Nýjasta óskabarniðÁ Íslandi er alltaf pláss fyrir eitt fyrirtæki sem fólk dýrkar.

Þetta fyrirtæki er bjargvætturinn. Þetta fyrirtæki breytir því hvernig Íslendingar sjá sjálfa sig. Allt sem þetta fyrirtæki gerir er gott. Allt sem gert er til að torvelda þessu fyrirtæki vinnu sína er slæmt og illa séð. Stjórnendur fyrirtækisins eru klárt fólk sem getur kennt okkur margt. Allir háskólanemar vilja fá sumarstarf hjá fyrirtækinu.

Ætli Eimskip sé ekki eitt fyrsta þannig fyrirtækið. Óskabarnið. Á minni lífsstíð á Íslandi man ég alla vega eftir:

Bónus,
Decode,
Kaupþing (og hinum bönkunum),
CCP
CostCo.

Bónus var Costco síns tíma. Þarna kom einhver inn á markaðinn og breytti öllu. Skyndilega kom búð þar sem allt var ódýrara. Búðin leit út eins og vörulager, fyrirtækið þótti nastý við birgja og gæðin stundum umdeilanleg. En menn lækkuðu verð og fyrir vikið var margt annað fyrirgefið.

Decode setti okkur á kortið. Litla Ísland gat orðið vagga framfara í erfðavísindum. Hámenntaðir erlendir vísindamenn mættu til landsins. Hámenntaðir Íslendingar fluttu heim. Allir fengu ógeðslega mikið borgað. Fjárfestar höfðu trú á verkefninu. Almenningur fjárfesti í verkefniu. Reynt var í tvígang að setja sérstök lög til að auðvelda fyrirtækinu að stunda ákveðinn rekstur (lög um gagnagrunn / ríkisábyrgð á lyfjaframleiðslu).

Kaupþing og hinir bankarnir gáfu Íslendingum trú á eigin getu. Skyndilega voru íslensku bankarnir ekki bara einhverjir lúðasparisjóðir sem börðust um sparifé unglinga með því að bjóða þeim íþróttatöskur og rakspíra. Nei, nú sáu Íslendingar um eignastýringu fyrir þá allra stærstu og óðu inn á nýja markaði, opnuðu útibú hingað og þangað og kepptu við þá allra bestu. Og allmargir voru bara ansi ánægðir með þetta.

CCP gaf okkur svo AFTUR trú á að við gætum gert eitthvað. Milljónir manna voru að spila íslenskan leik! Fréttaflutningur af fyrirtækinu var afar jákvæður. Sama gilti um mörg önnur tæknifyrirtæki, til dæmis Plain Vanilla. „Af hverju voru lífeyrissjóðirnir ekki að fjárfesta meiri í nýsköpun?“ spurði fólk. Í stjórnlagaráðinu notuðum við Agile Scrum til að  skrifa stjórnarskrá. Því það var það sem nýsköpunarfyrirtækin notuðu.

Costco er nýja óskabarnið og það fyrsta sem er alfarið erlent. Um daginn mátti lesa að Costco gæti átt yfir höfði sér dagsektir vegna óviðunanandi merkinga á efnavörum. Fyrstu viðbrögð margra voru eins og ef Víkingasveitin hefði stöðvað tombólu fyrir utan Melabúðina.

Auðvitað voru þetta bara samkeppnisaðilar að leggja kostnað á nýjan keppinaut með hjálp eftirlitsstofnunar en það er bara  mjög oft þannig. Og mörgum sem lenda í þessu má vorkenna meira en alþjóðlegum verslunarrisum. Ég versla stundum við pólskar búðir hér á landi sem þurfa að  líma íslenskar innihaldslýsingar ofan á pólskar pakkasúpur. Einhvern veginn ráða þær við þetta.

Costco færði Íslendingum vörur sem þeir þráðu, á verði sem þeir kunnu að meta (í magni sem þeim var ekki alltaf nauðsynlegt… en allt í lagi). Það er ekki skrítið að Costco sé nýjasta óskabarnið. Og á meðan það er þannig munu margir halda með þeim og leyfa þeim ýmislegt.

Það er gaman að vera á toppnum. En sagan kennir okkur samt að á toppnum er ekki pláss fyrir marga, menn stoppa þar stutt, og ekki víst að allir líti þá sömu augum þegar þeir loksins koma niður.

Hættulegra en MMA

Höf: Adha65 CC-BY-SA 3.0

Hópur pólskra fjallgöngumanna ætlar að klífa K2 næsta vetur. K2 hefur aldrei áður verið klifið að vetri til. Fjallið er eitt það hættulegasta í heimi en dánartíðnin á því er um 25%. Vetrartilraunir eru vitanlega enn hættulegri.

