Öskrað á áttavitann 11/31: Herinn

screen-shot-2016-10-24-at-10-44-23

Segjum að dag einn muni Bandaríkjaher biðja um að fá að byggja upp aðstöðu í Keflavík að nýju. Svo mun liggja fyrir samningur um að það verði gert. Segjum að samningur muni fara fyrir Alþingi. Ég myndi, sem þingmaður, kjósa með slíkum samningi.

Við erum í NATO. Ég styð það. Veran í NATO þýðir það að við tökum þátt í sameiginlegum vörnum. Ef einhver telur að við getum styrkt þær varnir með því að veita bandamönnum okkar aðstöðu hér á landi þá eigum við að gera það.

Við verðum alveg að tryggja varnir okkar og þjóðaröryggi, þó það hljómi leiðinlega og vænissjúkt að spá í því. Og persónulega, ef ég mætti velja milli þess að hafa hér fámennt erlent herlið eða vopna íslenska lögreglumenn vélbyssum þá fyndist mér fyrrnefndi kosturinn miklu, miklu skárri.

Öskrað á áttavitann 10/31: Krónan

Íslenska krónan varð sjálfstæður gjaldmiðill árið 1922. Gjaldeyrishöftum var komið á þremur árum síðar, árið 1925. Þau hafa meira og minna fylgt krónunni síðan, með stuttu millibilsástandi í upphafi þessarar aldar, sem endaði nú ekki ýkja vel.

Krónan hefur gengið í gegnum röð gengisfellinga, verðbólgu, við höfum þurft að klippa núll af henni. Vextir eru að jafnaði hærri. Stærsti kosturinn sem ég hef heyrt með krónuna er að hún gefur okkur færi á að lækka laun fólks hratt án þess að fólk taki eftir því að heldur þannig atvinnuleysi niðri.

Hugsanlega er þetta að einhverju leyti rétt. Atvinnuleysi á Íslandi er almennt lágt. Það er örlítið hærra í Danmörku. Kannski myndi skorturinn á „sveigjanleika“ hækka meðalatvinnuleysi aðeins, láta það vera eins  og í Danmörku, en það er auðvitað fáranlegt að halda að það myndi fara líkjast löndum eins og Spáni eða Portúgal, þar er lagaumhverfið annað og vinnumarkaðurinn minna sveigjanlegur svo eitthvað sé nefnt. En já við gætu orðið meira eins og Danmörk eða Svíþjóð.

 

Fyrir fjórum árum gaf Seðlabankinn út skýrsluna Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Það er að finna þessa mynd.

Sjálfstæð krónan varla augljós kostur. Heimild: Seðlabanki Íslands
Sjálfstæð krónan varla augljós kostur. Heimild: Seðlabanki Íslands

 

Á þessari mynd sést nokkuð vel að sjálstæður gjaldmiðill með fljótandi gengi er alls ekki augljós kostur í gengismálum. Við erum raunar langminnsta ríkið af þeim sem velja þann kost. Einhvers konar hörð fastgengisstefna í gegnum myntbandalag, einhliða upptöku eða myntráð væri miklu eðlilegri kostur fyrir land af okkar stærð.

Öskrað á áttavitann 9/31: Hækkun veiðigjalda

Fyrir nokkrum mánuðum skilaði samráðsvettvangur um aukna hagsæld af sér nokkrum tillögum í skattamálum.

Meðal annars var gert ráð fyrir að hlutdeild umhverfis- og auðlindagjalda í heildarskattkökunni myndi aukast, og þá myndi, eðlilega, hlutdeild annarra skatta minnka. Ef við gerðum ráð fyrir að heildartekjur ríkisins ættu að vera þær sömu og áður þá gæti það þýtt að við gætum lækkað virðisaukaskatt og tekjuskatt talsvert.

Persónulega myndi ég hins án nokkurs vafa vilja lækka skatta á móti hærri veiðigjöldum. Það er auðvitað öllu vinsælla að lofa þeim í alls kyns ný útgjöld en það allt eykur heildarumsvif ríkissjóðs. Mér finnst það alls ekki takmark. Þvert á móti.

