Pólskir dollarar – Undir stjórn Jaruzelskis 21/100

Öll austantjaldsríki glímdu við endalausan gjaldeyrisskort. Fyrir vikið voru gjaldmiðlar þeirra ekki útskiptanlegir í aðra gjaldmiðla eftir venjulegum aðferðum heldur voru í gildi svokölluð (þið munið ekki trúa hvað þetta er fáranlegt) „gjaldeyrishöft“.

Að eiga og höndla með gjaldeyri var fyrst um sinn bannað. Síðan voru stjórnvöld farin að líta í gegnum fingur sér með þetta og einsettu sér frekar að reyna ná í þessa dollara fólks með hófstilltari aðgerðum. Sumar vörur, sem voru illa eða alls ekki fáanlegar venjulegu fólki (t.d. kol og byggingarefni) var hægt að kaupa fyrir gjaldeyri.

Þetta voru sem sagt vörur sem áttu, alla jafna að vera fluttar út, en voru seldar innanlands, fyrir gjaldeyri. Þessu fyrirkomulagi var því gefið hið alls-ekki-mótsagnarkennda heiti:

innanlandsútflutningur

Annar hluti af þessu fyrirkomulagi voru svokallaðar dollarabúðir. Þeir sem áttu dollara gátu keypt flottara dót en fékkst í öðrum búðum. Meira um þessar merku stofnanir síðar meir.

Strangt til tekið áttu þeir sem komust yfir gjaldeyri að skila honum í banka og þeir fengu þá í staðinn „dollaraígildi“. Þeir sem unnu fyrir pólska ríkið (eða pólsk ríkisfyrirtæki) í útlöndum fengu sömuleiðis  gjarnan greitt í dollaraígildum. Pólska ríkið færi nú ekki að greiða mönnum sem bjuggu innanlands í dollurum. Það væri fáranlegt. Þess í stað greiddu menn mönnum í „pólskum dollurum“, dollarígildum sem pólska ríkið prentaði og nota mátti í dollarabúðum og til að „flytja út vörur, innanlands“. (!)

Svona litu þessir seðlar út. Við áttum einhvern tímann nokkra og sýndum bandarískum vinum okkar á Íslandi. Þeim þótti þetta mjög fyndið. Dollarar sem kommúnistaríki gaf út:

Heil tvö sent maður. Einhver hefur unnið fyrir þessu.
Heil tvö sent. Einhver hefur unnið fyrir þessu.

[Athugasemd ætluð Fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands: Hugtökin innanlandsútflutningur og dollaraígildi sem koma fyrir í þessari grein eru ætluð til skemmtunar og fróðleiks. Ekki reyna þetta heima hjá ykkur. Í guðanna.]

Klappað rangt – Undir stjórn Jaruzelskis 20/100

Meira mál en þig grunar. CC-BY-SA 3.0 Evan-Amos.
Meira mál en þig grunar. CC-BY-SA 3.0 Evan-Amos.

Eitt sinn meðan ég bjó í tveimur löndum velti ég því fyrir mér hvor bekkurinn af þeim sem ég tilheyrði væri betri í fótbolta. Ég komst tiltölulega fljótt á þá niðurstöðu að það hlyti að vera sá íslenski. Á Íslandi æfði annar hver strákur fótbolta. Í Póllandi æfði enginn neitt.

Það verður vissulega að viðurkennast að Sanok var kannski ekki hjarta alheimsins og ekki hægt að æfa allt. En þetta hafði samt með ákveðið viðhorf að gera. Á Íslandi æfðu krakkar íþróttir, eða lærðu á hljóðfæri, því að þau (eða foreldrar þeirra) höfðu valið það. Í Póllandi undir stjórn Jaruzelskis voru það áhugamálin sem völdu mann en ekki öfugt.

Allt tengdist þetta ákveðinni oftrú á hæfileikum sem einkenndi mörg þessara ríkja. Menn höfðu „tónlistarhæfileika“ eða „íþróttahæfileika“. Og það borgaði sig ekki að kenna neinum sem ekki hefði þessa „hæfileika.“

Þegar pabbi var lítill hafði einhver útsendari tónlistar komist að því að hann hefði „tónlistarhæfileika“. Fyrir vikið æfði hann túbú, fiðlu, pianó uns hann komst loksins að því að eina sem veitti honum raunverulega ánægju var að spila á gítar á djamminu.

