Ísland tækifæranna: Vernd gegn mismunun

Á Íslandi er engin löggjöf um bann við mismunum á grundvelli, þjóðernis, kynþáttar, trúar eða þjóðernisuppruna. Ísland sker sig úr meðal Evrópuríkja hvað þetta varða, og ekki á jákvæðan hátt.

Vissulega höfum við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og erum aðilar að alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem sumir hafa verið lögfestir, en við höfum enga löggjöf, svipaðra jafnréttislögum þegar kemur að þeirri mismunun sem innflytjendur eru líklegastir til að lenda í.

Á seinasta þingi lagði Þorsteinn Víglundsson fram tvö frumvörp sem hefðu lagað stöðuna. Það voru:

Frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna

Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði

Líkt og gildir um allar tillögur sem snúast um mannréttindi má finna fólk sem telur að tillögurnar gætu gengið mun lengra og svo eru þeir eflaust til sem gráta þurrum tárum yfir þeirri staðreynd að  þær hafi dagað uppi.

Mín skoðun væri að það væri gott að fá þessar tilögur inn, sem alla vega fyrsta skref. Vonandi tekst það á næsta þingi.

 

Nei, það verður ekki frítt að fljúga

Ég fíla lággjaldaflugfélög. Það er þeim að þakka að flugmiðar eru svipað dýrir í krónum talið og þeir voru fyrir 30 árum. Þá ferðaðist maður einu sinni á ári, fékk máltíð, tók með sér tvær töskur, fékk frítt Morgunblað og leið eins og smákóngi í nokkra tíma. Enda borgaði maður líka fyrir það.

Svo komu lággjaldaflugfélögin og maður fór að ferðast eins og í rútu með vængi en borgaði líka eins og fyrir rútu með vængi. Og allt þetta er bara fínt. Mér finnst heiðarlegt að þeir sem þurfi tvær töskur borgi meira ein þeir sem þurfi enga og að þeir sem drekki engan bjór borgi ekki bjórinn fyrir þá stúta fjórum á fluglegg.

Einu sinni kom SouthWest og gerði allt vitlaust í Bandaríkjunum. Svo kom Ryanair og hermdi eftir SouthWest í Evrópu. Svo herma öll þessi félög hvert eftir öðru.

Lykillinn að því að reka lággjaldaflugfélag er að bjóða ódýr flug (augljóslega) ásamt því að troða sér í fjölmiðla með yfirlýsingum sem leggja áherslu á að hve ódýr maður er.

Michael O’Leary hjá Ryanair er snillingur í þessu.

„Ryanair ætlar að rukka fyrir klósettin.“
„Ryanair ætlar að láta fólk standa.“

Það skipti engu máli hvort Ryanair hugðist eða gat gert þetta. Þetta festi ímyndina um flugfélagið sem fór ótroðnar slóðir til að lækka verð. Þetta var fín ókeypis auglýsing.

Eitt af því sem maður heyrir reglulega frá lággjaldaflugfélögum er fullyrðingin: „Í framtíðinni verður ókeypis að fljúga.“ Einhver annar muni borga flugið. Hóteleigandinn á Alicante mun borga flugið. Ferðamaðurinn sem kaupir sér vatn og sígarettur mun borga fyrir flugið.

Með fullri virðingu, þá hef ég enga trú á að það verði ókeypis að fljúga. Ef markaðurinn er heilbrigður þá verður vonandi mjög ódýrt að fljúga og það er ekki útilokað að menn gefi sum sæti í kynningarskyni.

En ef markaðurinn verður heilbrigður og einvher reynir að reka flugfélag með því að rukka nógu mikið fyrir valkvæða viðbótarþjónustu þá fer valkvæða viðbótarþjónustan að verða ansi dýr. Og þá hættir fólk að velja hana, sleppir handfarangri, smyr nesti. Og flugfélagið fer að tapa. Til lengdar getur engin rekið fyrirtæki með því að gefa hluti.

Þannig að gleðjumst yfir uppgangi lággjaldaflugfélaga. Gleðjumst yfir samkeppninni. En það verður ekki ókeypis að fljúga. Þeir sem halda hinu fram eru bara að leita að ókeypis auglýsingu.

