Óviðráðanlegar byggingarframkvæmdir í miðbænum

Stutt hjólasaga úr miðbænum. Á Hverfisgötu er verið að byggja eitthvað á Kexreitnum. Verslunar- og íbúðarhúsnæði, eftir því sem ég best veit. Gott mál.

Byggingarsvæðið dettur hins vegar inn á hjólastiginn, sem er því miður ekki einsdæmi á Hverfisgötunni um þessar mundir og eftirfarandi skilti mætir vegfarendum.

Nokkur atriði.  🙂

Það ofbýður máltilfinningu allra sem slíða hafa að tala um hefðbudnnar byggingarframkvæmdir sem „óviðráðanlegar orsakir“. Snjóflóð eru óviðráðanleg, svipleg andlát eru óviðráðanleg. Ofsaveður er óviðráðanlegt. Þetta er, for crying, ekki óviðráðanlegt!

Það kann að vera óhjákvæmanlegur fylgifiskur þess að við byggjum alveg upp við götuna, að gangstéttirnar lendi á byggingarsvæði. Ekkert mál. En er það það þá bara algerlega augljóst að afleiðingin eigi að vera lokun hjólastígsins og ganstéttarinnar?

Og horfum aðeins á þá leið sem yfirvöldin hafa boðið gangandi og hjólandi:

Þetta er eiginlega dálítiðfyndið. Í ljósi þess að:

  1. Gangstéttin hinum megin er opin.
  2. Hjól mega hjóla á götunni.

Gangandi og hjólandi þurfa því ekki þessar leiðbeiningar. Hjólafólkið fer á götuna. Gangandi fara yfir götuna (eða labba á götunni).

Ístað þess að beita óskiljanlegri „hjáleiðahugmyndafræði“ gangvart gangandi fólki hefðu yfirvöldin því mátt gera eftirfarandi:

  1. Setja upp bráðabirgða-ramp fyrir hjól svo hjólin kæmust upp og niður á stiginn beggja vegna framkvæmdanna.
  2. Teikna einhverjar línur á götuna svo bílstjórar myndu sérstaklega átta sig á því að þar gætu verið hjól.
  3. Teikna tímabundna gangstétt fyrir gangandi.
  4. Setja viðvörunarskilti fyrir akandi: „Framkvæmdir. Gangandi vegfarendur þvera götuna.“

Kannski ekki stórmál, en bara dæmi um hvernig á að hugsa um gangandi vegfarendur í tengslum við vegaframkvæmdir. Ef þeir valkostir sem gangandi og hjólandi er boðið upp á verða fáranlegir þá munu þeir ekki nýta sér þá.

Stórkostlegt evrópsk innanlandsflug

Þótt flestir Íslendingar búi á suðvesturhorninu eiga margir rætur að rekja til annarra landssvæða og eru góðar flugsamgöngur þeim því mikilvæg lífsgæði. Góðar flugsamgöngur gera þeim kleift að heimsækja ættingja á æskuslóðum, bregða sér hratt “heim” ef fjölskylduskyldur kalla, sinna erindum og eignum sem þau enn hafa í umsjá sinni eða einfaldlega fara í frí með börn sín og leyfa þeim að kynnast þessum parti af sjálfum sér.

Það hafa stórkostlegir hlutir verið að gerast í evrópsku innanlandsflugi að undanförnu. Nú fljúga til dæmis tvö flugfélög til Póllands allt árið um kring. Hægt er að fljúga til fjögurra borga þegar þetta er skrifað: Varsjá, Katowice, Gdansk og Wroclaw. Ódýrustu miðarnir með Wizz Air flugfélaginu fást á um það bil 10 þúsund kr. fram og til baka.

Áfangastaðir Wizzair í Evrópu. Fjölmargir íbúar Íslands eiga rætur að rekja til áfangastaða flugfélagsins.

Það er ódýrara að ferðast til Póllands heldur en þegar ég flutti hingað árið 1988

Ódýrara í krónum talið!

Hér má sjá umfjöllun um verð flugleiða frá 1998. Þá kostaði miði fram og til baka til London 20 þúsund krónur. Framreiknað verð með tillit til verðbólgu er nánast 100 þúsund kr. til London.  Nú kæmist ég til London á 7 þúsund. Verð á “evrópsku innalandsflugi” hefur sem sagt hrunið um 93% á 30 árum. Miðar til Póllands á um 10 þúsund fram og til baka eru ekki óalgengir.

