Enn ein hugmyndin

Nú fyrir helgi og svo aftur eftir að úrslit kosninga um tillögur stjórnlagaráðs lágu fyrir varpaði Jóhanna Sigurðardóttir fram þeirri hugmynd að endanlegt frumvarp til stjórnskipunarlaga ætti að leggja í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningum í vor. Þetta er ekki það sem ákveðið var þegar boðað var til atkvæðagreiðslunnar.

Í meirihlutaáliti Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með þingsályktunartillögunni um þjóðaratkvæðagreiðsluna sagði:

Gildistaka nýrrar stjórnarskrár.

Meiri hlutinn er þeirrar skoðunar að frumvarp Alþingis, að aflokinni síðari samþykkt þess skv. 79. gr. gildandi stjórnarskrár, eigi að bera undir þjóðina til endanlegrar staðfestingar og gildistöku í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.“ (sjá: http://www.althingi.is/altext/140/s/1097.html)

Nefndin hafði leitað álits hjá Björgu Thorarensen sjá (http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=140&malnr;=636&dbnr;=1641&nefnd;=se) um mögulegar leiðir til að tryggja bindandi aðkomu kjósenda að samþykkt nýrrar stjórnarskrár. Sú leið sem meirihlutinn lýsir hér að ofan lýsir “Leið 2” í minnislblaði Bjargar. Leið 1 fólst í bráðabirgðarákvæði. Sú leið hafði verið farin 1942.

Tillaga að verkferli sem lagt var upp með og meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var sem sagt þessi:

1)Ráðgefandi þjóðaratvkvæðagreiðsla
2)Efnisleg umræða á þingi
3)Frumvarp til stjórnskipunarlaga samþykkt
4)Þingrof
5)Nýtt þing samþykkir nýja stjórnarskrá með gildistökuákvæði.
6)Bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla
7)Ný stjórnarskrá tekur gildi (ef kjósendur samþykkja)

Það sem Jóhanna leggur nú til er þetta:

1) – 4) eins og áður
5) Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla samhliða kosningum
6) Nýtt þing samþykkir stjórnarskrárbreytinguna (ef kjósendur samþykkja)
7) Ný stjórnarskrá tekur gildi.

Þessi hugmynd styttir þann tíma sem Alþingi hefur til efnislegrar umræðu um málið í þjóðaratkvæðagreiðsluna þarf að boða með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Hún brýtur fyrirheit um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu (nema að til standi að boða til þriðju þjóðaratkvæðagreiðslunnar að kosningum loknum,sem ég geri ekki ráð fyrir). Þetta er önnur leið en sú sem þingnefndin lagði upp með og lofaði í meirihlutaáliti sínu. Því miður er þetta enn ein tillaga að því að breyta ferli stjórnarskrárbreytinga í miðju klíðum. Ég vona að þetta sé misskilningur. Meirihlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hlýtur að vera að vera skipaður mönnum og konum orða sinna.

Opið bréf til Gouda ostsins

Kæri Gouda ostur. Ég sé að þú ert að skipta um nafn og ætlir að kalla þig Góðost. Til hamingju með það. Það eiga allir rétt að heita það sem þeim sýnist. Þú birtir umsókn fyrir nafnabreytingu þinni í blöðum. Í reitnum “ástæður fyrir umsókn” skrifar þú:

“Mér var bara farið að finnast asnalegt að vera með útlenskt nafn þegar ég er í raun rammíslenskur.”

Af hverju fannst þér það, kæri ostur? Hver lét þig þér finnast það asnalegt? Hefur einhver verið að gera grín að nafninu þínu? Ertu búinn að vera að lesa eitthvað blogg? Eða hlusta mikið á útvarpsþætti þar sem fólk hringir inn og svona? Fyrir alla muni, ég er ekki að segja þér hvað þú mátt kalla þig, það er þitt val, en ég vona að þú hafir ekki virkilega látið þér þú finnast vera eitthvað verri ostur þótt þú hafir heitið erlendu nafni. Og finnist þér það sjálfum þá vona ég það allavega að þú dreifir þeim boðskap ekki áfram.

