Einnota plastrúllur í fjölnota taupoka

Kæra samfélag. Þú getur ekki bæði beðið mig um að kaupa ekki einnota plastpoka í búðum OG skyldað mig til að setja allt ruslið mitt í tunnuna í einnota plastpokum. Það meikar engan sens.

Empírísk rannsókn bendir til eftirfarandi.

a) Starfsmenn borgarinnar taka því ekki fagnandi að maður troði jólatrénu í tunnuna.

b) Starfsmenn borgarinnar gera ekkert í því þótt maður skeri jólatréð niður í búta og setji það í tunnuna í Bónus-pokum.

Og svo má kannski velta því fyrir sér hvort sé umhverfisvænna.

Innkauppokar eru notaði undir rusl. Ef ég hætti að kaupa innkaupapoka þá lendi ég í vandræðum því mig fer að vanta ruslapoka.

Ég get auðvitað leyst þetta með því að kaupa ruslaplastpoka í rúllum. Og borið þá heim í fína margnota taupokanum mínum.

Ég er Pólverji eins og þú ert að vestan.

Hvað er ég? Hve oft hef ég ekki farið í umræðu þar sem fólk reynir að komast að þessu fyrir mann?

Ég vil samt vera skýr. Mér er alls ekki illa við slíkar umræður, enda finnst mér, líkt og flestum, ótrúlega gaman að tala um sjálfan mig. En þetta byrjar á því að fólk spyr mig einfaldlega hvaðan ég sé. Ég segist vera fæddur í Póllandi. (Pólland 1 – Ísland 0). Þá spyr fólk mig hvenær ég hafi flutt til Íslands. Svarið er “átta ára”. (Áfram 1 – 0, ekki nógu afgerandi aldur). Svo spyr fólk mig hvort báðir foreldrar mínir séu pólskir. Þau eru það bæði (2 – 0 fyrir Pólland.) Við bætist að það var töluð pólska heima hjá mér (3 – 0).

En þá byrjar Ísland að raða inn mörkum. Fyrst segja sumir: “Það heyrist ekki neitt að þú sért ekki Íslendingur,” (3-1). Og svo er spurt hvort ég líti meira á mig sem Íslending eða Pólverja. Og þá fer ég stundum eins og köttur í kringum heitan graut, væli út af spurningunni, en kem því út á endanum að ég sé líklegast meiri Íslendingur þannig lagað (3 – 2). Og þá er boltinn sóttur í markið farið aftur í sókn. Ísland jafnar þá oft me einhverju eins og “Þú ert nú eiginlega alveg 100%” Íslendingur, fyrir mér, varstu ekki í MR og allt?”. (3-3, orðið jafnt).

Og eiginlega er það alveg rétt. Ég var fenginn til að skrifa stjórnarskrártillögu fyrir Ísland (4-3 fyrir Ísland) og skrifa vikulega í stærsta blað Íslands um íslensk þjóðfélagsmálefni (5-3). Pólland maldar stundum í móinn með því að benda á að ég hef búið í Póllandi nýlega (5-4) og tali meira að segja pólsku við börnin mín (5-5 jafnt aftur). Þá vill viðmælandinn ofast fá botn í þetta og spyr: Með hverjum heldurðu í handbolta/fótbolta?. Ég svara fyrst hinu augljósa að ég haldi með því liði sem spilar hverju sinni. En þá er bara spurt:

“En þegar Pólland og Ísland spila mætast í handbolta?”

“…”

“…”

“Íslandi.”

(6-5)

Til að summera þetta upp. Ég er líklega, á margan hátt álíka mikill Pólverji og margir Reykvíkingar sem segjast vera “að vestan”, “að norðan” eða “úr Eyjum”. Ég samsama mig einhverju svæði. Ég á þar fjölskyldu. Mér er annt um að þar gangi allt vel. Ég fer þangað oft á sumrin og mig dreymir um að flytja þangað, sérstaklega þegar ég er drukkinn. Þó ég viti stundum ekki alveg hvað ég ætti að vera að gera þar.

Í Bandaríkjunum segjast menn gjarnar vera “einhverslenskir” Bandaríkjamenn. Mjög margir Bandaríkjamenn eru pólskir, ítalskir, eða kínverskir en eru samt bara ógeðslega miklir Bandaríkjamenn. Kannski verður þetta svona á Íslandi einhvern tímann. En kannski mun fólk ekki sleppa við það að vera krafið um það að “þurfa velja” í bráð. Af ýmsum ástæðum höndla Norðurlandabúar fjölhyggju örlítið verr en Bandaríkjamenn. En meira um það síðar.