Við getum því varlega áætlað að líkurnar á því að drepast við það að reyna sigra K2 að vetri til séu nálægt 30-40%. Bardagamaður sem færi í hringinn með þessum líkum væri ekki bardagamaður heldur skylmingarþræll. Samt gerir fólk þetta, af fúsum og frjálsum vilja. Og flestir aðrir mæta þessari fífldirfsku ekki bara af umburðarlyndi heldur beinlínis aðdáun.

Aðdáunin verður svo einna mest þegar einhver deyr.

Sjálfur er ég ekki undanskilinn. Hve oft hef ég ekki lesið um misheppnaða tilraun Mallory og Irvine til að komast á Everest tind? Hve oft hef ég ekki kynnt mér afrek Wöndu Rutkiewicz, fyrstu konu til að klífa K2, og dauða hennar? Hve oft hef ég lesið fréttir og skýrslur um Broad Peak harmleikinn 2013, þegar fjórir pólskir fjallgöngumenn sigruðust, fyrstir manna, á tindinum að vetri til, en tveir þeirra frusu í hel á niðurleið? Svarið er: Furðulega oft.

Mannkynið hampar þessum dauðaslysum, gerir úr þeim hetjumyndir og allt þetta eykur áhuga á þessari háfjallamennsku frekar en hitt. Hnefaleikar eða MMA kalla ekki á sömu viðbrögð. Sumum finnst nóg að sjá slíkan bardaga til að vilja banna hann. Dauðdagi í tengslum við bardaga styrkir þá bara í trúnni um að það sé rétt afstaða.

Kannski finnst einhverjum munurinn felast í markmiðinu. Markmið með blönduðum bardagaíþróttum eða hnefaleikum sé, á einhvern hátt, að meiða. Markmiðið með fjallgöngu sé að klifra upp á fjall. En það er samt þannig að í báðum tilfellum hafa menn sannmælst um að sumar hefðbundnar siðferðisreglur gildi ekki. Í hringnum kýla menn fólk í hausinn. Að sama skapi er sumt sem fólk gerir í 8000 m hæð þannig að það yrði örugglega fordæmt við sjávarmál.

Auðvitað á ekki að banna fullorðnu fólki að labba upp á há fjöll, jafnvel þótt áhættan er mikil. Það er ekki samfélagsins að hámarka lífslíkur fólks ef fólk sjálft hefur aðrar hugmyndir um hvað gerir það glatt. En í því ljósi er merkilegt hve mikið af öðrum áhugamálum fólk er til í að banna. Jafnvel áhugamálum sem eru mun hættuminni en það að reyna klifra upp á K2.

Væri áfengi leyft í dag?

Væri áfengi leyft í dag?

Þessi spurning er oft sett fram, gjarnan í skólastofu, í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar um skaðsemi áfengis.

Sá sem ber spurninguna upp er oftast að gera það til að fá fram „nei“. Að áfengi sé það skaðlegt að það væri galið að leyfa það í dag. Að líta megi á þá staðreynd að það sé enn leyft sem söguleg mistök.

Spurningin er alls ekkert úreld. Það er skammt síðan að þeir sem vildu svara henni neitandi urðu ofan á víða í Evrópu og Ameríku. Og langflestir eru enn sömu skoðunar þegar kemur að flestum öðrum vímugjöfum. Við skulum því reyna að svara henni. Mín skoðun er að það eigi ekki að banna áfengi.

Skorkort áfengis

Skoðum lauslega áhrif áfengisneyslu. Hófleg áfengisneysla hefur af sumum vera talin geta dregið úr líkum á hjartasjúkdómum, sykursýki, gallsteinum og stundum heilabilum. En áfengisneysla, sérstaklega óhófleg veldur líka margs konar skaða frá skorpulifur til allskonar krabbameins.  Þetta eru langtímaáhrif.  Flestir neyta áfengis vegna skammtímaáhrifa. Einbeitum okkur að þeim.

Hver eru skammtíma-kostir áfengisneyslu? Og, jú, áður en fólk hneykslast á þessu orðalagi þá er augljóst að fólk á leið í partí fær sér áfengi vegna þess að það telur að því fylgi kostir. Reynum að telja upp einhverja:

[table caption=“Skammtímaáhrif áfengis“]
Kostir, Gallar
Fólk verður félagslyndara
Hlutir virðast fyndnari
Fólk syngur frekar
Fólk slappar af
Nýjar tilfinningar koma fram
[/table]

En skammtíma-gallarnir eru svo sannarlega til staðar. Reynum því að bæta þeim við töfluna.