Í þá daga var hvert land með sitt aðalflugfélag, og hvert land með sinn aðalflugvöll. Ætlaði maður sér að fljúga annað en á aðalflugvöllinn gat maður náðarsamlega fengið að fljúga með aðalflugfélaginu á svona 40 þúsundkall á mann fram og til baka og fengið te eða kaffi, og samloku. Eftir að ESB frelsaði flugmarkaðinn er fjölbreytninn alls ráðandi. Menn geta flogið frá Lublin til Liverpool, af því að… einhver vill fljúga frá Lublin til Liverpool, óháð því hvort flugmálayfirvöldun Póllands og Bretlands hafi dreymt þessa flugleið eða ekki.

Þannig er þetta nefnilega oft. Stjórnmálamenn og stjórnarmenn í einokunarfyrirtækjum dreymir um “miðstöðvar”, að mistöð svona samgangna verði hér, miðstöð hinsegin samgangna verði þar. Innanlandsflugið hingað, millilandaflugið þangað.

Frjáls markaður býr til miklu dreifðara og betra net.

Fjárfestingar í flugvöllum eru af þeirri stærðargráðu að eflaust verður ekki hjá því komist að hið opinbera komi að þeim með einhverjum hætti þótt ekki sé nema á skipulagsstiginu. En ákvarðanir um þessi mál eiga að miða að því að efla það sem við vitum að virkar og skilar neytendum árangri: frelsi og samkeppni.

Þess vegna líst mér vel á nýjan flugvöll á Hvassahrauni og myndi taka vel í það ef einhver myndi vilja taka þátt í að byggja slíka flugvöll upp. Þar væri möguleiki á að tengja íslenskt innanlandsflug við millilandaflug. Þar myndi skapast tækifæri til að búa til samkeppni við Kelfavíkurflugvöll um lendingar og afgreiðslu véla. Loks hefði slíkur flugvöllur líka talsverða vaxtarmöguleika.

Þetta eru allt miklir kostir. Uppbygging á Reykjavíkurflugvelli, á takmörkuðu landi, þar sem aldrei verður hægt að koma fyrir millilandaflugi, þar sem ekki verður hægt að tengja millilandaflug við innanlandsflug og uppbygging sem þar fyrir utan er töluvert umdeild pólitískt, hefur einfaldlega ekki þessa sömu kosti.

Skítlétt að samræma sósíalisma og alræði

Gunnar Smári Egilsson, leiðtogi Sósíalistaflokksins birtir nú reglulegar „hugvekjur“ um sósíalisma á síðu flokksins. Í einni slíkri svarar hann því af hverju sósíalistaflokkurinn heiti ekki „sósíaldemokrataflokkurinn.“

Svarið er á þá leið að það væri tvítekning enda „meikar sósíalismi án lýðræðis engan sens“. Það sé „óhugsandi“ að hugsa sér sósíalisma án lýðræðis.

Hugvekja: Hvers vegna ekki sósíaldemókratía?

Sósíalísk hugvekja dagsins, 4. júní 2017: Hvers vegna var Sósíalistaflokkurinn ekki nefndur sósíaldemókrataflokkur?

Posted by Sósíalistaflokkur Íslands on Sunday, June 4, 2017

En þrátt fyrir að Gunnari Smára finnist andlýðræðislegur sósíalismi óhugsandi blanda þá fengu ekki allir þjóðarleiðtogar tuttugustu aldarinnar það minnisblað.

Almennt má segja að það sé freka regla:

Formlegt nafn ríkis inniheldur sósíalisma => Ríkið er alræðisríki.

Áður en múrinn féll, fyrir 29 árum, bjó um þriðjungur mannkyns í marxlenínískum ríkjum, þ.e.a.s. í sósíalískum alræðisríkjum. Maður getur auðvitað búið til eitthvað hringrakakerfi þar sem sósíalismi í alræðisríkjum hættir að vera sósíalismi, ef manni líður betur með það, en það er hvorki gagnlegt fyrir umræðuna, né sérstaklega heiðarlegt.

Þeir sem stjórnuðu þessum ríkjum gerðu og sögðu nefnilega almennt hluti sem búast má við af sósíalistum. Menntun og heilbrigðisþjónusta voru almennt aðgengileg og ókeypis. Fólki var séð fyrir atvinnu, fólki var séð fyrir húsnæði. Ríkið (ahem… fyrirgefið… fólkið) átti öll stærstu framleiðslutækin.

