Alltaf verra að vera kona

Stutt dæmi

Þrjátíu og sjö ára gamall þingmaður heldur jómfrúarræðu. Hann talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.

Tuttugu og sjö ára gömul þingkona heldur jómfrúarræðu. Hún talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.

Nokkrum mánuðum síðar eru allir búnir að gleyma ræðu þingmannsins. Ræðu þingkonunnar rifja menn upp enn og reyna mála hana sem vitleysing sem lepur upp dellu frá gáfaðri aðilum.

Sjá: http://stundin.is/pistill/rong-fullyrding-aslaugar-ornu/

Það er góð og gild umræða að ræða um hvað mælikvarðar séu bestir til að meta umfang ríkisreksturs. En þingkonan greindi frá þeim mælikvörðum þegar eftir því var leitað, hún gat heimilda sinna. Þetta snerist því ekki um að hún hafi lesið vitlaust eða rangtúlkað. En þannig er það matreitt og kommentakerfin eru sammála. Konan er bersýnilega nautheimsk.

Þessi grein sem vísað er til og fjallar um Áslaugu Örnu er ekki það versta sem birtist um konur í pólitík. Langt því frá. En hún er dálítið dæmigerð. Fólk kallar mig (því ég er hinn þingmaðurinn) ekki oft vitlausan. Ég er óheiðarlegur og illa innrættur en sjaldan vitlaus. Það límist einhvern veginn verr á karla að vera vitlausir.

Jafnvel þegar talað er illa um konur í pólitík þá er þeim gefinn minni kredit en körlum.

Dæmi: Manneskja fer með rangt mál.
Hún … misskildi.
Hann … laug.

Dæmi: Manneskja gerir eitthvað sem X græðir á.
Hún … lét X plata sig.
Hann … er ganga erinda X.

Blaðamaðurinn Jon Ronson var með ágæta bók um fólk sem lendir í skítastormi. Þar var nefnt hvernig allur skíturinn sem konur lenda í verður alltaf miklu svæsnari. Körlum er óskað atvinnumissi. Konum? Að þeim sé nauðgað eða að þær missi börnin sín. Árásir á konur eru persónulegri. Það er oftar ráðist á útlit þeirra eða gáfur.

—-viðbót 2017-09-12

 

Fyrr á árinu skrifaði ég pistilinn “Alltaf verra að vera kona” þar sem ég brást við umfjöllun um samþingkonu mína, Áslaugu Örnu. Mér finnst þetta enn, ég einfaldlega horfi í kringum mig og finnst þetta, upplifi að konur í stjórnmálum fá oftar ljótara og persónulegra níð við svipaðar aðstæður.
En… Það er ákveðin þumalputtaregla að þegar fólk er verulega ósátt þá hefur það oft sitthvað til síns máls. Í pistlinum vísaði ég á umfjöllun í stundinni eftir Gunnar Jörgen Viggósson, sem dæmi um slíka kynbundna umfjöllun. Af tíðum skrifum og skilaboðum hans get ég merkt það að honum hafi þótt það mjög ósanngjarnt. Ég hef legið á málinu í langan tíma, en ég skil hann. Þó ég hafi ef til vill haft einhverjar athugasemdir við skrif Gunnars í pistlinum gáfu þær athugasemdir ekki tilefni til að setja skrif hans í samhengi við einhvers konar kvenfyrirlitningu. PB

2 thoughts on “Alltaf verra að vera kona

  1. Sæll Pawel,

    Af því tilefni að Eygló Harðardóttir hefur hlekkt á þennan pistil af bloggsíðu sinni endurbirti ég hér meginmál athugasemdar minnar á Facebook, sem ég ritaði á deilingu greinar þinnar þann 25. mars síðastliðinn:

    Það tekur þig ekki nema tíu sekúndur að ganga úr skugga um að dæmið sem þú tekur í upphafi pistilsins er fullkomlega ósatt. Í því ljósi að þú sem þingmaður hefur grafið undan skrifum mínum og trúverðugleika á forsendum sem þú sérð núna óumflýjanlega að eru ósannar, væri ekki rétt að bæta við leiðréttingu eða fjarlægja þennan hluta færslunnar sem snýr að þessari dæmisögu, og hreinlega biðja mig afsökunar? Það væri flott fordæmi og skref í átt að betri umræðuhefð

    Bestu kveðjur,
    Gunnar

  2. Er þér alvara með því að það sé verra að vera álitinn heimskur en óheiðarlegur eða á þetta að vera kaldhæðni?

Leave a Reply

Your email address will not be published.