Ég neita því ekki að mér leið óþægilega þegar ég las skýringu þína fyrir nafnabreytingunni. Fjöldi Íslendinga heitir erlendum nöfnum og mér finnst ekki endilega rétt að dreifa þeirri skoðun í blöðum að þau nöfn séu asnaleg, eða að það sé asnalegt að Íslendingar beri þau. Ekkert nafn er asnalegt nema að einhverjum finnist það asnalegt. Menn eiga ekki að hafa þá skoðun að annarra manna nöfn séu asnaleg. Það er bara asnalegt.

Einhverjir hönnuðu þessa auglýsingu fyrir þig, kæri ostur, og meintu líklegast ekkert illt. En til að hafa andrúmsloftið hreint á milli okkar þá læt ég þig hér með vita að mér þótti leitt, og eilítið óþægilegt, að lesa skýringar þínar á nafnabreytingunni. En ætla ég ekki að vera reiður við þig, Góðostur minn. Þú ert, jú, bara ostur. Ég get ekki verið þekktur fyrir að vera reiður við ost.

„Enn að væla út af Helförinni“

Stefán Ólafsson prófessor ritar undarlegt greinarkorn á vefsvæði sitt á Pressunni þar sem hann gerir sér mat úr því að fólk tali enn um það að kommúnisminn hafi verið vond stefna. Ég meina hvað er að fólki, það eru heilir tveir áratugir liðnir!

Stefán segir meðal annars. „Maður hélt þó samt að búið væri að kveða þennan draug niður í okkar heimi, með hruni Sovétskipulagsins um 1990. Margir stuðningsmenn kommúnisma á Vesturlöndum höfðu reyndar löngu áður hellst úr lestinni. Tími kommúnismans virtist í meira lagi liðinn.

Svo fylgir fremur mislukkað myndmál um vofu kommúnismans sem frjálshyggjumenn eiga nú að hafa vakið upp til að beina athyglinni frá því hvað kapítalisminn sé sjálfur illa misheppnaður. Síðan bætir Stefán við:

„En hvers vegna skyldu róttækir frrjálshyggjumenn [sic], eins og Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn, vera að skrifa sagnfræði- og myndabækur um löngu dauða hugmyndafræði? Eða halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum?

Þeir fengu meira að segja hinn glögga og skemmtilega Egil Helgason til að skenkja tevatni á miðilsfundi um málið í dag.“

Sjötíu til hundrað árum? Sem sagt 1912 til 1942? Er það tímabilið sem illska kommúnismans nær yfir að mati Stefáns Ólafssonar? Það var nú eiginlega ekki byrjað að dreifa kommúnismanum um heiminn að ráði þá. Hvað með allar hreinsanir í lok seinni heimstyrjaldarinnar? Hernám Eystrasaltsríkjanna? Valdarán og kosningasvik í Austur-Evrópu? Innrásina í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968? “Stóra stökkið” hans Mao sem kostaði tugmilljónir lífið? Telur þetta ekki?

Á umræddum „miðilsfundi“ var meðal annars stödd Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland. Stór hluti þeirrar bókar gerist nú bara í hinum löngu geymda og grafna níunda áratug seinustu aldar, svona um það leyti Red Hot Chilli Peppers og Radiohead voru stofnaðar og Spaugstofan hóf göngu sína. Þeir sem dóu í mótmælunum á torgi hins himneska friðar 1989 eða í Litháen 1991 væru margir í kringum fertugt, fimmtugt í dag. Já, ótrúlegt að menn séu enn að velta sér upp úr þessu!

Það er ekki lengra síðan að kommúnisminn leið undir lok í okkar heimshluta að ég sem er þrjátíu tveggja ára í dag náði að læra það í landafræði á sínum tím að Alþýðulýðveldið Pólland hefði þessi nágrannaríki: Sovétríkin, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskaland. Raunar þurftu sjö ára börnin auðvitað að læra löngu nöfnin: Samband sósíalískra ráðstjórnarríkja, Tékkóslóvakíska Alþýðulýðveldið og Lýðræðislega lýðveldið Þýskaland. Ekki datt mér í hug að þessi kunnátta yrði úreld innan fjögurra ára.