Ísland tækifæranna: Pólitísk þátttaka

CC-BY-SA 3.0: Serenity

Við eigum ekki að hræðast pólitíska þátttöku innflytjenda. Ég myndir frekar hræðast hitt að fólk tæki EKKi þátt.

Kosningaréttur

Það er orðið nokkuð algengt að útlendingar megi kjósa í svæðiskosningum víða um heim. Slíkt þekkist á Norðurlöndum, í Evrópusambandinu og víðar.

Sjaldgæfara er hins vegar að erlendir ríkisborgarar geti kosið í kosningum á landsvísu. Slíkt einskorðast aðallega við ríki breska samveldisins sem veit borgurum hvort annars slíkan rétt í einhverjum tilfellum.

Á Íslandi geta útlendingar kosið til sveitarstjórna eftir 5 ár, nema Norðurlandabúar eftir 3 ár. Þetta er lengri biðtími en annars  staðar á Norðurlöndum, þar sem Norðurlandabúar (og ESB borgarar í ESB ríkjunum þremur) fá kosningarétt samstundis en aðrir þurfa að bíða í 3 ár.

Þingmenn Viðreisnar flutt frumvarp þess efnis á seinasta þingi að staðan yrði svipuð og á hinum Norðurlöndunum. Við vildum gefa EES borgurum réttinn strax en hinum, að þremur árum liðnum. Frumvarpið náði ekki fram að ganga á seinasta þingi.

Þáttaka í stjórnmálaflokkum

Lög banna ekki útlendingum að skrá sig í stjórnmálaflokka, sem er gott. Hins vegar er flokkum bannað að taka við peningum frá útlendingum, líka þeim sem búa á Íslandi. Það er órökrétt takmörkun. Ef innflytjandi, búsettur á Íslandi, getur skráð sig í flokk ætti hann að geta greitt til hans félagsgjöld og stutt hann fjárhagslega.

Samráð

Stór hluti lagasetningarvinnu gengur út á það að kynna sér umsagnir. Sum hagsmunasamtök eru mjög dugleg að senda inn umsagnir. Dæmi slík samtök eru ASÍ eða Samband íslenskra sveitarfélaga, eða fleira. Þetta eru oft stofnanir með fasta starfsmenn, mikla þekkingu og mikinn slagkraft.

Ég held að það vanti stundum, meiri stofnanabrag, jafnvel fagmennsku, í hagsmunagæslu fyrir innflytjendur.  Tökum til dæmis lista yfir aðila sem sendu inn umsagnir við seinustu heildarendurskoðun útlendingalaga:

http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/?ltg=145&mnr=728

Á listanum eru ASÍ, Rauði krossinn, No Borders, Viðskiptaráð,  Útlendingastofnun og svo framvegis. Stofnanir sem tengjast málaflokknum, heildarhagsmunasamtök,  engin engin samtök sem tengjast innflytjendum beint. Það er í dag óhugsandi að sambærilegt myndi gerast varðandi lög sem sneru til dæmis að eða einhverri starfsstétt.

Þetta er auðvitað ekki eitthvað sem stjórnvöld geta einfaldlega lagað sjálf. Ég held ekki, stundum verður frumkvæðið að koma frá þeim sem um ræðir. En ég held til dæmis að innflytjendaráð sem skipað er af ráðherra án atbeina þeirra sem um ræðir mun aldrei verða mjög öflugt.

Kannski er of bratt að bjóða öllum íbúum Íslands kosningarétt í þingkosningum óháð í ríkisfangi, þótt ég held að það gæti alveg gengið. En ég hef stundum hugsað hvort ekki mætti, samhliða þingkosningum að halda kosningar til ráðgefandi ráðs, og þar hefðu allir erlendir ríkisborgarar kosningarétt. Ég hef ekki hugsað þessa hugmynd til enda en fleygi henni samt fram hér.