En já, það gekk svona fólk um fyrstu bekki grunnskóla. Leitandi að hæfileikum. Ég man þegar það kom til mín. Maður átti að klappa með einhverju lagi. Ef maður klappaði á 2 og 4 þá var maður greinilega með hæfileika. Ef maður klappaði á 1 og 3 þá var maður ekki með hæfileika. Ég klappaði á öllum atkvæðum orðanna í laginu. Svona:

 X   X  X X   X   X  X
Gekk ég yfir sjó og land.

Fyrir vikið var ég örugglega úrskurðaður óhæfur til tónlistarnáms. Ég fékk reyndar síðan gítar þegar ég var 17 ára og kann alveg að spila Wonderwall á djamminu. En sú sannfæring að til væri eitthvað sem héti „taktvísi“ sem væri af-eða-á eiginleiki hélst í mér ansi lengi. Ég var sannfærður vel fram yfir tvítugsaldur að til væri fólk sem væri taugafræðilega fært um að slá tvo takta sem sitthvorri hendinni, og svo fólk sem gæti það ekki. Ég taldi mig svo tilheyra síðari hópnum. Hóp hinna taktlausu.

Það var svo með þegar einhverjir kapitalistar sett á markað leikina Guitar Hero og Rock Band að ég keypti mér svona kitt með trommusetti og byrjaði að tromma. Nú get ég trommað Wonderwall upp í fimm stjörnur í Expert Mode. Af því leiðir að að minnsta kosti eitt af eftirfarandi hlýtur að vera satt:

  1. Trommuleikur Oasis er svo fábrotinn að jafnvel taktlaus maður getur náð honum.
  2. Skipting fólks í taktvíst og taktlaust er réttmæt en ég var bara ranglega greindur taktlaus meðan ég er í raun og veru taktvís.
  3. Sú pæling að mældir hæfileikar ungra barna (en ekki áhugi) eigi að ráða því hvort þau fái að leggja stund á tómstundariðju er kjaftæði. Þetta er mest spurning um æfingu.

Hnífapör í keðjum – Undir stjórn Jaruzelskis 19/100

Einu sinni þegar ég var að labba í Bieszczady-fjöllum með mömmu datt ég inn á veitingastað þar sem hnífarnir voru allir í keðjum sem skrúfaðar voru við borðin. Það er auðvitað ein leið til að koma í veg fyrir að hlutir hverfi: að festa þá húsgögn.

Ég veit að Vesturlandateprunum langar öllum að spyrja:

„En, en… svo kemur bara næsti maður og … ha? Nei…. Ha?“

En ekki spyrja. Höfum þetta sem ráðgátu.

Einn vinsælasti leikstjóri Pólverja frá þessum tíma, Stanisław Bareja, gerði grín að þessu í kvikmyndinni Miś (Bangsi).Klippan er hér að neðan, rúm ein og hálf mínuta, með enskum texta.

Hér eru reyndar skálarnar skrúfaðar við borðið einnig, sem og skeiðarnar og gestir þurfa að samhæfa handahreyfingar til að geta borðað súpuna. Þetta eru reyndar ýkjur eins og flest í myndum hans.  En það er sannleikur í þessu þó hann sé málaður í skærum litum.

Þjófótti pósturinn – Undir stjórn Jaruzelskis 18/100

Seinasta daginn sem hægt var að senda jólakort innanlands seinustu jól sendi ég jólakort til ömmu minnar sem býr í Slesía héraði. (Þetta var amma mín sem ég minntist á í grein um lestarferðina. Ef hún myndi skrifa greinarflokk eins og þennan þá héti hann: „Þegar ég var átta ára undir stjórn Hitlers“)

En hvað um það. Jólakortið barst henni fyrir jól.

CC-BY-SA 3.0 User: Grisznak
CC-BY-SA 3.0 User: Grisznak

Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis hefði póstur frá Íslandi til Póllands verið mánuð á leiðinni. Og það var nú eitt en þessir tímar hafa styst alls staðar í heimi. Eðlilega. Verra var að pósturinn kom oftar en ekki tættur og opnaður á áfangastað. Og búið að stela ýmsu úr honum.

