Væri áfengi leyft í dag?

Væri áfengi leyft í dag?

Þessi spurning er oft sett fram, gjarnan í skólastofu, í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar um skaðsemi áfengis.

Sá sem ber spurninguna upp er oftast að gera það til að fá fram „nei“. Að áfengi sé það skaðlegt að það væri galið að leyfa það í dag. Að líta megi á þá staðreynd að það sé enn leyft sem söguleg mistök.

Spurningin er alls ekkert úreld. Það er skammt síðan að þeir sem vildu svara henni neitandi urðu ofan á víða í Evrópu og Ameríku. Og langflestir eru enn sömu skoðunar þegar kemur að flestum öðrum vímugjöfum. Við skulum því reyna að svara henni. Mín skoðun er að það eigi ekki að banna áfengi.

Skorkort áfengis

Skoðum lauslega áhrif áfengisneyslu. Hófleg áfengisneysla hefur af sumum vera talin geta dregið úr líkum á hjartasjúkdómum, sykursýki, gallsteinum og stundum heilabilum. En áfengisneysla, sérstaklega óhófleg veldur líka margs konar skaða frá skorpulifur til allskonar krabbameins.  Þetta eru langtímaáhrif.  Flestir neyta áfengis vegna skammtímaáhrifa. Einbeitum okkur að þeim.

Hver eru skammtíma-kostir áfengisneyslu? Og, jú, áður en fólk hneykslast á þessu orðalagi þá er augljóst að fólk á leið í partí fær sér áfengi vegna þess að það telur að því fylgi kostir. Reynum að telja upp einhverja:

[table caption=“Skammtímaáhrif áfengis“]
Kostir, Gallar
Fólk verður félagslyndara
Hlutir virðast fyndnari
Fólk syngur frekar
Fólk slappar af
Nýjar tilfinningar koma fram
[/table]

En skammtíma-gallarnir eru svo sannarlega til staðar. Reynum því að bæta þeim við töfluna.

[table caption=“Skammtímaáhrif áfengis“]
Kostir, Gallar
Fólk verður félagslyndara, Skert hreyfigeta
Hlutir virðast fyndnari, Skert dómgreind
Fólk syngur frekar, Aukin ofbeldishneigð
Fólk slappar af, Ógleði,
Nýjar tilfinningar koma fram, Skert starfsgeta daginn eftir
,Of stórir skammtar lífshættulegir
[/table]

Ef við skoðum nú þessa töflu í heilu lagi þá getum við vissulega komist að þeirri niðurstöðu að aukaáhrifin í hægridálkinum séu of slæm til vega upp á móti kostunum í þeim vinstri. Og ef við erum stjórnlynt fólk þá getum við komist að þeirri niðurstöðu að réttast væri að banna allt áfengi út af því.

Ef áfengi væri krabbameinslyf

En bíðum aðeins. Framkvæmum smá hugartilraun. Ímyndum okkur að hægri dálkurinn lýsi ekki aukaverkunum af áfengisneyslu heldur aukaverkunum af lyfi við áður ólæknandi krabbameini.

Flestir myndu auðvitað láta sig hafa krabbameinsmeðferð sem hefðu sömu skammtímaafleiðingar og áfengisneysla (enda eru flestar lyfjameðferðir í dag síst skárri). Síðan myndu lyfjaframleiðendur bara vinna að því að milda þessar neikvæðu aukaverkanir.

Niðurstaðan yrði ekki að banna slíkt lyf.

Fólk mun sækjast eftir stundaránægju

Sama hvort okkur líkar betur eða verr þá sækist fólk eftir þeim áhrifum  sem áfengi veitir. Og, það sem meira er, fólk mun halda áfram að sækjast eftir þeim.

Verkefnið ætti ekki að banna hluti sem fólk sækist eftir heldur að bæta þá. Ímyndum okkur til dæmis að einhverjum tækist að búa til „áfengi plús“, sem myndi ekki valda þynnku, ekki valda ofbeldishneigð, ekki drepa fólk úr ofneyslu og hægt væri að taka töflu í lok kvölds og keyra heim. Við værum þá komin með töflu sem liti svona út:

[table caption=“Áfengi plús?“]
Kostir, Gallar
Fólk verður félagslyndara, Skert hreyfigeta (móteitur til)
Hlutir virðast fyndnari, Skert dómgreind (móteitur til)
Fólk syngur frekar, Ógleði
Fólk slappar af,
Nýjar tilfinningar koma fram,
[/table]

Ímyndum okkur öll þau ofbeldisverk sem hægt væri að koma í veg fyrir, öll þau slys sem hægt væri að hindra ef einhverjum tækist að búa til slíkt, endurbætt áfengi. Talandi ekki um ef unnt væri hindra þau skaðlegu langtímaáhrif á heilsu sem vitað er um.

