Hvað var fólk að kvitta undir?

Kári Stefánsson hefur sett af stað undirskriftarsöfnun til bjargar íslenska heilbrigðiskerfinu. Það segir:

“Við undirrituð krefjumst þess Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins.”

Rýnum aðeins í þetta.

Opinber útgjöld eða öll útgjöld?

Í rökstuðningi sínum fyrir þessari tölu í myndbandi á heimasíðu söfnunarinnar segir Kári:

“Eins og stendur erum við að nota um 8,7 % af vergri landsframleiðslu í rekstur heilbrigðiskerfisins en þyrftum að öllum líkindum að nota 11%. Meðaltalið í Skandinavíu eru 10 % en okkar samfélag er dreifðara og fámennara þannig að það er ekki ólíklegt að við þurfum eyða töluvert meiru til að ná sams konar gæðum eins og við sjáum í heilbrigðiskerfunum í löndunum í kringum okkur.”

Sannreynum aðeins þessar tölur. Út frá orðalaginu “við krefjumst þess að Alþingi” gaf ég mér fyrst um sinn að um væri að ræða útgjöld opinbera aðila til heilbrigðismála. Það er hins vegar ekki. Hér eru þær tölur, samkvæmt OECD.

Screen Shot 2016-01-25 at 10.18.32

Hér eru hins vegar tölurnar sem Kári er að nota:

Screen Shot 2016-01-25 at 12.46.58

Þetta er heildarútgjöld samfélagsins alls. Útgjöld allra. Útgjöld einkaaðila eru hér talin með. Og, já, miðað við þann útreikning eru skandinavísku löndin þrjú að nota 10% að meðaltali. Á þeim mælikvarða eru Bandaríkin reyndar “best” af OECD ríkjum með 16% útgjöld. (Og vissulega eru Bandaríkin með gott heilbrigðiskerfi á margan hátt. Þar eru mjög góðir læknar og mikil nýsköpun. En kerfið er samt dýrt og hlúir illa að þeim verst settu.)

Ef auka á heildarútgjöld samfélagsins til heilbrigðismála þá væri ekkert tabú fyrir mér að láta einstaklinga taka að minnsta kosti einhvern þátt í þeirri útgjaldaaukingu. Ég er samt að velta því fyrir mér hvort það sé nægilega skýrt í huga þeirra sem skrifa undir þessa áskorun. Af samræðum við marga þeirra að dæma er það ekki tilfellið.

Mín tilfinning er að flestir telja sig einungis skrifa undir aukin opinber útgjöld. Orðalagið “Alþingi verji” gefur nefnilega til kynna opinber útgjöld. Alþingi getur ekki varið fé sem einkaaðilar verja. Alþingi getur auðvitað búið til kerfi þar sem fólk ver sjálft meiru fé í heilbrigðismál en það ekki það sem Kári er að láta fólk kvitta undir. Ef hið opinbera eyða 11% af VLF til heilbrigðismála þá væri það meira en nokkuð annað OECD ríki.

Vanrækt í aldarfjórðung

En það er fleira í þessari uppsetningu sem er mjög hæpið. Í kröfunni birtast fullyrðingar um vanrækslu stjórmálanna gagnvart heilbrigðiskerfinu, jafnvel illan vilja.

Það er okkar mat að á síðasta aldarfjórðungi hafi stjórnvöld vannært íslenskt heilbrigðiskerfi, að  því marki að það sé ekki lengur þess megnugt að sinna hlutverki sínu sem skyldi.

og

Þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar um aldarfjórðungsskeið hafa ekki haft að því frumkvæði að fjármagna heilbrigðiskerfið eins og skyldi…

Skoðum þá heildarútgjöld til heilbrigðismála meðal Norðurlandanna. Að neðan eru tölur frá OECD (frá 1990). Stóran hluta þess aldarfjórðungs sem Kári vísar til eyddu Íslendingar MEST eða NÆSTMEST allra Norðurlandanna í heilbrigðismál, ef við notum þann mælikvarða sem Kári vill sjálfur nota.

Screen Shot 2016-01-25 at 13.27.25

Það er ekki fyrr en eftir hrun bankakerfisins sem við drögumst aftur úr.

Græna línan, Ísland, á þessu grafi er að lyftast upp og mun gera það áfram. Gildið  var 8,8% árið 2014. (Sjá hér: https://datamarket.com/is/data/set/uzn/heildarutgjold-til-heilbrigdismala-1980-2014#!ds=uzn!y2=x23&display=line)

Horfum nú á þetta graf og drögum af því ályktanir. Hver þeirra er sanngjörnust?