[table caption=“Skammtímaáhrif áfengis“]
Kostir, Gallar
Fólk verður félagslyndara, Skert hreyfigeta
Hlutir virðast fyndnari, Skert dómgreind
Fólk syngur frekar, Aukin ofbeldishneigð
Fólk slappar af, Ógleði,
Nýjar tilfinningar koma fram, Skert starfsgeta daginn eftir
,Of stórir skammtar lífshættulegir
[/table]

Ef við skoðum nú þessa töflu í heilu lagi þá getum við vissulega komist að þeirri niðurstöðu að aukaáhrifin í hægridálkinum séu of slæm til vega upp á móti kostunum í þeim vinstri. Og ef við erum stjórnlynt fólk þá getum við komist að þeirri niðurstöðu að réttast væri að banna allt áfengi út af því.

Ef áfengi væri krabbameinslyf

En bíðum aðeins. Framkvæmum smá hugartilraun. Ímyndum okkur að hægri dálkurinn lýsi ekki aukaverkunum af áfengisneyslu heldur aukaverkunum af lyfi við áður ólæknandi krabbameini.

Flestir myndu auðvitað láta sig hafa krabbameinsmeðferð sem hefðu sömu skammtímaafleiðingar og áfengisneysla (enda eru flestar lyfjameðferðir í dag síst skárri). Síðan myndu lyfjaframleiðendur bara vinna að því að milda þessar neikvæðu aukaverkanir.

Niðurstaðan yrði ekki að banna slíkt lyf.

Fólk mun sækjast eftir stundaránægju

Sama hvort okkur líkar betur eða verr þá sækist fólk eftir þeim áhrifum  sem áfengi veitir. Og, það sem meira er, fólk mun halda áfram að sækjast eftir þeim.

Verkefnið ætti ekki að banna hluti sem fólk sækist eftir heldur að bæta þá. Ímyndum okkur til dæmis að einhverjum tækist að búa til „áfengi plús“, sem myndi ekki valda þynnku, ekki valda ofbeldishneigð, ekki drepa fólk úr ofneyslu og hægt væri að taka töflu í lok kvölds og keyra heim. Við værum þá komin með töflu sem liti svona út:

[table caption=“Áfengi plús?“]
Kostir, Gallar
Fólk verður félagslyndara, Skert hreyfigeta (móteitur til)
Hlutir virðast fyndnari, Skert dómgreind (móteitur til)
Fólk syngur frekar, Ógleði
Fólk slappar af,
Nýjar tilfinningar koma fram,
[/table]

Ímyndum okkur öll þau ofbeldisverk sem hægt væri að koma í veg fyrir, öll þau slys sem hægt væri að hindra ef einhverjum tækist að búa til slíkt, endurbætt áfengi. Talandi ekki um ef unnt væri hindra þau skaðlegu langtímaáhrif á heilsu sem vitað er um.

En því miður má ætla að þróun á slíku endurbættu áfengi myndi mæta andstöðu fagfólks og stjórmálamanna.

„Unglingar fara að drekka þetta“.

„Fólk mun ekki kunna sér neins hófs ef þynnkan verður ekki til staðar.“

„Stökkpallur í harðari efni.“

Allt yrði þetta sagt.

Skilum syndinni til miðaldanna

Stór hluti fólk virðist hafa þá afstöðu að það sé eitthvað rangt, jafnvel syndugt, við það að nota efnafræði til að breyta upplifun sinni af umheiminum. Þess vegna þarf að fara í stríð við rafretturnar… því nikótín er vímuefni og markmiðið er níkótínlaust samfélag. Eiturlyfjalaust samfélag. Áfengislaust samfélag.

Ég er ósammála. Markmiðið er samfélag sem virðir sjálfsákvörðunarrétt fólks, en leyfir tækninni að þróast til að fólk sem leitast eftir ákveðnum áhrifum geti fengið þau á sem skaðminnstan máta.

Þjónustan er ekki í boði fyrir þig, kennitöluleysan þín

Ég reyndi að borga fyrir bílastæði með símanum mínum í Kaupmannahöfn. Skilti á bílastæðinu bauð mér upp á þrjá möguleika.  Þrjú ólík öpp. „Æi gott, hugsaði ég. Eitthvað af þeim hlýtur að virka.“

Fyrsta appið var hægt að setja upp með því að senda sms með tilteknu orði á eitthvað símanúmer. Gerði það og fékk villuskilaboð til baka. Jæja…

Næsta app tókst mér að ná í og setja upp í gegnum Google Play Store. Og jafnvel að að opna það. En í innskráningarferlinu þurfti að slá inn símanúmer. Nokkrir landakóðar voru í boði, Danmörk og Svíþjóð og örfá önnur en Ísland ekki. Þannig að… Jæja tvö.