Ísland tækifæranna: Fjölskyldan

Þegar kemur að rétti fólks til að taka með sér börn, maka eða aðra fjölskyldumeðlimi þá stendur Ísland svipað af vígi og hin norræn ríkin. Lagalega virðist staðan hafa batnað örlítið með útlendingalögunum sem samþykkt voru á seinasta kjörtímabili, þótt enn sé mikið um að lög heimili hitt og þetta „þegar sérstaklega stendu á“, frekar en að bara gera það.

Íslensk lögin gera til dæmis ekki kröfu um lágmarksbúsetutíma áður en fólk getur fengið börn sín til landsins. Sem er gott. Lögin útiloka hins vegar margs konar fólk frá því að geta fengið börn sín til sín.

Til dæmis geta námsmenn í grunnnámi, tímabundnir starfsmenn, fólk sem sem kemur til landsins á grundvelli menningarskiptasamninga, ekki tekið börn sín með sér. Frá sjónarhóli rétts barna er þetta hæpið. Börn eiga að geta fylgt foreldrum sínum, sama þótt foreldrarnir séu í námi eða vinna tímabundið. Þá er augljóst að þessi regla stuðlar að misrétti kynjanna.  Karlar eru líklegri til að flytja tímabundið til útlanda og skilja börnin eftir heldur en hitt.

Þá vantar betri réttarvernd fyrir þau börn innflytjenda, sem eru eldri en 18 ára. Ég játa að ég varð ekki fullkomlega sjálfbjarga að öllu leyti við 18 ára aldur og þótt þetta kunni að þykja jaðartilfelli þá eru samt dæmi um að fólk búi hjá foreldrum sínum fram á þrítugsaldur, eða sé háð þeim af öðrum ástæðum, og í þeim tilfellum ætti að bjóða upp á víðtækari heimildir en nú er gert.

Þá hefur verið opnað á ýmsa möguleika fyrir fjölskyldumeðlimi til að vera áfram ef aðstæður breytast. Fólk sem missir maka sinn, verður fyrir ofbeldi af hans hálfu, eða á hættu á að verða fyrir fordómum heima fyrir vegna skilnaðar getur til dæmis fengið að dvelja á landinu eftir að hjúskap líkur „ef sérstaklega stendur á“.

Hins vegar mætti kveða skýrar á um rétt fólks sem skilur við maka sinn af „venjulegum“ ástæðum, þ.e.a.s. án þess að ofbeldi komi við sögu. Séu öll önnur skilyrði fyrir hendi er engin ástæða til að reka fólk úr landi við slíkar aðstæður.

Samantekt yfir tillögur

 1. Börn geti fylgt foreldrum sem eru í námi eða vinna tímabundið.
 2. Dvalarleyfi fyrir börn eldri en 18 ára sem eru á framfæri foreldra sinna.
 3. Fólk sem skilur þurfi ekki að fara úr landi.

Ísland tækifæranna: Vinnumarkaður

Aðgengi innflytjenda að íslenska vinnumarkaðnum mætti vera miklu betra. Ísland stendur enn lakast að vígi allra Norðurlanda í þeim samanburði.

Þessari umfjöllun verður skipt í þrennt:

 1. Einkageirinn
 2. Opinberi geirinn
 3. Sjálfstætt starfandi

Hér verður fjallað um hvern þessara hluta og lagðar breytingar.

Einkageirinn

Byrjum á einkageiranum og byrjum á því sem er jákvætt. Á Íslandi er tiltölulega lítið um lög sem með sértækum hætti takmarka aðgengi útlendinga að tilteknum störfum í einkageiranum. Það eru engar sérstakar reglur, mér vitandi, um að lögmenn, blaðamenn eða atvinnubílstjórar þurfi að vera með íslenskan ríkisborgararétt. Sem er gott.

En hið almenna aðgengi útlendinga utan EES að vinnumarkaðnum í heild sinni er því miður ekki nægilega gott. Dvalar- og atvinnuleyfi eru veitt tímabundið til 1-2 ára í senn. Þá eru leyfin bundin við tiltekið starf hjá tilteknum vinnuveitanda.

Hér mætti hugsa sér ýmsar breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem verið gætu til bóta.