Sjálfskoðun í þrívídd

Djöfull verður gaman þegar almennilegir þrívíddarskjáir detta á markaðinn.

Jólin nálgast óðfluga. (Já, fýlupúkarnir ykkar.) Jólin eru gjarnan tími sjálfskoðunar. Um seinustu jól skoðaði ég sjálfan mig í endurvarpi á skjá á lítilli leikjatölvu sem ég hafði fengið í jólagjöf.

Spegilmyndin var auðvitað þrívíð, eða virkaði þrívíð í það minnsta. Góður spegill er eins framlenging á raunveruleikanum, þess vegna má sjá stundum sjá fólk sem er utan við sig rekast á vel pússaða spegla. Og þess vegna setja menn spegja á herbergi til að láta þau líta út stærri en þau eru. Speglar eru þrívíddarskjáir. Vissulega takmarkaðir sem slíkir því þeir sýna bara það sem þeir sjá.

Tölvan sem ég fékk var raunar eins konar þrívíddartölva. Ef maður stingur hausnum á sérstakan stað, stillir einn rofa og heldur höfðinu sæmilega kyrru fær maður einhvers konar þrívídd. Þetta virkar í raun þannig að út hverjum pixel berast tveir straumar af ljóseindum. Einn í hvort augað. Heilinn lætur stundum platast.

En þetta er ágætt. Nú erum við komnir með skjái þar sem hver ljóspunktur getur sent ljóseindir í tvær áttir. Einhvern tímann á næstu árum verðum við þá komnir með skjái þar sem hver punktur getur sent ljóseindir í hvaða átt sem er, allan hringinn. Þar með fáum við skjái sem eru jafngóðir í að feika þrívídd og speglar. Djöfull verður það kúl.

Ég sé fyrir mér stóran vegg í einhverju malli þar sem menn feika þrívíddarmynd af öðrum stað í heiminum. Barn í Reykjavík veifar til barns í Kuala Lumpur. Allt í þrívídd. Djöfull verður það kúl.

Litli fuglinn

Einu sinni var lítill fugl. Litli fuglinn elskaði allt sem var lítið. Hann elskaði skoða lítil blóm, að hreiðra um sig í lítlum trjám og að borða litla orma. En mest af öllu elskaði litli fuglinn lítil ríkisafskipti. Hann kallaði sig oft frjálshyggjufugl, og hann dreymdi um heim þar sem hið opinbera væri lítið. Jafnlítið og hann.

Litli fuglinn var samt ekki lítill í anda. Eins og aðrir litlir fuglar elskaði hann að fljúga. Hann flaug oft, mikið og hátt. Og þegar litli fuglinn flaug hátt þá sá hann jafnvel stærstu hús urðu lítil, rétt eins og hann. Þetta gladdi mjög lund litla fuglsins. Að sjá að ekkert væri stórt eða lítið í sjálfu sér, heldur væri allt spurning um sjónarhorn.

Litli fuglinn hóf sig oft til lofts á rúmgóðum grasbala, rétt hjá hreiðrinu sínu. Hann elskaði þennan grasbala. Þetta var grasbalinn hans. Hann var auðvitað ekki “hans” í eignarréttarlegum skilningi. Í raun og veru átti hið opinbera balann. En þetta var samt eiginlega grasbalinn hans. Ég meina, hann bjó nálægt honum og notaði hann í það sem hann elskaði mest. Þannig “hans”.

En dag einn ákvað hið opinbera að selja grasbalann og leyfa einkaaðilum að byggja þar hús. Það fannst litla fuglinum bæði vont og leiðinlegt. Ekki bara út af sér heldur líka út af öðrum fuglum sem þurftu að nota grasbalann eins og hann. Í því augnabliki gleymdi fuglinn því að hann vildi hafa ríki lítið og vildi hann hafa grasbalann í almannaeigu, til að markaðurinn léti hann í friði. Og til þess að hann og aðrir litlir fuglar gætu notið hans, flogið um frjálsir og stórir.