Nú veit ég ekki hvort það voru póststarfsmenn, leyniþjónustan eða einhverjir aðrir sem komust í hann á leiðinni, en ef það var einhver minnsti grunur að umslagið innihélt eitthvað sem líktist peningum bréfið opnað og stolið innan úr því. Ég mann að einhvern tímann sendi pabbi svona litla merkimiða til að setja á pakka. Stolið. Og oft komu bréfin bara alls ekki.

Allt þetta getur auðvitað gerst, en umfangið þjófnaðarins var slíkt að það gat varla verið um tilviljun að ræða. Einhvern veginn hlaut það að vera þannig að einhvers staðar fengu þjófar að leika lausum hala án þess að neinn gerði neitt í því.

Búi maður í Póllandi nú getur maður alla vega valið milli nokkurra fyrirtækja sem sendast með dót á milli staða. Í þá daga þurfti maður að reiða sig á opinberan aðila sem var óvinveittur. Las bréf fólks og stal úr þeim öllu sem verðmætt var.

Skyldusíldin – Undir stjórn Jaruzelskis 17/100

Árið 1982 setti Jaruzelski lög sem bönnuðu sölu áfengis fyrir klukkan 13 á daginn. Þetta var náttúrlega gert til að sporna við ölvun.  Að nafninu til voru yfirvöldin í Póllandi alla tíð að reyna að minnka neyslu áfengis. Í reynd keyrði áfengissalan upp efnahaginn og fjármagnaði rekstur ríkissjóðs að ótrúlega stórum hluta.

Áætlað er að 1980 hafið 14,5 % af öllum tekjum ríkissjóðs komið úr áfengissölu. (Sjá þennan link (á pólsku) ). Þá hafi neyslan farið úr 1,5 l á mann á ári af hreinum vínanda á millistríðsárum og yfir 10 l á mann við lok níunda áratugarins. Svona var forgangsröðunin, kjöt, sykur og hveiti vantaði, en einhvern vibbavodka var nú oftast hægt að finna. Og hvað haldið að gerist ef allt vantar nema áfengið og fólk situr með aukapening sem það getur ekki einu sinni eytt í mat? Hmm…

Það hvort þú takmarkir sölutímann við kl. 13 mun náttúrlega litlu breyta í þannig ástandi. Enda dró þetta ekkert úr áfengissölu en skapaði í staðinn þónokkra samkennd og til urðu dægurlög eins og „Tíu mínútur í eitt“. Með textum á borð við:

„Klukkan sló eitt,
Nýr dagur hefst
Röðin gengur hratt
og öllum er létt“

Mér eldri menn sögðu mér þó að ein undantekning hefði verið gerð á þessum tímatakmörkunum. Það var ef menn pöntuðu sér drykk með mat. Fyrir vikið var eftirfarandi sena algeng á pólskum börum:

Leikþáttur

Kúnni: Ég ætla fá eitt vodkastaup. 100 ml.

Barþerna í skítugum slopp: Því miður, við afgreiðum bara áfengi með mat fyrir kl. 13.

Kúnni: Ok, hvað áttu?

Barþerna í skítugum slopp:  Ég á síld.

Kúnni: Ok þá. Eina síld og eitt vodkastaup, 100 ml.

Barþernan teygjir sér undir borðið og nær í illa lyktandi síldarbita úr opnu plastíláti. Fleygir því á lítinn disk. Hellir svo í vodkastaup.

Kúnninn borgar, skellir í sig vodkastaupinu og labbar út.

Barþernan nær í diskinn með síldinni og sturtar henni snyrtilega að nýju í plastdallinn fyrir neðan afgreiðsluborðið.

Þar mun síldin bíða uns hún þarf að sinna þegnskylduvinnu sinni að nýju.

"Komdu með okkur að byggja nýjan morgun." Maðurinn sem fjármagnaði þennan nýja morgun sést fremst á mynd.
„Komdu með okkur að byggja nýjan morgun.“
Maðurinn sem fjármagnaði þennan nýja morgun sést fremst á mynd.