En því miður má ætla að þróun á slíku endurbættu áfengi myndi mæta andstöðu fagfólks og stjórmálamanna.

„Unglingar fara að drekka þetta“.

„Fólk mun ekki kunna sér neins hófs ef þynnkan verður ekki til staðar.“

„Stökkpallur í harðari efni.“

Allt yrði þetta sagt.

Skilum syndinni til miðaldanna

Stór hluti fólk virðist hafa þá afstöðu að það sé eitthvað rangt, jafnvel syndugt, við það að nota efnafræði til að breyta upplifun sinni af umheiminum. Þess vegna þarf að fara í stríð við rafretturnar… því nikótín er vímuefni og markmiðið er níkótínlaust samfélag. Eiturlyfjalaust samfélag. Áfengislaust samfélag.

Ég er ósammála. Markmiðið er samfélag sem virðir sjálfsákvörðunarrétt fólks, en leyfir tækninni að þróast til að fólk sem leitast eftir ákveðnum áhrifum geti fengið þau á sem skaðminnstan máta.

Þjónustan er ekki í boði fyrir þig, kennitöluleysan þín

Ég reyndi að borga fyrir bílastæði með símanum mínum í Kaupmannahöfn. Skilti á bílastæðinu bauð mér upp á þrjá möguleika.  Þrjú ólík öpp. „Æi gott, hugsaði ég. Eitthvað af þeim hlýtur að virka.“

Fyrsta appið var hægt að setja upp með því að senda sms með tilteknu orði á eitthvað símanúmer. Gerði það og fékk villuskilaboð til baka. Jæja…

Næsta app tókst mér að ná í og setja upp í gegnum Google Play Store. Og jafnvel að að opna það. En í innskráningarferlinu þurfti að slá inn símanúmer. Nokkrir landakóðar voru í boði, Danmörk og Svíþjóð og örfá önnur en Ísland ekki. Þannig að… Jæja tvö.

Þriðja forritið var ekkert að flækja málin. „This app is not available in your country.“ Og „mitt land“ var ekki landið sem ég var staddur í heldur landið sem stýrikerfið veit að ég bý í. Þannig að … Jæja numero tres.

Kortasjálfsalarnir virkuðu enn þá óháð þjóðerni svo þetta reddaðist, en djöfull er þetta orðið algengt. Maður vill kaupa einhverja þjónustu og byrjar að pikka inn óþarfa persónuupplýsingar einungis til að heyra „nei„.

Nei, vegna þess að forritarinn gerði ekki ráð fyrir að símanúmer gæti verið svona stutt eða vegna þess sá sem er að selja hafði ekki áhuga á markhópnum manns.

Þannig að menn biðja um kennitölur, símanúmer, póstnúmer og aðra eins dellu sem er algerlega óþörf fyrir viðskiptin. Stundum finnst mér þetta farið að líkjast eins konar stafrænu alþýðulýðveldi.  „Þú ert vissulega búinn að spara fyrir Trabantinum, en kvótinn fyrir háskólamenntaða í Leipzig er búinn fyrir þennan áratug.“

Þar sem ég þekki nokkuð vel til Danmerkur veit ég að Danir eru ansi slæmir með þetta. Þeim hefur tekist að gera almenningssamgöngur mjög óvinveittar útlendingum, þeir bjuggu til eitthvað sérdanskt „ferðakort“, meðan ferðamenn þurfa að staðgreiða allt. Mér tókst reyndar að kaupa einhverja afsláttarmiða í lestirnar gegnum app í fyrra en miðarnir „úldnuðu“ á einu ári. „Sorrý peningarnir þínir virka ekki lengur!“

Ekki hægt að leggja bíl með appi af maður er útlendingur

En nóg um Danmörku. Við erum sjálf örugglega litlu verri.

Hér er eitt skrefið í skráningarferlinu fyrir appið leggja.is, sem gerir fólki kleift að borga fyrir bílastæði með símanum.

Reyni maður að slá inn erlent bílnúmer koma villuboð „engar upplýsingar finnast um bílinn“. Þannig að ekki halda að þú getir tekið bílinn með Norrænu og borgað fyrir bílastæði í miðbænum með appi.

En tökum miklu algengara notkunardæmi: Ferðamaður á bílaleigubíl. Sá ferðamaður er með bíl með íslensku bílnúmeri en erlent símanúmer. Þá… nei… Það er ekki einu sinni pláss fyrir símanúmer með fleiri en 7 tölustöfum, hvað þá pláss fyrir einhverja landakóða.