Ef til þess kæmi að það yrði kosið um hvort hækka ætti krónutölurnar í lögum um veiðigjöld þá myndi ég gera það. Það er þrátt fyrir allt ansi hagkvæm skattheimta. Ef útgerðir þyrftu að borga hærri veiðigjöld þá myndu þær engu að síður halda áfram að veiða. Jafnmikið. Það myndi ekki breytast fyrr en veiðigjöldin væru orðin verulega íþyngjandi sem ekki bendir til að sé tilfellið.

Kvótakerfið er í grunninn gott. Það tryggir að sá veiði fiskinn sem er bestur í því og það kemur í veg fyrir ofveiði. Veruleikinn er samt sá að margt fólk upplifir úthlutunina rangláta og að það væri hægt að fá meira fé þaðan, fyrir að rukka fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind, fremur en að sækja peninginn annars staðar. Ég held að það fólk hafi margt til síns máls.

Ég vildi samt helst forðast kerfi þar sem upphæð veiðigjalda er ákveðinn í einhverjum lobbýista viðræðum milli hagsmunaaðila, stjórnvalda og hagfræðinga með áhuga á málefninu. Aðalmálið er að upphæðin ákvarðist af markaðsforsendum. Viðreisn hefur lagt til uppboð, aðrir flokkar hafa sett fram svipaðar hugmyndir sem og jafnvel einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Samráðsvettvangurinn lagði til langtímasamninga þar sem verðið ákvarðast á markaðsforsendum án þess að það væri skýrt mjög nákvæmlega en virtist hrifinn af uppboðum á fyrri stigum vinnunnar. Þannig að það er mikil umræða í þessa veru.

Allar þessar lausnir taka hins vegar sinn tíma. En til skamms tíma myndi ég styðja þá fljótlegu lausn að nota núverandi lagaramnna og hækka veiðigjöld.

Öskrað á áttavitann 8/31: Móttaka flóttamanna

screen-shot-2016-10-14-at-22-48-57

 

 

 

 

 

Þetta er í sjálfu sér ekki flókið. Við erum hluti af heimi. Þessi heimur er misgóður. Stundum vill fólk flytja á milli í þessum heimi í leit að betra lífi. Og ég vil að það sé hægt að gera það löglega. En þetta hérna er ekki spurning um það. Þetta er spurning um að veita þá neyðaraðstoð sem felst í móttöku flóttamanna frá stríðshrjáðum löndum. Og hvort við getum bæði hjálpað til í þeim löndum sem þurfa að glíma við mesta strauminn og hjálpað til hér heima.

Af öllum löndum sem Eurostat mælir voru Ungverjar með hlutfallslega flestar umsóknir á 100 þúsund íbúa eða 1799 árið 2015. Þjóðverjar voru með 587. Meðaltala fyrir Evrópu er 260. Það er 0,26% af heildaríbúafjölda álfunnar. Og tökum eftir að það er fríkings borgarastyrjöld í Miðausturlöndum. Þetta hlutfall jafngildir því að 400 manna skemmtiferðaskip væri að velta fyrir sér hvort það ætti að taka upp einn skipbrotsmann eða láta hann eiga sig.

Okkar tala var 122, langt undir meðaltali Evrópu. Og sama hvað við gerum munu náttúrlega landamæri og kostnaður alltaf gera okkur að ólíklegri lokastað fólks sem flýr undan stríðum.

Þannig að stutta og einfalda svarið er já. Við getum gert meira.

 

Öskrað á áttavitann 7/31: Móttaka hælisleitenda

 

Sem spurningu um meginstefnu á ég auðvelt að svara þessu. Það er til fullt af fólki sem vill miklu harðari „reglur“ um hæli. Við gætum verið enn djarfari í að senda fólk úr landi án efnismeðferðar með vísan í Dyflinarreglugerðina. Við gætum verið eins og Japan, sem samþykkti 27 hælisumsóknir á seinasta ári. En til hvers?