Fimm tíma í leigubíl – Undir stjórn Jaruzelskis 16/100

Frá flugvellinum í Kraká var fimm tíma akstur til Sanok. Ég var átta ára. Jaruzelski var við völd.

Nú er Jaruzelski ekki lengur við völd. Ég er ekki lengur átta ára. Nú er búið að byggja hraðbraut og maður kæmist þetta á innan við þremur tímum. En þegar ég var átta ára, undir stjórn Jaruzelskis, var ekki mikið um hraðbrautir.

Jólin voru á nálgast. Jólin 1988. Þetta var á þeim tíma sem við bjuggum enn þá í báðum löndunum . Ég var á leiðinni frá Íslandi með pabba. Við flugum til London með Icelandair og síðan með skröltandi Tupolev frá Lot til Kraká. (Frá Kraká hélt vélin reyndar áfram til Varsjár, en við tókum bara fyrri legginn).


View Larger Map

Við fórum út í Kraká og eftir að hafa tekist að koma í veg fyrir að flugvélin færi með farangurinn okkar til Varsjár gengum við út af flugvellinum í leit að einhverjum leigubílstjóra sem gæti keyrt okkur til Sanok. (Þegar ég segi „við“ þá játa ég samt að ábyrgðinni var ekki fullkomlega jafnt skipt milli okkur feðganna).

Ég hef, í seinustu pistlum(hér og hér), farið yfir áreiðanleika og hraða pólsku lestanna á tímum kommúnismans. Sérstaklega þarna var lestin ekki góður kostur. Við hefðum þurft að koma okkur í miðbæ Kraká, gista þar, (vélin hafði lent seint) og svo þurft taka lest næsta morgun. Leigubíllinn virtist besti kostur, sérstaklega þar sem við, Vesturlandabúarnir, áttum dollara.

Dollarar voru margfalt betri en zloty, fyrir dollara gat maður keypt betri vörur. Einnig gat maður geymt dollara undir kodda án þess að þeir misstu nokkur prósent af verðgildi sínu yfir nótt. Vandinn við zlotýið á þessum tíma að það var orðið verðlaust þegar maður loksins gat fundið eitthvað til að kaupa fyrir það.

Jú, það fannst leigubílstjóri til að keyra okkur til Sanok. Samið var um verð og keyrt af stað í vondu færi. Eftir smá stund er eins og renni upp fyrir bílstjóranum að hann þurfi að keyra til baka líka og reynir að semja um hærra verð á grundvelli þessara nýframkomnu upplýsinga. Þeir pabbi karpa um þetta í einhverja stund og á leiðinni leggur pabbi einfaldlega til að kveikt yrði á mælinum. Það myndi auðvitað þýða greiðslu í zlotýum sem var eins og að fá borgað í brennisteinsösku. Það hélt aðeins aftur að samningagleði bílstjórans.

Við komum til Sanok seint um nótt, en ferðin gekk þó almennt vel. Þessi langa leigubílaferð endaði með að kosta hundrað dollara (ríflegt þjórþé innifalið). Leigubílstjórinn lagði sig víst í bílnum í innkeyrslunni að útisafninu áður en hann hélt aftur heim á leið.

CC-BY-SA 3.0 User: Joergsam
CC-BY-SA 3.0 User: Joergsam

Eins og allt svona þá var þetta örugglega ekki allt í takt við ströngustu túlkun einhverra greina laga um gjaldeyrishöft og leigubílaasktur. En auðvitað hefðu þessi samfélög ekki funkerað í sekúndu ef venjulegt fólk, sem var að reyna að bjarga sér, hefði tekið allan þennan efnahagslega haftalagabálk alvarlega. Svona var þetta. Er er kannski enn. Víða um heim.

Eigum við ekki bara hlaupa? – Undir stjórn Jaruzelskis 15/100

Lestarferðin tók breytingum þegar komið var til bæjarins Jasło. Í Jasło hætti rafvædda lestarlínan og við tóku „nakin“ spor. Þannig að dráttarvagnarnir á þessari leið gengu fyrir bensíni. Þannig oftast þurfti að skipta um dráttarvagn. En það var nú ekki eina vandamálið.

Af vef pólsku járnbrautanna PL. Seinasti kaflinn á leið til Sanok. Einföld lina táknar órafvædd spor.

