þetta svara til 2. og 4. bekks. Ég hafði reyndar líka farið í sex ára bekk, sem þá var kallaður „núllti“ bekkur og kynntist þar einum besta vini mínum til margra ára.

Ég gekk í „Grunnskóla nr. 8 í Sanok“ eins og skólinn hét þá. Þetta var frekar nýmóðins skóli. Hann var með þremur íþróttasölum, íþróttavelli og sundlaug, staðsettur í miðju blokkahverfi. Skólinn og hverfið í kring eru bíllaust svæði og maður kemst því ekki alveg að honum á google Street View. Þessi þrjú ár grunnskólans gekk ég í sama bekkinn. A bekkinn. Og ég var með sama kennara í öllu þessi þrjú ár. Hún kenndi mér meira að segja leikfimi fyrstu tvö árin.

bekkjarmynd2
Dæmigerð bekkjarmynd frá Jaruzelski tímanum. Yðar sjálfhverfi er í neðstu röð lengst til vinstri.

Þannig að þetta var þá konan sem kenndi mér að lesa og reikna. Dálítið fyndið hverju ég man eftir. Ég man til dæmis mjög vel eftir þegar hún skrifaði frumsendur algebrunnar á töfluna. Svona eins og

a + b = b +a
a(b+c) = ab + ac

Ég man líka þegar hún útskýrði fyrir okkur að þegar þegar stafurinn I kemur á eftir C, N, S og Z þá skrifar maður ekki kommu fyrir ofan stafina þótt maður beri stafina fram eins og þeir væru með kommu. Þetta hefur mér greinilega þótt minnistæðast, dreifireglan og hljóðfræðin bak við mýkingu ákveðinna samhljóða.

Ég held að við höfum verið með fyrstu bekkjunum sem þessi kennslukona kenndi, ef ekki sá fyrsti. Hún var allavega ekki mjög gömul. Þrátt fyrir að ég hafi verið á Íslandi hluta þess tíma þá eyddi ég auðvitað mjög miklum tíma með þessari konu og líkt og aðrir umsjónarkennarar ungra barna var hún með mikilvægari manneskjum í lífi mínu þennan tíma. Mér fannst því dálítið gaman að fá að klára 9 ára bekkinn úti í Póllandi, sem ég gerði (monti-mont) með hæstu einkun í öllum fögum. Þetta var ágætis lokun. Ég var að flytja, hún var að hætta með okkur.

Ég á reyndar eina örlítið melankólíska minningu tengda þessum seinustu dögum úti í Sanok. Kennslukona mín var nefnilega að gifta sig helgina eftir skólaslitin og hún hafði verið svo indæl bjóða öllum bekknum. En við vorum bara að flytja til Íslands, eitthvað eins og daginn eftir, og höfðum ekki mikinn tíma, minnir mig.

Ég man að ég fór þennan seinasta dag minn í Sanok til að kveðja besta vin minn á þessum árum og þegar við mamma erum að labba heim þá göngum fram hjá litlu kirkjunni þar sem athöfnin var að fara fram. Kirkjuhurðin var opin og ég náði að líta inn úr fjarska þar sem ég sá glitta í krakkaskara, bekkjarsystkin mín, þar sem þau stóðu í sínu fínasta með einhver blóm og drasl.

Ég man ekki hvort ég hafi beðið um að fá að fara, líklegast ekki, ætli ég hafi sjálfur ekki mótað mér þá skoðun að það yrði of mikið vesen fyrir alla. Og kannski bættist líka við að við vorum ekki beint kirkjuræknasta fólkið í bænum. En á einhvern hátt hefur þetta nagað mig. Þrátt fyrir að ég hafi verið barn, og aldarfjórðungur sé liðinn síðan þá finnst mér enn lélegt að hafa ekki mætt í brúðkaup til konunnar sem kenndi mér að margfalda upp úr sviga.

Guð og skinkan – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 5/100

Ritari Jaruzelskis segir hann: „Félagi Jaruzelski. Mig dreymdi merkilegan draum. Ég labbaði fram hjá fjalli af skinku. Og efst á fjallinu sat sjálfur Guð almáttugur.“

„Fáranlegur draumur, allir vita að Guð er ekki til.“

„Er skinka til?“

Vöruskorturinn sem ég nefndi í seinasta pistli var uppspretta óteljandi brandara, þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelski.

Hér er annar:

„Af hverju eru enginn fiskur í fiskborðinu?“

„Til að draga athygli frá því að að það er ekkert kjöt í kjötborðinu.“

Skömmtunarmiðarnir – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 4/100

Það er ekki á allra vitorði en ég hef ekki alltaf búið á Íslandi, í hinu haftalausa hagkerfi allsnægtanna. Þangað til ég var átta ára bjó ég í Póllandi, undir stjórn Jaruzelskis.

