Ríkisstjórnin metnaðarlaus í innflytjendamálum

Forsíða stjórnarsáttmálans: Fornar vættir sem verja landið fyrir utanaðkomandi ógn.

Ríkisstjórnin fer svo sem ekki af stað af miklum hraða. Þingmannamál, sem venjulega þarf að semja um með kjafti og klóm um að fái að komast að, rúlla nú í gegnum fyrstu umræðu og inn til nefnda, vegna þess að lítið kemur frá stjórninni.

Ef fyrstu dagarnir eiga að vera einhver vísbending um framhaldið getum við í besta falli búist við óbreyttu ástandi í innflytjendamálum á næstu árum. Tökum dæmi:

Kosningaréttur

Íslendingar eru eftirbátar hinna Norðurlandaþjóða þegar kemur að kosningarétti útlendinga í sveitarstjórnum. Ég lagði til á seinasta kjörtímabili fram frumvarp sem hefði lagað þetta. Því var vísað til ríkisstjórnarinnar. Nú hefur ríkisstjórnin (nýja) lagt fram þingmálaskrá sína og ekkert slíkt frumvarpið er ekki að finna þar. Það þýðir að þetta verður þá ekki gert fyrir kosningarnar í vor. Þá liggur þessi afstaða ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir.

Vörn gegn mismunun

Ísland er eitt af fáum ríkjum sem er ekki með heildstæða löggjöf um mismunum vegna uppruna eða kynþáttar. Tvö frumvörp (1, 2) sem myndu laga þetta eru tilbúin. Ef Ásmundur Einar hefði áhuga á málaflokknum þá væri hann löngu búinn að dúndra þeim inn til þinglegrar meðferðar. Þetta eru dæmigerð mál sem þurfa ekki að vera mjög umdeild en taka hins vegar mikinn tíma hjá nefndum þingsins. Tími nefnda er takmarkaður og verður takmarkaðri eftir því sem nær líður þinglokum.

Nú væri kjörið til að nýta ládeyðuna í þinginu til að láta allsherjar- og menntanefnd taka snúning á þessu. En nei, það var ekki nýtt og líkurnar á samþykkt málanna minnka með hverjum deginum sem líður. Annað svona tækifæri kemur ekki. Á næsta þingi, næsta haust, verða allir ráðherrar líklega tilbúnir með málabunkann sinn og þingið mun hafa nóg að gera. Og þá fara þessi mál aftur aftast í röðina.

Réttindi ósérhæfðs starfsfólks

Þótt Ísland sé opið fyrir íbúum EES-svæðisins er í raun nánast útilokað fyrir fólk án tengsla við Ísland að flytja til landsins frá öðrum löndum nema að menn séu með eitthvað doktorspróf í verkfræði, og jafnvel þá er það ekki auðsótt. Eina leiðin sem er fær þar fyrir utan er í gegnum hælisleit eða sambærilegar gáttir. Það þarf einfaldlega að stokka upp í þessu kerfi, setja upp eitthvað fyrirkomulag sem myndi gera venjulegu fólki mögulegt að flytja til Íslands, hugsanlega þá með einhverjum kvótum.

Síðan þarf að breyta lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Þau binda rétt starfsfólks allt of mikið við vinnuveitendur, banna útlendingum að stunda eigin rekstur fyrstu árin, torvelda vinnu námsmanna óþarflega mikið og svona mætti lengi telja. Það stóð til að fara í þennan málaflokk og það var komið á þingmálaskrá hjá Þorsteini Víglundssyni, en ekkert slíkt er að finna í á þingmálaskráni hjá Ásmundi Einari.

Ég efast um að nokkuð verði gert í þessum málum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þau í VG hafa aðeins áhuga á málaflokknum út frá sjónarmiði “félagslegs undirboðs” og þess háttar nálgunar. Það er í raun ekkert annað en gáfumannslegri leið til að vekja upp einhverjar “THEY TOOK OUR JOBS” tilfinningar. Niðurstaðan verður alltaf sú sama: meira eftirlit, meira vesen fyrir útlendinginn.

Ríkisfangsleysi

Búið er að setja fram frumvarp um ríkisfangsleysi að nýju. En nú er búið að troða í það alls kyns fyrirvörum til að koma til móts við andúð vinstrigrænna á staðgöngumæðrun. Það má nú taka þá umræðu út af fyrir sig, ég hallast að því að þar eins og víða annars staðar er regluvæðing betri en bann, hins vegar getur maður vel verið á annarri skoðun án þess þó að vilja beita fyrir sér ríkisfangsleysi barna í baráttu fyrir henni.

Námsmenn

Loks má nefna, til að gæta sanngirnis, að ríkisstjórnin vissulega tryggði námsmönnum í iðnámi rétt til dvalarleyfis sem útlendingayfirvöldin vildu meina að hafi verið felldur út fyrir mistök. Það var vissulega bara verið að laga villu en það var samt gert. Um leið lögðu nokkrir þingmenn til að námsmannaleyfi veittu leyfi til að taka með sér börn en ekki féllst stjórnin á það að sinni, þótt sátt hafi náðst um að minnast á þetta í nefndarálit og beina því til ráðherra að leggja slíkt til hið fyrsta. Ég læt það koma mér þægilega á óvart ef  af þessu verður.

Að lokum

Stjórnarsáttmálin sjálfur er fáorður þegar kemur að útleningamálum. Eina efnisgreinin um málaflokkinn talar fyrst og fremst um málefni flóttamála. Henni lýkur svo með setningunni:

Þverpólitískri þingmannanefnd verður falið að meta framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoða þau.

Þetta er látið hljóma eins og þetta snúist um að “fara með útlendingalögin í ástandsskoðun” og “laga svo það sem er að”. En þetta snýst um pólitík. Annað hvort vilja menn að það sé auðveldara fyrir fólk frá öðrum löndum að flytja til Íslands eða að það sé erfiðara. Endurskoðun endurskoðunar vegna er einskis virði, og oft verri en engin endurskoðun því þá taka tæknimennirnir bara völdin. Til að vit sé í endurskoðun þarf hún að byggja á einhverri sýn um hvert menn vilja stefna. Í tilfellli þessarar ríkisstjórnar er það óljóst, í besta falli.

Leave a Reply

Your email address will not be published.