Svo er auðvitað ekki eins og kommúnisminn sé liðinn undir lok. Ekki á Kúbu. Ekki í Norður-Kóreu. Ekki í Kína. Menn kalla sig kommúnista Íslandi án þess að skammast sín fyrir það og alltaf eru menn til í að malda í móinn fyrir þessa stefnu og ættingja hennar. Í ágúst var haldin námskeiðaröð undir merkjum marxismans og heilir fjórir kennarar í þeim síðsumarskóla rötuðu í Víðsjá Ríkisútvarpsins. Eitt námskeiðið fjallaði um þörfina á byltingarsinnuðum stjórnmálaflokki (bylting er ekkert krúttorð, það þýðir “ofbeldi”, fólk er lamið og fólk deyr). Þingmenn mættu á þessa viðburði. Leslistar fyrir nokkur námskeiðanna samanstóðu af verkum Marx og Leníns.

Ég vil ekki nota stór orð en ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta pinku skrýtið. En kannski er ég bara svo gamall. Ég meina ég fæddist í kommúnistaríki. Ég hlýt að vera að minnsta kosti sjötugur.

Árás á fjölskylduna

Um allan heim er ráðist á fjölskylduna. Verstu árasirnar koma frá fólki sem notar orð á borð við: „Um allan heim er ráðist á fjölskylduna.“

Ég verð að koma með smá játningu um eigin vangetu sem pistlahöfundar. Á þessum stað í pistli um fjölskyldur fannst mér við hæfi að skilgreina fjölskyldur. Ég skrifaði nokkur orð um ást, umhyggju, hamingju, sameiginleg markmið, þroskaferli. Fannst það væmið, endurskrifaði, strikaði út, bætti við, breytti. Eftir nokkrar umferðir að lyklaborðshamri í næturgalsa stóð eftirfarandi setning á skjánum hjá mér.

„Fjölskylda er hópur fólks sem leitast við að hámarka hagnað sinn.“

Þar hló ég að sjálfum mér. Ég ætlaði eiginlega fyrst að skrifa „hamingja“ en skrifaði óvart „hagnaður“. En þetta var auðvitað það innilega markaðshyggjulega plebbalegt að ég gat ekki annað en látið það standa, þótt ekki væri nema um stund. Bara svo aðrir gætu hlegið að mér.

***

Ætli sé ekki best að játa sig sigraðan þegar kemur að því að skilgreina fjölskyldu. Það kannski best, því oftast þegar menn reyna þá enda menn með að útiloka fullt af fjölskyldum. Ætli skásta skilgreininginn sem mér dettur í hug sé ekki hringskilgreining eins og þessi:

„Fjölskylda er hópur fólks sem lítur á sig sem fjölskyldu.“

Fjölskylda er þannig ekki „Fólk af gagnstæðu kyni og börn“. Það er auðvitað dæmi um fjölskyldu. En það er ekki tæmandi lýsing á fjölskyldu.

Miðað við hve margir úti í hinum stóra þykjast tala fyrir fjölskyldugildum er ótrúlegt hve mörgum þeirra er annt um að fjölskyldan verði skilgreind sem þrengst. Að sem fæstir njóti þeirrar verndar sem lög veita gjarnan fjölskyldum, og að sem fæstir fái yfirhöfuð að stofna fjölskyldu eða tilheyra henni. Þetta virðist skilningur kaþólsku kirkjunnar, flestra austurkirkna og þorra evangelista:

„Karl og kona. Alls ekki hommar eða lesbíur. Einstæðar mæður geta reynt að reka fjölskyldur, en þær fjölskyldur eru lélegri.“

Kaþólska kirkjan, og margir aðrir söfnuðir berjast enn fremur gegn því að gagnkynhneigð pör geti stofnað fjölskyldu, ef þau eru þjást af sjúkdómum eins og ófrjósemi sem hindra að þau geti eignast börn. Margir þessara trúarsöfnuða koma vissulega fram af ákveðinni auðmýkt þegar þær flytja boðskap sinn í umhverfi þar sem hommaandúð og annað haturtal myndi falla í grýttan jarðveg, en það er ekki auðvelt að fyrirgefa það hvernig þeir haga sér í löndum þar sem völd þeirra eru öllu meira. Í Póllandi leggur flokkur með sterkar rætur innan kaþólsku kirkjunnar að tæknifrjóvgun verði refsiverð og viðurlög verði fangelsisvist. Um alla Mið-, Austur-, og Suður-Evrópu berjast liðsmenn Vatíkansins gegn öllum réttarbótum samkynhneigðra.