Þriðja forritið var ekkert að flækja málin. „This app is not available in your country.“ Og „mitt land“ var ekki landið sem ég var staddur í heldur landið sem stýrikerfið veit að ég bý í. Þannig að … Jæja numero tres.

Kortasjálfsalarnir virkuðu enn þá óháð þjóðerni svo þetta reddaðist, en djöfull er þetta orðið algengt. Maður vill kaupa einhverja þjónustu og byrjar að pikka inn óþarfa persónuupplýsingar einungis til að heyra „nei„.

Nei, vegna þess að forritarinn gerði ekki ráð fyrir að símanúmer gæti verið svona stutt eða vegna þess sá sem er að selja hafði ekki áhuga á markhópnum manns.

Þannig að menn biðja um kennitölur, símanúmer, póstnúmer og aðra eins dellu sem er algerlega óþörf fyrir viðskiptin. Stundum finnst mér þetta farið að líkjast eins konar stafrænu alþýðulýðveldi.  „Þú ert vissulega búinn að spara fyrir Trabantinum, en kvótinn fyrir háskólamenntaða í Leipzig er búinn fyrir þennan áratug.“

Þar sem ég þekki nokkuð vel til Danmerkur veit ég að Danir eru ansi slæmir með þetta. Þeim hefur tekist að gera almenningssamgöngur mjög óvinveittar útlendingum, þeir bjuggu til eitthvað sérdanskt „ferðakort“, meðan ferðamenn þurfa að staðgreiða allt. Mér tókst reyndar að kaupa einhverja afsláttarmiða í lestirnar gegnum app í fyrra en miðarnir „úldnuðu“ á einu ári. „Sorrý peningarnir þínir virka ekki lengur!“

Ekki hægt að leggja bíl með appi af maður er útlendingur

En nóg um Danmörku. Við erum sjálf örugglega litlu verri.

Hér er eitt skrefið í skráningarferlinu fyrir appið leggja.is, sem gerir fólki kleift að borga fyrir bílastæði með símanum.

Reyni maður að slá inn erlent bílnúmer koma villuboð „engar upplýsingar finnast um bílinn“. Þannig að ekki halda að þú getir tekið bílinn með Norrænu og borgað fyrir bílastæði í miðbænum með appi.

En tökum miklu algengara notkunardæmi: Ferðamaður á bílaleigubíl. Sá ferðamaður er með bíl með íslensku bílnúmeri en erlent símanúmer. Þá… nei… Það er ekki einu sinni pláss fyrir símanúmer með fleiri en 7 tölustöfum, hvað þá pláss fyrir einhverja landakóða.

En segjum nú að þessi erlendi ferðamaður, sé sjálfstætt starfandi nýsjálenskur ljósmyndari sem er hér verkefni í 2 mánuði og verður sér úti um íslenskt símanúmer. Þá kemst hann í gegnum þetta skref í skráningarferlinu en ekki mikið lengra því á næstu síðu er hann, að sjálfsögðu, að sjálfsögðu, beðinn um kennitölu. Ásamt, nafni, heimilisfangi og póstnúmeri.

Sko, ég get alveg skilið af hverju einhver myndi vilja hafa kerfið sitt tengt við þjóðskrá og ökutækjaskrá. Og leggja.is er bara fyrirtæki (líkt og dönsku fyrirtækin sem bjuggu til öppin sem ég reyndi að setja upp) sem ef til vill telur umstangið sem felst í því að selja kennitöluleysingjum þjónustu sína ekki fyrirhafnarinnar virði.

En ég get sagt að þegar ég lendi í svipuðu erlendis þá bölva ég hiklaust þarlendu samfélagi í heild sinni. Þó það sé kannski ósanngjarnt.

En samt: Ímyndum okkur að hlutur verslana í Kringlunni væri merktur með rauðbláum tígli, sem merkti „aðeins fólk með kennitölu má versla hér“. Væri það ekki frekar ógeðslegt?

 

Valdið sem felst í sannleikanum

“Vofa leikur nú ljósum logum í Austur-Evrópu, vofa sem á Vesturlöndum er gjarnan kölluð “andóf”.”

Þannig hefst ritgerðin “Vald hinna valdalausu” eftir Vaclav Havel, fyrrum forseta Tékklands og Tékkóslóvakíu. Havel skrifaði þessi orð í fangelsi, þar sem hann sat fyrir að hafa verið einn höfunda skjals sem á íslensku mætti kalla Stefnuskrá 77 (e. Charter 77).