Því kannski þótti litla fuglinum þrátt fyrir allt ekki svo mikilvægt að ríkið gerði lítið, heldur að ríkið gerði lítið fyrir aðra. Aðra en litla fugla eins og hann. En þótt einhver gæti haldið að þetta sé skrifað litla fuglinum til háðungar, þá er það ekki svo. Því ég skil ágætlega að litlir fuglar vilji fá að fljúga um frjálsir, helst með sem minnstum tilkostnaði. Og auðvitað þykir mér vænt um fugla. Líka þessa smáu.

Þökk sé ferðamönnum

“Borgarbragurinn í Reykjavík ber fless glögg merki, að fjöldi erlendra ferðamanna heimsækir okkur þessa dagana. Fjölmennastir eru þeir hópar, sem koma með skemmtiferðaskipum. Svo mjög hafa þessir hópar sett svip á bæinn, að suma daga hefir virzt sem annar hver maður sem maður sér í miðborginni sé útlendur ferðamaður.”

Umræddur texti er fenginn úr blaðinu Vísi og birtist hann 13. júlí 1967. En ekkert, að zetunni undanskildri hindrar að hann hefði getað birst [birzt] í dag. Sé hangið á timarit.is má sjá sömu þemu sem endurtaka sig ár eftir ár þegar rætt er um fjölda ferðamanna: 1) Menn undrast hálfpartinn á því fyrir sér hve margir ferðamennirnir seú orðnir. 2) Menn fagna gjaldeyristekjunum. 3) Hafa áhyggjur af átroðningnum á helstu nátturuperlur.

En fjöldi erlendra gesta á Íslandi hefur samt tuttugufaldast frá því að að orðin að ofan voru sett á blað: Sjá hér: http://data.is/14IjiNh
***

Ég var að hanga með sonum mínum á túni í Hlíðunum þegar ég sá nokkra menn, karlmenn á miðjum aldri í labbitúr. Þeir fylgdust með tilraunum okkar til að að skjóta teygjutrekkjarðri leikfangaflugvélinni sem lengst yfir grasbalann. Þeir skiptu á milli sín nokkrum, sæmilega hlýjum orðum, um þessa iðju okkar. Á íslensku.

Ég fór að hugsa… Hvernig þekkir maður útlending í Reykjavík? Jú, hann er labbandi. Jú jú, svo er hann líka oft með bakpoka og stundum með landakort. En þó hann glápi ekki á götuskilti þá er hann oft auðþekkjanlegur engu að síður. Því hann labbar í stað þess að keyra.

Maður hefur vissulega séð Íslendinga skokkandi eða hjólandi. Stundum má sjá íslenskar mæður og íslenska feður með barnavagna eða íslensk hjón í labbitúr.Einstaka sinnum má sjá Íslendinga með innkaupapoka, en bara niðri í bæ. En fjórir fertugir edrú íslenski karlmenn í Hlíðunum. Það er nýtt.

Þetta fær mann reyndar til að átta sig á því þvílík vítamínssprauta fyrir allt mannlíf ferðamenn geta orðið. Þeir labba í stað þess að keyra. Þeir borða á veitingastöðum. Þeir skoða söfn. Þeir versla mat í allt of dýrum búðum. Og stundum gera þeir kröfur um að eitthvað sé smekklegt. Sem er gott.

Það eru ekki mörg ár síðan þeir sem ferðuðust um Ísland gátu helst valið um það hvort þeir vildu fá kokteilsósu með hamborgaranum eða ekki. Þetta horfir nú allt til batnaðar. Á Ísafirði, þar sem þessi orð vpru skrifuð, taldi ég minnst sex veitingastaði. Svona með staði vínveitingaleyfi og kvöldmatseðil. Það er mjög jákvætt.

Í Reykjavík keyrir djammlífið nú á tveimur vöktum. Margir Íslendingar mæta, líkt og áður, ekki í bæinn í þann fyrr en RÚV spilar útvarpsfréttir í dagskrárlok. En sé Laugavegurinn genginn um sjöfréttaleytið má sjá hóflega drukkið fólk í flís og polýester leitandi að hótelinu sínu eða pítsusneið.

Ég segi: “Takk, ferðamenn”. Og þá meina ég ekki fyrir gjaldeyrinn. Nóg er röflað um þennan fríkings gjaldeyri. Takk fyrir að gera Ísland örlítið meira klassý.

Takk M.

Það er afgreiðslukona í Bónus í Kringlunni sem raðar alltaf í poka fyrir mig. Svona eins og gert er í Ameríku. Hún leggur sig líka fram við að tala við útlendinga á ensku. Hún býður alltaf góðan daginn og kveður alltaf líka. Ég veit ekki hvort hún sé alltaf glöð, en hún brosir allavega þegar viðskiptavinir eru nálægt.