  1. Stjórnmálamenn á Íslandi hafa ekki áhuga á því að hafa hér gott heilbrigðiskerfi.
  2. Á Íslandi var hægristjórn sem hlúði vel að heilbrigðiskerfinu. Svo tók við vinstristjórn og skar allt niður.
  3. Á Íslandi eru allir flokkar sammála um að það eigi að reka gott heilbrigðiskerfi. Framlög til þess voru skorin niður af illri nauðsyn í kreppu. Hver sem hefði verið við völd hefði þurft að gera það. 

Undirskriftarsöfnunin hans Kára og viðbrögð við henni lýsa þeim vilja fólks á Íslandi að vilja reka hér gott heilbrigðiskerfi. En sú saga sem reynt er að skrifa: “Öllum stjórnmálamönnum sama um heilbrigðiskerfið – svo kemur Kári” er að mínu mati ekki sanngjörn framsetning á hinum pólitíska veruleika.

Hin dýra dreifða byggð

Eitt atriði í viðbót. Ég hef alltaf miklar efasemdir um það þegar menn réttlæta aukin útgjöld Íslandi með vísan til hvað við séum svo fámenn og dreifð. Ef við miðum við klukkustundarakstur frá höfuðborginni þá dekkum 75% allra landsmanna. Hinir flestir í tveggja tíma fjarlægð með akstri og flugi.

Þetta þýðir að við getum virkilega notið þeirrar hagkvæmni að setja alla sérfræðinganna okkar á sama stað. Það væri öruggleg hægt að njóta enn meiri stærðarhagkvæmni ef við værum fleiri. En við erum samt ekki Grænland, Síbería eða Norður-Kanada.

Mér þætti gaman að vita hverjir það eru sem “best þekkja til” sem komast að þeirri niðurstöðu að við þurfum að borga 10% meira fyrir sömu þjónustu vegna dreifbýlis og fámennis en Norðmenn eða Svíar sem einnig þurfa að glíma við langar fjarlægðir og erfitt veðurfar í sínum norðurhéruðum. Ég skora hér með á Kára að deila með okkur frekari rökstuðningi fyrir þessum fullyrðingum sínum.

En Pawel, skiptir þetta einhverju máli?

Sko, summum þetta aðeins upp.

  1. Talan sem Kári vísar til eru öll útgjöld, ekki bara opinber útgjöld.
  2. Ef við viljum eyða jafnmiklu og Skandinavía til heilbrigðismála þurfum við að fara úr 8,8 % í 10 %. (Ekki 11%).
  3. Hluta þessa 1,2 % bils sem upp á vantar mætti brúa með útgjöldum einstaklinganna.

Það má vel vera að þetta sé góð hugmynd. En mér finnst að það hefði átt að vera tillöguflytjenda að fact-checka tillögurnar sínar, og þá setja þær skýrt fram svo fólk myndi vita hvað það væri að kvitta undir.

Sú gagnrýni sem ég hef hingað til haldið til haga, áður en þessi pistill birtist, hefur mætt þeim viðbrögðum sem við má að búast þegar maður hjólar í eitthvað sem fimmtungur kosningabærra manna hefur þegar lýst ánægju sína með.

Hluta hennar má endurorða með þessum hætti: “Já, það má vera að þetta séu ekki alveg réttu tölurnar sem Kári notar, en skiptir það máli? Er ekki bara krafan um að eyða miklu meiri peningum í þetta mál?”

Ég er persónulega ósammála því að rökstuðningur megi vera rangur, svo lengi sem hann sé “í áttina”. Ef að undirskriftasöfnun gengur út á tölu, og notar tölur í rökstuðningi sínum þá, já, finnst mér skipta máli að tölurnar séu réttar. Tölurnar sem Kári notar tákna ekki það sem ætla má að meirihluti fólksins sem skrifar undir heldur að þær tákni. Það finnst mér óvandað. 

8 thoughts on “Hvað var fólk að kvitta undir?

  1. “Það er ekki fyrr en eftir hrun bankakerfisins sem við drögumst aftur úr.”(sic)

    Þetta er einfaldlega ekki rétt. Samkvæmt línuritinu toppar Ísland 2003 og 2005 veifa Danir okkur bless.

