Að gera eitthvað í málinu er ofmetið

„Af hverju gerirðu ekki eitthvað í málinu?“ spyr aktivistinn.

Ég hjóla heim. Það er bíll á hjólastígnum. Bílstjórinn er inni að ná sér í take-away.

„Af hverju gerirðu ekki eitthvað í málinu? Af hverju hringirðu ekki á lögguna? Í borgina? Böggar bílstjórann? Tekur myndband af öllu og setur á youtube? Af hverju hjólarðu bara á götuna og fram hjá vandamálinu?“

Væri ekki betra ef allir myndu „gera eitthvað í málinu?“ Myndu þá ekki málin hætta að gerast?

Ég geri oftast ekkert í málinu vegna þess að „það að gera eitthvað í málinu“ felur furðulega oft í sér átök. Og ég er ekki endilega mjög átakasækinn.

Ef ég myndi til dæmis alltaf vera í átökum í þegar ég væri að hjóla þá myndi ég smám saman ómeðvitað hætta að hjóla. Og ef ég myndi alltaf birta myndbönd af mér og mínum hjólaátökum þá myndi það sannfæra fólk um að það að hjóla væru átök. Sem hjólreiðar eru ekki. Heldur bara leið til að koma sér á milli staða.

Sumt fólk er átakasækið og finnst bein, lifandi jafnvel líkamleg mótspyrna það sem telur. Það er allt í lagi. En ég hef skilaboð til allra hinna, þeirra sem mæta ekki á mótmæli, flauta ekki fyrir utan stofnanir, beita sér ekki á jörðu niðri, konfrontera ekki þá sem pirra þá og taka ekki myndbönd af því sem þeim mislíkar. Þið getið gert mikið gagn, þótt þið gerið ekki neitt í málinu.