Katrín sammála Vigdísi

Vigdís Haukdsóttir kom með þá hugmynd um að refsa þyrfti fólki sem kæmi ekki heim til  Íslands eftir nám. Hugmynd Vigdísar þótti mörgum heimskuleg en hún á sér greinilega fjölmarga stuðningsmenn líka, þótt þeir stuðningsmenn vilji pakka henni öðruvísi inn.

Katrín Jakobsdóttir og fleiri hafa sagt að þeir sem komi heim ættu frekar að fá afslátt á námslánum eða skattafslátt. Sú hugmynd þykir ekki jafn-ómanneskjuleg og vond og enginn er enn búinn að segja að hún standist ekki EES samninginn.

Samt er þetta bara sama hugmyndin (að þeir sem verði eftir í útlöndum borgi meira en þeir sem komi heim) nema að spilað er inn á einfalda sálfræði. Afsláttarsálfræðina:

Afsláttur hljómar vel, álag hljómar illa.
Afsláttur hljómar vel, álag hljómar illa.

Á sinn kaldhæðnislega hátt er hugmynd Vigdísar eiginlega skárri en hugmynd Katrínar. Því allir sjá að hún er jafnvond og hún hljómar. En hugmyndir þeirra sem vilja gefa fólki „afslátt“ fyrir að koma heim hljóma mun skárri en þær eru.

Í raun snýst þetta um þetta: Viljum við gefa fólki fjárhagslega hvata til að koma heim til sín að námi loknu? „Já,“ segja sumir. En ég held persónulega að heimurinn yrði ekki betri ef allir hefðu þetta svona. Ef færri útlendingar ynnu Hjá Decode, í Háskóla Íslands og HR og ef færri Íslendingar ynnu í erlendum háskólum.

Ég held að við eigum að frekar keppa við að fá hæft fólk til Íslands, en þá alla, allt hæft fólk, ekki bara Íslendinga, og besta leiðin til þess er að bæta hér almenn lífsskilyrði og kaupmátt. Álögur á fólk sem finnur sér draumastarfið í útlöndum, sama hvernig þær álögur eru matreiddar, það er ekki rétta leiðin.

Þvernefni dagsins

Ég ætla að búa nýtt nafnorð. Þvernefni. Þvernefni er orð sem felur í sér innbyrðis mótsögn. Fyrsta þvernefnið er

Vinnufundur

Tek að sjálfsögðu við fleiri tillögum hér í kommentakerfinu.

Þú móðgaðir hrunið mitt

Ákveðinn hluti Íslendinga hefur gert búsáhaldabyltinguna og hrun bankakerfisins að slíkri rótfestu í sinni pólitísku heimsmynd að minnstu tilraunir til að gagnrýna, eða jafnvel bara gantast, með þessi hugtök kalla fram sorg og reiði.

Ýji maður að því að búsáhaldabyltingin hafi verið skipulögð, nefni maður hana í sömu setningu og orðið „ofbeldi“ og gagnrýni maður það til dæmis að einhver hafi reist styttu 20 metrum frá inngangi þinghússins til að minnast þessarar „lýðræðisveislu“ þá er sá hinn sami gríðarlega ósanngjarn, og eiginlega ónærgætinn líka.

Höf: OddurBen CC-BY-SA 3.0
Höf: OddurBen CC-BY-SA 3.0

Þegar kveikt var í jólatrénu á Austurvelli þá var það ógeðsleg og sorgleg stund. Líka þegar kveikt var í bekkjum. Líka þegar rúður í þinghúsinu voru brotnar. Líka þegar reynt var að brjótast inn á lögreglustöð. Ég þekki fólk sem var að vinna í þinghúsinu á þessum tíma. Allir geta ímyndað sér hvernig því leið að fara í vinnuna.  Mér finnst það hvort þessir atburðir hafi falið í sér beitingu ofbeldis (alla vega að einhverju leyti) ekki einu sinni vera athyglisverð spurning. Öllu forvitnilegri spurning er hvort beiting ofbeldis af þessu tagi sé réttlætanleg í pólitískum tilgangi og hvort skilyrðin hafi verið uppfyllt þarna.