    “Ef við viljum eyða jafnmiklu og Skandinavía til heilbrigðismála þurfum við að fara úr 8,8 % í 10 %. (Ekki 11%).”

    Íslendingar þurfa klárlega að setja a.m.k. 11% af þjóðarframleiðslu í heilbrigðismál næstu árin til að vinna upp vanrækslu stjórnmálamanna.

    Svo að þú áttir þig nú á fjöldaundirskriftum Íslendinga í umræddri undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar þá eru landsmenn, flestir, komnir með upp í kok af ört hrakandi heilbrigðiskerfi og vanhæfum stjórnmálamönnum.

  2. Ég held að flestum sé sama um þessar tölur. Það liggur bara í augum uppi að það þarf að setja meira í heilbrigðiskerfið.

    Eitt dæmi hérna:
    Ef aðili slasast alvarlega í Vestmannaeyjum eru sáralitlar líkur á því að hægt sé að gera nokkuð fyrir hann á staðnum (Því það er lítið sem ekkert að frétta á sjúkrahúsinu þar. Ekki einusinni hægt að eignast barn á staðnum, sem til að mynda var hægt fyrir 50 árum). Það þarf að bíða eftir sjúkraflugi frá Akureyri sem kemur til eyja og tekur svo sjúklinginn til Reykjavíkur þar sem er viðunandi hjálp að fá. Þ.e.a.s ef það væri ekki orðið of seint. Einnig má geta að svo gæti án djólks farið að sjúkraflugvélin sé upptekin og því þarf að bíða enn lengur!

    Þetta er ekki einsdæmi því heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni er svipað þessu á fjölmörgum stöðum. Alveg sömu sögu væri hægt að segja ef það yrði slys fyrir austan og færð væri slæm. Kannsk væri ekkert hægt að gera á staðnum með tilliti til alvarleika slyssins og stöðu heilbrigðiskerfisins á staðnum, og því lítið hægt að gera stax. Þá þarf að bíða eftir sjúkraflugi frá Akureyri sem fer svo áleiðis til Reykjavíkur.

    Ég nokkuð viss um að hvergi í Noregi eða Svíþjóð þarf fólk í sveitarfélögum sem telja þúsundir að bíða stundum í 3-4 tíma eftir að komast í viðunandi aðhlynningu. Eitthvað segir mér að það sé mun styttra í næsta sjúkraflug.

    Ég held að 1 prósent af útgjöldum í viðbót til heilbrigðiskerfisins muni gera helling til að bæta kerfið ekki bara í Reykjavík, sem flestir miða við heldur um land allt. Þótt heilbrigðiskerfið í Reykjavík sé kannski ekki upp á sitt besta og menn mjatla á því hvað sé eiginlega hægt að skera niður, er bara sumstaðar lítil sem engin heilbrigðisþjónusta.

    Það er verið að eyða fjármagni í allskonar munaði á meðan fólki er ekki boðið upp á viðunandi lágmarksþjónustu sem heilbrigðiskerfið er.

  3. Mér finnst það reyndar hárrétt hjá Kára að nota heildarútgjöld til heilbrigðismála sem viðmið. Þá er ekki verið að undanskilja neitt heldur er sýnt ótvírætt hvað er verið að setja í heilbrigðiskerfið og svo bætir hann við því sem hann telur að þurfi til að heilbrigðiskerfið verði nægilega gott. Það er svo endalaust hægt að deila um hvenær það verður nógu gott, en hann velur að bera Ísland saman við Norðurlöndin og metur það svo að vegna stærðaróhagkvæmi Íslands þurfi 10% meira fé í íslenska heilbrigðiskerfið til að það verði jafngott því sem er á hinum norðurlöndunum. Mér finnst þetta alveg nógu góð nálgun hjá honum. Og aðrir koma að sjálfsögðu með sínar skoðanir og leiðréttingar á þessu eftir því sem þeim þykir þurfa.
    Og ég get ekki séð að rökstuðningur Kára sé rangur, ég er ekki sammála þér í því. En það er hægt að nota margvíslegan rökstuðning og bera saman við önnur lönd á ýmsan hátt til að rökstyðja. Kári velur einfaldlega þessar tölur til að rökstyðja sitt álit.