Liu Xiaobo, kínverskur andófsmaður og friðarverðlaunahafi Nóbels, sem lést nú í vikunni var einmitt einn höfunda sambærilegrar kínverskrar kröfugerðar sem kallaðist Stefnuskrá 08. Sambærileg stefnuskrá var skrifuð í Hvítarússlandi. Allar eru þær keimlíkar, allar krefjast þær þess að grundvallarmannréttindi, málfrelsi, prentfrelsi og félagafrelsi, séu virt. Allar krefjast þær fjölflokkalýðræðis og markaðsumbóta.

Við tölum gjarnan um andófsmenn. En hvað er þetta andóf? Hverju er verið að andmæla og hverju skilar það?

Í raun má spyrja sig hvort andóf sé endilega réttnefni. Dæmigert lagahyggjulegt “andóf”, eins og það sem Havel og Xiabo stunduðu, og eins og það sem svokallaðir andófsmenn í Hvítarússlandi, í Íran og á Kúbu stunda enn snýst í raun ekki um að andmæla stjórnvöldum heldur að taka þau á orðinu. Láta eins og þau meini það sem þau segi.

Í bók eftir íranska mannréttindalögfræðin, Shirin Ebadi er mögnuð frásögn af því þegar eiginmaður hennar hringir í hana og segist hafa verið gripinn fyrir framhjáhald og hýddur. Hennar fyrsta spurning hver? Jú, hún spurði manninn sinn hvort böðullinn hafi haft Kóraninnum undir handarkrikanum til að milda höggið eins og honum bar að gera vegna aldurs hans.

Það er þetta sem hin raunverulega „lagahyggja“ gengur út á. Hún gengur út á þá hugmynd að öll lög, hvort sem um er að ræða írönsk sjaría lög, eða kínversk lög veita borgurum einhvern rétt, og oftast mun meiri rétt en valdhafarnir í raun kæra sig um.

Í 35. grein kínversku stjórnarskrárinnar segir til að mynda: “Borgarar Alþýðulýðveldisins Kína njóta málfrelsis, prentfrelsis, samkomufrelsis, félagafrelsis ásamt frelsi til í kröfugöngu og frelsi til mótmæla.”

Það er augljóst að ef þessi grein væri virk og virt þá myndi óháður dómstóll aldrei geta fallist á það að menn eins og Liu Xiaobo væru fangelsaðir fyrir það eitt að skora á stjórnvöld að gera land sitt betra.

Þó svo að hann hafi ekki haft sigur í þeim slag, að sinni, þá er ákveðinn sigur fólginn í því að lifa í sannleik og opinbera hann. Ævistarf Liu Xiaobo minnir okkur á að þrátt fyrir að lífskjör í Kína hafi vissulega batnað á seinustu árum þá er þar enn á ferðinni ríki þar sem stjórnvöld fangelsa fólk fyrir það eitt að láta sem þau réttindi sem þau sjálf segjast tryggja séu raunveruleg.

Óviðráðanlegar byggingarframkvæmdir í miðbænum

Stutt hjólasaga úr miðbænum. Á Hverfisgötu er verið að byggja eitthvað á Kexreitnum. Verslunar- og íbúðarhúsnæði, eftir því sem ég best veit. Gott mál.

Byggingarsvæðið dettur hins vegar inn á hjólastiginn, sem er því miður ekki einsdæmi á Hverfisgötunni um þessar mundir og eftirfarandi skilti mætir vegfarendum.

Nokkur atriði.  🙂

Það ofbýður máltilfinningu allra sem slíða hafa að tala um hefðbudnnar byggingarframkvæmdir sem „óviðráðanlegar orsakir“. Snjóflóð eru óviðráðanleg, svipleg andlát eru óviðráðanleg. Ofsaveður er óviðráðanlegt. Þetta er, for crying, ekki óviðráðanlegt!

Það kann að vera óhjákvæmanlegur fylgifiskur þess að við byggjum alveg upp við götuna, að gangstéttirnar lendi á byggingarsvæði. Ekkert mál. En er það það þá bara algerlega augljóst að afleiðingin eigi að vera lokun hjólastígsins og ganstéttarinnar?

Og horfum aðeins á þá leið sem yfirvöldin hafa boðið gangandi og hjólandi:

Þetta er eiginlega dálítiðfyndið. Í ljósi þess að:

  1. Gangstéttin hinum megin er opin.
  2. Hjól mega hjóla á götunni.

Gangandi og hjólandi þurfa því ekki þessar leiðbeiningar. Hjólafólkið fer á götuna. Gangandi fara yfir götuna (eða labba á götunni).