Ég verð samt að segja eitt. Kosningaprófið endurspeglar umræðuna. Samkvæmt því eru þrenns konar útlendingar að koma landsins: Hælisleitendur, flóttamenn og ferðamenn. Mér finnst vanta almennari spurningar innflytjendamálin. Fólksflutningar eru allt í lagi hlutur. Mér finnst óheppilegt hvernig fólk er alltaf að tengja þá við einhverja eymd.

Málið er að með almennt ódýrari samgöngum um allan heim ætti að vera auðveldara fyrir fólk að flytja milli landa. Og það er orðið auðveldara fyrir fólk innan Evrópu að flytja til Íslands. En á sama tíma hafa menn gert það miklu erfiðara fyrir fólk utan EES.

Eitt dæmi, þegar ég flutti til Íslands var pabbi minn í námi í íslensku og gat tekið fjölskylduna með. Nú er þetta ekki hægt. Nýju útlendingalögin opna á þetta fyrir fólk í doktorsnámi. Í doktorsnámi!

Sem sagt: Íslandi og öðrum vesturlöndum hefur verið lokað fyrir flutninga erlends fólk frá fátækum löndum. Fyrir vikið verður mannúðarleiðin eina leið fólks til að fara á milli landa. Fólk reynir að fara til Kanada sem er gott land fyrir innflytjendur. Það er stoppað í millilendingu í Leifstöð. Sækir um hæli er gjarnan sent til baka

Ef það yrði lagt til að herða reglur um hælismóttöku myndi ég ekki styðja það. Ég myndi horfa til Svíþjóðar og Kanada í leit að fyrirmyndum um hvernig hátta skuli þessum málum. En ég játa að mér finnst ekki endilega aðalfókusinn eigi að vera á hælisleit.

Hælisleit og flóttamannaaðstoð er neyðarþjónusta. Svolítið eins og bráðamóttaka. Það er þekkt að ótryggt fólk vestanhafs notar bráðamóttökur því þar verður það að fá  aðstoð skv. lögum. En fyrir vikið verða bráðamóttökur að heilsugæslustöðum fyrir róna. Besta lausnin er samt auðvitað ekki að gera bráðamóttökur að heilsugæslustöðvum heldur að tryggja fólk svo það geti fengið venjulega læknisþjónustu.

Að sama skapi er leiðin til að minnka álag á hælisleitarkerfið um heim allan ekki að herða reglur, en raunar heldur ekki að losa um þær, heldur að gefa fólki sem vill flytja milli landa færi á að gera það löglega.

Öskrað á áttavitann 6/31: Einkavæðing bankanna

Ég hef litið á spurningar í þessum kosningaprófi RÚV sem spurningar um meginstefnu. Meginstefna mín er að ríkið eigi ekki að eiga fullt af bönkum. Ef fram kæmi tillaga um að selja hlut ríkins í einhverjum bankanna myndi ég styðja þá tillögu.

Ríkið á sem stendur 98% prósent í Landsbankanum, 100% í Íslandsbanka og 13% í Arionbanka. Finnst mér líklegt að ríkið muni selja alla þennan hlut í bráð? Finnst mér líklegt að það gerist á næsta kjörtímabili? Það er kannski ekki líklegt. Miðað við reynslu af sænsku bankakrísunni snemma á tíunda áratugnum gætu liðið einhver ár þangað til að ríkið selur hlut sinn í bönkunum að fullu. En það er hægt að selja eitthvað og það er skynsamlegt að gera það.

Það er mörgu lofað í þessari kosningabaráttu. Heilbrigðisútgjöldum upp í 11% af VLF, að öll læknisþjónusta verði ókeypis að vaxtabæturnar verði fyrirframgreiddar, allar bætur hækkaðar og allar skerðingar afnumdar. Þótt ég, og við í Viðreisn, séum vissulega fylgjandi hærri veiðigjöldum í gegnum uppboð, er ekki hægt að eyða þeim peningum nema einu sinni. Ef við ætlum að auka útgjöld tímabundið, til dæmis klára nýja spítala við Hringbraut, er skynsamlegra að selja banka heldur en að taka lán eða hætta við að greiða niður skuldir.

