Öskrað á áttavitann 9/31: Hækkun veiðigjalda

Fyrir nokkrum mánuðum skilaði samráðsvettvangur um aukna hagsæld af sér nokkrum tillögum í skattamálum.

Meðal annars var gert ráð fyrir að hlutdeild umhverfis- og auðlindagjalda í heildarskattkökunni myndi aukast, og þá myndi, eðlilega, hlutdeild annarra skatta minnka. Ef við gerðum ráð fyrir að heildartekjur ríkisins ættu að vera þær sömu og áður þá gæti það þýtt að við gætum lækkað virðisaukaskatt og tekjuskatt talsvert.

Persónulega myndi ég hins án nokkurs vafa vilja lækka skatta á móti hærri veiðigjöldum. Það er auðvitað öllu vinsælla að lofa þeim í alls kyns ný útgjöld en það allt eykur heildarumsvif ríkissjóðs. Mér finnst það alls ekki takmark. Þvert á móti.

Ef til þess kæmi að það yrði kosið um hvort hækka ætti krónutölurnar í lögum um veiðigjöld þá myndi ég gera það. Það er þrátt fyrir allt ansi hagkvæm skattheimta. Ef útgerðir þyrftu að borga hærri veiðigjöld þá myndu þær engu að síður halda áfram að veiða. Jafnmikið. Það myndi ekki breytast fyrr en veiðigjöldin væru orðin verulega íþyngjandi sem ekki bendir til að sé tilfellið.

Kvótakerfið er í grunninn gott. Það tryggir að sá veiði fiskinn sem er bestur í því og það kemur í veg fyrir ofveiði. Veruleikinn er samt sá að margt fólk upplifir úthlutunina rangláta og að það væri hægt að fá meira fé þaðan, fyrir að rukka fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind, fremur en að sækja peninginn annars staðar. Ég held að það fólk hafi margt til síns máls.

Ég vildi samt helst forðast kerfi þar sem upphæð veiðigjalda er ákveðinn í einhverjum lobbýista viðræðum milli hagsmunaaðila, stjórnvalda og hagfræðinga með áhuga á málefninu. Aðalmálið er að upphæðin ákvarðist af markaðsforsendum. Viðreisn hefur lagt til uppboð, aðrir flokkar hafa sett fram svipaðar hugmyndir sem og jafnvel einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Samráðsvettvangurinn lagði til langtímasamninga þar sem verðið ákvarðast á markaðsforsendum án þess að það væri skýrt mjög nákvæmlega en virtist hrifinn af uppboðum á fyrri stigum vinnunnar. Þannig að það er mikil umræða í þessa veru.

Allar þessar lausnir taka hins vegar sinn tíma. En til skamms tíma myndi ég styðja þá fljótlegu lausn að nota núverandi lagaramnna og hækka veiðigjöld.

Leave a Reply

Your email address will not be published.