Ístað þess að beita óskiljanlegri „hjáleiðahugmyndafræði“ gangvart gangandi fólki hefðu yfirvöldin því mátt gera eftirfarandi:

  1. Setja upp bráðabirgða-ramp fyrir hjól svo hjólin kæmust upp og niður á stiginn beggja vegna framkvæmdanna.
  2. Teikna einhverjar línur á götuna svo bílstjórar myndu sérstaklega átta sig á því að þar gætu verið hjól.
  3. Teikna tímabundna gangstétt fyrir gangandi.
  4. Setja viðvörunarskilti fyrir akandi: „Framkvæmdir. Gangandi vegfarendur þvera götuna.“

Kannski ekki stórmál, en bara dæmi um hvernig á að hugsa um gangandi vegfarendur í tengslum við vegaframkvæmdir. Ef þeir valkostir sem gangandi og hjólandi er boðið upp á verða fáranlegir þá munu þeir ekki nýta sér þá.

Stórkostlegt evrópsk innanlandsflug

Þótt flestir Íslendingar búi á suðvesturhorninu eiga margir rætur að rekja til annarra landssvæða og eru góðar flugsamgöngur þeim því mikilvæg lífsgæði. Góðar flugsamgöngur gera þeim kleift að heimsækja ættingja á æskuslóðum, bregða sér hratt “heim” ef fjölskylduskyldur kalla, sinna erindum og eignum sem þau enn hafa í umsjá sinni eða einfaldlega fara í frí með börn sín og leyfa þeim að kynnast þessum parti af sjálfum sér.

Það hafa stórkostlegir hlutir verið að gerast í evrópsku innanlandsflugi að undanförnu. Nú fljúga til dæmis tvö flugfélög til Póllands allt árið um kring. Hægt er að fljúga til fjögurra borga þegar þetta er skrifað: Varsjá, Katowice, Gdansk og Wroclaw. Ódýrustu miðarnir með Wizz Air flugfélaginu fást á um það bil 10 þúsund kr. fram og til baka.

Áfangastaðir Wizzair í Evrópu. Fjölmargir íbúar Íslands eiga rætur að rekja til áfangastaða flugfélagsins.

Það er ódýrara að ferðast til Póllands heldur en þegar ég flutti hingað árið 1988

Ódýrara í krónum talið!

Hér má sjá umfjöllun um verð flugleiða frá 1998. Þá kostaði miði fram og til baka til London 20 þúsund krónur. Framreiknað verð með tillit til verðbólgu er nánast 100 þúsund kr. til London.  Nú kæmist ég til London á 7 þúsund. Verð á “evrópsku innalandsflugi” hefur sem sagt hrunið um 93% á 30 árum. Miðar til Póllands á um 10 þúsund fram og til baka eru ekki óalgengir.

Í þá daga var hvert land með sitt aðalflugfélag, og hvert land með sinn aðalflugvöll. Ætlaði maður sér að fljúga annað en á aðalflugvöllinn gat maður náðarsamlega fengið að fljúga með aðalflugfélaginu á svona 40 þúsundkall á mann fram og til baka og fengið te eða kaffi, og samloku. Eftir að ESB frelsaði flugmarkaðinn er fjölbreytninn alls ráðandi. Menn geta flogið frá Lublin til Liverpool, af því að… einhver vill fljúga frá Lublin til Liverpool, óháð því hvort flugmálayfirvöldun Póllands og Bretlands hafi dreymt þessa flugleið eða ekki.

Þannig er þetta nefnilega oft. Stjórnmálamenn og stjórnarmenn í einokunarfyrirtækjum dreymir um “miðstöðvar”, að mistöð svona samgangna verði hér, miðstöð hinsegin samgangna verði þar. Innanlandsflugið hingað, millilandaflugið þangað.

Frjáls markaður býr til miklu dreifðara og betra net.

Fjárfestingar í flugvöllum eru af þeirri stærðargráðu að eflaust verður ekki hjá því komist að hið opinbera komi að þeim með einhverjum hætti þótt ekki sé nema á skipulagsstiginu. En ákvarðanir um þessi mál eiga að miða að því að efla það sem við vitum að virkar og skilar neytendum árangri: frelsi og samkeppni.

Þess vegna líst mér vel á nýjan flugvöll á Hvassahrauni og myndi taka vel í það ef einhver myndi vilja taka þátt í að byggja slíka flugvöll upp. Þar væri möguleiki á að tengja íslenskt innanlandsflug við millilandaflug. Þar myndi skapast tækifæri til að búa til samkeppni við Kelfavíkurflugvöll um lendingar og afgreiðslu véla. Loks hefði slíkur flugvöllur líka talsverða vaxtarmöguleika.

