Öskrað á áttavitann 6/31: Einkavæðing bankanna

Ég hef litið á spurningar í þessum kosningaprófi RÚV sem spurningar um meginstefnu. Meginstefna mín er að ríkið eigi ekki að eiga fullt af bönkum. Ef fram kæmi tillaga um að selja hlut ríkins í einhverjum bankanna myndi ég styðja þá tillögu.

Ríkið á sem stendur 98% prósent í Landsbankanum, 100% í Íslandsbanka og 13% í Arionbanka. Finnst mér líklegt að ríkið muni selja alla þennan hlut í bráð? Finnst mér líklegt að það gerist á næsta kjörtímabili? Það er kannski ekki líklegt. Miðað við reynslu af sænsku bankakrísunni snemma á tíunda áratugnum gætu liðið einhver ár þangað til að ríkið selur hlut sinn í bönkunum að fullu. En það er hægt að selja eitthvað og það er skynsamlegt að gera það.

Það er mörgu lofað í þessari kosningabaráttu. Heilbrigðisútgjöldum upp í 11% af VLF, að öll læknisþjónusta verði ókeypis að vaxtabæturnar verði fyrirframgreiddar, allar bætur hækkaðar og allar skerðingar afnumdar. Þótt ég, og við í Viðreisn, séum vissulega fylgjandi hærri veiðigjöldum í gegnum uppboð, er ekki hægt að eyða þeim peningum nema einu sinni. Ef við ætlum að auka útgjöld tímabundið, til dæmis klára nýja spítala við Hringbraut, er skynsamlegra að selja banka heldur en að taka lán eða hætta við að greiða niður skuldir.

Leave a Reply

Your email address will not be published.