Öskrað á áttavitann 5/31 Þjóðaratkvæði ESB-viðræður

Þessi spurnig er góð og einföld. Ef borin verður upp þingsályktunartillaga um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð ESB-viðræðna þá mun ég kjósa með henni, ef ég fæ tækifæri til þess. Ef slík atkvæðagreiðsla fer fram mun ég þar tala fyrir jái.

Ég mun gera það vegna þess að ég styð að það verði haldið áfram með þessar aðildarviðræður. Ég vil klára þær. Það getur tekið nokkur ár. Jafnvel áratug. Þegar það er búið vil ég kjósa svo um það hvort við viljum ganga í Evrópusambandið.

Í þeirri atkvæðagreiðslu finnst mér ansi líklegt að ég muni segja já. Ég treysti mér að halda því fram vegna þess að ég veit nokkurn veginn hvað felst í því að ganga í Evrópusambandið. Við eru í því þegar að stórum hluta.

Með inngöngunni myndi ekki svo marg breytast en þó sumt og flest til hins betra. Íslenskir neytendur myndu fá óheftan aðgang að sameinuðum evrópskum markaði, fólk gæti keypt hvað sem það vildi á netinu og fengið það sent heim, án þess að borga toll og vask. Fólk gæti keypt erlenda matvöru í búð. Við gætum flutt okkar mat óheft til Evrópu. Við gætum fengið betri mynt.

Allt þetta er gott, eitthvað annað kann að vera síðra. En ESB umsókn er stórmál. Hún er yfirlýsing um að vilja ganga í sambandið. Við förum ekki í þennan leiðangur öðruvísi en að fá til þess skýrt umboð.

Öskrað á áttavitann 4/31 Frumvarp stjórnlagaráðs

Í þessari seríu hef ég reynt að svara þrjátíu spurningum í vefkönnun RÚV.

Smá innskot: Mig langar líka örlítið að gefa spurningunum sjálfum einkunn bara til að vera uppbyggilegur varðandi svona kannanir í framtíðinni. Fyrsta spurningin um verðtrygginuna fannst mér góð. Sú næsta um heildarendurskoðun stjórnarskrár á kjörtímabilinu fannst mé allt í lagi því vissulega má ímynda sér hvað við sé átt en það er samt einn galli: það er hægt að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar með því að ákveða að gera ekkert.

Spurningin í dag er góð. Það er ljóst um hvað sé spurt. Frumvarp stjórnlagaráðs liggur fyrir. Ef það yrði lagt fram sem breyting á stjórnarskipunarlögum myndi ég ýta á rauða takkann. Óbreytt frumvarp gengur ekki. Og ég lýst því yfir að það ætti að áfangaskipta verkinu frekar en að reyna að þrýsta því í gegn á næsta þingi.

Í sjálfu sér þyrfti þessi pistill ekki að vera lengri. Svarið er komið. En ein spurning situr alltaf eftir og er réttmæt. Ég var í þessu ráði sem samdi þessar tillögur. Ég kaus með þeim, er það ekki? Hvað breyttist?

Til að byrja með langar mig að fara aðeins lengra aftur. Ég var ekki á því að það væri „brýnt“ að endurskoða stjórnarskrána. Alls ekki. Ég talaði ekki þannig í kosningabaráttu til stjórnlagaþings, ég talaði ekki þannig í útvarpsviðtali sem RÚV tók við alla frambjóðendur, ég svaraði ekki þannig í DV-prófi sem allir frambjóðendur fengu að taka.

Mér fannst alls ekki að það ætti að búa til nýja stjórnarskrá frá grunni og ég talaði mjög eindregið gegn því á fyrstu dögum ráðsins. Þingið gaf okkur ekki einu sinni umboð til þess, að mínu mati: Í þingsályktun þar sem við vorum skipuð var sagt.

Alþingi ályktar að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Ég talaði gegn því að við myndum byrja frá grunni og talaði gegn því að mannréttindakaflinn væri tekinn til gangerar endurskoðunar. Ég kaus í samræmi við þessa afstöðu fyrst um sinn en játa að mér entist ekki þróttur til að halda því áfram. Í fyrsta lagi upplifði ég mig frekar einangraðan í þeirri skoðun, í þeirri skoðun að ekki ætti að skrifa glænýja stjórnarskrá heldur endurskoða þá sem fyrir var.