***

Nýlega var myndband látið ganga um vefinn þar sem fyrsti þáttur Gísla Marteins „Sunnudagsmorgunn“ var klipptur saman til að láta líta út eins og þetta hafi verið hin harðasta frjálshyggju-íhaldsmessa. Meðal annars var hluti opnunarorða þáttastjórnandans, þegar hann minnist á hið „svokallaða hrun“, klipptur þannig að orðin „hið svokallaða hrun“ voru spiluð nokkrum sinnum til að skapa þá stemningu að þáttarstjórnandinn hafi staglast á þessu hugtaki endalaust.

(Það er raunar að einhverju leyti gegn betri vitund að ég kýs að verja Gísla og þáttinn hans, verandi vinur hans og pólitískur samherji. Það gerir þáttarstjórnanda ekki endilega gott að menn skiptist í þessar fyrirsjáanlegu pólitísku fylkingar þegar kemur að því meta hæfi hans í dagskrárgerð, en jæja).

Fyrir utan hvað þetta er pirrandi myndvinnsla þá er hún ósanngjörn. Klippa má nánast hvað sem er með svona aðferðum. Til dæmis: allir þrír gestir Gísla í kaffispjallinu lýstu yfir ánægju með störf Jóns Gnarrs. Þær þrjár yfirlýsingar hefði mátt klippa saman með hríðskotahraða, spila tvisvar og setja svo mynd af Jóni Gnarr með „Simply the Best“ undir til að skapa þá tilfinngu að Sunnudagsmorgun væri áróðursþáttur fyrir Besta flokkinn / Bjarta framtíð.

En aftur að „hinu svokallaða hruni“. Vitanlega mátti flestum vera ljóst að þáttarstjórnandinn hafi, með glotti sínu, loftgæsalöppum og sérstöku tónfalli gefið mjög augljóslega til kynna að hann væri að grínast. Og þáttarstjórnandinn hefur þar að auki ítrekað það síðar meir. En þá virðast margir, sem nú þurftu að réttlæta sína óréttlátu reiði, hafa tekið þá línu að það væri einhvern veginn „rangt að gera grín að hruninu.“ Það er nú magnað, ætli við fáum þá ekki lagagreinar um „hrunlast“? Eða kannski verður það að móðga tilfinningar fólks sem tók þátt í mótmælunum 2008-9 flokkað sem „hatursræða“?

Því einhvern veginn tókst mönnum að komast að þeirri niðurstöðu að einn og sami þátturinn hafi bæði verið glataður, því hann var allt of léttur og ógagnrýninn, og um leið glataður því hann gagnrýndi eitthvað sem þeim fannst. Af þessum tveimur gagnrýnisröddum get ég frekar tekið undir þá fyrri. Mér finnst „við ætlum að hafa þetta létt og skemmtilegt“ ekki endilega besta uppleggið að sjónvarpsþætti.

Þetta er reyndar þekkt meinloka, að halda að fólk hati pólitík en elski „léttu nóturnar“. Ég er stundum í útvarpi og þegar búið er að tala um niðurskurð til spítala segir einhver þáttarstjórnandi stundum: „Jæja, tölum nú um eitthvað skemmtilegt, hvað finnst ykkur fallegasta íslenska orðið vera?“ En reyndar er það svo að mér finnst mjög skemmtilegt að tala um pólík, en um flest sem er „skemmtilegt“ finnst mér frekar leiðinlegt að tala.