Þetta eru allt miklir kostir. Uppbygging á Reykjavíkurflugvelli, á takmörkuðu landi, þar sem aldrei verður hægt að koma fyrir millilandaflugi, þar sem ekki verður hægt að tengja millilandaflug við innanlandsflug og uppbygging sem þar fyrir utan er töluvert umdeild pólitískt, hefur einfaldlega ekki þessa sömu kosti.

Skítlétt að samræma sósíalisma og alræði

Gunnar Smári Egilsson, leiðtogi Sósíalistaflokksins birtir nú reglulegar „hugvekjur“ um sósíalisma á síðu flokksins. Í einni slíkri svarar hann því af hverju sósíalistaflokkurinn heiti ekki „sósíaldemokrataflokkurinn.“

Svarið er á þá leið að það væri tvítekning enda „meikar sósíalismi án lýðræðis engan sens“. Það sé „óhugsandi“ að hugsa sér sósíalisma án lýðræðis.

Hugvekja: Hvers vegna ekki sósíaldemókratía?

Sósíalísk hugvekja dagsins, 4. júní 2017: Hvers vegna var Sósíalistaflokkurinn ekki nefndur sósíaldemókrataflokkur?

Posted by Sósíalistaflokkur Íslands on Sunday, June 4, 2017

En þrátt fyrir að Gunnari Smára finnist andlýðræðislegur sósíalismi óhugsandi blanda þá fengu ekki allir þjóðarleiðtogar tuttugustu aldarinnar það minnisblað.

Almennt má segja að það sé freka regla:

Formlegt nafn ríkis inniheldur sósíalisma => Ríkið er alræðisríki.

Áður en múrinn féll, fyrir 29 árum, bjó um þriðjungur mannkyns í marxlenínískum ríkjum, þ.e.a.s. í sósíalískum alræðisríkjum. Maður getur auðvitað búið til eitthvað hringrakakerfi þar sem sósíalismi í alræðisríkjum hættir að vera sósíalismi, ef manni líður betur með það, en það er hvorki gagnlegt fyrir umræðuna, né sérstaklega heiðarlegt.

Þeir sem stjórnuðu þessum ríkjum gerðu og sögðu nefnilega almennt hluti sem búast má við af sósíalistum. Menntun og heilbrigðisþjónusta voru almennt aðgengileg og ókeypis. Fólki var séð fyrir atvinnu, fólki var séð fyrir húsnæði. Ríkið (ahem… fyrirgefið… fólkið) átti öll stærstu framleiðslutækin.

Það er ekki einu sinni hægt að halda því fram, að allt það neikvæða sem þessu stjórnarfari fylgdi hafi verið eitthvað slys, leiðinleg afleiðing mannlegs breyskleika. Nei, alræðið var engin tilviljun. Enda á einhvern hátt rökrétt. Hati maður auðvaldið þá er mjög rökrétt að vilja banna auðvaldinu að gefa út blöð. Þannig hverfur prentfrelsið. Félagafrelsið, atvinnufrelsið, eignarrétturinn fara sömu leið.

Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt að aðhyllast sósíalisma án þess að vera lýðræðissinni. Það er alveg hægt. En hitt er augljóslega hægt líka, það var stundað í mörgum löndum og er enn málið í Kína og á Kúbu.

Ósköp er sjá Mjóddina

Ég skokkaði upp í Mjódd um daginn. Ég bjó í Seljahverfinu í áratug og á því ófáar biðmínútur að baki í þessu húsi. Ég verð að segja að mér hálfbrá við að koma þangað. Búið er að loka klósettunum, sjoppan hefur vikið fyrir frekar lítt vinalegri miðasölu. Starfsmannaaðstaða er undirleggur hálft rýmið. Já, og húsinu eru lokað eftir kl. 18.

Ég er ekki að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur en þetta skiptir máli. Mjóddin er hlið Strætós út á land. Þaðan fara leiðir 51 og 52 á Suðurlandið og leið 57 sem keyrir norður. Allir ferðamenn sem vilja fara með strætó eitthvað annað en á Suðurnesin þurfa að fara um Mjóddina. Þetta ætti því að vera Aðaljárnbrautarstöð Íslands. En það sem blasir við þeim er alveg glatað.