Ég mat það sem svo að þessi bátur væri á fullri ferð sama hvað ég myndi bóka um hraðann myndi það ekki breyta neinu, en ég gæti haft áhrif á stefnuna, það væri þrátt fyrir allt betri nýting á mínum kröftum. Annað sem flækti stöðuna var að ég hafði verið kosinn formaður einnar nefndar og þar með í stjórn ráðsins. Kannski voru það mistök að falast eftir því, eftir á að hyggja því maður lenti í því að sjá um einhverja verkstjórn og að miðla málum innan nefndar, frekar en að hugsa um eigin áherslur.

Lengst af ferlinu var ég líklegast andlega á gula takkanum gagnvart skjalinu í heild sinni. Ég var ekkert viss um að það sem við værum að búa til væri betra en það sem við vorum með, þarna voru margar fínar hugmyndir, sumt kannski dálítið nýstárleg, en til að vera sanngjarn, ekkert svona sem ætti sér ENGA hliðstæðu í neinni erlendri stjórnarskrá. Sumt var hins vegar svolítið mikið tilraunaeldhús (kosningakerfið), stórt stökk (beint lýðræði) eða óþarfa breytingar á góðum texta (mannréttindi).

Auðvitað fannst mörgum öðrum hið þveröfuga. Á lokametrunum þann ég hvernig raddir innan úr baklandi sumra róttækari ráðsliða höfðu talið þeim trú um að það sem við gerðum gengi ekki nógu langt. Það fór af stað hreyfing um að gera tillögurnar róttækari. Og það gekk eftir. Eftirfarandi var meðal annars breytt:

  1. Þröskuldar voru felldir út í alþingiskosningum.
  2. Þinginu gert skylt að leyfa kosningar þvert á lista.
  3. Kjósendum gert kleyft að skrifa og samþykkja lög þvert á vilja þings.
  4. Undirskriftamagn í þjóðaratkvæðum var minnkað verulega.
  5. Eignarrétturinn rýrður verulega viðbót um að hann mætti ekki ganga gegn almannahag.

Á þessum stað færðist ég einfaldlega yfir á rauða takkann. Ég ætlaði að kjósa gegn tillögunum. Um daginn fann ég meira að segja afsögn mína úr stjórn stjórnlagaráðs og yfirlýsingu sem ég ætlaði að flytja á ráðsfundi af því tilefni.

Það hefði auðvitað verið einhver lausn að gefa bara skít í allt. Á hinn bóginn fannst mér ég bera ábyrgð að það sem kæmi út úr þessari vinnu væri eins gott og hægt væri. Því þetta var þrátt fyrir allt hugsanleg framtíðar-stjórnarskrá Íslands. Ef ég gat breytt skjalinu úr einhverju sem ég gat ekki hugsað mér að búa við í eitthvað sem ég hélt að gæti gengið þá væri það þess virði. Nógu mikils virði til að það borgaði sig að reyna.

Ég fókuseraði á nokkur atriði í listanum hér að ofan, 2, 3 og 5. Ég var ekki einn í þessum slag, svo það sé sagt, en persónulega vissi ég að mitt stærsta tromp væri lokaatkvæðið í ráðinu. Mörgum í ráðinu lá mjög á að fá einróma niðurstöðu. Ég tók slag um nokkur atriði sem ég gat alls ekki sætt mig við. Ég náði þeim fram og þá stóð ég við mitt í lokaafgreiðslu ráðsins og kaus með tillögunum (án aðfararorða, raunar, önnur saga).

Líklega hefði hjáseta verið nær lagi án allrar forsögu. Tillögurnar fannst mér alveg geta gengið. Ég gat ímyndað mér að þær gætu orðið að stjórnarskrá einn daginn. En voru þær betri en núverandi stjórnarskrá? Ég var ekki viss en mér fannst allt í lagi að senda þær áfram til þingsins. Ég treysti því að þingið myndi vinna þær vel áfram.