Í fyrsta lagi mætti hugsa sér kerfi þar sem hægt væri að veita opið atvinnuleyfi innan ákveðinnar starfsstéttar. Dæmi: Í túristalöndum vantar til dæmis alltaf kokka. Kokkur sem kemur til Íslands um þessar mundir mun finna vinnu, við þurfum því ekki að binda atvinnuleyfi hans við tiltekinn veitingastað.

Nokkur lönd eru með slíka „jákvæða lista“, lista af starfaflokkum þar  sem gera má ráð fyrir að atvinnuleyfið verði nokkuð örugglega veitt.

Hér má finna dæmi um slíka lista:

Danmörk, Kanada

Þá mætti hugsa sér að í ákveðnum atvinnugreinum, þar sem sérhæft starfsfólk er sérstaklega eftirsótt (til dæmis í tækni- og vísindagreinum, en ekki bara) myndu dvalarleyfin gefa víðtæk mjög réttindi. Þar er oft um að ræða fólk sem tekur ákvörðun um að flytjast búferlum með alla fjölskylduna og vill síður gera það ef það heldur að það þurfi að flytja til baka vegna lagalegrar óvissu.

Frakkar bjuggu nýlega til slíkt dvalarleyfi, sem veitir fólki með meistaragráðu í tækni- og raungreinum 4 ára óbundin atvinnuréttindi ásamt því að gefa mökum þeirra sömu réttindi.

Opinberi markaðurinn

Ekki eru settar sérstakar kröfur á ríkisborgararétt hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Ríkið gerir hins vegar slíkar kröfur. Krafan um íslenskan/EES ríkisborgararétt er enn til staðar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þó að það sé reyndar tiltekið að það megi ráða aðra „þegar sérstaklega stendur á“.

Best væri einfaldlega að fella þessa kröfu burt (en hún myndi áfram gilda um embættismenn, s.s. dómara eða lögreglumenn). Það var raunar það sem þingmenn Viðreisnar lögðu til á seinasta þingi, að yrði gert.

Sjálfstætt starfandi

Byrjum á hinu jákvæða, hér á landi eru ekki settar neinar almennar eða sérstakar hömlur á atvinnurekstur eða verktöku útlendinga, hafi þeir að ótímabundið dvalarleyfi, eða séu EES-borgarar. Hins vegar eru lög um útlendinga sorglega skýr þegar kemur að réttindum fólks fyrstu árin:

Útlendingi er óheimilt að starfa hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur nema viðkomandi sé undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Þessar reglur stafa eflaust af ótta við „gerviverktöku“, eru tiltölulega nýlegar, og allt of íþyngjandi.

Almennt er ekki gert ráð fyrir að útlendingar utan EES starfi sjálfstætt, séu atvinnurekendur eða fjárfestar, aðeins launamenn. Einhver bakdyraleiðir kunna að vera til staðar fyrir fólk frá löndum sem við höfum gert viðskipta- eða fríverslunarsamninga við. En fólk frá öllum öðrum löndum má ekki vera atvinnurekendur fyrstu árin. Sem er alger sóun á hæfileikum margra.

Best væri bara að leyfa útlendingum að vinna sem verktakar, og búa til sérstök dvalarleyfi fyrir fólk í atvinnurekstri, eins og Finnar hafa til dæmis gert.

Samantekt

Hér eru semsagt tillögurnar:

 1. „Jákvæður listi“ yfir starfstéttir þar sem vantar fólk.
 2. Sérfræðileyfi gefi víðtakari rétt.
 3. Burt með kröfuna um að ríkisstarfsmenn þurfi að vera með EES-ríkisborgararétt
 4. Heimila verktöku útlendinga.
 5. Búa til atvinnuleyfi fyrir atvinnurekendur/sjálfstætt starfandi.

Í næsta pistli verður fjallað um börn og fjölskyldusameiningar.

Frístundaheimili eru ómönnuð vegna húsnæðisskorts

Höf: Salvor

Innflytjendur fá reglulega fyrirspurnir frá fólki sem vill gerast innflytjendur. Á samfélagsmiðlum má sjá fyrirspurnir á borð við þessa:

Hæ erum ungt par, langar að flytja til Íslands, hvernig er að fá vinnu?“

Algengt svar nú um stundir er: „Ef þið kunnið eitthvað í ensku fáið þið vinnu á korteri. En þið getið gleymt því að fá húsnæði.

