Skítlétt að samræma sósíalisma og alræði

Gunnar Smári Egilsson, leiðtogi Sósíalistaflokksins birtir nú reglulegar “hugvekjur” um sósíalisma á síðu flokksins. Í einni slíkri svarar hann því af hverju sósíalistaflokkurinn heiti ekki “sósíaldemokrataflokkurinn.”

Svarið er á þá leið að það væri tvítekning enda “meikar sósíalismi án lýðræðis engan sens”. Það sé “óhugsandi” að hugsa sér sósíalisma án lýðræðis.

En þrátt fyrir að Gunnari Smára finnist andlýðræðislegur sósíalismi óhugsandi blanda þá fengu ekki allir þjóðarleiðtogar tuttugustu aldarinnar það minnisblað.

Almennt má segja að það sé freka regla:

Formlegt nafn ríkis inniheldur sósíalisma => Ríkið er alræðisríki.

Áður en múrinn féll, fyrir 29 árum, bjó um þriðjungur mannkyns í marxlenínískum ríkjum, þ.e.a.s. í sósíalískum alræðisríkjum. Maður getur auðvitað búið til eitthvað hringrakakerfi þar sem sósíalismi í alræðisríkjum hættir að vera sósíalismi, ef manni líður betur með það, en það er hvorki gagnlegt fyrir umræðuna, né sérstaklega heiðarlegt.

Þeir sem stjórnuðu þessum ríkjum gerðu og sögðu nefnilega almennt hluti sem búast má við af sósíalistum. Menntun og heilbrigðisþjónusta voru almennt aðgengileg og ókeypis. Fólki var séð fyrir atvinnu, fólki var séð fyrir húsnæði. Ríkið (ahem… fyrirgefið… fólkið) átti öll stærstu framleiðslutækin.

Það er ekki einu sinni hægt að halda því fram, að allt það neikvæða sem þessu stjórnarfari fylgdi hafi verið eitthvað slys, leiðinleg afleiðing mannlegs breyskleika. Nei, alræðið var engin tilviljun. Enda á einhvern hátt rökrétt. Hati maður auðvaldið þá er mjög rökrétt að vilja banna auðvaldinu að gefa út blöð. Þannig hverfur prentfrelsið. Félagafrelsið, atvinnufrelsið, eignarrétturinn fara sömu leið.

Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt að aðhyllast sósíalisma án þess að vera lýðræðissinni. Það er alveg hægt. En hitt er augljóslega hægt líka, það var stundað í mörgum löndum og er enn málið í Kína og á Kúbu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.