En ég varð fyrir vonbrigðum. Margar umsagnir voru frekar gagnrýnar á frumvarpið og viðbrögð stuðningsmanna frumvarpsins oftast frekar fyrirsjáanleg. Í stað þess að fullvinna tillögurnar voru þær settar í þetta þjóðaratkvæði. Allt þetta var tilraun til að sniðganga hið lögboðna ferli við að breyta stjórnarskrá og búa til eitthvað annað ferli í staðinn. Það var  fyrst eftir úrslitin í atkvæðagreiðslnni sme málið var sent til Feneyjarnefndarinnar. Hún var líka frekar gagnrýnin.

Ég hef áður sagt að það eigi að halda áfram með endurskoðun stjórnarskrárinnar í áföngum og það má vel nýta margt úr vinnu ráðsins því margt er gott. En ef ég þyrfti að kjósa um þær á þingi í dag yrði svarið klárlega nei.

Öskrað á áttavitann 3/31 Heildarendurskoðun stjórnarskrár á kjörtímabilinu

Eins og áður sagði þá svara ég öllum spurningum RÚV með já / nei / sit hjá. Það geri ég til að neyða sjálfan mig til að taka dálítið skýra afstöðu. Ég hef  þanniga reynt að hugsa hvaða meginlínur liggi að baki spurningunum, hvernig gott frumvarp sem styddi fullyrðingarnar myndi líta út og síðan hvaða takka ég myndi ýta á í atkvæðagreiðslu um þannig frumvarp.

Þessi spurning er allt í lagi. Ég skil meginhugsunina að baki. Ætli þeir sem styðja stutt þing að loknum kosningum og lögfestingu tillaga stjórnlagaráðs munu ekki allir segja heilshugar „já“ við þessari spurningu. Ég verð reyndar að vera pedantískur og benda á að það er ekki hægt að ljúka við heildarendsurskoðun á næsta kjörtímabili. Ef breyta á stjórnarskrá þarf alltaf að rjúfa þing, boða til kosningar og kjósa aftur, og ef við viljum setja lokaútgáfuna í þjóðaratkvæði þá gerist það ekki fyrr en á þarnæsta kjörtímabili.

Ef þetta er spurning um að „drífa í þessu“ eftir kosningar og rjúfa þing þá styð ég það ekki.
Ef þetta er spurning um að nýta tímabundna  breytingákvæðið sem enn er í gildi í örfáa mánuði, þar sem aukin meirihluti og þjóðaratkvæði dugir þá styð ég það ekki. Þetta má ekki vera gert í einhverjum asa og með afli atkvæða að vopni.

Ég vil áfangaskipta þessu verkefni. Setja niður plan yfir næstu 2-3 kjörtímabil. Taka fyrir nokkra kafla í einu. Það er skynsamlegra og raunhæfara. Við höfum áður fengið ríkisstjórn sem ætlaði sér að ganga í ESB, breyta kvótakerfinu, skipta um stjórnarskrá og hún endaði með að takast ekkert af því. Það var tveggja flokka stjórn með ágætan meirihluta (til að byrja með). Það stefnir í mun flóknara flokkamynstur og mun fleiri loforð. Heildarendurskoðun mun alltaf þvælast fyrir öllum öðrum málum.

Vandinn við allar heildarendurskoðanir, og þessa sem ég tók þátt þar á meðal, er sá að það er alltaf verið að gera tvo hluti samtímis:

  • a) Laga hluti. Til dæmis: Skrifa forsetakaflann þannig að hann endurspegli raunverulegt vald forsetans. Tryggja sjálfstæði dómstóla. Bæta við kafla um ríkisstjórn, sem vantar.
  • b) Bæta við hlutum. Til dæmis: Koma á beinu lýðræði. Banna ráðherum að sitja á þingi. Breyta kosningakerfinu.

Stjórnlagaráð reyndi a) og b). Það þing sem nú er að hætta reyndi bara að gera bara b) og mistókst einnig.

Ég held að það sé ekki hægt að byrja á þessu verkefni öðruvísi en að byrja á a).