Vestanhafs getur enginn hægrimaður (og til skamms tíma: enginn maður) sóst eftir forsetaembætti án þess að segjast trúa því að hjónaband sé einungis milli karls og konu. Rétt eins og þetta væri bara spurning um smekk, en ekki rök eða sjálfsagðan rétt fólks til að verða hamingjusamt.

Það þarf að setja sig upp á móti þeim sem reynt hafa að ræna orðinu „fjölskylda“. Það þarf að tala gegn þeim sem láta „fjölskyldugildi“ þýða „hommahatur“, gegn þeim sem telja að barn ætti „auðvitað“ að alast upp hjá bæði föður og móður, gegn þeim sem telja að sum börn eigi ekki rétt á að koma í heiminn, eða séu fædd verri þar sem foreldrar þeirra framkvæmdu ekki einhvern hátíðlegan gjörning fyrir getnaðinn.

Við þurfum að biðja þetta fólk um að hætta, vinsamlegast, að veitast að fjölskyldunni.

Hin tímabundna eilífa snilld

Á nokkurra ára fresti rekur upp á yfirborðið ný fyrirtæki sem virðast ósigrandi. Xerox var eitt sinn þannig fyrirtæki, IBM einnig. Síðan kom Microsoft. Síðan kemur Google og allt sem fyrirtækið snertir verður gagrandi snilld: Þeir eru með bestu leitarvélina, vinsælasta netfangaþjóninn og starfsmenn sem eyða tíma sínum í að hanna bíl sem keyrir sjálfur. Svo kemur Facebook, fyrirtæki sem virðist um stundir netinu stærra. En ekkert af þessu varir að eilífu.

Á þeim tíma sem ég hef fylgst með íslenskri þjóðmálaumræðu hafa þónokkur fyrirtæki haft þá ímynd að vera slíkar verksmiðjur spúandi snilldar að eigendur þeirra og stjórnendur hlytu að eiga efni á nánast hverju sem er. Íslensk erfðagreining var þannig í þessari stöðu fyrir rúmum áratug. Í tengslum við hið endanlaust ókláraða Náttúrufræðihús, sem hlaut síðan nafnið Askja, voru komnar uppi spurningar um hvers vegna DeCode gæti ekki bara klárað húsið fyrir Háskólann. Þeir hlytu að græða svo svakalega mikið á því að hafa betri háskóla við hlið sér, talandi ekki um hvað umtalið yrði gott.

Hálfum áratug síðar voru íslensku bankarnir komnir í sömu stöðu. Væntingar til þeirra frá almenningi og þeim sjálfum voru slíkar að það þótti ekkert óeðlilegt við það að þessi fyrirtæki myndu fjármagna tónlistarhallir og aðra snilld sem ekkert tengdist starfsemi þeirra. Og oft reyndu þau sitt besta til að standa undir þeim væntingum.

Þótt hált sé á toppnum er alltaf þar alltaf pláss fyrir einn eða tvo, því sama hvernig mönnum gengur er alltaf einhver sem stendur sig betur en aðrir. Ætli tölvuleikjabransinn, með fyrirtæki á borð við CCP í broddi fylkingar, eigi ekki „á hættu“ á að verða næsta tímabundna eilífa snilld í hugum landsmanna. Í því felst vitanlega engin ósk um þeim iðnaði vegni illa, þvert á móti. Hins vegar ættum við kannski að hafa á því skilning að í þekkingarbransanum er samkeppnin hörð og fáum tekst að lifa af í mörg ár, hvað þá að leiða í mörg ár. Kannski væri því rétt að menn stilltu sínar væntingar til vinsældarverkefna íslenskra fyrirtækja í ákveðið hóf.

Bara til að græða á því

Þeir sem gagnrýna aðra fyrir að gera eitthvað „bara“ til að að græða á því átta sig örugglega sjaldnast á því hve erfitt það getur verið að græða á einhverju.

Sumir hafa einhvern tímann hugsað hugsanir á borð við: „Ég bara gef út bók og græði á henni. Ég bara opna vefsíðu, set á hana auglýsingar og græði. Ég bara opna skemmtistað og græði.“ Sumir þeirra hafa fylgt fyrripörtum þeirra setninga eftir. Látið vaða. En afar fáum tekst að láta seinni hlutann rætast. Það er erfitt að græða.

