Flæðið verður aldrei frábært

Þúsundir Íslendinga keyra á degi hverjum framhjá Lönguhlíð á leið sinni í miðborgina. En hvernig er að vera einn hinna, einn þeirra sem gengur þvert á leið þessa akstursleið.

Ímyndum okkur að við snúum baki í Perluna, kringlumegin Lönguhlíðar og ætlum okkur yfir Miklubrautina.

Græn ljós kvikna fyrir Lönguhlíðina, köllum þetta fasa 1. Og höldum að við komust kannski yfir en … nei. Það er rautt á okkur ef ske kynni að liðið sem er að beygja inn á Miklubraut þurfi að gera það. Þetta er einhver nýr ósiður við hönnun ljósagatnamóta sem fer að venja bílstjóra á að þeir þurfi ekki að hugsa um gangandi vegfarendur.

Við sjáum hins vegar græna kallinn loga á næsta legg, hinum megin við eyjuna. Bara til að auka á svekkelsið.

Við bíðum þennan fasa af okkur. Í þeim næsta, fasa 2, er opnað fyrir umferð úr austurátt. Þá fáum við að fara yfir á eyjuna en komumst ekki lengra.

Í næsta fasa, fasa 3 er Miklubrautin græn í báðar átti og við bíðum þolinmóð á miðri eyjunni.

Það er ekki fyrr en þeim fasa lýkur og fasi 4 tekur við, í þeim fasa sem gatnamótin eru opin fyrir þá sem koma úr vesturátt sem við fáum að komast alla leið yfir Miklubrautina.

Það tók ljósin sem sagt að fara heilan hring að komast yfir eina götu. Og við hefðum geta verið enn óheppnari. Ef við hefðum hafið ferðalagið í fasa 3 hefði það tekið einn og hálfan ljósahring að komast yfir götuna.

Mig langaði bara aðeins að koma þessu að í tengslum við alla umræðuna um gott “flæði” umferðar og nauðsyn þess að “liðka” fyrir umferð. Niðurstaða með allri þessari hólfun gangandi umferðar, sem vitanlega er öll gerð með “öryggi” í huga, er að gönguleiðin verður óþarflega löng og óaðlaðandi.

Út úr því fáum við hugmyndir um fleiri brýr og göng sem vissulega leysa vandann varðandi hraða yfirferðar en breyta því ekki að með þeim erum við að festa í sessi hraðbrautarútlit í miðju grónu hverfi og endum með einhvern óskapnað eins og brúna yfir Hringbraut hjá Vatnsmýrinni, mislæg gatnamót fyrir gangandi vegfarendur.

En ég held hins vegar að fólk verði einfaldlega að sætta sig við það að það mun aldrei aftur vera fullkomlega átakalaust að koma sér í miðbæ höfuðborgarinnar á eigin bíla án þess að þurfa stundum að bíða smá. Og persónulega myndi ég frekar vilja liðka fyrir umferð þeirra sem þurfa að bíða í margar mínútur eftir því að komast yfir eina götu heldur en hinna.