Einhvern veginn hefur þessi afgreiðslukona ákveðið að leggja á sig aukakrók til að láta manni líða betur. Því manni líður sannarlega betur ef maður lætur einhvern hafa pening og finnst að einhver kunni að meta það. Ég segi ekki að ég vísvitandi raði mig í röðina á kassann sem hún afgreiðir, maður vill ekki vera krípí. En ég er alltaf glaður ef það lendir þannig.

Kannski er hluti af ástæðu þess að fólk endist ekki lengi í afgreiðslustörfum að menn haldi að það kunni enginn að meta störf þess og að eigendur verslana átti sig ekki nógu vel á hve miklu góður afgreiðslumaður skila í kassann. Þess vegna ætla ég að óska öllu afgreiðslufólki til hamingju með daginn. Og þá sérstaklega þessari vingjarnlegu konu í Bónus í Kringlunni. Sem raðar svona fallega í poka fyrir mig.

Hægrimenn enn til hægri, þrátt fyrir hrun!

Að hægrimenn séu enn hægrimenn… leggjandi áherslur á hægrimál eins og breytt rekstrarform stofnana og niðurskurð ríkisútgjalda og einstaka skattalækkun. Fráleitt, veit fólk ekki að hér varð hrun?

Nei, grínlaust, þetta eru seríös umræður. Hvernig almannafé sé best varið og hvernig við fáum bestu heilbrigðisþjónustuna og hvernig við getum haldið áfram að veita hana þegar útgjöldin vaxa (sem þau munu gera, þjóðin mun eldast). Mér finnst leiðinlegt að afgreiða þau með facebook-statusum á borð við „ætlar nú silfurskeiðabandalagið að endurtaka leikinn?“. Það er ekki þannig að öll lönd heims hafi nú ákveðið að segja öllum einkarekstri stríð á hendur, út af bankakreppunni.

Mér finnst ýmislegt benda til að ríkisrekið heilbrigðistryggingakerfi sé ekki algalin hugmynd. Ég sé alla vega ekki að kerfi þar sem kostnaðinum við heilbrigðistryggingar sé velt á vinnuveitendur, líkt og víða er tilfellið á meginlandinu, hafi kosti framyfir hið norræna módel. En ég er ekki sannfærður um að tryggingar þurfi að bera allan kostnað af heilbrigðisþjónustunni, né heldur að sá sem hana veitir þurfi að vera opinber aðili.

Ég hef gaman af stjórnmálum. Þess vegna finnst mér leiðinlegt þegar menn ráðast á fullkomlega heilbrigðar og þekktar stjórnmálahugmyndir: skattalækkanir, aðhald í ríkisrekstri og einkarekstur, eins og um væri að ræða hið allra versta og öfgafyllsta. Mér leiðast svona skopmyndarökræður. Ef mönnum finnst svona svaka vond hugmynd að einkaaðilar lækni fólk þá verð ég að segja eins og Wikipedia: citation needed.

„Réttlætisþörf“

Dómsmál, sérstaklega þau sem varða ógeðfelld mál vekja stundum verri kenndir í okkur öllum. Allt í einu margt að snúast um að þolendum sé bætt tjón þeirra, að þeir sem afbrotin fremja valdi ekki fleirum skaða eða að þeir sem afbrotin fremja verði gerðir að betra fólki. Nei, „réttlætisþörf“, það fer allt að snúast um réttlætisþörf.

Því miður er ég ekki saklaus af þessu. Skrifaði eitt sinn heila grein um að hverju rangt væri að telja að AB Breivík væri geðveikur. Því það myndi ekki uppfylla *mína* þörf fyrir réttvísi. Lágpunkturinn á ritferlinum. http://visir.is/alveg-klikk/article/2011712029989.

Þurfi að svara sjálfum mér hálfu ári síðar, þegar maður var kominn í andlegt jafnvægi. http://visir.is/ad-thurfa-ad-hefna/article/2012706159989.

Ég ætla ekki að pranga mínu neinu upp á neinn. Brenndur af eigin mistökum, ætti kannski bara að halda mér saman. Menn verða kannski að fá að rasa út og sjá eftir því síðar, eða ekki. Kannski samt ágætt að menn spyrji sig: „Hverju er ég að tala fyrir? Bættu tjóni fórnarlamba? Öryggi annarra borgara? Betrun brotamannanna?“ Og ef engu af þessu, hverju þá? Og af hverju?