En segjum nú að þessi erlendi ferðamaður, sé sjálfstætt starfandi nýsjálenskur ljósmyndari sem er hér verkefni í 2 mánuði og verður sér úti um íslenskt símanúmer. Þá kemst hann í gegnum þetta skref í skráningarferlinu en ekki mikið lengra því á næstu síðu er hann, að sjálfsögðu, að sjálfsögðu, beðinn um kennitölu. Ásamt, nafni, heimilisfangi og póstnúmeri.

Sko, ég get alveg skilið af hverju einhver myndi vilja hafa kerfið sitt tengt við þjóðskrá og ökutækjaskrá. Og leggja.is er bara fyrirtæki (líkt og dönsku fyrirtækin sem bjuggu til öppin sem ég reyndi að setja upp) sem ef til vill telur umstangið sem felst í því að selja kennitöluleysingjum þjónustu sína ekki fyrirhafnarinnar virði.

En ég get sagt að þegar ég lendi í svipuðu erlendis þá bölva ég hiklaust þarlendu samfélagi í heild sinni. Þó það sé kannski ósanngjarnt.

En samt: Ímyndum okkur að hlutur verslana í Kringlunni væri merktur með rauðbláum tígli, sem merkti „aðeins fólk með kennitölu má versla hér“. Væri það ekki frekar ógeðslegt?

 

Valdið sem felst í sannleikanum

“Vofa leikur nú ljósum logum í Austur-Evrópu, vofa sem á Vesturlöndum er gjarnan kölluð “andóf”.”

Þannig hefst ritgerðin “Vald hinna valdalausu” eftir Vaclav Havel, fyrrum forseta Tékklands og Tékkóslóvakíu. Havel skrifaði þessi orð í fangelsi, þar sem hann sat fyrir að hafa verið einn höfunda skjals sem á íslensku mætti kalla Stefnuskrá 77 (e. Charter 77).

Liu Xiaobo, kínverskur andófsmaður og friðarverðlaunahafi Nóbels, sem lést nú í vikunni var einmitt einn höfunda sambærilegrar kínverskrar kröfugerðar sem kallaðist Stefnuskrá 08. Sambærileg stefnuskrá var skrifuð í Hvítarússlandi. Allar eru þær keimlíkar, allar krefjast þær þess að grundvallarmannréttindi, málfrelsi, prentfrelsi og félagafrelsi, séu virt. Allar krefjast þær fjölflokkalýðræðis og markaðsumbóta.

Við tölum gjarnan um andófsmenn. En hvað er þetta andóf? Hverju er verið að andmæla og hverju skilar það?

Í raun má spyrja sig hvort andóf sé endilega réttnefni. Dæmigert lagahyggjulegt “andóf”, eins og það sem Havel og Xiabo stunduðu, og eins og það sem svokallaðir andófsmenn í Hvítarússlandi, í Íran og á Kúbu stunda enn snýst í raun ekki um að andmæla stjórnvöldum heldur að taka þau á orðinu. Láta eins og þau meini það sem þau segi.

Í bók eftir íranska mannréttindalögfræðin, Shirin Ebadi er mögnuð frásögn af því þegar eiginmaður hennar hringir í hana og segist hafa verið gripinn fyrir framhjáhald og hýddur. Hennar fyrsta spurning hver? Jú, hún spurði manninn sinn hvort böðullinn hafi haft Kóraninnum undir handarkrikanum til að milda höggið eins og honum bar að gera vegna aldurs hans.

Það er þetta sem hin raunverulega „lagahyggja“ gengur út á. Hún gengur út á þá hugmynd að öll lög, hvort sem um er að ræða írönsk sjaría lög, eða kínversk lög veita borgurum einhvern rétt, og oftast mun meiri rétt en valdhafarnir í raun kæra sig um.

Í 35. grein kínversku stjórnarskrárinnar segir til að mynda: “Borgarar Alþýðulýðveldisins Kína njóta málfrelsis, prentfrelsis, samkomufrelsis, félagafrelsis ásamt frelsi til í kröfugöngu og frelsi til mótmæla.”

Það er augljóst að ef þessi grein væri virk og virt þá myndi óháður dómstóll aldrei geta fallist á það að menn eins og Liu Xiaobo væru fangelsaðir fyrir það eitt að skora á stjórnvöld að gera land sitt betra.

Þó svo að hann hafi ekki haft sigur í þeim slag, að sinni, þá er ákveðinn sigur fólginn í því að lifa í sannleik og opinbera hann. Ævistarf Liu Xiaobo minnir okkur á að þrátt fyrir að lífskjör í Kína hafi vissulega batnað á seinustu árum þá er þar enn á ferðinni ríki þar sem stjórnvöld fangelsa fólk fyrir það eitt að láta sem þau réttindi sem þau sjálf segjast tryggja séu raunveruleg.