Ímyndum okkur 5000 kall. Við gefum þennan seðil ekki svo glatt frá okkur. Ég held til dæmis að fáir myndu kaupa álfinn eða aðra styrktarfígúrur ef þær kostuðu 5000 kall. Við viljum fá eitthvað fyrir 5000 kall.

Hugsum okkur nú mann sem ætlar sér að gera eitthvað drasl fyrir fólk, segjum að veita mönnum ráðgjöf um mataræði. Þessi maður þarf að fá hundrað manns til að gefa sér 5000 kall til að hann geti borgað sér sæmileg laun og átt efni á sköttum, tryggingum og lagt fyrir í lífeyrissjóð, svo ekki sé minnst á annan kostnað. Þetta þarf hann að gera í hverjum mánuði. Fá hundrað manns til að gefa sér 5000 kall. Bara til að “græða á því.“

Góð vinkona mín ætlar að gefa út bók byggða á kynlífsfantasíum kvenna. Viðbrögð sumra við fréttum af þessum fyrirætlunum voru eins og við var að búast af íbúum bældrar eyju. Svo bættist gróðahneykslunin við. Eitt væri ef menn ætluðu að safna svona dónaskap í „rannsókn“ en að einhver ætlaði sér að „græða á þessu“! Fuss!

Auðvitað er hægt að leggja aðra merkingu í orðin „bara til að græða á því“, það er að menn hafi enga ástríðu fyrir því sem þeir gera, bara ástríðu til að hagnast á því. En af reynslunni að dæma þá er nógu erfitt að græða á einhverju þótt menn hafi endalausa ástríðu fyrir því sem þeir taka sér fyrir hendur. Hvað þá ef þeim leiðist það sem þeir eru að gera.

Þótt velferðarkerfið mætti gjarnan vera minna í sniðum, held ég að fáir myndu kjósa að vera algjörlega án þess. Það verður að viðurkennast að sumt af því sem norræn ríki gera er alveg ágætt. En útgjöld krefjast tekna. Við megum ekki gleyma því að að við gætum ekki haft neitt velferðarkerfi, hvað þá öflugt, ef ekki væri fyrir lið sem skrifar bækur, opnar byssubúðir, bræðir ál, veiðir fisk, slátrar kjúklingum, lánar peninga og býr til tölvuleiki. Bara til að græða á því.

Minnismerki um borgaralegt ofbeldi

Einhverjum kann að finnast það við hæfi að reisa skúlptur hjá Alþingi þar sem þingmenn eru minntir á að þeir verða lamdir ef þeir standa sig ekki í vinnunni. Mér finnst það ekki. Hvað gerum við þá?

***

Eitt sinn, þegar ég var ungur og heimskur, gaf ég út blað sem hét Bláa tegrið – blað stærðfræðinema með hægriskoðanir. Það var sóðalegt slúðurhægrisorprit. Dag einn hélt ég uppskeruhátíð fyrir þetta blað og fyllti aðstöðu stærðfræðinema með myndum af Davíð Oddssyni og tilvitnunum í Bush og Thatcher. Mörgum fannst þetta illa fyndið en einhverjum fannst það ekkert fyndið. Ég var fúll yfir því að öllum hafi ekki þótt þetta fyndið. Hvernig vogaði einhver að sér að eyðileggja fyrir mér daginn og finnast ég ekki sniðugur?

***

Því miður, ég deili einfaldlega ekki skoðunum þeirra sem telja að það þegar múgur manna braut rúður í Alþingishúsinu, braust inn á þingpalla, áreitti þingmenn á leið til vinnu og fyrir utan heimili þeirra hafi verið fínasta stund í sögu íslenska lýðveldisins. Og mér finnst ekki sniðugt að þessum atburðum sé öllum hampað sérstaklega. Menn geta verið ósammála mér. En það getur enginn þvingað mig til að láta mér finnast það hamp sniðugt.

