Valdið sem felst í sannleikanum

“Vofa leikur nú ljósum logum í Austur-Evrópu, vofa sem á Vesturlöndum er gjarnan kölluð “andóf”.”

Þannig hefst ritgerðin “Vald hinna valdalausu” eftir Vaclav Havel, fyrrum forseta Tékklands og Tékkóslóvakíu. Havel skrifaði þessi orð í fangelsi, þar sem hann sat fyrir að hafa verið einn höfunda skjals sem á íslensku mætti kalla Stefnuskrá 77 (e. Charter 77).

Liu Xiaobo, kínverskur andófsmaður og friðarverðlaunahafi Nóbels, sem lést nú í vikunni var einmitt einn höfunda sambærilegrar kínverskrar kröfugerðar sem kallaðist Stefnuskrá 08. Sambærileg stefnuskrá var skrifuð í Hvítarússlandi. Allar eru þær keimlíkar, allar krefjast þær þess að grundvallarmannréttindi, málfrelsi, prentfrelsi og félagafrelsi, séu virt. Allar krefjast þær fjölflokkalýðræðis og markaðsumbóta.

Við tölum gjarnan um andófsmenn. En hvað er þetta andóf? Hverju er verið að andmæla og hverju skilar það?

Í raun má spyrja sig hvort andóf sé endilega réttnefni. Dæmigert lagahyggjulegt “andóf”, eins og það sem Havel og Xiabo stunduðu, og eins og það sem svokallaðir andófsmenn í Hvítarússlandi, í Íran og á Kúbu stunda enn snýst í raun ekki um að andmæla stjórnvöldum heldur að taka þau á orðinu. Láta eins og þau meini það sem þau segi.

Í bók eftir íranska mannréttindalögfræðin, Shirin Ebadi er mögnuð frásögn af því þegar eiginmaður hennar hringir í hana og segist hafa verið gripinn fyrir framhjáhald og hýddur. Hennar fyrsta spurning hver? Jú, hún spurði manninn sinn hvort böðullinn hafi haft Kóraninnum undir handarkrikanum til að milda höggið eins og honum bar að gera vegna aldurs hans.

Það er þetta sem hin raunverulega „lagahyggja“ gengur út á. Hún gengur út á þá hugmynd að öll lög, hvort sem um er að ræða írönsk sjaría lög, eða kínversk lög veita borgurum einhvern rétt, og oftast mun meiri rétt en valdhafarnir í raun kæra sig um.

Í 35. grein kínversku stjórnarskrárinnar segir til að mynda: “Borgarar Alþýðulýðveldisins Kína njóta málfrelsis, prentfrelsis, samkomufrelsis, félagafrelsis ásamt frelsi til í kröfugöngu og frelsi til mótmæla.”

Það er augljóst að ef þessi grein væri virk og virt þá myndi óháður dómstóll aldrei geta fallist á það að menn eins og Liu Xiaobo væru fangelsaðir fyrir það eitt að skora á stjórnvöld að gera land sitt betra.

Þó svo að hann hafi ekki haft sigur í þeim slag, að sinni, þá er ákveðinn sigur fólginn í því að lifa í sannleik og opinbera hann. Ævistarf Liu Xiaobo minnir okkur á að þrátt fyrir að lífskjör í Kína hafi vissulega batnað á seinustu árum þá er þar enn á ferðinni ríki þar sem stjórnvöld fangelsa fólk fyrir það eitt að láta sem þau réttindi sem þau sjálf segjast tryggja séu raunveruleg.

Skildu eftir svar