Öskrað á áttavitann 4/31 Frumvarp stjórnlagaráðs

Í þessari seríu hef ég reynt að svara þrjátíu spurningum í vefkönnun RÚV.

Smá innskot: Mig langar líka örlítið að gefa spurningunum sjálfum einkunn bara til að vera uppbyggilegur varðandi svona kannanir í framtíðinni. Fyrsta spurningin um verðtrygginuna fannst mér góð. Sú næsta um heildarendurskoðun stjórnarskrár á kjörtímabilinu fannst mé allt í lagi því vissulega má ímynda sér hvað við sé átt en það er samt einn galli: það er hægt að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar með því að ákveða að gera ekkert.

Spurningin í dag er góð. Það er ljóst um hvað sé spurt. Frumvarp stjórnlagaráðs liggur fyrir. Ef það yrði lagt fram sem breyting á stjórnarskipunarlögum myndi ég ýta á rauða takkann. Óbreytt frumvarp gengur ekki. Og ég lýst því yfir að það ætti að áfangaskipta verkinu frekar en að reyna að þrýsta því í gegn á næsta þingi.

Í sjálfu sér þyrfti þessi pistill ekki að vera lengri. Svarið er komið. En ein spurning situr alltaf eftir og er réttmæt. Ég var í þessu ráði sem samdi þessar tillögur. Ég kaus með þeim, er það ekki? Hvað breyttist?

Til að byrja með langar mig að fara aðeins lengra aftur. Ég var ekki á því að það væri “brýnt” að endurskoða stjórnarskrána. Alls ekki. Ég talaði ekki þannig í kosningabaráttu til stjórnlagaþings, ég talaði ekki þannig í útvarpsviðtali sem RÚV tók við alla frambjóðendur, ég svaraði ekki þannig í DV-prófi sem allir frambjóðendur fengu að taka.

Mér fannst alls ekki að það ætti að búa til nýja stjórnarskrá frá grunni og ég talaði mjög eindregið gegn því á fyrstu dögum ráðsins. Þingið gaf okkur ekki einu sinni umboð til þess, að mínu mati: Í þingsályktun þar sem við vorum skipuð var sagt.

Alþingi ályktar að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Ég talaði gegn því að við myndum byrja frá grunni og talaði gegn því að mannréttindakaflinn væri tekinn til gangerar endurskoðunar. Ég kaus í samræmi við þessa afstöðu fyrst um sinn en játa að mér entist ekki þróttur til að halda því áfram. Í fyrsta lagi upplifði ég mig frekar einangraðan í þeirri skoðun, í þeirri skoðun að ekki ætti að skrifa glænýja stjórnarskrá heldur endurskoða þá sem fyrir var.

Ég mat það sem svo að þessi bátur væri á fullri ferð sama hvað ég myndi bóka um hraðann myndi það ekki breyta neinu, en ég gæti haft áhrif á stefnuna, það væri þrátt fyrir allt betri nýting á mínum kröftum. Annað sem flækti stöðuna var að ég hafði verið kosinn formaður einnar nefndar og þar með í stjórn ráðsins. Kannski voru það mistök að falast eftir því, eftir á að hyggja því maður lenti í því að sjá um einhverja verkstjórn og að miðla málum innan nefndar, frekar en að hugsa um eigin áherslur.

Lengst af ferlinu var ég líklegast andlega á gula takkanum gagnvart skjalinu í heild sinni. Ég var ekkert viss um að það sem við værum að búa til væri betra en það sem við vorum með, þarna voru margar fínar hugmyndir, sumt kannski dálítið nýstárleg, en til að vera sanngjarn, ekkert svona sem ætti sér ENGA hliðstæðu í neinni erlendri stjórnarskrá. Sumt var hins vegar svolítið mikið tilraunaeldhús (kosningakerfið), stórt stökk (beint lýðræði) eða óþarfa breytingar á góðum texta (mannréttindi).

Auðvitað fannst mörgum öðrum hið þveröfuga. Á lokametrunum þann ég hvernig raddir innan úr baklandi sumra róttækari ráðsliða höfðu talið þeim trú um að það sem við gerðum gengi ekki nógu langt. Það fór af stað hreyfing um að gera tillögurnar róttækari. Og það gekk eftir. Eftirfarandi var meðal annars breytt:

  1. Þröskuldar voru felldir út í alþingiskosningum.
  2. Þinginu gert skylt að leyfa kosningar þvert á lista.
  3. Kjósendum gert kleyft að skrifa og samþykkja lög þvert á vilja þings.
  4. Undirskriftamagn í þjóðaratkvæðum var minnkað verulega.
  5. Eignarrétturinn rýrður verulega viðbót um að hann mætti ekki ganga gegn almannahag.

Á þessum stað færðist ég einfaldlega yfir á rauða takkann. Ég ætlaði að kjósa gegn tillögunum. Um daginn fann ég meira að segja afsögn mína úr stjórn stjórnlagaráðs og yfirlýsingu sem ég ætlaði að flytja á ráðsfundi af því tilefni.

Það hefði auðvitað verið einhver lausn að gefa bara skít í allt. Á hinn bóginn fannst mér ég bera ábyrgð að það sem kæmi út úr þessari vinnu væri eins gott og hægt væri. Því þetta var þrátt fyrir allt hugsanleg framtíðar-stjórnarskrá Íslands. Ef ég gat breytt skjalinu úr einhverju sem ég gat ekki hugsað mér að búa við í eitthvað sem ég hélt að gæti gengið þá væri það þess virði. Nógu mikils virði til að það borgaði sig að reyna.

Ég fókuseraði á nokkur atriði í listanum hér að ofan, 2, 3 og 5. Ég var ekki einn í þessum slag, svo það sé sagt, en persónulega vissi ég að mitt stærsta tromp væri lokaatkvæðið í ráðinu. Mörgum í ráðinu lá mjög á að fá einróma niðurstöðu. Ég tók slag um nokkur atriði sem ég gat alls ekki sætt mig við. Ég náði þeim fram og þá stóð ég við mitt í lokaafgreiðslu ráðsins og kaus með tillögunum (án aðfararorða, raunar, önnur saga).

Líklega hefði hjáseta verið nær lagi án allrar forsögu. Tillögurnar fannst mér alveg geta gengið. Ég gat ímyndað mér að þær gætu orðið að stjórnarskrá einn daginn. En voru þær betri en núverandi stjórnarskrá? Ég var ekki viss en mér fannst allt í lagi að senda þær áfram til þingsins. Ég treysti því að þingið myndi vinna þær vel áfram.

En ég varð fyrir vonbrigðum. Margar umsagnir voru frekar gagnrýnar á frumvarpið og viðbrögð stuðningsmanna frumvarpsins oftast frekar fyrirsjáanleg. Í stað þess að fullvinna tillögurnar voru þær settar í þetta þjóðaratkvæði. Allt þetta var tilraun til að sniðganga hið lögboðna ferli við að breyta stjórnarskrá og búa til eitthvað annað ferli í staðinn. Það var  fyrst eftir úrslitin í atkvæðagreiðslnni sme málið var sent til Feneyjarnefndarinnar. Hún var líka frekar gagnrýnin.

Ég hef áður sagt að það eigi að halda áfram með endurskoðun stjórnarskrárinnar í áföngum og það má vel nýta margt úr vinnu ráðsins því margt er gott. En ef ég þyrfti að kjósa um þær á þingi í dag yrði svarið klárlega nei.

Leave a Reply

Your email address will not be published.