Hættulegra en MMA

Höf: Adha65 CC-BY-SA 3.0

Hópur pólskra fjallgöngumanna ætlar að klífa K2 næsta vetur. K2 hefur aldrei áður verið klifið að vetri til. Fjallið er eitt það hættulegasta í heimi en dánartíðnin á því er um 25%. Vetrartilraunir eru vitanlega enn hættulegri.

Við getum því varlega áætlað að líkurnar á því að drepast við það að reyna sigra K2 að vetri til séu nálægt 30-40%. Bardagamaður sem færi í hringinn með þessum líkum væri ekki bardagamaður heldur skylmingarþræll. Samt gerir fólk þetta, af fúsum og frjálsum vilja. Og flestir aðrir mæta þessari fífldirfsku ekki bara af umburðarlyndi heldur beinlínis aðdáun.

Aðdáunin verður svo einna mest þegar einhver deyr.

Sjálfur er ég ekki undanskilinn. Hve oft hef ég ekki lesið um misheppnaða tilraun Mallory og Irvine til að komast á Everest tind? Hve oft hef ég ekki kynnt mér afrek Wöndu Rutkiewicz, fyrstu konu til að klífa K2, og dauða hennar? Hve oft hef ég lesið fréttir og skýrslur um Broad Peak harmleikinn 2013, þegar fjórir pólskir fjallgöngumenn sigruðust, fyrstir manna, á tindinum að vetri til, en tveir þeirra frusu í hel á niðurleið? Svarið er: Furðulega oft.

Mannkynið hampar þessum dauðaslysum, gerir úr þeim hetjumyndir og allt þetta eykur áhuga á þessari háfjallamennsku frekar en hitt. Hnefaleikar eða MMA kalla ekki á sömu viðbrögð. Sumum finnst nóg að sjá slíkan bardaga til að vilja banna hann. Dauðdagi í tengslum við bardaga styrkir þá bara í trúnni um að það sé rétt afstaða.

Kannski finnst einhverjum munurinn felast í markmiðinu. Markmið með blönduðum bardagaíþróttum eða hnefaleikum sé, á einhvern hátt, að meiða. Markmiðið með fjallgöngu sé að klifra upp á fjall. En það er samt þannig að í báðum tilfellum hafa menn sannmælst um að sumar hefðbundnar siðferðisreglur gildi ekki. Í hringnum kýla menn fólk í hausinn. Að sama skapi er sumt sem fólk gerir í 8000 m hæð þannig að það yrði örugglega fordæmt við sjávarmál.

Auðvitað á ekki að banna fullorðnu fólki að labba upp á há fjöll, jafnvel þótt áhættan er mikil. Það er ekki samfélagsins að hámarka lífslíkur fólks ef fólk sjálft hefur aðrar hugmyndir um hvað gerir það glatt. En í því ljósi er merkilegt hve mikið af öðrum áhugamálum fólk er til í að banna. Jafnvel áhugamálum sem eru mun hættuminni en það að reyna klifra upp á K2.

Skildu eftir svar