***

Hverjar eru táknmyndir listaverksins Svörtu keilunnar? Við erum með svartan lit, uppáhaldslit anarkista. Við erum með tilvitnun í frönsku byltinguna. Dagsetning uppsetningar verksins var valin til að minna á búsáhaldarbyltinguna. Allt þetta sendir skilaboð. Þau skilaboð eru: „Kæru þingmenn, þið sitjið hér bara eins lengi og við, múgurinn, kærum okkur um.“

Auðvitað er ég sammála því að þingmenn sitja bara jafnlengi á þingi og þeir hafa umboð kjósenda til. En þingmönnum á að skipta út með því að henda seðli í kassa, en ekki með því að henda steinum í rúður.

***

Ég hef að undanförnu verið að glugga í skrif hins nýlega látna fyrrum forseta Tékklands og Tékkóslóvakíu, Vaclávs Havels. Í ritgerð sinni „Um vald hinna valdalausu“ sem skrifuð er árið 1978 lýsir Havel þeirri skoðun sinni að notkun ofbeldis sé einungis réttlætanleg í algerum jaðartilfellum, til dæmis sem svar við grófu ofbeldi valdhafa og ef valdbeiting getur stöðvað það ofbeldi. Sem dæmi tekur hann hið stríð bandamanna á hendur öxulveldunum í heimsstyrjöldinni síðari. Vacláv Havel leggst hins vegar gegn valdbeitingu gagnvart kommúnískum alræðisstjórnvöldum Mið- og Austur-Evrópu. Þær hvorki verðskulduðu slíkt, að hans mati, né heldur myndi slík vopnuð barátt skila miklu.

Ég á erfitt með annað en að taka undir með Havel. Kannski gæti það, gæti það mögulega gerst að einhvern tímann að myndum við á Íslandi búa við svo ógeðfelld stjórnvöld að ofbeldi væri réttlætanlegt til að koma þeim frá. En svo langt erum við, og höfum alla tíð verið, frá þeim stað að það að minna á þann möguleika til valdaskipta er eins og að hóta barni sem hellir niður mjólk dauðadómi.

Sú áminning, að ofbeldi og uppþot séu réttlætanleg sem aðferðir við að ná völdum, eru mun líklegri til að koma á fasisma, heldur en að hindra hann.

***

Ég fíla þetta listaverk engan veginn. Það segist upphefja óhlýðni, en upphefur í raun hugmynd um ofbeldi gegn fólki sem við sjálf höfum valið til að gera þjóðfélag okkar ögn betra. Ég vil ekki sjá þann boðskap í opinberu rými, hvað þá að sá kreppti hnefi standi steinsnar frá Alþingishúsinu. Ef einhver er ósammála mér þá getur hann boðið einkalóð sína til að hýsa þetta listaverk og opnað inn á hana svo aðrir sem honum eru sama sinnis gætu dást að því. En á Austurvelli ekkert slíkt heima.

***

Ég áttaði mig sem betur fljótt á því að þótt ég fremdi listrænan gjörning eins og þann að líma tilvitnanir í Thatcher um alla veggi í félagsaðstöðu gæti ég ekki gert kröfu um að allir myndu hafa fyrir því húmor. Það er sjálfsagt að menn hafi sínar skoðanir, jafnvel skoðanir eins og þær að ofbeldi gegn kjörnum fulltrúum geti verið réttlætanlegt, en menn geta ekki gert kröfu á að opinbert rými verði varanlega tekið undir þann boðskap og að þeir sem geti ekki fallist á hann kyngi því bara eins og ekkert sé.

Subbuskapurinn, subbuskapurinn

Líklegast hafa fleiri migið á vegg í miðbæ Reykjavíkur, brotið glös og hent áldósum gangstétt en vilja við það kannast. Án þess að slík hegðun sé endilega til eftirbreytni, þá hafa flestir einhvern tímann verið ungir, heimskir og fullir. Margt má betra við tímann en að hneykslast á því að drukkið fólk drasli oft út.

Flestir borgarstjórar Reykjavíkur hafa einhvern tímann á ferli sínum ákveðið að skera upp herferð gegn “subbuskapnum” í borginni. Jú, vissulega er drasl pirrandi. En hve mikið er samt hægt að hrista hausinn yfir því að það séu glerbrot út um allt eftir Menningarnótt, Gay pride eða aðra viðburði þar sem þúsundir manna koma saman. Ég hef búið í öðrum borgum. Ef það er ungt fólk í borginni þá er djamm, og ef það er djamm þá er líka drasl eftir djamm. Menn þurfa bara að þrífa.