Ég held reyndar að sumt fólk sem vælir út af fjölmiðlaumfjöllun verði að slá sjálft sig utanundir. Því sömu menn og konur sem kvarta undan gagnrýnisleysi fjölmiðlanna virðast svo, ef eitthvað er að marka það sem þau pósta á fésinu, helst vilja horfa á viðtöl þar sem fólk sem þau eru í einu og öllu sammála fær að tala án nokkurs aðhalds frá blaðamanninum. Segja svo hluti eins og „Ólafur góður!“ eða „af hverju leyfði Helgi honum ekki að tala heldur var alltaf að ráðast á hann?“

***

Nú má auðvitað finna eitthvað að því menn detti úr pólitík í sjónvarp einn, tveir og bingó. Hitt er þó annað mál að það er þó allavega vitað hvað viðkomandi stendur fyrir. Menn geta sett hans/hennar yfirlýsingar í gegnum einhverja síu og athugað hvort einhver viðmælendaskekkja sé til staðar (þótt líka verði að hafa í huga að gestir og viðmælendur tala fyrir sínum skoðunum og vera þeirra í þáttum er ekki til marks um að þáttarstjórnandanum líka viðhorf þeirra). En það fullt af öðru efni sem rúllar um opinbera miðla undir merkjum hlutleysis og hreinnar fagmennsku þótt það sjónarhorn sem þar birtist er í engu minna pólitískt, og oft miklu meira.

Ég get til dæmis nefnt ansi marga Spegilsþætti á RÚV í þessu samhengi. Til dæmis einn þátt í seinustu viku þar sem fullyrðingin „Lýðræði er að víkja fyrir auðræði“ var látinn hljóma eins og staðreynd á borð við þá að það hafi hægst á möndulsnúningi jarðar. Já, og inn á milli þess spiluðu menn klippur með næstofmetnasta lagi Pink Floyd, „Money“. Ég hafði svo sem alveg gaman að þessari umfjöllun, þessari ítarlegu lýsingu á lífsviðhorfum Occupy hreyfingarinnar, klæddri í fréttaskýringarbúning. Og þótt að ég hafi af því áhyggjur að aðrir hlusti ekki alltaf á Spegilinn með sama gagnrýna hugarfari og ég, þá efast ég um að ég myndi bjóða fram krafta mína í stjórn RÚV í því skyni að koma þeim ágæti þætti frá.

Því ég hef ekki endilega þá kröfu á ríkisfjölmiðil að þar starfi einungis fólk sem ég er sammála, og að það fólk tali einungis við fólk sem ég er sammála. Og að enginn á öldum ljósvakans hæðist nokkurn tímann að neinu sem mér þykir skipta máli.

„Að eyðileggja líf fólks“

West Midlands Police CC-BY-SA 2.0
West Midlands Police CC-BY-SA 2.0

Maður hefur heyrt þennan frasa. Að einhver hafi „eyðilagt líf einhvers“ með því að beita hann ofbeldi.

Það er án nokkurs vafa sagt með fullkominni samúð fyrir þolandanum. Hugsanlega líka til að láta gerandanum líða verr vegna þess sem hann gerði. Sem er sjónarmið, þó ég sé efins og að það sé mjög hjálplegt.

Ég hef enga reynslu til að hvíla á  og veit ekki hvernig þolendum líður við að heyra að líf þeirra hafi verið eyðilagt. En ég er að velta fyrir mér hvort fólk ætti ekki að leggja þessu myndmáli. Þetta er of endanlegt, of dómsdagslegt, of uppgjafarlegt.  Engin hefur vald til að „eyðileggja“ líf annarra manneskju. Ekki einu sinni í myndlíkingu sem aðrir nota honum til lasta.

Strætó burt af Sæbrautinni

Fyrir nokkrum vikum sá ég að búið væri að setja upp varanleg strætóskýli á Sæbrautinni. Það virkar dálítið skrýtið í ljósi þess að strætó á bara keyra tímabundið á Sæbrautinni meðan verið er að lappa upp á Hverfisgötuna. Eða hvað?

Höf: Pawel Bartoszek
Höf: Pawel Bartoszek

Kannski ákvað þetta fyrirtæki sem rekur skýlin bara að taka þau niður þaðan sem þau voru. Kannski ákvað það að setja þau annars staðar fremur en að láta þau standa í geymslum. En ég veit það ekki… af hverju var að það ekki gert strax i vor? Af hverju fyrst núna?