Á þessari leið var lestarlínan einbreið, lestir gátu sem sagt ekki mæst. Einungis á nokkrum tveimur-þremur stöðvum á leið til Sanok voru tvöföld spor þannig að á þeim stöðvum gátu lestir sem komu úr gagnstæðri átti farið fram hjá hvor annarri. Sem þýddi að ef svo ólíklega vildi til að lestin manns var á áætlun þá var örugglega einhver önnur lest á leiðinni sem var það ekki og maður þurfti að bíða til að klessa ekki á.

Upphitun fyrir þennan seinast áfanga var ferðalag frá Jasło til Krosno.

Krosno var á þessum tíma sýsluhöfuðborg Krosno-sýslu. Stjórnvöld höfðu breytt sýslufyrirkomulaginu þannig að sýslum var fjölgað í 49. Þetta var oft gert alþýðulýðveldum Mið- og Austur-Evrópu, t.d. í Austur-Þýskalandi. Fleiri og veikburðari héraðseininga hentuðu miðstýringunni betur.

En fyrir vikið urðu fámennari bæir oft einhvers konar héraðshöfuðstöðvar sem fannst fólki í þeim bæjum ágætt en fólki í öðrum bæjum síðra og stundum jafnvel spaugilegt. Krosno var þannig 47 þúsund manna bær og raunar samt fámennasta (að mig minnir) sýsluhöfuðborgin á þessum tíma. Í Sanok, þar sem 40 þúsund bjuggu, sögðu menn brandara á borð við:

„Af hverju eru ljósastýrð gatnamót í Krosno?“

„Nú, til að maður gæti keyrt ekki á einni mínútu í gegnum sýsluhöfuðborgina“.

(Þess má geta að þessi djókur kom í svona 30 útgáfum, einni fyrir hverja ekki-svo-stóra sýsluhöfuðborg. Bið Krosno-búa strax afsökunar á því að vera dreifa fimmaurum um bæinn þeirra á íslenskri vefsíðu 🙂 )

Í Krosno gerðum við raunar stundum hlé á ferðalaginu og g istum hjá vinafólki mömmu. Í sæmilega flottu blokkahverfi þar sem allar götur hétu blómanöfnum.

Síðan var haldið áfram til Sanok. Vegalengdin milli Krosno og Sanok, á landi (ekki í loftlínu) er 42 km, sú sama og vegalengdin í maraþoni. Á þessum tíma, þegar ég er átta ára var heimsmetið í maraþoni 2:07. Ég man vel eftir þessu því pabbi minntist oft á þessa staðreynd. Ferðin átti að taka rétt rúma klukkustund. Niðurstaðan varð hins vegar sú að oftar en ekki hefði maður getað veifað einhverjum Kára Steini þess tíma bless í Krosno og hann mundi bíða eftir manni með heitt te og „Velkomin til Sanok – forgarðs Bieszczady-fjallanna“ skilti á aðaljárnbrautarstöðinni í Sanok.

Meðalferðahraði á leiðinni er undir 30 km/klst. Sporin eru víða illa farin.

Ég man sérstaklega eftir einni stöð á leiðinni það var stöðin „Wróblik Szlachecki“. Það er þúsund manna sveit sem heitir, til að gera málin skoplegri hinu fáranlega mótsagnakennda-krútt-lummó nafni: „Spörfuglabær aðalsins“. Ég man þetta nafn ansi vel því ég hef eytt ófáum korterum ævi minnar þegar ég var að læra stafina að stara á skilti með þessu nafni á meðan við biðum eftir að lest úr gagnstæðri átt náðarsamlega rúllaði inn á skiptisporið.

Þegar loksins var komið til Sanok tók oftast við leigubílaferð heim, og stundum smá labb úr inngangi útisafnsins og heim í græna húsið okkar.

Allt í allt gat þetta orðið tveggja daga ferðalag með stoppum. Það er því ekki skrítið að foreldrar mínir hafi einstaka sinnum leitað eftir valkostum við ríkisjárnbrautarfélagið þegar við þurftum að komast frá Kraká/Slesía og til Sanok. En meira um það næst.