En mun það nokkurn tímann takast? Ég held að það geti vel gerst. Það eru sannarlega hlutir í stjórnarskráni sem við ættum að geta breytt í sátt. Viðvörun: Þeir eru ekki spennandi. Nýr kafli um dómskerfið er ekki spennandi, en það væri gott að fá hann því núna gæti þingmeirihluti sem fílar ekki Hæstarétt lagt niður Hæstarétt og búið til nýjan Hæðstarétt.

Nýr kafli um ríkisstjórn og forseta er heldur ekki súperspennandi en við þurfum hann líka. Mér er minnistætt eitt augnablik í kosningabaráttu til forseta þegar Sturla Jónsson var gagnrýndur af spyrlum fyrir beina túlkun sína á því að forseti mætti leggja fram frumvörp (að mig minnir). Hans svar var mjög gott. Hann sagði eitthvað á þá leið: „Bíddu, þú trúir því að allir séu jafnir fyrir lögum því að það stendur í stjórnarskráni, af hverju trúir þú ekki þessu ákvæði líka?“.

Og það er nefnilega málið. Öll stjórnskipunarviska sem fyrir er breytir því ekki að ef fram kemur forseti sem vill sjálfur ráða ráðherra, skrifa lög og gera milliríkjasamninga þá þarf alla vega að taka ákvörðun um hvað verði gert við slíkar aðstæður. Og ótvírætt orðalag stjórnarskrárinnar mun vinna með þeim forseta fremur en hitt.

Andstaða mín við að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili þýðir ekki að ég vilji ekkert gera. Stjórnlagaráð gerði ágæt tillögur að nýjum kafla um dómsmál og nýjum kafla um forseta, ráðherra og ríkisstjórn. Þá vinnu má vel nýta. En ég er nokkuð sannfærður um að hin blóðheita afstaða: „stjórnarskrá stjórnlagaráðs á undan öllu öðru“ muni taka tíma og eyða orku, valda átökum, og skila engu.

Öskrað á áttavitann 2/31: Afnám verðtryggingar

Fullyrðingin var „Afnema ætti verðtryggingu á nýjum lánum strax“.

Þetta er fyrsta spurningin sem ég svara í þessari seríu. Þetta er góð spurning. Hún er góð því ég á almennt frekar auðvelt að sjá fyrir mér hvernig lögin sem myndu hrinda þessu í framkvæmd myndu líta út.

Í dag er ekki leyfilegt að taka og veita gengistryggð lán, svo eitthvað sé nefnt, ímynda mætti sér að lögum yrði breytt á þann veg að óheimilt væri að taka og veita verðtryggð lán.

Við erum með minnstu sjálfstæðu, fljótandi (á köflum) mynt í heimi. Við höfum búum við óstöðugt gengi og óstöðugt verðlag. Við það ástand er skiljanlegt að þeir sem vilja lána peninga vilji lána verðtryggt.

En það skipti litlu máli þótt fjármagnseigendur myndu vilja lána verðtryggt ef engin vildi fá lánað verðtryggt. Og nú er það raunar þannig að fólk hefur val. Hér er dæmi af heimasíðu Landsbankans.

Og þrátt fyrir allt eru verðtryggð lán samt vinsælustu lánin sem fólk tekur. Samkvæmt Kjarnanum voru 82% lána á markaðnum verðtryggð.  Ætli skjáskotið að ofan skýri ekki ástæðuna. Flestir velja lán út frá upphæð fyrstu afborgana. Um það má ýmislegt segja, afborganirnar geta hækka mikið í verðbólguskotun, en það er bara eins og með lántöku almennt, hún gengur út á það að borga dót seinna.

Til lengdar myndi ég vissulega sé verðtryggð lán minnka eða hverfa alfarið og að Íslendingar gætu búið við sambærileg lán og íbúar Evrópu. En til þess þarf nýja peningu stefnu, tengingu við annan gjaldmiðil eða upptöku annars gjaldmiðils, helst með aðild að myntbandalagi. En meðan staðan er eins og hún er finnst mér ekki hægt að banna fólki að taka þau lán sem það þrátt fyrir allt kýs helst að taka.