Ég sé ekki sóknarfærin

Daginn sem Bretland gengur úr Evrópusambandinu og yfirgefur EES-svæðið munu Íslendingar ekki lengur geta flutt óhindrað til Bretlands og Bretar munu ekki lengur geta flutt óhindrað til Íslands.

Vissulega má semja um annað. Vonandi verður það gert, vonandi vilja Bretar sjálfir að það verði gert. En útganga Bretlands eins og sér þýðir nákvæmlega það og ekkert annað. Regluverk ESB, þar með regluverk um frjálst flæði fólks, hættir einfaldlega að gilda með þeim kostum og ókostum sem því fylgja. Það er sá núllpunktur sem verður að ganga út frá.

Úrsögn úr Evrópusambandinu er úrsögn úr Evrópusambandinu.

***

Frændi minn sem býr í litlum bæ vestur af Varsjá spurði mig um daginn hvað ég héldi að ég þyrfti að stoppa oft á ljósum ef ég ætlaði að keyra til Lissabon.

Ég nefndi einhverja tölu sem mér þótti líkleg en var bent á að svarið væri “Núll.” Það væri hraðbraut alla leið.

Já, þannig Evrópu hefur tekist á búa til. Sá sem vill fara frá Varsjá til Lissabon þarf bara að fara upp í bíl og keyra. Hann gæti þurft að borga á stöku stað eða stoppa vegna tímabundins landamæraeftirlits en að öðru leyti þarf hann hvorki að spyrja kóng né prest. Ferðalangurinn er tryggður alla leið, og ef hann finnur sér vinnu og íbúð á áfangastaðnum þá getur hann bara tekið vinnunni og sest að.

***

Þannig var heimur foreldra minna ekki og ekki heldur heimur foreldra þeirra. Og það þarf ekkert að vera að heimur barna okkar verði þannig. En mér finnst skipta máli að hann verði það. Að heimurinn verði sem opnastur, og að sem flestir geti notið hans.

Að því leyti verð ég að viðurkenna að ég sé ekki sóknarfærin sem felast í því að ríki gangi úr ESB. Ekki nema við notum “sóknarfæri” í einhverri stórfyrirtækja-straumlínustjórnunarmerkingu sem “vandræði”. Vandræði sem við verðum að lágmarka og reyna að búa til eitthvað sem er kannski jafngott.

One thought on “Ég sé ekki sóknarfærin

  1. Tek mjög undir það sem segir í þessum pistli. Hef búið í Frakklandi og bý í vetur í Þýskalandi. Það frelsi sem okkur er veitt er dýrmætt þó auðvitað finnist þeir sem misnota það. Menn sem fagna útgöngu Breta virðast hafa meiri trú á þjóðernishyggju en kostum samstarfs sem þó hefur sýnt sig að treysta frið og greiða fyrir viðskiptum og frelsi fólks til búsetu og menntunar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.