Á þeim tíma var kjöti skammtað. Raunar höfðu mjög margar vörur verið í skömmtun frá miðjum áttunda áratug, þ.m.t. sykur, smjör, súkkulaði, áfengi, þvottaefni, hrísgrjón, bensín. Þetta byrjaði raunar allt með skömmtun á sykri 1976 þegar „tímabundinni magnstjórnun“ var komið á til að minnka heimabrugg og auka möguleika á sykurútflutningi.

Já, kjötskömmtun… Kjöti var skammtað frá 1981 og fram yfir sumarið 1989. Miðunum var úthlutað eftir heljarinnar reglum þar sem magnið fór eftir aldri kyni og starf viðkomandi. Fólk í líkamlegri vinnu fékk meira, bændur ekkert. Börn meira. Letingjar ekkert.

Við í fjölskyldunni vorum reyndar aldrei svaka mikið fyrir kjöt. Vorum alls ekki grænmetisætur en borðuðum kannski minna af því en aðrir. En við höfum örugglega aldrei borðað meira af því en þarna. Þegar maður á enn inni 700 g af „Woł. Ciel z Kością“ (ungnautakjöt með beini) þá étur maður það náttúrlega. Reyndar áttum við hund í Sanok, Diönku. Hún hjálpaði okkur með þetta.

Kjötskömmtunarmiðar, frá þeim tíma þegar ég var 8 ára. "Mięso" er kjöt. Langi textinn í sumum kössunum er kjöt með beini. "Rezerwa" tákna reiti sem gátu verið fráteknir undir ólíkar vörur.
Kjötskömmtunarmiðar, frá þeim tíma þegar ég var 8 ára undir stjórn Jaruzelskis. „Mięso“ er kjöt. Langi textinn í sumum kössunum er kjöt með beini. „Rezerwa“ reitirnir voru fráteknir undir aðrar vörur.  Mynd: Jerzy Najmoła.

Til gamans: Ég flutti ekki til Íslands í einum rikk. Ég kom hingað sumarið 1988 og fór svo í skóla um haustið. En svo tók ég hluta af því skólaári úti í Pólland og raunar tók ég meirihlutann af 9 ára bekknum í Póllandi líka. Kláraði þar skólaárið 1989 hann og fékk einkunnarspjald sumarið 1990. Það var gaman að því. Ég upplifði þannig þegar Alþýðulýðveldið Pólland leið undir lok. Ég upplifði það þegar þingið skipti um skjaldarmerki, ríkjaheiti, breytti stjórnarskráni og kaus okkur nýjan forseta með eins atkvæðis mun. Sá var fyrrum hershöfðingi og hét Wojciech Jaruzelski.

Um tíma bjó ég þannig á tveimur stöðum. Mamma sagði mér að hún hafi alls ekki verið viss um hvort hún vildi búa á Íslandi. Henni fannst vöruúrvalið á Íslandi seint á 9. áratug seinustu aldar vera svo fátæklegt. Þannig að við fluttum tímabundið aftur. Í kommúnistaríkið.

Ferðin til Noregs – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 3/100

Eitt  leyndarmál hef ég hingað til geymt eins og sjáaldur augna minna. Það er sú staðreynd að þegar ég var átta ára hafi ég búið í Póllandi undir stjórn Jaruzelskis. Jaruzelski leyfði mér samt einu sinni að fara til útlanda. Það var þegar ég var sex ára.

Fyrir barn í kommúnistaríki er það að fara til útlanda svolítið eins og að fara út í geim. Pabbi minn var alltaf í útlöndum. Fyrir bekkjarfélögunum var það eins og pabbi minn væri geimfari.

Pabbi minn var á þessum tíma að læra norsku. Þetta var áður en hann fann sér minna mainstream tungumál til að mastera. Til að komast til Noregs þurftum við að tala lest frá Sanok til Świnoujście, þaðan með ferju til Ystad. Og svo með lest til Osloar.

Þetta er sirka leiðin sem sjá má hér að neðan:


View Larger Map

Ég man nokkra hluti frá þessari ferð. Man eftir skipsferðinni. Best man ég eftir því þegar ég stóð á þilfarinu á skipinu frá Polferries og sá fyrst móta fyrir landi. Þetta var Svíþjóð. Ég man að ég ætlaði mér að muna þessa stund. Ég held að ég hafi sagt við mömmu mína að hjarta slægi hraðar. Ég held að það hafi ekki gert það, en ég ætlaði að muna það þannig. Í minningunni ætlaði ég að hafa þetta hástemmt.