Ég held að það sé ekkert launungarmál að Strætó langar alls ekkert að keyra á Hverfisgötunni. Margar af þeim hugmyndum að leiðakerfisbreytingum sem ég hef fengið að sjá að undanförnu ganga oft út á þetta: Að taka strætó úr miðbænum. Til dæmis láta allar leiðir stoppa á BSÍ og senda svo einhverja „minni vagna“ þaðan niður í bæ. Ég hef af þessu áhyggjur. Almenn eru miklar byltingar í leiðarkerfum eitthvað sem ætti að varast. Sá sem missir góða tengingu gefst oft upp. En hitt er mun sjaldgæfara: að sá sem nú fær betri strætótengingu en áður selji bílinn.

Hvers vegna vilja menn ekki keyra Hverfisgötuna? Frá sjónarhorni einhvers sem rekur bílaflota má skilja það. Hverfisgatan er 30 km/klst gata. Menn þurfa örugglega að brjóta þá reglu til að komast yfir á skikkanlegum tíma. Gatan er ekki sérlega breið. Það er mikið af gangandi fólki. Aðrir bílar þvælast fyrir strætó og stræto þvælist fyrir þeim. Það eru eflaust til þægilegri staðir til að keyra stórum bílum á.

En þetta er samt gata sem liggur eftir aðalás miðbæjarins. Ég raunar mann þá tíð að strætó keyrði Laugaveg og Skólavörðustíg. Nú með seinustu (vonandi tímabundnu) breytingum er miðbærinn gat í leiðakerfinu.

Gatið í miðbænum. Af vef strætó.
Gatið í miðbænum. Af vef strætó.

Strætó byrjaði að keyra Sæbrautina talsvert áður en Hverfisgötu var lokað fyrir allri umferð. Líkt og þeir gætu varla beðið. Og það sem ég er hræddur við er þetta: Þegar Hverfisgatan verður tilbúin muny menn keyra Sæbrautina áfram (til að gera ekki breytingar fyrr enn við endurskoðun á leiðakerfinu). Svo keyra menn þannig áfram til sumars. Svo verður haldið áfram því sagt verður „að almenn ánægja hafi verið með breytinguna.“

Auðvitað skil ég að strætó getur ekki keyrt götu sem er sundurgrafin. En ég er bara segja, það er engin almenn ánægja með þetta og verður ekki. Þetta er glatað. Allir þurfa að labba miklu lengur. Strætóskýlið við Víkingaskipið er grín.

Ég vona að þetta sé bara tímabundið ástand og að varanlegu skýlin þýði ekki að breytingin á leiðakerfinu sé varanleg. Ég vil að strætó keyri Hverfisgötuna fyrsta daginn sem hún verður aftur opnuð fyrir umferð.

Hver vill vera með í foreldrafélaginu? Einhver… ?

Höfundur: Chewonki Semester School
Höf:Chewonki Semester School CC-BY-SA 2.A

Það var haldinn fundur í foreldrafélagi leikskóla sonar míns. Af foreldrum nær 80 barna mættu 12.

(Var mér sagt. Ég  mætti ekki.)

Það má auðvitað hneykslast á þessu og fussa og sveia í mörgum tóntegundum, og láta sem þeir sem vilji ekki fara frá börnum sínum til að hitta aðra foreldra séu vondir foreldrar. En sumir einfaldlega komast ekki. Aðrir forgangsraða öðruvísi.

En svo er hitt vandamálið. Svo fáir mæta að þeir sem mæta fara sjálfkrafa í stjórn. Þannig að menn mæta ekki af ótta við að þurfa að fara í stjórn. Og því mæta enn færri, því einhverju fólki langar kannski að mæta en langar örugglega ekki í stjórn. Þetta er svona harmleikur almenningsins – í leikskólaútgáfu.

***

Þegar ég var í Póllandi var ekkert foreldrafélag í leikskólanum. Ef panta átti danskennslu, redda trúð eða fara í ferðalag, skipulagði einkarekni leikskólinn þetta sjálfur. Menn gáfu svolítið til kynna að fólk væri að borga fyrir að sleppa við allt þetta vesen. Það má hafa skoðun á því viðhorfi. En þægilegt var þetta.