Í lestinni – Undir stjórn Jaruzelskis 14/100

Ég ferðaðist heilmikið í lestum þegar ég bjó í Póllandi undir stjórn Jaruzelskis. Sú leið sem sem ég fór hvað oftast var milli Tarnowskie Góry í Slesía héraði, þar sem amma mín býr, og Sanok, í suðaustur hluta Póllands þar sem við áttum heima.

Hérna er sirka leiðin sem þurfti að fara:


View Larger Map

Ferðin átti örugglega að taka eitthvað svona eins og vel yfir hálfan sólahring, samkvæmt áætlun. Vel að merkja „samkvæmt áætlun“ á tímum alþýðulýðveldisins þýddi „gleymdu því, aldrei í helvíti“.

Fyrsti hluti ferðarinnar var frá Tarnowskie Góry til Katowice, það var svona klukkutími, gekk oftast allt í lagi. Reyndar var mikið stoppað því Slesía-hérað er mjög þéttbýlt. Í raun er þetta stærsta borg landsins, sem fáir vita um utan Póllands, þarna búa 3,5 milljónir manna í samfelldu þéttbýli, þótt mörg sveitarfélaganna séu svona 200 þúsund að íbúatölu en Katowice þeirra stærst með 300 þús. Fánýtur fróðleikur: Katowice vildi endilega (les: þurfti að) breyta nafni sínu í Stalinogród eftir stríð. En því var snúið við um leið og Jóseps frænda naut ekki við.

Frá Katowice til Kraká eru 67 kílómetrar í loftlínu. Maður myndi því búast við að sú ferð tæki um klukkutíma með lághraðalest. En nei. Í fyrsta lagi var, eins og áður sagði nóg af ástæðum til að stoppa. Í öðru lagi er Slesía hérað námusvæði. Þannig að lestirnar mega ekki keyra of hratt. Annars pompar allt héraðið niður í holrýmið sem situr eftir þegar búið er að taka öll kolin úr jörðinni. Eða eitthvað.

Þannig að þessi leið tók að minnsta kosti tvo tíma samkvæmt áætlun. Og þið munið hvað „samkvæmt áætlun“ þýddi.

Þegar komið var framhjá Kraká gat maður slappað af og notið fagurs flatlendis Litla-Póllands (Małopolska).Ef maður þurfti að standa frammi á gangi gat maður skemmt sér við að skoða kort eins og þessi, sem hengu á veggjum.

Lestarkerfið eins og það var 1952. Greinilegt má sjá hvar Þjóðverjar réðu ríkjum fyrir 1918.
Lestarkerfið eins og það var 1952. Greinilegt má sjá hvar Þjóðverjar réðu ríkjum fyrir 1918.

Ef maður var hins vegar nógu heppinn til að fá sæti í farþegaklefa þá gat maður stytt sér stundir við að lesa tæmandi reglugerðir um hitastillingu. Það voru sem sagt svona snúningsrofar í loftinu þar sem maður gat stillt loftkælingu og hita í sætum. Við hliðina á þeim var texti. Hann var einhvern veginn svona (eftir minni):

REGLUGERÐ UM HITASTILLINGU

  1. Reglugerð þessi tekur til hitastillingar í farþegalestum Pólsku ríkisjárnbrautanna (PKP).
  2. Hitastilling í farþegaklefa skal ákveðin með samhjóða ákvörðun allra farþega.
  3. Náist samstaða ekki skal ákvörðun um hitastillingu tekin með einföldum meirihluta farþega.
  4. Sé ekki unnt að taka ákvörðun um hitastillingu með einföldum meirihluta skal kalla til miðavörð. Ákvörðun miðavarðar um hitastillingu er endanleg.

Reyndar kom sjaldnast til að það reyndi á þessa reglugerð. Enda man ég ekki eftir því að loftkæling eða sætahitun hafi nokkurn tímann virkað. En svona var þetta oft.

Ég ætla að klára frásögnina um ferðalagið til Sanok í næsta pistli. Ég mun síðan eflaust freistast til að taka reglugerðir ríkislestanna fyrir í sérfærslu. (SPOILER ALERT: Ein þeirra tengist afspilun tónlistar af grammófónplötum milli 18:00 á kvöldin og 06:00 á morgnana).

