Nei, við erum ekki öll að fara verða atvinnulaus á næstunni

Ég fer út að labba. Á jarðhæðinni er kona að þrífa sameignina. Frá Póllandi. Ég geng framhjá byggingarsvæði. Annar hver maður talar erlent tungumál. Ég kaupi kaffi af útlendingi. Og labba aftur heim, framhjá hótelum sem útlendingar byggðu og útlendingar vinna á.

Samtök atvinnulífsins segja að við þurfum mörg þúsund manns frá útlöndum til að viðhalda hagvextinum. Yfirvöldin í Póllandi biðja fólk um að koma heim. Fólkið sem þrífur hús, byggir þau og selur kaffi.

Á sama tíma er fólk alltaf að segja mér að gervigreindin, seytjánda iðnbyltingin, vélmennin og allt  það muni gera alla atvinnulausa. Þess vegna þarf sem fyrst að velta því fyrir sér hvernig við getum borgað fólki fyrir að gera ekki neitt til bregðast við því þegar enginn mun lengur gera neitt gagn.

Höfum eitt á hreinu. Menn þurfa ekki að vera bestir í heimi til að gera gagn.

Tökum dæmi: Fjölskylda tekur saman. Litla barnið er látið taka saman kubba. Litla barnið er ekki BEST í að taka saman kubba, aðrir gætu gert það hraðar, en litla barnið er hlutfallslega betra í því en að til dæmis að þrífa klósettið. Þótt tölvur munu verða betri í að gera sumt verður mannfólk hlutfallslega best í einhverju.

Ég trúi því ekki hálfan helming að við séum nálægt því að mannfólk verði ekki til neins gagns. Jú, störf munu hverfa og sumir eiginleikar verða minna eftisóttir. Kannski verða gáfur minna  eftirsóttar en áður? Undanfarna áratugi hefur verið mjög gott að vera klár. Góðir námsmenn fá góða vinnu og fullt af pening í kjölfarið. Kotbóndi á miðöldum eða hermaður í málaliðaher höfðu lítið upp úr gáfum að hafa. Þá var betra að vera lágvaxinn og sterkur frekar en klár.

Þrátt fyrir endalausa spádóma um annað sýnist mér þvert á móti ekkert benda til þess að öll “einföldu” þjónustustörfin séu að hverfa. Hvernig væri ef fólk mundi frekar horfast í augu við þann möguleika að störfin sem eru í hættu séu ýmis hátt launuð sérfræðistörf sem hingað til hafa krafist háskólamenntunar?

Málið með margar tæknilausnir er að þær  skala ansi vel. Það vinna 17 þúsund manns hjá Facebook. Ekki nema lítill hluti þeirra eru forritarar. Sölumennirnir eru miklu fleiri. Þannig er það hjá langflestum tæknifyrirtækjum.

Ég er með þrjá spádóma.

  1. Stórkostlegt atvinnuleysi vegna tækniframfara er ekki á næsta leyti. Ef svo væri væri þessi þróun þegar hafin. Ekkert bendir til þess að tenging sé milli atvinnuleysis og sjálfvirknivæðingar.
  2. Störfin sem eru í mestri hættu eru ekki einhæf störf sem krefjast ekki sérmenntunar. Aftur: Ef  þú ert að leita þér  að starfi í afgreiðslu, umönnun, við þrif eða verkamannavinnu þá er nóg að gera í þeim brönsum.
  3. Þegar gervigreindin nær á næsta stig mun skipta meira máli að vera skemmtilegur en klár.

Skildu eftir svar