Ég heyrði brandara sem gengur í þessum hóp.

„Af hverju var verið að fleyta kertum á Reykjavíkurtjörn?“

Svar: „Seinasta lausa leiguíbúðin gekk út.“

Það er ágætt að átta sig á þessu. Það er ólíklegt að nokkur hundruð lausar hendur finnist skyndilega meðal vinnuaflsins til að vinna á frístundaheimilum (eða í leikskólum). Það er nefnilega næga vinnu að fá og lágt launuð hlutastörf eru ekki efst á óskalistanum. Líklegast mum ástandið eitthvað lagast þegar fólk sumarstörfum leitar annað, en vandamálið hverfur ekki í bráð.

Ég segist ekki hafa lausnina, það tekur tíma að byggja hús. En það er löng hefð fyrir því að innflytjendur vinni í frístundaheimilum eða í leikskólum og læri tungumálið í gegnum gegnum samskipti við börn og samstarfsfólk. Og það er til fólk í öðrum löndum sem gæti tekið að sér mörg þessara starfa, en það bara finnur, sem stendur, ekki húsnæði til að búa í.

Það vantar íslensku á Duolingo

Heimild: Notandi: bergenhopps

Ein vinsælasta síða til að læra tungumál á netinu heitir Duolingo. Þar er boðið upp á fullt af tungumálum til að læra, þar á meðal jíddísku, esperanto, eitthvað Game of Thrones tungumál, auk þess sem klingónska er rétt ókláruð. En íslenskunámskeið er ekki á leiðinni.

Það er oft talað um stöðu íslenskunnar í á internetinu og margir stjórnmálamenn vilja leggja miklar fjárhæðir í rannsóknir og þróun á ýmiskonar tækni.

Ég játa það að ég er ekki alltaf viss um sú nálgun sé best ef við hugsum hvernig við nýtum peningana best. Tækniframþróun er alltaf háð óvissu. Margt annað má gera. Íslenska wikipedia er til dæmis lítil (sjá: https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Wikipedias). Að fjölga greinum er ekki háð neinni óvissu, það einfaldlega kallar á tíma/peninga, og ég get til dæmis ímyndað mér mun verri nýtingu á tíma háskólanema á sumrin en að stækka hana. Það myndi auka sýnileika íslenskunnar gagnvart ungu fólki sem er að leita að upplýsingum, efla fagorðaforða ofl.

Ég veit lítið um íslenskukennslu en mér fyndist það frábært ef einhver reyndur og virtur fræðimaður myndi sækja um að ritstýra íslensku Duolingo – námskeiði og fá 3-5 nema á Rannís-styrk með sér í lið. Þetta kallar ekki einu sinni á ný fjárútlát, því sjóðirnir eru þegar til staðar og styrkja verkefni sem hafa síður meira notagildi.

Þegar slíkt námskeið væri komið myndi fólk fljótt bjóða sig fram til að þýða það yfir á pólsku, litháísku og önnur mál sem innflytjendur á Íslandi tala. Ég held að það myndi gera mjög jákvæða hluti fyrir tungumálið okkar.

Miklabrautin þurfti ekki vegg

Horft inn á Klambratún frá Miklubraut.

Stærsta umferðarvandamál Miklubrautar frá Snorrabraut til Kringlumýrarbrautar er ekki „flæðið“ á akandi umferð. Stærsta umferðarvandamálið felst í því að gatan sker í sundur Hlíðarnar, með neikvæðum afleiðingum fyrir hverfið.

Barn sem býr á Barmahlíð þarf að fara yfir hraðbraut til að komast á Klambratúnið. Barn sem býr við Flókagötu þarf að  fara yfir Hraðbraut til að komast á Hlíðarenda.

Foreldrar vilja síður að börn fari yfir hraðbrautir svo börn gera það síður, eru keyrð eða fara bara ekki.

***

Framkvæmdirnar á Miklubraut pirra kannski einhverja ökumenn. En neikvæðu áhrifin á gangandi vegfarendur eru margfalt meiri. Tveimur gangbrautarljósum hefur verið lokað tímabundið og þau þriðju sett á einhvern pirrandi sífasa sem pirrar alla.