***

Svona foreldrafélög geta auðvitað gert ýmislegt gagn. Til dæmis með því að skipuleggja viðburði/viðbótarnámskeið og rukka fólk fyrir þátttöku, og farið þannig í kringum ýmsar reglur sem banna leikskólunum / skólunum sjálfum að rukka fólk fyrir hluti sem kosta.

En það er alls ekki augljóst að það sé best að foreldrafélög gegni þessum hlutverkum. Til dæmis stoppa menn oft stutt í svona stjórnum. Þannig að ár eftir eru nýir pabbar og nýjar mömmur að leita að rútum til að leigja og pulsum til að kaupa með magnafslætti. Reynsla safnast ekki upp, öfugt við það sem gerist ef þetta væri á hendi gráðugra kapitalista (eða alla vega fólks sem ynni við að skipuleggja dót með börnum).

Ég segi þetta bara vegna þess að sumir eru stundum haldnir draumsýn um rosaöflug foreldrafélög sem nánast reka leikskóla/skóla eða taka allavega mikilvægar ákvarðanir um hluti eins og hvaða matur eigi að vera á boðstólum. Menn geta verið á þessari skoðun, og mér finnst hún ekki algerlega fáranleg en ég er á annarri skoðun og myndi ekki endilega velja leikskóla sem hefði slíka stefnu ef ég fengi einhverju ráðið. Það hljómar eins og það hljómar og það eru kannski ekki margir sem vilja bera slíka letistefnu á torg. En sé sókn fólks í trúnaðarstörf foreldrafélaga einhver mælikvarði eru líklegast ögn fleiri sammála mér en vilja viðurkenna það.

Kúlið kvatt

CC-BY-SA TheeErin
CC-BY-SA TheeErin

„Fyrirgefðu. Ég þarf að biðja þig um að yfirgefa lestina…“

„Ha, mig? Okkur?“

„Já, því miður, lestin er bara full. Við getum ekki flutt svona marga af öryggisástæðum.“

„En… en… við … ég  þarf að komast leiðar minnar… Ég er með miða og allt.“

„Já fyrirgefðu! Þú misskildir mig. Það kemur að sjálfsögðu lest strax á eftir sem sækir þig. Það er miklu meira pláss. Og þú ert með krakka. Það er fín lest fyrir fólk eins og þig. Fín og þægileg.““

„En..“  segi ég áhyggjufullur, „…er hún… Er hún jafnKÚL?“

***

Ég fór á Airwaves fjögur ár í röð. Fannst alltaf mjög skemmtilegt. Svo missti ég af ári. Svo af öðru. Svo kemur að því að maður er varla lengur að missa af… það er meira svona að maður mætir ekki. Maður er búinn að missa af kúlinu.

***

Við stöndum á brautarpallinum. Ég held á yngri syni mínum. Sá eldri stendur hjá töskunum. Og við horfum á eftir lestinni.

„Pabbi, af hverju fór lestin án okkar?“

„Æi, hún var bara full. En það kemur önnur lest. Sem er miklu miklu betri. Við þurfum ekki að standa þar. Var þér ekki illt í fótunum?“

„Jú…“

(10 sekúndur)

„Pabbi, hvenær kemur lestin…?“

***

Maður áttar sig reglulega á því að sumt sem maður gerði stundum mun maður kannski ekki gera framar. Og ekki einu sinni það að maður geti það ekki. Heldur mun maður kannski bar ekki hafa löngun til þess. Og stundum, þegar maður lætur sig hafa að gera hluti sem maður eitt sinn gerði þá verða þeir ekki einu sinni jafnskemmtilegir og þeir voru áður. Skrýtið.

