Öskrað á áttavitann 3/31 Heildarendurskoðun stjórnarskrár á kjörtímabilinu

Eins og áður sagði þá svara ég öllum spurningum RÚV með já / nei / sit hjá. Það geri ég til að neyða sjálfan mig til að taka dálítið skýra afstöðu. Ég hef  þanniga reynt að hugsa hvaða meginlínur liggi að baki spurningunum, hvernig gott frumvarp sem styddi fullyrðingarnar myndi líta út og síðan hvaða takka ég myndi ýta á í atkvæðagreiðslu um þannig frumvarp.

Þessi spurning er allt í lagi. Ég skil meginhugsunina að baki. Ætli þeir sem styðja stutt þing að loknum kosningum og lögfestingu tillaga stjórnlagaráðs munu ekki allir segja heilshugar “já” við þessari spurningu. Ég verð reyndar að vera pedantískur og benda á að það er ekki hægt að ljúka við heildarendsurskoðun á næsta kjörtímabili. Ef breyta á stjórnarskrá þarf alltaf að rjúfa þing, boða til kosningar og kjósa aftur, og ef við viljum setja lokaútgáfuna í þjóðaratkvæði þá gerist það ekki fyrr en á þarnæsta kjörtímabili.

Ef þetta er spurning um að “drífa í þessu” eftir kosningar og rjúfa þing þá styð ég það ekki.
Ef þetta er spurning um að nýta tímabundna  breytingákvæðið sem enn er í gildi í örfáa mánuði, þar sem aukin meirihluti og þjóðaratkvæði dugir þá styð ég það ekki. Þetta má ekki vera gert í einhverjum asa og með afli atkvæða að vopni.

Ég vil áfangaskipta þessu verkefni. Setja niður plan yfir næstu 2-3 kjörtímabil. Taka fyrir nokkra kafla í einu. Það er skynsamlegra og raunhæfara. Við höfum áður fengið ríkisstjórn sem ætlaði sér að ganga í ESB, breyta kvótakerfinu, skipta um stjórnarskrá og hún endaði með að takast ekkert af því. Það var tveggja flokka stjórn með ágætan meirihluta (til að byrja með). Það stefnir í mun flóknara flokkamynstur og mun fleiri loforð. Heildarendurskoðun mun alltaf þvælast fyrir öllum öðrum málum.

Vandinn við allar heildarendurskoðanir, og þessa sem ég tók þátt þar á meðal, er sá að það er alltaf verið að gera tvo hluti samtímis:

  • a) Laga hluti. Til dæmis: Skrifa forsetakaflann þannig að hann endurspegli raunverulegt vald forsetans. Tryggja sjálfstæði dómstóla. Bæta við kafla um ríkisstjórn, sem vantar.
  • b) Bæta við hlutum. Til dæmis: Koma á beinu lýðræði. Banna ráðherum að sitja á þingi. Breyta kosningakerfinu.

Stjórnlagaráð reyndi a) og b). Það þing sem nú er að hætta reyndi bara að gera bara b) og mistókst einnig.

Ég held að það sé ekki hægt að byrja á þessu verkefni öðruvísi en að byrja á a).

En mun það nokkurn tímann takast? Ég held að það geti vel gerst. Það eru sannarlega hlutir í stjórnarskráni sem við ættum að geta breytt í sátt. Viðvörun: Þeir eru ekki spennandi. Nýr kafli um dómskerfið er ekki spennandi, en það væri gott að fá hann því núna gæti þingmeirihluti sem fílar ekki Hæstarétt lagt niður Hæstarétt og búið til nýjan Hæðstarétt.

Nýr kafli um ríkisstjórn og forseta er heldur ekki súperspennandi en við þurfum hann líka. Mér er minnistætt eitt augnablik í kosningabaráttu til forseta þegar Sturla Jónsson var gagnrýndur af spyrlum fyrir beina túlkun sína á því að forseti mætti leggja fram frumvörp (að mig minnir). Hans svar var mjög gott. Hann sagði eitthvað á þá leið: “Bíddu, þú trúir því að allir séu jafnir fyrir lögum því að það stendur í stjórnarskráni, af hverju trúir þú ekki þessu ákvæði líka?”.

Og það er nefnilega málið. Öll stjórnskipunarviska sem fyrir er breytir því ekki að ef fram kemur forseti sem vill sjálfur ráða ráðherra, skrifa lög og gera milliríkjasamninga þá þarf alla vega að taka ákvörðun um hvað verði gert við slíkar aðstæður. Og ótvírætt orðalag stjórnarskrárinnar mun vinna með þeim forseta fremur en hitt.

Andstaða mín við að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili þýðir ekki að ég vilji ekkert gera. Stjórnlagaráð gerði ágæt tillögur að nýjum kafla um dómsmál og nýjum kafla um forseta, ráðherra og ríkisstjórn. Þá vinnu má vel nýta. En ég er nokkuð sannfærður um að hin blóðheita afstaða: “stjórnarskrá stjórnlagaráðs á undan öllu öðru” muni taka tíma og eyða orku, valda átökum, og skila engu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.