Nei, það verður ekki frítt að fljúga

Ég fíla lággjaldaflugfélög. Það er þeim að þakka að flugmiðar eru svipað dýrir í krónum talið og þeir voru fyrir 30 árum. Þá ferðaðist maður einu sinni á ári, fékk máltíð, tók með sér tvær töskur, fékk frítt Morgunblað og leið eins og smákóngi í nokkra tíma. Enda borgaði maður líka fyrir það.

Svo komu lággjaldaflugfélögin og maður fór að ferðast eins og í rútu með vængi en borgaði líka eins og fyrir rútu með vængi. Og allt þetta er bara fínt. Mér finnst heiðarlegt að þeir sem þurfi tvær töskur borgi meira ein þeir sem þurfi enga og að þeir sem drekki engan bjór borgi ekki bjórinn fyrir þá stúta fjórum á fluglegg.

Einu sinni kom SouthWest og gerði allt vitlaust í Bandaríkjunum. Svo kom Ryanair og hermdi eftir SouthWest í Evrópu. Svo herma öll þessi félög hvert eftir öðru.

Lykillinn að því að reka lággjaldaflugfélag er að bjóða ódýr flug (augljóslega) ásamt því að troða sér í fjölmiðla með yfirlýsingum sem leggja áherslu á að hve ódýr maður er.

Michael O’Leary hjá Ryanair er snillingur í þessu.

“Ryanair ætlar að rukka fyrir klósettin.”
“Ryanair ætlar að láta fólk standa.”

Það skipti engu máli hvort Ryanair hugðist eða gat gert þetta. Þetta festi ímyndina um flugfélagið sem fór ótroðnar slóðir til að lækka verð. Þetta var fín ókeypis auglýsing.

Eitt af því sem maður heyrir reglulega frá lággjaldaflugfélögum er fullyrðingin: “Í framtíðinni verður ókeypis að fljúga.” Einhver annar muni borga flugið. Hóteleigandinn á Alicante mun borga flugið. Ferðamaðurinn sem kaupir sér vatn og sígarettur mun borga fyrir flugið.

Með fullri virðingu, þá hef ég enga trú á að það verði ókeypis að fljúga. Ef markaðurinn er heilbrigður þá verður vonandi mjög ódýrt að fljúga og það er ekki útilokað að menn gefi sum sæti í kynningarskyni.

En ef markaðurinn verður heilbrigður og einvher reynir að reka flugfélag með því að rukka nógu mikið fyrir valkvæða viðbótarþjónustu þá fer valkvæða viðbótarþjónustan að verða ansi dýr. Og þá hættir fólk að velja hana, sleppir handfarangri, smyr nesti. Og flugfélagið fer að tapa. Til lengdar getur engin rekið fyrirtæki með því að gefa hluti.

Þannig að gleðjumst yfir uppgangi lággjaldaflugfélaga. Gleðjumst yfir samkeppninni. En það verður ekki ókeypis að fljúga. Þeir sem halda hinu fram eru bara að leita að ókeypis auglýsingu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.