Besta gjöfin

Enginn hefur kallað mig frjálshyggjusauðnaut í nokkrar vikur, gera þarf bragarbót á því. Meðan ég man: Besta gjöfin sem hægt er að gefa annarri manneskju: Peningar.

Það kannast flestir við það að fá pening að gjöf. Maður veit stundum ekki alveg hvað maður á að gera við þá tilfinningu. Einhvern veginn þykja peningagjafir samfélagslega iffý. Hvers vegna? Kannski finnst fólk að sá sem gefur hafi ekki nennt að spá í hvað manni líkar, eða ákveðið að færa vinnuna við að velja gjöfina yfir á mann sjálfan. Jájá, kannski eru þetta valid punktar.

En samt. Þetta eru peningar. Hvenær á maður of mikið af þeim? Hvenær hefur fimmþúsundkallinn sem amma gaf manni hafi legið ónotaður fram til vors? Hvenær gerðist að maður ætlaði að skipta peningunum í peninga sem maður fílaði betur en beið of lengi og er nú of seinn? Hver kannast svo við peninga sem manni líkaði illa við en kunni ekki við að henda til að særa ekki tilfinningar þess sem gaf manni þá? Eða fékk tvo eins peninga (vandræðalegt!) og sat uppi með báða.

Hugsum þetta líka frá annarri hlið. Hverjum myndi maður sjálfur ekki gefa pening í jólagjöf? Fíklum, spilafíklum, fólki “í ruglinu”. Sá sem gefur þér peninga segir því :”Ég þekki þig kannski ekki nógu vel til að vita hvort þú fílir Ásgeir Trausta eða ekki, en ég veit að þú ert engin hálfviti og munt eyða þessu í það sem þú heldur að komi þér best, án þess að valda sjálfum þér eða öðrum skaða.”

Það er gott að fá traust í skóinn.

Ég ættingja í Póllandi sem gefur mér stundum gjaldeyri þegar við hittumst. Lengi voru það dollarar en á seinustu árum eru það evrur. Mér þykir mjög vænt um það þó ég “þurfi” auðvitað ekki á því “að halda”. Kannski þykir mér svona vænt um það vegna þess að eðli gjafarinnar er þannig að ég get fengið sömu gjöf reglulega án þess að hún nýtist einhvern tímann verr. Og líka það að í hugum einhvers er ég áfram barn sem hefur gaman að fá pening til að geta keypt sér dót. Og jólin eru, jú, hátíð barnanna.

Rétta röðin

Þar sem ég beið í prófkjörsröð benti kona á fjögurra ára gamlan son minn og sagði: “Duglegur að bíða í röð þessi.” Skömmu síðar rann það upp fyrir mér að ég hef aldrei verið fjögurra ára að bíða með foreldrum mínum eftir að fá að kjósa. Þeirra biðraðir voru flestar eftir skömmtunarmiðum.

Maður yrði þreytandi ef maður gerði ekkert nema að þakka fyrir það sem er sjálfsagt og minna aðra á að þakka fyrir það sama. En það er allt í lagi að gera það stundum: Vera þakklátur fyrir að fá að kjósa og fyrir að fá að kaupa nautahakk án skömmtunarmiða. Það rifjar það líka upp að ekkert er sjálfsagt nema að þeim finnist það sjálfsagt sem því ráða. Mér finnst til dæmis sjálfsagt að kaupa kjöt frá útlöndum og bjór í búðum. En það er ekki öllum sem finnst það sjálfsagt.

Í prófkjörinu kaus ég Teit Björn Einarsson, skólabróður minn og félaga hér á Deiglunni. Um langflest erum við Teitur sammála þótt einstaka hlutir falli í annan flokk. En við erum alltaf sammála um það sem er og á að vera sjálfsagt. Þess vegna kaus ég hann. Það var sjálfsagt.

Ég hef kosið í á þriðja tug lýðræðislegra kosninga frá því að ég hef mátt það. Á mínum aldri höfðu foreldrar mínir líklegast ekki kosið í neinni slíkri. Ég verð þess vegna alltaf glaður þegar ég fæ að henda seðli í kassa og veit að hann verður talinn. Því það er svo sjálfsagt, en samt ekki.