Forsetinn – Undir stjórn Jaruzelskis 30/100

Seinasti forseti Alþýðulýðveldisins Póllands og  fyrsti forseti hins frjálsa Lýðveldis Póllands, Wojciech Jaruzelski, lést á sunnudag, níræður að aldri. Hann gegndi líka öðrum öðrum embættum sem flest hétu lengri og minna lýsandi nöfnum. Best þeirra var “Formaður herráðs um þjóðarbjörgun” en svo kallaði herstjórnin sem réð landinu á árunum 1981-1983 sig.

Ég ætla svo sem ekki að endursegja lífshlaup hans, til þess eru betri heimildir. Svo er það líka vandasamt verk að gera það hlutlaust. Persóna hans er enn umdeild. Vinstriflokkurinn í Póllandi fór fram á þjóðarsorg. Fólk sem er lengra á hægrivængnum var flest andvígt þeirri hugmynd. Formaður Þjóðarminningarstofnunar, sem er stofnun sem á að sjá um að rannsaka glæpi á tímum kommúnismans lagðist gegn því, með þeim rökum að á árunum 1945-1989 hafi mikið af fólki barist gegn fyrir frelsinu og borgað fyrir það hátt verð. Jaruzelski hafi augljóslega verið einn þeirra sem barðist í hinu liðinu. Oftast í ábyrgðarstöðum.

Beiðninni um þjóðarsorg var hafnað en útförin verður reyndar opinber, sem er allt í lagi. Maðurin var jú forseti.

CC-BY-SA 3.0: Andrzej Barabasz
Jaruzelski, nokkru eftir að ég var átta ára undir hans stjórn. CC-BY-SA 3.0: Andrzej Barabasz

Umdeildasta ákvörðun Jaruzelskis var án efa stríðsástandið 1981. Vörn hans og hans fólks var lengi sú að sovésk innrás var yfirvofandi vegna hinna miklu tilslakanna í garð Samstöðunnar. Í seinni tíð hefur margt í hinum  opinberuðu sovésku skjölum gefið aðra mynd. Að hann hafi verið í nánum tengslum við yfirvöldin í Moskvu, sóst eftir “aðstoð” rauða hersins en ekki fengið. Hann neitaði þessu og sagði skjölin ýmist fölsuð eða misskilin. Sjá: http://www.rferl.org/content/Interview_Polands_Jaruzelski_Again_Denies_Seeking_Soviet_Intervention_Against_Solidarity/1902431.html

Hvaða tilfinningar ber ég til Jaruzelskis? Ég á dálítið erfitt með að láta ekki hljóma tilgerðarlega en ég eiginlega vorkenndi honum alltaf dálítið. Kannski hálfpartinn vegna þess í seinni tíð sá maður hann ekki öðruvísi en í dómssal eða í sjónvarpssal, veikan, að fara svara einhverjum erfiðum spurningum. En líka vegna þess að ég hafði það á tilfinningunni að hann átti ekki skilið þau embætti sem hann á endanum gegndi. Hann var svona eins og maður sem kallar sig Ólympíufara, en fór bara á Ólympíukeppni til að keppa í stærðfræði.

Hvaða leiðtoga þekkti ég, þegar ég var átta ára? Reagan, Thatcher. Fólk sem var sjálfsöruggt, hélt stuttar og fyndnar blaðlausar ræður. Fólk sem kunni að klæða sig. Fólk sem fór í viðtöl og svaraði spurningum. Á móti vorum við með mann sem var alltaf í herbúning, þrátt fyrir að enginn væri að skjóta á hann, alltaf með einhver furðuleg sólgleraugu, mann sem talaði eins og embættismenn skrifa en ekki eins og fólk talar. Í lýðræðisríki hefði maður með þetta fas geta orðið skattrannsóknarstjóri, en varla pólitíkus.

Á hinn bóginn getur maður vissulega sagt, að sama hvort manni líkar vel við Jaruzelski eða ekki þá á pólskt lýðræði honum ýmislegt að þakka. Hann ásamt öðrum þáverandi valdhöfum gekk til samninga við stjórnarandstöðuna um að haldnar skyldu hálffrjálsar kosningar. Og þegar stjórnarandstaðan rúllaði þeim upp þá voru þau úrslit látin standa. Hann var svo kosinn forseti af þinginu (með eins atkvæða mun) og varð þar með fyrsti maður til að bera þann titil frá 1952.  Þetta var í júlí 1989, þegar ég var enn átta ára. Hann lét af því embætti í desember 1990 þegar Lech Wałęsa tók við af honum.

Þennan tíma var sem sagt ókommunísk frjálslynd, hægrisinnuð stjórn að koma í gegn þjóðfélags- og markaðsumbótum undir verndarvæng kommúnísks herforingja. Sumir gagnrýndu þetta samlífi og töldu það til marks um samtryggingu stjórnmálanna. Vissulega er  það rétt: fyrstu árin eftir hrunið voru hinir stjórntæku hægrimenn ekki mikið að velta sér upp úr meintum afbrotum fyrri valdhafa. Það má samt draga af þessu jákvæðan lærdóm. Ef sitjandi valdamenn halda ekki að þeir verði húðflettir við að missa völdin þá fara þeir kannski frekar frá.

Auðvitað hefði mjög vondur maður í sömu stöðu og Jaruzelski kannski getað fangelsað alla Samstöðuna og sent út dauðadóma í fjöldapósti, ríkt og herforingjarnir í Egyptalandi hafa nú gert. Hann hefði getað vísað til stjórnleysis, “uppgangs fasismans” eða hvers sem er. Hann hefði getað setið í eigin sósíalískum sirkus eins og Castro-bræðurnir og tekið á móti norrænum áhugamönnnum um sósíalíska sirkusa til dauðadags. Hann gerði það þo ekki. Hann lét völdin af hendi til fólks sem vann kosningar. Hann má eiga það.

Leave a Reply

Your email address will not be published.