Erlendis dúndra menn upp verslunarmiðstöðvum við hliðina á svona samgöngumiðstöðvum. Hér er verslunarmiðstöðin þegar komin. Tækifærið er því í raun alveg frábært til að tengja biðstöðina við mollið, henda upp kaffihúsi, veitingastað, lítilli bókabúð, upplýsingamiðstöð, innrétta allt huggulega, láta fólkið líða eins og á flugvelli en ekki eins og í vinnuskúr.

Tökum annað dæmi um svona biðstöð. Fyrirtækið Gray Line hefur byggt upp eigin umferðarmiðstöð í Holtagörðum.

Svona lítur hún út:

Fallegar flísar, farangursgeymslur, upplýsingabæklingar, röð af fólki sem bíður eftir að hjálpa og selja manni eitthvað. Væntanlega er opið þegar rúturnar fara, þótt það sé snemma.

Strætó hefur kvartað undan því að fá ekki aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Ég hef heyrt stjórnmálamenn biðja um að Strætó fái einkaleyfi til að keyra þangað. Ég hef heyrt samtök sveitarfélaga og stuðningsmenn einkaleyfa kvarta undan því að einkaaðilar „keyri ofan í“ einkaleyfi strætó og hirði af þeim farþega. En er það furða að markaður sé fyrir aðra aðila ef strætó og eigendur þess skeyta jafnlitlu um upplifun farþega af ferðalaginu?

Ásýnd skiptir máli. Höfuðstöðvar Strætó mega vera á tunglinu mín vegna en fyrirtækið verður að hafa einhverja sýnilega viðveru gagnvart farþegum sínum þar sem þá er að finna. Og fyrst ég er að ranta á annað borð: Hvaða grín er þetta:

„Hægt er að vitja óskilamuna milli klukkan 12:30-15:00 á Hesthálsi 14, 110 Reykjavík.“

Er hægt að vitja óskilamuna á vinnutíma í iðnaðarhverfi þar sem nokkurra mínútna gangur er til næstu stoppistöðvar, þar sem einungis leiðir 15 og 18 stoppa?

Að lokum. Ég er mikill áhugamaður um Borgarlínu og allar stórar hugmyndir en ég er samt skíthræddur við þennan „frábært seinna“ þankagang. Í upphafi seinustu aldar átti að taka upp nýtt leiðarkerfi þar sem stofnleiðir myndu keyra á 10 mínútna fresti, svo átti að taka upp rafrænt greiðslukerfi. Hvorugt gekk eftir en hvort tveggja tafði alla aðra framþróun. „Þarf ekki að fjölga sölustöðum – rafræna greiðslukerfið leysir þetta,“ var sagt.

Mér finnst þetta svipað. Í framtíðinni kemur borgarlína þar sem allir munu þeysast um á hálfgildingslestum og bíða á nútímalegum hálfgildingslestarstöðvum.

En þangað til getur fólk setið úti í kulda og myrkri á ómáluðum steypubekk. Og haldið í sér.

Að gera eitthvað í málinu er ofmetið

„Af hverju gerirðu ekki eitthvað í málinu?“ spyr aktivistinn.

Ég hjóla heim. Það er bíll á hjólastígnum. Bílstjórinn er inni að ná sér í take-away.

„Af hverju gerirðu ekki eitthvað í málinu? Af hverju hringirðu ekki á lögguna? Í borgina? Böggar bílstjórann? Tekur myndband af öllu og setur á youtube? Af hverju hjólarðu bara á götuna og fram hjá vandamálinu?“

Væri ekki betra ef allir myndu „gera eitthvað í málinu?“ Myndu þá ekki málin hætta að gerast?

Ég geri oftast ekkert í málinu vegna þess að „það að gera eitthvað í málinu“ felur furðulega oft í sér átök. Og ég er ekki endilega mjög átakasækinn.

Ef ég myndi til dæmis alltaf vera í átökum í þegar ég væri að hjóla þá myndi ég smám saman ómeðvitað hætta að hjóla. Og ef ég myndi alltaf birta myndbönd af mér og mínum hjólaátökum þá myndi það sannfæra fólk um að það að hjóla væru átök. Sem hjólreiðar eru ekki. Heldur bara leið til að koma sér á milli staða.

Sumt fólk er átakasækið og finnst bein, lifandi jafnvel líkamleg mótspyrna það sem telur. Það er allt í lagi. En ég hef skilaboð til allra hinna, þeirra sem mæta ekki á mótmæli, flauta ekki fyrir utan stofnanir, beita sér ekki á jörðu niðri, konfrontera ekki þá sem pirra þá og taka ekki myndbönd af því sem þeim mislíkar. Þið getið gert mikið gagn, þótt þið gerið ekki neitt í málinu.