Beksiński feðgarnir – Undir stjórn Jaruzelskis 13/100

Heimabærinn minn, Sanok, var þekktur fyrir nokkra hluti. Útisafnið, það stærsta sinnar tegundar var einn þeirra (vildum við meina sem vorum tengdir því). En eir Sanokbúar sem hinn listelskandi Pólverji þekkir best eru þó án efa Beksiński feðgarnir.

Beksiński eldri, Zdzisław Beksiński, fæddur 1929 í Sanok, var frægur listmálari. Hann er þekktur fyrir fremur deprimerandi myndir af líkum og beinagrindum í svona kjarnorkuveturs-umhverfi. Hér er ein slík:

CC-BY-SA 3.0 Zdzisław Beksiński (copyrights inherited by Muzeum Historyczne w Sanoku)
Án titils – CC-BY-SA 3.0 Zdzisław Beksiński (réttindi erfð af Muzeum Historyczne w Sanoku)

Beksiński fjölskyldan hafði reyndar flutt úr Sanok 1977, til Varsjár, en Beksiński eldri var klárlega áfram eftirlætissonur Sanok. Þetta var svona Kjarvalinn í bænum. Verk hans sáust á betri heimilum bæjarins og í stofnunum og bæjarlistasafnið varðveitir mörg hundruð málverka eftir hann sem hann gaf bænum á meðan hann lifði, sem og að sér látnum. Sem er helvíti magnað því þetta eru verk sem seldust dýrum dómi í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, þar sem nóg er af svínslega ríku fólki með sæmilegan listasmekk.

Mér fannst þetta auðvitað dálítið spes. Því þetta eru auðvitað dálítið sérstök verk og maður býst ekki alveg við að sjá þau inni hjá virðulegum eldri konum eða biðstofum sjúkrahúsa. En í Sanok sáust þau einmitt víða. Því Beksiński var stolt og sómi bæjarins.

Sonur hans, Tomasz Beksiński, var kvikmyndaþýðandi og með þekktari plötusnúðum landsins. Heil kynslóð af ímó-progg-altvernatíf unnendum Póllands, kóperaði tónslistarsmekk hans og gerði að sínum eigin. Á níunda og tíunda áratug var hann með langa þætti um tónlist, oft á furðutímum eins og kl. 0- 4 um nótt aðfaranótt sunnudags sem bætti einungis við költstatus hans.

Hann var alltaf dálítið dökk og þunglynd týpa. Saga gekk í Sanok að hann hafi á menntaskólaárum sínum búið til dánartilkynningu um sjálfan sig og límt á helstu styttur bæjarins. Og tónlistarsmekkurinn var eftir því. Eins og hann sagði oft sjálfur: „Næsta lag er soldið eins og pabbi hefði málað það.“

Þann 11.-12. desember fór hann í útsendingu á pólska ríkis-þristinum í þátt sem reyndist vera hans síðasti.

http://www.youtube.com/watch?v=6GifAoNZuQc

Þátturinn er stútfullur af tilvitnunum í endalok þáttarstjórnandinn tekur margsinnis fram að þau kynni að vera nærri.

„Eftir viku er Piotr Kosinski með þáttinn, eftir tvær vikur eru jól, og eftir þrjár vikur er árið 2000. Gerið ykkur grein fyrir því að í dag erum við að hittast í seinasta skipti… [stutt þögn] á tíunda áratugnum?  Og kannski verður þetta bara seinasta skipti sem við hittumst yfir höfuð? Hver veit hvað gerist? Framundan er, jú, allsherjarhrun tölvukerfis.“

Tomasz Beksiński framdi sjálfsmorð 24. desember 1999. Faðir hans kom að honum látnum. Því miður höfðu annars augljósar sjálfsmorðshótanir hans farið framhjá fólki, sem flest tók þeim sem áhyggjum manns sem er skíthræddur út af 2000 vandanum.

Faðirinn, Zdzisław Beksiński lifði til 2005. Hans endalok voru einnig fremur sorgleg. Hann var myrtur í febrúar það ár, stunginn til bana af ungum manni sem hann hafði neitað um smávægilegt lán. Fjölskylda unga mannsins hafði unnið ýmis verk fyrir Beksiński eldri svo þeir tveir þekktust. Beksinski eldri er grafinn í Sanok, ásamt konu sinni (sem lést 1998) og syni.

