Já, og hvað með börnin?

Ég las fyrst barnasáttmálann þegar ég var enn þá barn. Ég man best eftir þessu ákvæði:

“Aðildarríki skulu forðast að kalla þá sem hafa ekki náð fimmtán ára aldri til herþjónustu. Við herkvaðningu þeirra sem náð hafa fimmtán ára aldri en hafa ekki náð átján ára aldri skulu aðildarríki leitast við að láta hina elstu ganga fyrir.”

Ég man að ég hugsaði: “Fimmtán ára? Hvernig fundu menn það út?”

Ég sá fyrir mér að einhver hafi lagt til 18 ár en svo kom einhver annar og sagði: “Nei, kommon, við verðum að vera raunsæ.”

Og menn hafi fallist á 15 ár..

Ég man að mér fannst þetta furðulega ítarlegt en metnaðarlaust samanborið við restina af sáttmálanum. En samt var einhver huggun í því að menn hafi haft þetta svona, metnaðarlítið, en alla vega þannig að hægt var að vonast til að menn myndu þá reyna að fara eftir því. 

***

Ég hafði í tvígang samband við umboðsmann barna þegar ég var barn. Í fyrsta skipti þegar ég hafði áhyggjur af nafnalögum og tengslum þeirra við veitingu ríkisborgararéttar. Mér fannst sem 8. g.r barnasáttmálans veitti mér rétt til að halda sérkennum mínum þótt ég myndi fá íslenskan ríkisborgararétt. Mig langaði ekki að heita “Páll Jansson” og ég hafði samband við umboðsmann út af því.

Í seinna skipti fannst mér ranglátt á ég fengi ekki bókasafnskort á Þjóðarbókhlöðuna nema að ég væri orðinn 17 ára. Í því máli veit ég að umboðsmaður spurði síðan Landsbókavörð en fékk einhver svör. Svörin, eftir því sem ég hef séð þau, skautuðu fram hjá því sem allir vita, að aðalástæðan fyrir aldurstakmarkinu er takmarkaður fjöldi lesborða í prófatíð en ekki neitt annað. Aldurstakmarkið er nú 18 ár. Svo ekki varð þessi slagur til mikils.

***

Flestir þeir sem láta sig réttindi barna varða á Íslandi hafa ákveðinn fókus. Sá fókus byggir mikið til á velferð barna. Velferð barna og rétt barna til að fá ákveðna þjónustu, helst endurgjaldslaust. Ég játa að ég hef heilmikinn áhuga á málefnum barna, en ekki frá þessari hlið. Áhugi minn er fyrst og fremst á borgaralegum réttindum barna.

Ef barn má ekki velja framhaldsskóla út frá reglum sem fullorðið fólk setur þá verð ég verulega miður mín.

Ef traðkað er á málfrelsi barns, vegna þess að barnið hefur ekki réttar skoðanir þá verð ég hugsi.

Ef símar eru teknir af börnum þá spyr ég mig hvort það sé nauðsynlegt.

Ef börn eru rekin úr skóla fyrir drykkjulæti, framhjá öllum reglum um góða stjórnsýslu þá tjái ég mig um það.

Og ef barn sem vill læra íslensku fær ekki að vera á landinu vegna þess að það er þremur mánuðum of ungt, þá finnst mér það valdníðsla.

***

Togstreita milli réttinda og velferðar er auðvitað ekki lítil  eða ný stjórnmálaleg spurning. Oft stangast þessar áherslur ekkert á, en stundum gera þær það. Og stundum svara þær sömu spurningunum með ólíkum hætti. Út frá réttindum barna hefur það til dæmis enga þýðingu hvort fullorðið fólk megi kaupa áfengi í smásölu frá einkahlutafélagi eða opinberu hlutafélagi. Enga. Það mál varðar ekki réttindi barna frekar en veggjöld gera það. En það getur varðar velferð barna, rétt eins og flest önnur mál.