Ég skal þá líka viðurkenna að mér finnast götusópunarhljóðin og súrnaða bjór- og glerblotalyktin sem fylgja gjarnan morgunþrifum á Laugarveginum oft undarlega frískandi. Á sama hátt og það er frískandi að skola sígarettustubba úr bjórdósum eftir partý, þjappa álinu saman og pakka því í poka. Það er hluti því að halda partý að þurfa að skúra gólfið, bæði fyrir og eftir. Maður er ekki óheppinn ef nokkur glös brotna, heldur heppinn ef ekkert þeirra gerir það.

Ég dvel nú í EM-borg. Ef menn ætluðu væla yfir subbuskap og fyllerí í tengslum við EM þá gætu menn gert það daginn langan. Samt er það svo að lönd og borgir leitast mjög við að fá þetta fyllerí og þennan subbuskap til sín. Það er eftirsóknarvert að halda stórt partý, minna eftirsóknarvert að þrífa eftir það, en þetta tvennt verður ekki aðskilið sama hve mikið maður röflar yfir því síðarnefnda.

Án þess að maður haldi uppi sérstökum vörnum fyrir sóðaskap, þá vil ég miklu frekar búa á stað þar oft þarf að þrífa heldur en á stað þar sem enginn gengur um og enginn gengur þar af leiðandi illa um. Ég skil að menn vilji hafa borg sína hreina en stundum finnst mér álíka tilgangsmikið að kvarta yfir djammtengum óþrifnaði eins og kvarta undan ryki eða dúfnaskít. Umræðan nær manni bara ákveðið langt. Stundum þarf bara að kvarta minna, og þrífa meira.

Hljómsveitin á Titanic

Sagan af hljómsveitinni á Titanic, sem stytti farþegunum stundir á meðan skipið hvarf hægt og bítandi í hafið, er flestum þekkt. Við álítum þessa menn vera hetjur, að minnsta kosti af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi fórnuðu þeir lífi sínu. Í öðru lagi þá róaði spilamennska þeirra farþegana, veitti þeim huggun og kom í veg fyrir glundroða. Svona er sagan…

Um fyrsta atriðið skal ekki deilt. Tónlistarmennirnir dóu við að vinna vinnuna sína. Þeir skildu eftir fjölskyldur. Þeir gerðu sína vinnu og gott betur. En það hvort þeir hafi endilega bjargað mörgum mannslífum er ekki jafnvíst.

Skömmu eftir að ísjakinn hafði rekist á skipið var farþegum eflaust ekki ljóst hversu alvarleg staðan væri í raun. Skipið hafði, jú, þá ímynd á sér að vera nær ósökkvanlegt. Fyrir þá sem stóðu á þilfarinu skömmu eftir áreksturinn var tilhugsunin um að skella sér í björgunarvesti og fara í skítakulda björgunarbátsins alls ekki heillandi.

Önnur leið til björgunar sem hljómaði sanna sagna margfalt betur í hugum farþeganna var þessi: Skipið væri töluvert laskað, en ef það myndi ná að halda sér á floti, alla vega þangað til að Carpathia, eða eitthvað annað skip kæmi til bjargar, þá hefði verið hægt að nota björgunarbátanna til að ferja alla farþeganna yfir.

Þetta reyndist því miður óskhyggja. En hugsunin var ekki galin. Sjálf áhöfnin byrjaði ekki að fylla björgunarbátana fyrr en klukkutíma eftir áreksturinn. Ef skipið hefði náð að tolla hefðu björgunarlíkur manna verið mun meiri á því en utan þess.

Björgunarbátar um leið borð gátu borið um 1.100 manns. Það björguðust 700. Fyrstu bátarnir fóru hálftómir í hafið. Fólk var tregt við að fara í bátanna. Er það skrýtið? Það var heitt uppi í skipinu. Hljómsveitin spilaði meira að segja enn þá…

Þú ert staddur á skipi. Þú heyrir neyðarflautu um miðja nótt. Þú kveikir á sjónvarpinu. Shrek II er í gangi. Langar þig í björgunarvesti?