Tvöfalt kerfi – Undir stjórn Jaruzelskis 12/100

Í seinasta pistli mínum fjallaði ég um þá reynslu mína að vera útskúfað úr samfélagi leikskólabarna í Sanok. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og tala um leikskólamál.

Bara til gamans: Hér er myndband sem tengir saman varahetju þessarar raðar við leikskólamál. Þetta er frétt frá þeim tíma sem ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis (ég sést ekki í myndbandinu).

Fyrsti hluti er svona „Jaruzelski looking at things“ myndband. Í þessu tilfelli er Jaruzelski að horfa á spítala, og ræðir meðal annars við Zbigniew Religa, einn fremsta hjartaígræðslulækni Póllands, sem fór síðar í forsetaframboð og var raunar um tíma heilbrigðisráðherra, undir stjórn tvíburanna.

Seinni hluti fjallar, hvurn skyldi ekki gruna, um skort á leikskólaplássi. Það er raunar athyglisvert að fréttin gefur þeim möguleika gaum að senda börn í einkaleikskóla. Ég segi þetta til að fólk haldi ekki að alls ekkert einkaframtak hafi þrifist í Póllandi á þessum tíma. Svo var nú ekki alveg. Ýmislegt slíkt var til en flest þó af litlum skala. Á fréttinni að dæma má jafnvel álykta að straumar Thatchers hafi fundið sér leið víðar en maður hélt. Fólk er beinlínis hvatt til að stofna einkaleikskóla.

***

Smá hliðarspor í flokknum „Þegar ég var 31 árs undir stjórn Tusk“.

Ég fór nýlega aftur til Póllands og var í nokkra mánuði. Mig langaði að koma syni mínum á leikskóla yfir þann tíma. Ég fór fyrst á opinberan leikskóla, en það var svolítið, svona: „Stimpil hér, lögheimilisvottorð, staðfesting atvinnurekand, úúú… er barnið ekki með kennitölu? Úúú…“

Ég fór á einkarekinn leikskóla, sem vissulega aðeins dýrari (40 þús. á mánuði), en það var bara: „Ekkert mál, íslenska kennitalan dugar. Jú, já látum allt reddast“

Og þegar ég spurði hvenær strákurinn gæti byrjað horfði sagði leikskólastjórinn: „Já, ég meina hann fer heim núna…“ og horfði svo spyrjandi á mig: „Eða…“

Hann fékk staðfestingu á því að ég ætlaði ekki að skilja barnið eftir þarna í kynningarheimsókninni.

„Ókei, en hann getur komið á morgun.“

***

Sumir hérlendis sjá „tvöfalt kerfi“ sem eitthvað það skelfilegasta sem samfélagið getur hent. Ég bara fæ mig ekki til að deila þeim áhyggjum. Mér finnst bara ekkert að því að hafa tvö kerfi:

Opinbera kerfið, þar sem fólk spyr margra flókinna spurninga og lætur þig svo hugsanlega hafa mjög niðurgreitt leikskólapláss.

Einkarekna kerfið, þar sem fólk spyr mun færri spurninga og lætur þig hafa leikskólapláss ef þú borgar mun hærra verð.

Það sem mér finnst ljótt er að hafa bara eitt kerfi og segja svo við fólk: sorrý karlinn minn, þú uppfyllir ekki skilyrðin til að vera í kerfinu.  „Þú mátt ekki fara í leikskóla því mamma þín er heimavinnandi. Eða: Þú ert of gamall fyrir augnaðgerð.“

Fólk forgangsraðar. Ég forgangsraðaði þannig að ég setti son minn á einkarekinn leikskóla, var ekki á bíl, ferðaðist minna en ég hefði viljað og saxaði á spariféð sem ella hefði verið notað til að fjármagna upprisu hinnar íslensku millistéttar. En ég er glaður yfir því að mitt gamla heimaland sé orðið þannig, land þar sem fólk getur forgangsraðað, í stað þess að vera land þar sem allt kostar skrifræðilega fyrirhöfn og þar sem þú helst þarft að þekkja einhvern til að kippa í spotta þegar þegar hinar formlegu leiðir klikka. Eins og þetta var.