***

Nýja lestin rúllar inn á stöðina. Hún er hrein og það er nóg af plássi. Það er meira að segja veitingavagn, með stórri ísauglýsingu á hliðinni.“

„Pabbi! Ís!“

Við berum farangurinn um borð. Hér eru engir menn með tattú, dredda, plathandprjónaða trefla eða of stór gleraugu. Miðaldra bisnesskona býður góðan daginn. Á móti okkur situr önnur fjölskylda. Börnin leika sér með pleimó. Lestarþjónn spyr hvort við viljum kaffi og súkkulaðikex.

„Pabbi! Þessi lest er miklu betri!“

„Ég veit það, kútur“ segi ég. Andvarpa og brosi í senn. Brosvarpa.

„Pabbi, fannst þér hin lestin betri?“

„Nei, krúttið mitt. Þessi er miklu betri. Mér fannst hin reyndar alveg líka skemmtileg. En þetta er allt í lagi.. Við sjáum hana nú kannski einhvern tímann aftur…“

Góða skemmtun á Airwaves.

Einn dagur í stjórnmálum er þúsund ár

800px-Jon-gnarr-2011-ffm-116

Mér finnst Jón Gnarr hafa verið borgarstjóri stutt.

***

Hæ!

Hæ?

Æi þú manst örugglega ekki eftir mér. En þú kenndir mér einu sinni.

Í HR?

Nei, í Hagaskóla.

Já, ókei. Já sorrý, ég bara kem nafninu ekki fyrir mér… Þú heitir aftur?

***

Samband kennara og nemanda er mjög ósamhverft. Ég man flesta kennara sem ég hef haft. Flestir muna örugglega flesta þá kennara sem hafa kennt þeim. Eða alla vega meirihluta þeirra. Ég get bókað að það er því miður ekki þannig í hina áttina. Kennarar eru stærri hluti af lífshlaupi nemenda sinna en öfugt.

***

Samband stjórnmálamanna við kjósendur er líka ósamhverft. En samt á dálítið ólíkan hátt. Tíminn líður allt öðruvísi.

***

Mér finnst Jón Gnarr hafa verið borgarstjóri stutt.

***

Ég tók þátt í kosningabaráttu gegn Jóni Gnarr 2010. Hringdi í hundruð Reykvíkinga og talaði við þá um strætó og hjólastíga. Varaði þá við að gera einhverja vitleysu. Mér finnst óralangt síðan. Síðan missti ég vinnu. Svo fór ég í kosningabárattu sjálfur. Var í stjórnlagaráði í fjóra mánuði. Mér fannst ég vera þar í mjög langan tíma. Seinni hluta þess tíma var ég nánast ekkert heima. Þetta er skeið í lífi mínu. Tekur stærri part minninganna en fjórir mánuði einhvers staðar annars staðar.

Svo hætti ráðið og ég flutti til Póllands, bjó þar í nokkra mánuði. Setti son minn í leikskóla. Hélt uppi vefsíðu. Fór í mörg hlaup. Heimsótti ættingja. Ég flutti heim fyrir hálfu öðru ári. Mér finnst langt síðan ég var í Póllandi.

En mér finnst samt að Jón Gnarr sé búinn að vera borgarstjóri stutt.

***

Þetta er bara hugleiðing. Sérstaklega í ljósi þess að það er alltaf fólk að leggja til að maður fari í stjórnmál og maður er alltaf að leggja það til við annað fólk. Að ef maður ætlar að hella sér í þetta þá þarf maður líklegast að gera þetta í alla vega áratug.  Sem er ótrúlega langur tími í manns eigin ævi. En furðulega stuttur tími í ævi einhvers annars.

Drullaðu bara yfir mig nafnlaust ef þig langar til þess

CC-BY-SA 2.0 Ian Murphy
CC-BY-SA 2.0 Ian Murphy

Nafnleynd er ekki í tísku. „Nafnlaus níðskrif“ er nánast eins og fast orðasamband. Löggjafinn hatar nafnleysi og vildi helst hafa kennitölu fyrir aftan hvert komment, til að menn vissu hver segði hvað.

Það er óheppilegt. Auðvitað má nota það vald til að tjá sig nafnlaust saklausu fólki til skaða. En sama gildir nú um margt, margt annað.