    Mér finnst þín grein ágæt en það er samt eitt atriði í henni þar sem þú ert ekki að lesa rétt í gögnin sem þú notar að mínu mati. Það er þegar þú horfir á grænu línuna í samanburðarlínuritinu fyrir Norðurlöndin og segir að Ísland hafi ekki dregist aftur úr hinum löndunum fyrr en í fjármálakreppunni. Þegar maður horfir á þetta línurit er augljóst að það verða umskipti í fjármálum heilbrigðiskerfisins árið 2003. Þá eru greinilega samin fjárlög þar sem lagður er grunnur að því að útgjöld til heilbrigðiskerfisins eru lækkuð og þau hafa jafnt og þétt lækkað síðan. Það að það verður einhver skurðarpunktur í fjármálakreppunni er bara tilviljun því þá þegar hefur hnignun heilbrigðiskerfisins staðið í um 4 ár. Og nú erum við á botninum meðal norðurlandaþjóða á þessu sviði ásamt Finnum í stað þess að hafa staðið okkur mun betur árum saman og oft best í þessum samanburði skv. þessu línuriti.

  4. Hvernig sem þú lýtur á þetta þá er heilbrigðiskerfið að hruni komið og þjóðin vill að það sé gert eitthvað róttækt í þeim málum.

  5. Ef við höfum verið í 1-2. sæti s.l. 25 ár og öll þessi tæki vantar eins og raun ber vitni má e.t.v. álykta að
    1. það er dýrara að reka heilbrigðiskerfi á Íslandi en annarstaðar. Hugsanlega vegna tolla eða annars kostnaðar vegna legu landsins. Er það rétt?
    og/eða
    2. það hefur ekki verið farið vel með það fé sem sett hefur verið í heilbrigðismálin. í hvað fóru peningarnir þennan tíma ef þau fóru ekki í tækjakaup?

    Það er ekkert að marka að við höfum dregist aftur úr frá 2005 þar sem þjóðarframleiðsla hefur væntanlega aukist og því hafa útgjöld til heilbrigðismála lækkað sem hlutfall af þeirri framleiðslu.

    Huganlega er líka ógáfulegt að miða við eða setja sér markmið að verja hlutfalli af þjóðarframleiðslu í heilbrigðismál þar sem þjóðarframleiðsla getur verið mjög breytileg. Ég hefði vilja sjá útgjöld á íbúa sem viðmið.

  6. Það er slæmt þegar farið er af stað með undirskriftasöfnun sem byggð er á röngum forsendum. Þú átt þakkir skildar, Pawel, fyrir að benda á villuna. Auðvitað er við því að búast, líkt og oftast í opinberri umræðu á Íslandi, að mörgum finnist forsendur og rök engu máli skipta, eins og sjá má í athugasemdum hér á undan. Þannig hefur það ávallt verið hérlendis og verður áfram.
    Athyglivert væri að sjá þessi hlutföll á síðastliðnum tveimur árum og yfirstandandi ári eftir stórfelldar launahækkanir heilbrigðisstarfsfólks. Mig grunar að þær hafi breytt talsverðu.

  7. Er ekki líka spurning hvernig þeim peningum sem varið er í heilbrigðiskerfið er varið. Getur verið að það sé sóun og peningum í gangi. Væri hægt að hagræða og straumlínulaga kerfið. Það er alltaf vandmeð farið þegar um ríkisrekin bákn er að ræða þar sem oft eru heilagar kýr sem ekkert má hrófla við sem láta í sér heyra.

    Einnig væri gaman að vita hvernig Kári ætlar að ná í þessa peninga og hvar á að skera niður á móti. Við erum á þolmörkum hvað skattabyrði snertir…og ef þeir eru hækkaðir meira lækkar tekjurnar. Það er svolítið sem margir á vinstri vængnum geta ekki skilið. Það að lækka skatta glæðir lífi í hagkerfið og skatttekjur aukast. Aukinn einkarekstur er líka eitthvað sem er vert að skoða þar sem hann er oftar ekki hagkvæmari… en það er líka eitt af þeim málum sem má ekki ræða heldur.
    🙂

  8. Því hærri sem meðalaldur þjóða er, því meiri eru útgjöldin til heilsugæslu. Íslendingar eru ung þjóð sbr.:
    Iceland 36.9
    United States 39.0
    Norway 39.9
    Sweden 42.2
    Denmark 42.5
    Finland 45.0
    Germany 47.2
    https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_median_age

    Því má búast við að útgjöld til heilbrigðismála ættu að vera minni hér. Hins vegar er þjóðin að eldast og því má búast við að auka þurfi útgjöld til heilbrigðismála í framtíðinni.

Leave a Reply

Your email address will not be published.