Öskrað á áttavitann 7/31: Móttaka hælisleitenda

 

Sem spurningu um meginstefnu á ég auðvelt að svara þessu. Það er til fullt af fólki sem vill miklu harðari “reglur” um hæli. Við gætum verið enn djarfari í að senda fólk úr landi án efnismeðferðar með vísan í Dyflinarreglugerðina. Við gætum verið eins og Japan, sem samþykkti 27 hælisumsóknir á seinasta ári. En til hvers?

Ég verð samt að segja eitt. Kosningaprófið endurspeglar umræðuna. Samkvæmt því eru þrenns konar útlendingar að koma landsins: Hælisleitendur, flóttamenn og ferðamenn. Mér finnst vanta almennari spurningar innflytjendamálin. Fólksflutningar eru allt í lagi hlutur. Mér finnst óheppilegt hvernig fólk er alltaf að tengja þá við einhverja eymd.

Málið er að með almennt ódýrari samgöngum um allan heim ætti að vera auðveldara fyrir fólk að flytja milli landa. Og það er orðið auðveldara fyrir fólk innan Evrópu að flytja til Íslands. En á sama tíma hafa menn gert það miklu erfiðara fyrir fólk utan EES.

Eitt dæmi, þegar ég flutti til Íslands var pabbi minn í námi í íslensku og gat tekið fjölskylduna með. Nú er þetta ekki hægt. Nýju útlendingalögin opna á þetta fyrir fólk í doktorsnámi. Í doktorsnámi!

Sem sagt: Íslandi og öðrum vesturlöndum hefur verið lokað fyrir flutninga erlends fólk frá fátækum löndum. Fyrir vikið verður mannúðarleiðin eina leið fólks til að fara á milli landa. Fólk reynir að fara til Kanada sem er gott land fyrir innflytjendur. Það er stoppað í millilendingu í Leifstöð. Sækir um hæli er gjarnan sent til baka

Ef það yrði lagt til að herða reglur um hælismóttöku myndi ég ekki styðja það. Ég myndi horfa til Svíþjóðar og Kanada í leit að fyrirmyndum um hvernig hátta skuli þessum málum. En ég játa að mér finnst ekki endilega aðalfókusinn eigi að vera á hælisleit.

Hælisleit og flóttamannaaðstoð er neyðarþjónusta. Svolítið eins og bráðamóttaka. Það er þekkt að ótryggt fólk vestanhafs notar bráðamóttökur því þar verður það að fá  aðstoð skv. lögum. En fyrir vikið verða bráðamóttökur að heilsugæslustöðum fyrir róna. Besta lausnin er samt auðvitað ekki að gera bráðamóttökur að heilsugæslustöðvum heldur að tryggja fólk svo það geti fengið venjulega læknisþjónustu.

Að sama skapi er leiðin til að minnka álag á hælisleitarkerfið um heim allan ekki að herða reglur, en raunar heldur ekki að losa um þær, heldur að gefa fólki sem vill flytja milli landa færi á að gera það löglega.

Leave a Reply

Your email address will not be published.