Ég get nefnt fjölmargar ástæður þess að einhver myndi vilja skrifa nafnlaust. Sumar góðar aðrar síðri.

  1. Þú ert stjórnarandstæðingur í harðstjórnarríki.
  2. Þú kennir í 8. bekk og langar ekki endilega að gera helsta stefnumál þitt, lögleiðingu eiturlyfja, að umtalsefni í næstu kennslustund.
  3. Þú ert áhugamaður um erótískar smásögur þar sem Star Trek persónur koma við sögu, en þig langar að ræða um það á næsta jólaglöggi fyrirtækisins.
  4. Þú telur að samkynhneigðir séu syndgarar samkvæmt Biblíunni en þig langar ekki að missa vinnuna.
  5. Þú vilt að umræður snúist um rök þín en ekki þig persónulega.

Rökin geta verið fleiri. En svo lengi sem menn fela sig ekki einungis til að ráðast á saklaust fólk er engin ástæða til að banna mönnum að fara huldu höfði.

Þessi bólusetning samfélagsins gegn nafnleynd er ekki góð. Margt gott hefur verið skrifað undir nafnleynd, oft af neyð. Og þó að ég hafi raunar ögn meira gaman að því að sjá framan í fólk þegar það talar hef ég ekkert á móti nafnlausum kommentum á síðunni minni. Fólk er því frjálst að drulla yfir mig nafnlaust ef það lystir. Svo lengi sem það er „í þágu hóflegra framfara og innan marka laganna“ eins og einn tékkneskur rithöfundur myndi segja.

Of fá sæti í lestinni

Ein stutt saga úr í kommúnistaríki. Sumarfrí er að hefjast. Það fer lest úr bænum á föstudegi. Allir vita að troðið verður í hana. Aðaljárnbrautararstöðin er stöð númer 2 á leið lestarinnar. Sumir bregða á það ráð að labba/taka strætó á fyrstu stöðina í von um að ná frekar sæti.

Rupert Taylor-Price CC-BY-SA 2.0
Rupert Taylor-Price CC-BY-SA 2.0

Þegar lestin rúllar loksins inn á teinana, mörgum mínutum of sein eins og alltaf kemur í ljós að það er þegar fólk í lestinni. Einhverjir ættingjar lestarstarfsmanna höfðu greinilega fengið að fara um borð fyrr.

Mannmergðin á fyrstu stöðinni nær þó að troða sér inn, þótt það fái ekki allir neitt komfý gluggasæti eins og þeir vonuðust eftir. En þegar kemur að aðaljárnbrautarstöð bæjarins geta þeir sem þar standa auðvitað gleymt því að fá far.

Þannig að

  • Þeir sem þekktu til réttra manna  – fengu örugglega far
  • Þeir sem voru duglegir að fylgjast með og mixa – fengu kannski far
  • Þeir sem gerðu eins og þeim var sagt að gera – fengu ekki far

Ef sætin eru færri en fólkið sem í þeim vill sitja mun alltaf einhver vera ósáttur. Ein leið er einfaldlega að hækka verðið. Það vilja menn stundum ekki gera og láta sem þannig muni „venjulegt fólk“ ekki geta keypt sér miða.

En ef fólkið upplifir að kaupferlið sé skakkt hvort sem er, því þeir einu sem komast í lestina eru þeir sem njóta einhverja forréttinda fyrirfram þá upplifir fólk þetta ekki sem niðurgreiðslu til „venjulegs fólks“ heldur sem niðugreiðslu til þeirra útvöldu sem hafa aðgang einhverjum réttindum eða upplýsingum sem aðrir hafa ekki. Og ef menn treysta ekki stjórnvaldinu til að byrja með þá skiptir nú litlu máli hvaða skýringar það gefur á því að kona lestarstjórans hafi flatmagað á fyrsta farrými þegar pöpullinn rúllaði inn. Því þar sem er skítafýla hefur oftast einhver gert í brækurnar.

En nóg um það. Hvað ætli fólk nenni að lesa sögur af lestarferðum í kommúnistaríkjum.