Þar er ég vitanlega ekki sammála fylgismönnum áframhaldandi ríkiseinokunar. Þrátt fyrir endalausar fullyrðingar um augljós tengsl aðgengis og velferðar barna hefur það samt gerst að drykkja barna og unglinga hefur hrunið, samhliða því að bjórinn hafi verið leyfður, búðum hefur fjölgað, opnunartími lengst, úrvalið aukist, auglýsingar orðið sýnilegri og svo framvegis. En tökum þá umræðu síðar. 

***

Nokkrir aðilar, umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF á Íslandi hafa hóað í þingmenn úr öllum flokkum og boðið þeim að gerast sérstakir talsmenn barna á þingi. Ég svaraði þessari beiðni af áðurnefndum ástæðum, ég tel mig hafa sýn á þessi mál sem ákveðin þörf er fyrir. Sýn á réttindi barna út frá svokölluðum fyrstu kynslóðar mannréttindum, málfrelsi, félagafrelsi, athafnafrelsi og ferðafrelsi. Og ég held að það væri ekki betra fyrir umræðu um réttindi barna ef fókusinn yrði allur á velfarðarvinkilinn.

Hópurinn sem stendur að verkefninu talsmenn barna hefur nú sent frá sér yfirlýsingu um að afnám einokunarsölu á áfengi sé brot á barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Sú rödd hefur heyrst á nokkrum stöðum að afstaða mín í áfengismálum samræmist ekki þeim yfirlýsingum að vilja að tala máli barna. (Sjá: https://barn.is/frettir/2017/02/askorun-vegna-frumvarps-um-breytt-fyrirkomulag-a-afengissoelu/)

Þessi mál, eins og önnur, verð ég að lokum að leggja í dóm kjósenda í næstu kosningum, en þó má benda á að einn helsti baráttumaður fyrir lögfestingu barnasáttmálans deildi skoðunum mínum á breyttu fyrirkomulagi áfengissölu. Þannig að sumum hefur alla vega tekist að samrýma þetta. (Sjá: http://www.barnaheill.is/Frettir/Frett/agust-olafur-agustsson-hlaut-vieurkenningu-barnaheilla/)

Ég geri ekki athugasemdir við að aðilar, opinberir eða ekki, tjái sig um lagasetningu. En ég set reyndar spurningamerki við þá fullyrðingu að með því að samþykkja eitt fyrirkomulag áfengisútsölu, fyrirkomulag sem tíðkast mjög víða, sé verið að brjóta barnasáttmálann. Mér finnst nokkuð hæpið að dómari myndi snúa við slíkum lögum sem Alþingi hefur samþykkt, byggt á 3. gr. barnasáttmálans. Mér finnst raunar útilokað að það myndi gerast. Dómstólar á Íslandi taka sér ekki slíkt endurskoðunarvald, hvað þá þegar forsendurnar eru svo veikar.

***

Ég er ekki barn. En ég hef, rétt eins og allir, verið barn. Að vera barn er svolítið svipað eins og að vera innflytjandi. Fólk talar vel um þig opinberlega og vill þér að nafninu til vel. En það vill samt ekki að þú sért með vesen. Þú veist aldrei við hvern þú átt að kvarta og jafnvel þeir sem þú kvartar við taka þig samt ekki alltaf alvarlega.

Fólk er duglegt að útskýra fyrir þér hvernig hinar ýmsu réttindaskerðingar séu þér í raun fyrir bestu.

Mér þykir vænt um réttindi barna. Líka þessi sem geta verið vesen. Einhvern tímann, ef ég verð sjúklega ríkur, langar mig að setja á fót sérstaka óháða stofnum, sem mun aðstoða börn við að vera með vesen. En áður en að því kemur getur fólk, undir og yfir lögaldri,  alltaf sent mér tölvupóst.

Leave a Reply

Your email address will not be published.