Ósköp er sjá Mjóddina

Ég skokkaði upp í Mjódd um daginn. Ég bjó í Seljahverfinu í áratug og á því ófáar biðmínútur að baki í þessu húsi. Ég verð að segja að mér hálfbrá við að koma þangað. Búið er að loka klósettunum, sjoppan hefur vikið fyrir frekar lítt vinalegri miðasölu. Starfsmannaaðstaða er undirleggur hálft rýmið. Já, og húsinu eru lokað eftir kl. 18.

Ég er ekki að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur en þetta skiptir máli. Mjóddin er hlið Strætós út á land. Þaðan fara leiðir 51 og 52 á Suðurlandið og leið 57 sem keyrir norður. Allir ferðamenn sem vilja fara með strætó eitthvað annað en á Suðurnesin þurfa að fara um Mjóddina. Þetta ætti því að vera Aðaljárnbrautarstöð Íslands. En það sem blasir við þeim er alveg glatað.

Erlendis dúndra menn upp verslunarmiðstöðvum við hliðina á svona samgöngumiðstöðvum. Hér er verslunarmiðstöðin þegar komin. Tækifærið er því í raun alveg frábært til að tengja biðstöðina við mollið, henda upp kaffihúsi, veitingastað, lítilli bókabúð, upplýsingamiðstöð, innrétta allt huggulega, láta fólkið líða eins og á flugvelli en ekki eins og í vinnuskúr.

Tökum annað dæmi um svona biðstöð. Fyrirtækið Gray Line hefur byggt upp eigin umferðarmiðstöð í Holtagörðum.

Svona lítur hún út:

Fallegar flísar, farangursgeymslur, upplýsingabæklingar, röð af fólki sem bíður eftir að hjálpa og selja manni eitthvað. Væntanlega er opið þegar rúturnar fara, þótt það sé snemma.

Strætó hefur kvartað undan því að fá ekki aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Ég hef heyrt stjórnmálamenn biðja um að Strætó fái einkaleyfi til að keyra þangað. Ég hef heyrt samtök sveitarfélaga og stuðningsmenn einkaleyfa kvarta undan því að einkaaðilar “keyri ofan í” einkaleyfi strætó og hirði af þeim farþega. En er það furða að markaður sé fyrir aðra aðila ef strætó og eigendur þess skeyta jafnlitlu um upplifun farþega af ferðalaginu?

Ásýnd skiptir máli. Höfuðstöðvar Strætó mega vera á tunglinu mín vegna en fyrirtækið verður að hafa einhverja sýnilega viðveru gagnvart farþegum sínum þar sem þá er að finna. Og fyrst ég er að ranta á annað borð: Hvaða grín er þetta:

“Hægt er að vitja óskilamuna milli klukkan 12:30-15:00 á Hesthálsi 14, 110 Reykjavík.”

Er hægt að vitja óskilamuna á vinnutíma í iðnaðarhverfi þar sem nokkurra mínútna gangur er til næstu stoppistöðvar, þar sem einungis leiðir 15 og 18 stoppa?

Að lokum. Ég er mikill áhugamaður um Borgarlínu og allar stórar hugmyndir en ég er samt skíthræddur við þennan “frábært seinna” þankagang. Í upphafi seinustu aldar átti að taka upp nýtt leiðarkerfi þar sem stofnleiðir myndu keyra á 10 mínútna fresti, svo átti að taka upp rafrænt greiðslukerfi. Hvorugt gekk eftir en hvort tveggja tafði alla aðra framþróun. “Þarf ekki að fjölga sölustöðum – rafræna greiðslukerfið leysir þetta,” var sagt.

Mér finnst þetta svipað. Í framtíðinni kemur borgarlína þar sem allir munu þeysast um á hálfgildingslestum og bíða á nútímalegum hálfgildingslestarstöðvum.

En þangað til getur fólk setið úti í kulda og myrkri á ómáluðum steypubekk. Og haldið í sér.

Leave a Reply

Your email address will not be published.