Með framkvæmdunum fáum við nýjan hjólastíg sem er vissulega ágætt. Við fáum líka fleiri akreinar, og þótt þær séu strætóreinar, þá er þetta allt bara til þess að auka umferðarmagnið í götunni.

***

Ég játa að ég veit ekki alveg til hvers þessi veggur, sem á að heita hljóðvörn, er. Ekki býr neinn á Klambratúni sem mun njóta góðs af honum. En hann lokar götuna hins vegar af.

Sá sem keyrir á þriggja akreina vegi með vegriði í miðjunni og vegg á hægri hlið finnst hann vera á hraðbraut. Ef hann sér enga gangandi vegfarendur, engin hús, engin börn, engin hjól, hvað gerir hann þá?

Hann gefur bara í.

 

Póstkassinn heima tilgangslaus

Þegar kemur að póstsendingum flokka ég hluti í tvö mengi:

 1. Hlutir sem ég myndi vilja fá senda heim
 2. Hlutir sem komast fyrir í póstkassann minn

Sniðmengi þessara tveggja mengja er tómt.

Nánast allt sem fæ sent heim gæti ég verið án, eða gæti fengið sent með rafrænum hætti. Þetta eru fríblöð, auglýsingar, staka yfirlit og tilkynningar. Allt þetta gæti tölvupóstur bjargað fræðilega séð. En allt þetta kemst fyrir póstkassann svo það kemur heim til mín.

En svo eru vissulega hluti sem ég myndi vilja fá senda heim. Til dæmis:

 • Matur
 • Raftæki
 • Húsgögn
 • Klósettpappír

Þessir hlutir eru hins  vegar of stórir til að komast fyrir í póstkassann svo pósturinn sendir þá ekki heim.

Vissulega er hægt að PANTA það að fá hluti senda heim en þá þarf maður að vera heima í fimm tíma allt kvöld og bíða rólegur… af því að það er ekki bara hægt að setja hluti í póstkassann, sjáiði til.

Með aukinni samkeppni á póstmarkaði kemur vonandi einhver og finnur frumlegri lausn á þessu vandamáli, því eins og stendur þá er verið að reka dýrt dreifikerfi fyrir hluti sem þarf ekki að dreifa og vonlaust dreifikerfi fyrir það sem hugsanlega væri gagn af að dreifa.

KKÍ hætti að mismuna

CC-BY 2.0. Höf: Klearchos Kapoutsis

Körfuknattleikssamband Íslands er með hámark á fjölda erlendra leikmanna á vellinum. Hámarkið er einn.

Þetta er augljóst brot á EES samningnum. Króati sem vill fá vinnu hjá íslensku körfuboltaliði verður að keppa um eina lausa sætið við Bandaríkjamenn og alla aðra. Íslendingur hefur miklu meiri séns á að komast í liðið. Það er augljóst brot á EES-samningnum.

Reyndar er gerð sú undantekning að þeir útlendingar sem hafa haft lögheimili á Íslandi í 3 ár falla teljast ekki undir þetta lengur. Einhverjum kann að hljóma eins og það geri þetta skárra en það gerir það það ekki.  Í fyrsta lagi er enginn að fara að koma til Íslandi til að spila ef hann þarf fyrst að bíða í 3 ár eftir að fá að gera það. Í öðru lagi er þessi búsetukrafa ekki gerð þegar Íslendingar eiga í hlut svo þetta er augljóst brot á EES-samningnum.

KKÍ má þetta vera ljóst og sambandið hlýtur að vita það. Enda er Eftirlitsstofnu EFTA búin að lýsa því yfir að þetta sé brot.

Nú er beðið viðbragða íslenskra stjórnvalda. Stjórnvöld eiga að biðja KKÍ um að breyta reglum sínum. Gangi það ekki á að setja lög sem leggja bann við að sett séu hámörk á fjölda EES-borgara í keppnisleikjum. Raunar mætti ganga lengra mín vegna. Ég sé ekki af hverju það ættu að vera nokkur takmörk yfir höfuð.