Forsaga Samtaka um bíllausan lífsstíl

Nú sé ég að sumir á hægrivængnum eru farin að sýna Samtökum um bíllausan lífsstíl, heilmikinn áhuga. Gaman að því. Þau samtök voru stofnuð árið 2008 af fólki sem taldi að bíllinn nyti mikillar athygli stjórnvalda og vildu berjast fyrir því auðveldara væri að vera án hans. Okkur fannst að borgir þar sem auðvelt er að vera án bíls væru almennt góðar borgir. Já, og okkur langaði að þvo fátæktar og aumingjastimpilinn af þeim sem vildu ekki keyra útum allt.

Það er ekki óeðlilegt að hugmyndir mæti andstöðu og ekkert er að því. Mér leiðast hins vegar eilítið svon askrif þegar menn vaða bara áfram áfram á lyklaborðinu klínandi kommastimpilinn á alla sem hafa annars konar forgangsröðun í lífinu en þeir. Kannski á maður ekki að láta það fara í pirrurnar á sér. En ég ætla að nota tækifærið til að nýta þetta til góðs. Fyrst að “bíllausir” eru að fara verða bolsévíkar 21. aldarinnar þá er eins og fara að skjalfesta söguna. Þann hluta hennar sem ég þekki.

Aðrir en ég eiga raunar miklu meiri þátt í því að hafa gert samtökin að því sem þau eru í dag og ég ætla ekki þykjast taka kredit fyrir neitt slíkt. En ég þykist eiga smá brotabrot af upprunarlegu hugmyndinni. Og hér er sagan af því.

Byrjum á byrjuninni. Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis áttum við ekki bíl. Þegar ég flutti í Íslands áttum við heldur ekki bíl. Það háði mér aldrei sérstaklega, en reyndar fannst mér svolítið eins og annað fólk nálgaðist fjölskyldu manns alltaf með blöndu af vorkunn og forundran… Bauðst alltaf til að skutla manni stystu vegalengdir, að mér fannst. Sem var sætt en þreytandi til lengdar.

Þar sem við áttum ekki bíl fékk ég einhvern veginn ekki bílpróf fyrr en ég var 27 ára. Síðan þá hefur pabbi raunar endurnýjað gamla ökuskírteinið sitt og hefur nú náð jafnöldrum sínum: keyrir nú um á jeppa, fær FÍB blaðið heim og hristir hausinn þegar ég tala fyrir hraðahindrunum.

Kynnum næstu persónu til sögunnar: Sigrúnu Helgu Lund. Við Sigrún kynntumst í stærðfræði árið 2000 og höfum verið vinir síðan. Við höfðum einsmóta skoðanir á skipulagsmálum, bjuggum úti í Köben á sama tíma þar sem við ferðuðumst um bæinn endilangan, hvort í sínu lagi, ýmist á hjóli eða í lestum. Svo flytur maður heim og fer að hugsa:” Mikið var þetta frábært og mannvænt! Mikið væri gaman ef Reykjavík gæti boðið upp á svipuð lífsgæði hvað þetta varðar!” Okkur langaði oft að gera eitthvað í því og við töluðum og til um að stofna samtök fólks sem hefði svipaðar skoðanir á þessum málum. E

En ef ég var Trotskí og Sigrún var Lenín þá vantaði samt Marx. Einhvern sem kæmi með einhvern hugmyndafræðilegan grunn til að byggja okkar hatursfulla boðskap á.

Hér koma pistlar Samúels Torfa Péturssonar til sögunnar. Sammi hafði verið að skrifa á Deigluna frá 2005, 99% af því var um skipulagsmál, en það kom ekki að sök, því pistlarnir hans voru awesome. Það var gaman að fá þennan vinkil á hlutina, þennan hægrivinkil, ekki endilega: “Ég er rebel og geng bara í second hand fötum og finnst að strætó ætti að vera ódýrari því það myndi henta mér betur og svo hata ég ríkt fólk.”  Heldur til dæmis: “Umferðarteppa er markaðsvandamál en ekki tæknivandamál.” Eða “Reglugerðir um lágmarksfjölda bílastæða eru inngrip inn í frjálsan markað sem leiða til óhagkvæmrar notkunar lands.”

Ég kynntist Samúel í gegnum deigluna.com og hitti hann reglulega í partýum tengdum þeim félagsskap. Sigrúnu hitti ég oftar og einhvern veginn fóru flestar umræður okkar um skipulagsmál að spinnast um eitthvað sem við “höfðum lesið hjá Samúel”, eins og segir í kvæðinu. Það var því ljóst að eitthvað gott hlyti að gerast þegar við myndum öll loks hittast, og vitanlega var það á mína ábyrgð og koma því kring. Sem ég og gerði.

Hugmyndin um að stofna samtök bíllausra var getin í áramótapartý 1. janúar 2008, í kjallara í Grenimel, þar sem ég og kærastan mín bjuggum þá. Hún varð til í samtali þessara þriggja einstaklinga: Mín, Sigrúnar Helgu Lund og Samúels Torfa Péturssonar.

Svo heppilega vill til að þetta samtal náðist á myndband:

Nokkrum dögum síðar byrjuðu póstar að ganga milli okkar um nýja bílahatarafélagið okkar, með hugmyndum að grunngildum og lögum félagsins osfrv. Svo fór hópurinn að stækka, nafnið “Samtök um bíllausan lífsstíl” varð til, facebookgrúppa var stofnuð, og samtökin loks stofnuð á tveimur fundum, fyrst á undirbúningsfundi á Sólon, sem óvart varð að stofnfundi og síðan á framhaldsstofnfundi sem haldinn var í Ráðhúsinu 16. sept. 2008, þar sem Sigrún Helga Lund var kosinn fyrsti formaður félagsins. 38 vikum eftir “getnað” samtakana.

One thought on “Forsaga Samtaka um bíllausan lífsstíl

  1. Kannski gætu samtökin höfðað til fleiri hægrimanna ef þau hefðu undirheitið “Samtök um fulla einkavæðingu vegakerfsins svo framboð og eftirspurn í samgöngumálum geti náð saman í gegnum frjálsa verðlagningu á öllum farartækjum og eldsneyti”?

    Þetta gæti samt fælt einhverja bíllausa vinstrimenn frá, svo annað undirheiti er sennilega við hæfi: “Samtök um fólk sem er þeirrar skoðunar að hraðbrautir með mörgum gatnamótum, sem reist eru fyrir skattfé, séu til marks um offjárfestingu og sóun á fé sem gæti annars runnið til hinna ýmsu gæluverkefna vinstrisinnaðra stjórnmálamanna.”

    Kveðja,
    bíllaus frjálshyggjumaður í Álaborg í Danmörku sem óskar sér tíðari glerbrotasópunar á hjólastígunum fram yfir þriðju brúna yfir Limfjorden.

Leave a Reply

Your email address will not be published.