Munið að reykja um jólin

CC-BY-SA 2.0: Jesse Millan

Sú var tíðin að fjölskyldur settust saman eftir jólamáltíðina og allir sem fermdir voru fengu sér vindil. Nú er þessi siður að deyja út. Sérstaklega hjá börnum og ungu fólki. Þrátt fyrir miklar herferðir um félagslegt mikilvægi jólareykinga í þágu varðveislu íslensks menningararfs kemur í ljós að einungis annar hver Íslendingur á  aldrinum 14-23 ára fær sér vindil á jólunum.

Hvað er til ráða? Eigum við að fá tónlistarmenn og þekkta leikara til að birta myndir af sér með vindil við jólatréð? Búa til tónlistarmyndband? Starta samfélagsmiðlaherferð með myllumerkinu #ÉgReykiJólinInn?

***

Ef þetta væri raunverulegt “vandamál” þá væri augljóst hver undirliggjandi skýringin væri. Reykingar í samfélaginu hefðu almennt dregist saman, vegna breyttar menningar, breyttra reglna og almenns áróðurs. Það gengi ekki að senda út tvenn, algerlega andstæð, skilaboð: Að reykingar væru ógeðslegar og óhollar og að á jólunum væri skylda hvers manns að stunda þær.

Þetta er svipað með kosningaþátttöku ungs fólks. Pólitík er sögð ógeðsleg og stjórnmálamenn óheiðarlegir og spilltir… en það er samt af einhverjum ástæðum sagt gríðarlega mikilvægt að veita þeim sterkt umboð á fjögurra ára fresti. Annars gerir einhver annar það!

Segjum að ungliðahreyfing Viðreisnar ætlaði sér að halda fund í einhverjum framhaldsskóla um Evrópustefnu flokksins. Fundurinn yrði í aðalsal skólans að loknum skóladegi, formaður flokksins Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir myndi ávarpa fundarmenn í og svo væri tekið við nýskráningum.

Ég þykist vita, hafandi starfað í pólitísku ungliðastarfi þorra ævi minnar, að þessi fundur yrði aldrei haldinn. Skólameistari myndi sko aldrei leyfa svona “pólitískan áróður” í skólanum. En ef skólameistarinn hefði misst af fundarboðinu þá myndi hann fá hringingar frá áhyggjufullum foreldrum “barnanna”, sem myndu segja að “pólitískur áróður ætti ekki heima í skólahúsnæði”

Og þannig er þetta. Það er ekki til það nafnorð sem ekki fær á sig neikvæðan blæ við það að pólitískt sé skeytt framan á það. Og það er reynt að verja fólk frá pólitík. Sérstaklega ungt fólk. Því það er svo viðkvæmt.

Ég er efins um að herferðir þar sem ungt fólk er kvatt til að kjósa, bara til að kjósa eitthvað, skili sínu. Til að fólk kjósi frekar þarf einfaldlega meiri og háværari pólitískan áróður og öflugri stjórnmálaflokka. Og ef við ætlum að senda þau skilaboð að lýðræði sé gott og skipti máli þá verðum við líka að standa við þau skilaboð þá daga sem ekki er kosið.

Leave a Reply

Your email address will not be published.