Það var auðvitað annara meðlima áhafnar að fylla bátana. Það er því ætlunin að kenna tónlistarmönnunum, sem gerðu vinnu sína, um ófarirnar. En kaldhæðni örlaganna er samt sú að líklegast var þörf á ögn meiri örvæntingu og ögn minni ró, fyrst eftir áreksturinn. Og þótt það sé ágætt að tónlistin hafi veitt sökkvandi mönnum hugarró, þá er samt verra að fjórum hundruðum þeirra hefði mátt bjarga.

“Einka”-eignarrétturinn

Ögmundur Jónassonar mætti í Silfrið um helgina og ræddi ýmis mál. Einar helstu athugasemdir ráðherrans við tillögur stjórnlagaráðs voru að þær gerðu “einkaeignarréttinum” of hátt undir höfði. Síðan dustaði hann rykið af marxískum hugmyndum eignarrétt af slíkum þrótti að í augun sveið.

Nú skal því ekki haldið fram að tillögur stjórnlagaráðs séu allar öskrandi snilld en sú gagnrýni sem ráðherrann setti fram var samt ótrúleg.

“Dreginn er taumur einkaeignarréttarins sem er eitthvað sem á að taka til hússins þíns eða íbúðarinnar þinnar eða bújarðarinnar sem þú nýtir en ekki til eignar þinnar alveg óháð hver hún er,” sagði ráðherran meðan hann veifaði hendi af vandlæti.

Orðræðan um “einkaeignarrétt”, sem í daglegu máli kallast eignarréttur, hófst ekki í gær og ekki í fyrradag. Þegar tillögur að stjórnarskrá Alþýðulýðveldisins Póllands komu til baka frá Jósef Stalín, stútfullar af gagnlegum athugasemdum, var ein þeirra einmitt sú að skipta ætti út hugtakinu “einkaeign” (útl. prívat) fyrir ýmist „einstaklingsbundna“ (útl. individual) eða „persónulega“ eign. Stjórnarskrám alþýðulýðvelda var þannig einungis ætlað að verja eignarrétt manna til hluta eins og húsnæðis eða búslóðar, ekki eignarrétt yfir “hverju sem er”, eins og til dæmis fyrirtækjum eða meiriháttar jarðnæði. Þeim var svo alls ekki ætlað að verja eignarrétt fyrirtækja eða annarra lögaðila á nokkrum hlut.

Auðvitað ætti strax að biðjast afsökunar á því að nefna íslenskan stjórnmálamann, sem fáar flugur hefur kramið á ferli sínum í sömu andrá og einn versta harðstjóra seinustu aldar. En tilgangurinn er fyrst og fremst að benda á að umræðan er ekki ný af nálinni, og er ekki komin til vegna falls Lehmans eða Kaupþings. Fyrir hundrað árum voru menn líka að halda þessu fram: Að nauðsynlegar samfélagslegar umbætur væru ekki mögulegar nema með afnámi eða veikingu eignarréttar. En einhvern veginn var það svo að þau ríki sem virtu eignarréttinn báru höfuð og herðar yfir þau sem gerðu það ekki. Á nánast öllum mælanlegum sviðum.

Það eiga flestir auðvelt, sama hvar í stjórnmálum þeir nú standa, með að taka undir að ritskoðun og pólitískar ofsóknir í kommúnistaríkjum hafi verið vondur hlutur. En að ríkisvædd framleiðsla og dreifing á nauðsynjum eða kerfisbundinn vanvirðing fyrir eignarrétti hafi gert þessi ríki fátæk og vanþróuð, þeirri hugsun eiga sumir enn erfitt með að kyngja.

Í sjálfu sér er það ákveðin hughreysting að vita að einhver stjórnmálamaður telji tillögur stjórnlagaráðs “draga um of taum einkaeignarréttarins”. Það segir manni að maður hafi ekki verið alveg slefandi í vinnunni þegar þessar tillögur voru samdar. En það er ekki gott að vita að á þingi og í ríkisstjórn sitji menn sem telji að þeir geti ekki náð sínu fram í stjórnmálum, nema að hefðbundin mannréttindi, sem eru hornsteinn velmegunar í okkar heimshluta, verði verulega veikt eða afnumin.