Þjónustan er ekki í boði fyrir þig, kennitöluleysan þín

Ég reyndi að borga fyrir bílastæði með símanum mínum í Kaupmannahöfn. Skilti á bílastæðinu bauð mér upp á þrjá möguleika.  Þrjú ólík öpp. „Æi gott, hugsaði ég. Eitthvað af þeim hlýtur að virka.“

Fyrsta appið var hægt að setja upp með því að senda sms með tilteknu orði á eitthvað símanúmer. Gerði það og fékk villuskilaboð til baka. Jæja…

Næsta app tókst mér að ná í og setja upp í gegnum Google Play Store. Og jafnvel að að opna það. En í innskráningarferlinu þurfti að slá inn símanúmer. Nokkrir landakóðar voru í boði, Danmörk og Svíþjóð og örfá önnur en Ísland ekki. Þannig að… Jæja tvö.

Þriðja forritið var ekkert að flækja málin. „This app is not available in your country.“ Og „mitt land“ var ekki landið sem ég var staddur í heldur landið sem stýrikerfið veit að ég bý í. Þannig að … Jæja numero tres.

Kortasjálfsalarnir virkuðu enn þá óháð þjóðerni svo þetta reddaðist, en djöfull er þetta orðið algengt. Maður vill kaupa einhverja þjónustu og byrjar að pikka inn óþarfa persónuupplýsingar einungis til að heyra „nei„.

Nei, vegna þess að forritarinn gerði ekki ráð fyrir að símanúmer gæti verið svona stutt eða vegna þess sá sem er að selja hafði ekki áhuga á markhópnum manns.

Þannig að menn biðja um kennitölur, símanúmer, póstnúmer og aðra eins dellu sem er algerlega óþörf fyrir viðskiptin. Stundum finnst mér þetta farið að líkjast eins konar stafrænu alþýðulýðveldi.  „Þú ert vissulega búinn að spara fyrir Trabantinum, en kvótinn fyrir háskólamenntaða í Leipzig er búinn fyrir þennan áratug.“

Þar sem ég þekki nokkuð vel til Danmerkur veit ég að Danir eru ansi slæmir með þetta. Þeim hefur tekist að gera almenningssamgöngur mjög óvinveittar útlendingum, þeir bjuggu til eitthvað sérdanskt „ferðakort“, meðan ferðamenn þurfa að staðgreiða allt. Mér tókst reyndar að kaupa einhverja afsláttarmiða í lestirnar gegnum app í fyrra en miðarnir „úldnuðu“ á einu ári. „Sorrý peningarnir þínir virka ekki lengur!“

Ekki hægt að leggja bíl með appi af maður er útlendingur

En nóg um Danmörku. Við erum sjálf örugglega litlu verri.

Hér er eitt skrefið í skráningarferlinu fyrir appið leggja.is, sem gerir fólki kleift að borga fyrir bílastæði með símanum.

Reyni maður að slá inn erlent bílnúmer koma villuboð „engar upplýsingar finnast um bílinn“. Þannig að ekki halda að þú getir tekið bílinn með Norrænu og borgað fyrir bílastæði í miðbænum með appi.

En tökum miklu algengara notkunardæmi: Ferðamaður á bílaleigubíl. Sá ferðamaður er með bíl með íslensku bílnúmeri en erlent símanúmer. Þá… nei… Það er ekki einu sinni pláss fyrir símanúmer með fleiri en 7 tölustöfum, hvað þá pláss fyrir einhverja landakóða.

En segjum nú að þessi erlendi ferðamaður, sé sjálfstætt starfandi nýsjálenskur ljósmyndari sem er hér verkefni í 2 mánuði og verður sér úti um íslenskt símanúmer. Þá kemst hann í gegnum þetta skref í skráningarferlinu en ekki mikið lengra því á næstu síðu er hann, að sjálfsögðu, að sjálfsögðu, beðinn um kennitölu. Ásamt, nafni, heimilisfangi og póstnúmeri.

Sko, ég get alveg skilið af hverju einhver myndi vilja hafa kerfið sitt tengt við þjóðskrá og ökutækjaskrá. Og leggja.is er bara fyrirtæki (líkt og dönsku fyrirtækin sem bjuggu til öppin sem ég reyndi að setja upp) sem ef til vill telur umstangið sem felst í því að selja kennitöluleysingjum þjónustu sína ekki fyrirhafnarinnar virði.

En ég get sagt að þegar ég lendi í svipuðu erlendis þá bölva ég hiklaust þarlendu samfélagi í heild sinni. Þó það sé kannski ósanngjarnt.

En samt: Ímyndum okkur að hlutur verslana í Kringlunni væri merktur með rauðbláum tígli, sem merkti „aðeins fólk með kennitölu má versla hér“. Væri það ekki frekar ógeðslegt?

 

Skildu eftir svar