Veðrið var ekkert spes. Það var grámygla. Himinn og hafið voru svipuð á litinn. Mitt fyrsta útland, Svíþjóð, tróð sér loksins á milli þeirra.

Minnir að pabbi minn hafi tekið á móti okkur í Ystad. Svo hafi ég farið á sofa á einhverju gistiheimili. Síðan tókum við lest til Oslóar. Í Osló fór ég í matvörumarkað. Það var svona hlið við innganginn sem opnaðist fyrir mér án þess að ég snerti það. „Velkominn í geimskipið,“ hefði einhver getað sagt.

Allt var hreinna, litskrúðugra og betra. Allar vörurnar voru í einhverjum skærum plastumbúðum. Það voru teiknimyndafígúrur á morgunkorni og leikföng inni í pökkunum. Hefur einhver einhvern tímann hugsað um hver barnaleg og um leið barnvæn stefna kapítalisminn er? „Setjum brosandi veru með augu framan á matvöruna. Börnin munu elska það. Foreldrarnir munu kaupa það.“

Vinur pabba míns, Lars, átti hús úti á eyju fyrir utan Osló. Það var í þessari eyju sem ég eitt kvöldið sá fyrst ís í risastórum tveggja lítra umbúðum. Fyrir sex ára barni verða táknmyndir allsnægtanna varla skýrari.

Ís í risastórum, litríkum umbúðum? Ekki undir stjórn Jaruzelskis! CC-BY-SA Rusty Clark
Ís í risastórum, litríkum umbúðum? Ekki undir stjórn Jaruzelskis! CC-BY-SA Rusty Clark

Hæku-ríkjaheitið – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 2/100

Það vita það fáir en þegar ég var átta ára bjó ég í Póllandi undir stjórn Jaruzelskis. Pólland var þá kommúnistaríki, alræðisríki. Ég var átta ára. Ég var barn. Ég ætla að summera þetta upp með stikkorðum.

Pawel fórnarlamb alræðis.
Pawel marktækur.

En að efni pistilsins…

Erfitt að kenna gömlum hundi nýtt ríkjaheiti

Grunnskólinn minn, sem þá hét Grunnskóli nr. 8 í Sanok, þar sem ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis.
Grunnskólinn minn, sem þá hét Grunnskóli nr. 8 í Sanok, þar sem ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis.

Þegar ég byrjaði í skóla, í hinum nýbyggða grunnskóla nr. 8 í Sanok lærði ég landafræði. Mér var kennt að ríkið mitt héti

Polska Rzeczpospolita Ludowa

sem orðrétt þýðir „Pólska lýðveldið alþýðlega“.

Ég vandist þessu nafni fljótt enda bjóst ég líkt og aðrir við að þetta væri svona eins og nafnið á mömmu manns, eitthvað sem maður þyrfti ekki að læra aftur og aftur á hverju ári.

Alveg óháð inntaki nafnsins þá var ágætis hrynjandi í þessu enda var það eins og hæka, stutt-langt-stutt.  Ég veit að margir eldri Pólverjar áttu erfitt með að losna við við þessa hæku úr minninu og fóru með hana óvart löngu eftir að ríkið hét aftur „Rzeczpospolita Polska“ – Lýðveldið Pólland.

Frægast þeirra dæma er þegar þegar aldurforseti pólska þingsins, sem venju samkvæmt stýrir umræðunum á fyrsta fundi eftir kosningar, setti óvart þing rangs ríkis, áður en hann leiðrétti sig. Það vakti kátínu.

Gamla nafn ríkisins er nótabene enn í pólsku fjölmiðlalögunum. Þar segir að „Ritstjóri dagblaðs má ekki hafa hlotið dóm fyrir brot gegn grundvallarhagsmunum Alþýðulýðveldisins Póllands“. Þetta er augljóslega dauður lagabókstafur og menn hafa greinilega frekar viljað halda honum þannig heldur en að „nútímavæða“ hann. Og einhvern veginn hefur láðst að fella hann út.

Ferðin upp í Skerjó

Nafnabreytingin tók gildi um áramótin 1989-1990. Ég man eftir göngutúr sem við pabbi áttum upp í Skerjafjörð skömmu eftir það. Pólska sendiráðið þá til húsa þar, í einhverri glæisivillunni. Ætli þetta hafi ekki verið svona „Ég trúi því þegar ég sé það“ gönguferð. Og jú, viti menn. Það var komið nýtt skilti. Með nýju og betra nafni.