Það er ekki einu sinni hægt að halda því fram, að allt það neikvæða sem þessu stjórnarfari fylgdi hafi verið eitthvað slys, leiðinleg afleiðing mannlegs breyskleika. Nei, alræðið var engin tilviljun. Enda á einhvern hátt rökrétt. Hati maður auðvaldið þá er mjög rökrétt að vilja banna auðvaldinu að gefa út blöð. Þannig hverfur prentfrelsið. Félagafrelsið, atvinnufrelsið, eignarrétturinn fara sömu leið.

Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt að aðhyllast sósíalisma án þess að vera lýðræðissinni. Það er alveg hægt. En hitt er augljóslega hægt líka, það var stundað í mörgum löndum og er enn málið í Kína og á Kúbu.

Ósköp er sjá Mjóddina

Ég skokkaði upp í Mjódd um daginn. Ég bjó í Seljahverfinu í áratug og á því ófáar biðmínútur að baki í þessu húsi. Ég verð að segja að mér hálfbrá við að koma þangað. Búið er að loka klósettunum, sjoppan hefur vikið fyrir frekar lítt vinalegri miðasölu. Starfsmannaaðstaða er undirleggur hálft rýmið. Já, og húsinu eru lokað eftir kl. 18.

Ég er ekki að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur en þetta skiptir máli. Mjóddin er hlið Strætós út á land. Þaðan fara leiðir 51 og 52 á Suðurlandið og leið 57 sem keyrir norður. Allir ferðamenn sem vilja fara með strætó eitthvað annað en á Suðurnesin þurfa að fara um Mjóddina. Þetta ætti því að vera Aðaljárnbrautarstöð Íslands. En það sem blasir við þeim er alveg glatað.

Erlendis dúndra menn upp verslunarmiðstöðvum við hliðina á svona samgöngumiðstöðvum. Hér er verslunarmiðstöðin þegar komin. Tækifærið er því í raun alveg frábært til að tengja biðstöðina við mollið, henda upp kaffihúsi, veitingastað, lítilli bókabúð, upplýsingamiðstöð, innrétta allt huggulega, láta fólkið líða eins og á flugvelli en ekki eins og í vinnuskúr.

Tökum annað dæmi um svona biðstöð. Fyrirtækið Gray Line hefur byggt upp eigin umferðarmiðstöð í Holtagörðum.

Svona lítur hún út:

Fallegar flísar, farangursgeymslur, upplýsingabæklingar, röð af fólki sem bíður eftir að hjálpa og selja manni eitthvað. Væntanlega er opið þegar rúturnar fara, þótt það sé snemma.

Strætó hefur kvartað undan því að fá ekki aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Ég hef heyrt stjórnmálamenn biðja um að Strætó fái einkaleyfi til að keyra þangað. Ég hef heyrt samtök sveitarfélaga og stuðningsmenn einkaleyfa kvarta undan því að einkaaðilar „keyri ofan í“ einkaleyfi strætó og hirði af þeim farþega. En er það furða að markaður sé fyrir aðra aðila ef strætó og eigendur þess skeyta jafnlitlu um upplifun farþega af ferðalaginu?

Ásýnd skiptir máli. Höfuðstöðvar Strætó mega vera á tunglinu mín vegna en fyrirtækið verður að hafa einhverja sýnilega viðveru gagnvart farþegum sínum þar sem þá er að finna. Og fyrst ég er að ranta á annað borð: Hvaða grín er þetta:

„Hægt er að vitja óskilamuna milli klukkan 12:30-15:00 á Hesthálsi 14, 110 Reykjavík.“

Er hægt að vitja óskilamuna á vinnutíma í iðnaðarhverfi þar sem nokkurra mínútna gangur er til næstu stoppistöðvar, þar sem einungis leiðir 15 og 18 stoppa?

Að lokum. Ég er mikill áhugamaður um Borgarlínu og allar stórar hugmyndir en ég er samt skíthræddur við þennan „frábært seinna“ þankagang. Í upphafi seinustu aldar átti að taka upp nýtt leiðarkerfi þar sem stofnleiðir myndu keyra á 10 mínútna fresti, svo átti að taka upp rafrænt greiðslukerfi. Hvorugt gekk eftir en hvort tveggja tafði alla aðra framþróun. „Þarf ekki að fjölga sölustöðum – rafræna greiðslukerfið leysir þetta,“ var sagt.

Mér finnst þetta svipað. Í framtíðinni kemur borgarlína þar sem allir munu þeysast um á hálfgildingslestum og bíða á nútímalegum hálfgildingslestarstöðvum.

En þangað til getur fólk setið úti í kulda og myrkri á ómáluðum steypubekk. Og haldið í sér.